Færsluflokkur: Pistill Ritara

Þrjú á palli

Við vorum sumsé þrjú: Þorvaldur, Ólafur skrifari og Tobba. Magnús Júlíus var að vísu líka á staðnum, kominn í gírið og út á Plan - en þar tilkynnti hann ólundarlegur að hann ætlaði að fella niður hlaup og synda og teygja í staðinn - sem við trúðum svona rétt mátulega. Við hlupum sumsé þrjú. Og það var alla vega. Það var lens í stífri vestanátt út alla Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Þar lægði og var rólegheitaveður lengi vel og raunar allar götur þar til komið var vestur fyrir Læk aftur, þá get ég svo svarið að við lentum í snjóbyl. Við börðumst áfram upp Túngötuna af mikilli seiglu og harðfylgi og eftir það steinlá Hofsvallagatan. Fínt hlaup hjá okkur öllum. 

Torvelt reyndist skrifara að ná utan af sér hlaupajakkanum að hlaupi loknu, rennilásinn sat pikkfastur. Á endanum var brugðið á það ráð að klippa jakkann utan af honum. Nú er skrifari jakkalaus.

Góð mæting í Pott: próf. dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir Gröndal, Stefán, Margrét barnakennari, og Ólafur Þorsteinsson óhlaupinn. Baldur í Englandi. Hér var mikið rætt um veru manna í barnaskólum og líðan þar, en einnig var sagt frá heimsókn Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns í Vesturbæinn og í Morgunpott Vesturbæjarlaugar á fimmtudaginn er var. Ó. Þorsteinssyni tókst að fara rangt með fæðingarár Ástu Möller hjúkrunarfræðings og fv. þingkonu, var leiðréttur af Margréti Melaskólakonu og hefði þessi uppákoma glatt Baldur mikið.  


Vorið er á næsta leiti

Hreint ótrúleg mæting í föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins föstudaginn 14. marz 2014. Það voru eingöngu karlar mættir, miðaldra og síðaldra karlar. Denni af Nesi mættur af því að hann hafði heyrt fleygt orðinu "Fyrsti" í e-m pósti. Ágúst Kvaran, gamli barnakennarinn, Þ. Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ingi og skrifari. Safnast saman í Brottfararsal og málin rædd af yfirvegun. Spurt var hvar blómasalinn væri, en upplýst að hann væri vant við látinn. 

Menn höfðu sosum ekki stór plön, skrifari gerði sér vonir um að lifa af hlaup í Skítastöð og tilbaka og Denni lýsti yfir viðlíka metnaðarfullum áformum. Aðrir ætluðu hægt og stutt, prófessorinn enn slæmur í læri. Það var lagt upp í fögru veðri, 5 stiga hita, stillu, skýjuðu og þurru veðri. Veður eins og þau gerast bezt á vormánuðum. Þetta var spennandi, nú skyldi látið reyna á þrek, úthald og styrk útlima.

Hlaup fer af stað bærilega. Magnús, Þorvaldur og Ágúst eitthvað að derra sig, næstur skrifari, og þar fyrir aftan lakari hlauparar. Ótrúlegar framfarir skrifara frá síðasta miðvikudegi þegar hann gafst upp nánast um leið og hlaup hófst og menn sáu hann hverfa inn í hverfi við fyrstu beygju. Nú skyldi látið á það reyna að menn kæmust alla vega að Skítastöð - og jafnvel tilbaka líka.

Þetta gekk furðuvel, en ég hægði á mér á köflum til þess að leyfa Denna að ná mér. Ingi sneri við á óskilgreindum kafla, en það sem vakti almenna furðu var að barnakennarinn sneri við er komið var að Flugvelli, og hafði þó nýlega haft góð orð í eyru Denna um að fara Hlíðarfót. Þetta kom okkur feitlögnum, þungum og hægfara hlaupurum á óvart. Við héldum þó okkar striki og komum í Nauthólsvík um það bil er þeir hinir voru að hypja sig þaðan.

Þetta var allt á rólegu nótunum, og þess vegna gengið inn á milli, sem er ágætur kostur þegar margt þarf að skrafa. Við ræddum mikið um lestur, t.d. þegar prófessorinn lærði að lesa fram fyrir sig. hér um árið. Kláruðum flott 8 km hlaup á viðunandi tíma með mikilli brennslu og töluverðum svita. Svo var farið í Pott og setið þar góða stund. Nefndur var sá möguleiki að taka einn kaldan á Ljóninu, en ekki veit skrifari að segja frá efndum þar. Hitt er þó sönnu nær að þar sem hann er staddur á Eiðistorgi að loknum Potti rekst hann á glerfínan blómasala á jeppabifreið, nýkominn úr erfidrykkju þar sem allur matur var endurgjaldslaus, roastbeef-snittur, rækjusnittur, kökur og hvaðeina. Taldi blómasali þetta vera næga afsökun fyrir því að mæta ekki til hlaups. Hlaut hann snuprur fyrir af hálfu skrifara.

Næst verður lögbundið hlaup í Hlaupasamtökunum að morgni sunnudags, kl. 10:10. Þá verður tekin fyrir nærvera þingmanns V. Bjarnasonar í Fimmtudagspotti Vesturbæjarlaugar. Í gvuðs friði.  


Löðrandi blíða

Það má merkilegt heita að á degi þegar veðurblíðan sleikir íbúa Vesturbæjarins eins og hin rósfingraða morgungyðja skuli ekki fleiri hlauparar mæta til hlaups, og maður spyr sig: Hvar eru Hlaupasamtökin stödd á vegi? Hvað er fólk að hugsa? Hvar var Magnús? Hvar var Flosi? Ja, er von maður spyrji. 

Mætt voru þessi: próf. dr. Ágúst Kvaran, dr. Jóhanna, dipl.tech.ing. Einar blómasali og Ólafur skrifari MPA. Í búningsklefa gerði prófessorinn eftirfarandi játningu: veiztu, skrifari góður, ég sleppti hlaupi á mánudaginn er var, það var svo vont veður. En ég segi þér þetta í aaaaalgjörum trúnaði og þú mátt engum segja þetta. Skrifari er orðheldinn maður og lofaði því.

Jæja, þarna söfnuðumst við saman í Brottfararsal og ætluðum öll stutt og hægt: prófessorinn með slæmsku í læri, Jóhanna á leið í Powerade á morgun, og Einar bara latur eins og venjulega. Skrifari hins vegar er að koma tilbaka til hlaupa eftir langvarandi álagsmeiðsli og hefur því gilda afsökun fyrir því að fara bara stutt.

Við ákváðum að fara á Nes, og settum stefnuna á Víðirmel. Einar þurfti að vísu að skjótast heim og skila konunni bílnum. Við Einar þurfum að fá námskeið hjá Magga tannlækni í eiginkonustjórnun. Nema hvað við hin fórum á Víðirmelinn og lofuðum að hirða blómasalann upp á leið okkar á Nes. Það stóðst á endum að hann var búinn að skila bíllyklunum þegar við komum á móts við Reynirmelinn. Svo var stefnan sett á Nes. Þetta var bara rólegt, skrifari þungur á sér, þreklaus og slappur. En þetta var altént fyrsta skrefið í endurkomu og heilun þessa endurfædda hlaupara.

Ekki man ég hvar ég beygði af, þau hin voru komin allnokkuð fram úr mér og það skiptir sosum ekki máli hvað ég fór langt, maður náði alla vega að hlaupa sér til svita. Svo var bara tölt tilbaka til Laugar þar sem setið var innan um Kínverja og Finna í Potti.

Á leið upp úr varð Magnús tannlæknir á vegi mínum. Ég innti hann eftir góðum ráðum í stjórnunarfræðunum. Hann sagðist ekki þora að stíga á Línuna, "Aníta var dæmd úr leik fyrir að stíga á línuna".

Ja, það er bara að vona að mæting verði betri í hlaupi föstudagsins (hvernig er það, eigum við ekki inni e-a Fyrstu Föstudaga?).  


Snúið aftur til hlaupa

Á fögrum febrúarmorgni í stillu og 4 stiga frosti sneri skrifari Hlaupasamtakanna aftur til hlaupa eftir tveggja mánaða hlé vegna ökklameiðsla. Honum var tekið fagnandi sem vonlegt er, utan hvað Jörundur starði óþarflega lengi á persónu skrifara eins og hann vildi láta í ljós mikla furðu á nærveru hans. Aðrir mættir: Ólafur Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur og Maggie. Nú klæðast karlmenn hlaupafatnaði í inniklefa og þar geta hafist fyrstu frásögur dagsins af fólki sem Formaður hefur hitt nýverið. 

Við fórum afar rólega af stað sem kom sér vel fyrir skrifara, sem er bæði þungur á sér og aumur í fótum. Menn furðuðu sig á fjarveru Magnúsar og var spurt hvar hann gæti verið. Einna helst töldu menn hann hafa verið boðaðan á mikilvægt Kirkjuráðsþing til skrafs og ráðagerða um sálarheill þjóðar. Jörundur fékk fljótlega í bakið og átti erfitt með hlaup, kvaðst vera farinn að finna til Elli kellingar.

Í Skerjafirði brá svo við að kunnugleg týpa virtist vera búin að stilla hjóli sínu upp við flugvallargirðingu og gera sig kláran til hlaupa með okkur: Einar blómasali. En svo kom á daginn, eða það fullyrti hann alla vega, að hann hefði týnt lyklinum að lásnum á hjólinu og því þorði hann ekki að skilja það eftir. Hjólaði bara með okkur í staðinn.

Hér var skrifari farinn að finna til þyngdar og mæði og dróst aftur úr, en spjaraði sig þó inn í Nauthólsvík. Þar var gerður góður stans meðan beðið var eftir Jörundi. Ökklinn skrifara enn til friðs og því haldið áfram og stefnan sett á Kirkjugarð. Þar var gengið samkvæmt áralangri hefð, en svo haldið áfram um Veðurstofu og Hlíðar, klakabúnkar á víð og dreif og náði blómasalinn að detta af hjóli sínu á einum slíkum.

Er komið var á Klambra ákvað skrifari að láta gott heita og taka stystu leið tilbaka, enda aðeins farinn að finna fyrir eymslum í ökkla. Fór um Hringbraut og gekk megnið af leiðinni, endaði á Plani þar sem Flosi og Maggie voru þá þegar mætt.

Pottur óvenjuvel mannaður: dr. Baldur, dr. Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, dr. Magnús Lyngdal Magnússon, Helga og Stefán, Tobba, Maggie, Flosi, Jörundur, skrifari og Ó. Þorsteinsson. Svo mikið var rætt um persónufræði, bílnúmer og tónlist að menn gleymdu sér alveg og klukkan farin að ganga tvö er við loksins rönkuðum við okkur og fórum að tínast úr potti til hefðbundinna verka sunnudagseftirmiðdagsins, svo sem að gúffa í okkur Swedish meatballs á eina veitingastað Garðahrepps.

Í gvuðs friði! 


Öldungar

Ekki er fráleitt að tala um helstu öldunga Hlaupasamtakanna þegar í hlut eiga Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur fræðimaður og Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, en þessir þreyttu einmitt hlaup að morgni þessa dags og fóru svo ótt og títt að skrifari varð að grípa til bifreiðar sinnar til þess að draga þá uppi langt komna inn á Ægisíðuna. Ákafa skrifara að ná þeim má að hluta skýra með því að tveir óskyldir honum í hópnum skulda enn fyrir Þorrablót í janúar sl. - en það er önnur saga og ekki til þess fallið að varpa rýrð á rótgróna vináttu, en samt, það er alltaf prinsippið, ekki það séu peningarnir, en prinsippið, menn eiga vitanlega að gera upp skuldir sínar við aðra, þetta finnst manni að eigi að vera ákveðið leiðarljós hjá fólki. Gera fljótt og vel upp við þá sem taka að sér að sjá um félagslíf Samtaka Vorra og standa í streðinu og leiðindunum.

Nema hvað, þarna taka þeir skeiðið og skrifari er fullur öfundar, en við því er ekki að gera. Ekki er hægt að rökræða málin við ökklann, hann lifir sínu eigin lífi og er ofurseldur eigin forsendum. Þannig að það er bara hægt að horfa, dást og öfunda. Að sama skapi má samgleðjast félaga okkar Hjálmari sem náði settu marki í framboðsslagnum í Reykjavík og fyllir hóp glæsilegra einstaklinga sem munu bjóða fram í Hreppnum á vormánuðumm.

Viðstaddir tóku eftir því að Einar blómasali var ekki með á hlaupum og hlýtur það að teljast áhyggjuefni öllum þeim sem vilja stuðla að heilbrigðum lífsstíl, meiri fegurð og menningu í Vesturbænum. Ef einhver þarf að hlaupa, léttast og njóta menningar og persónufræði þá er það  blómasalinn. Meðan kílóin fjúka af skrifara þá ýmist stendur þessi garpur í stað eða bætir við sig fleiri kílóum. Nú er vorið að koma og ekki seinna að menn fari að reka slyðruorðið af sér. Hér er verk að vinna og skulum vér, félagar Einars, taka hann í umsjá okkar og hjálpa honum að takast á við þyngdina. Já, við eigum að gæta bróður okkar!


Brennivínssvelgur

Gríðarlega efnisríkum fundi í Potti að loknu hefðbundnu Föstudagshlaupi er lokið. Mættir voru: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, próf. dr. Ágúst Kvaran, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, Denni skransali, Flosi barnakennari, Jörundur prentari og loks hinn halti skrifari Hlaupasamtaka Vorra. Er komið var i Pott var skipst á kveðjum og þökkum fyrir einstaklega vel heppnað Þorrablót sl. föstudag að heimili þeirra Hrannar og Denna á Nesi. Menn luku lofsorði á allan undirbúning, aðbúnað, mat og drykk. Mönnum var ofarlega í huga gæði matarins sem MelabúðarKaupmaður bar inn í trogum, einkum tvær tegundir af hákarli og tvær af harðfiski, að ekki sé minnst á vel heppnað uppstú og þjöppu. Hér gall í próf. Fróða að hann hefði talið sig sleppa afar vel frá viðburðinum með 2.000 króna innborgun þegar litið var til þess magns af brennivíni sem hann hefði innbyrt. Hér brugðust menn við af skilningi og sögðu: "Já, Ágúst minn, við vitum þetta vel. Þú varst heppinn."

Rætt var um hlaup sl. mánudag þegar þeir fóru fetið saman, próf. dr. Fróði og Einar blómasali. Einar er með böggum hildar yfir þyngd skrifara þessi misserin, sem ku slaga í 95 kg og er farið að daðra við desítonnið. Þannig sat blómasalinn eftir vigt í gærmorgun á bekk í inniklefa í Vesturbæjarlaug, frávita af geðshræringu og tautaði með sjálfum sér: "95 kíló! 95 kíló!" En í hlaupinu á mánudaginn er var varð prófessornum að orði að það væri merkilegt að maðurinn gæti hlaupið svona hratt verandi 95 kg. Blómasalinn misskildi þessi ummæli á þann veg að þau beindust að sér og varð harla glaður. En prófessorinn var hér vissulega að lýsa aðdáun sinni á skrifara Samtaka Vorra, sem lætur ekki tímabundnar breytingar í líkamsvigt koma í veg fyrir að hreyfa sig hratt.

Nema hvað, eðlilega varð mönnum hugsað til Ástsæls Forseta Vors þar sem hann eykur hróður Fósturjarðarinnar í Bjarmalandi og hittir stórmenni. Nú fer að síga á seinni hlutann hjá okkar manni og var farið að velta fyrir sér framhaldinu. Það var spurt hvort raunhæft væri að tilnefna traustan KRing, Boga Ágústsson, næst þegar kosið verður, en það kom fýlusvipur á viðstadda og mönnum leist illa á hugmyndina. Skrifari benti á þá augljósu staðreynd að æskilegt væri að nýr forseti væri vanur utanferðamaður og ekki væri verra að hann héti Ólafur. Ef hann héti t.d. Ólafur Grétar væri ekki svo erfitt fyrir þjóðina að læra nafnið á nýjum forseta.

Einhverjar vöfflur voru á mönnum við þessa hugmynd. En þegar upplýst var að nýtt forsetaefni myndi gera Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar og persónufróðasta mann Lýðveldisins, að formanni Orðunefndar og í framhaldinu að festa orðu á brjóst helstu drengjanna í Hlaupasamtökunum, þá glaðnaði yfir selskapnum og menn sáu strax í hendi sér að hér væri harla góð og hagnýt hugmynd á ferð. Sumir höfðu þó áhyggjur af viðbrögðum þingmanns Samtakanna úr Garðabænum, en forsetaefnið benti á að næg væru embættin sem mætti nýta til þess að friða menn, t.d. Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Nú var baðast enn um sinn, í Pott bættist Sveinn Margeirsson og við tók fjörug umræða um málefni háskóla og rjúpnaveiðar. Denni rifjaði upp veiðar á heiðum uppi þar sem Sveinn og Björn bróðir hans unnu afrek ungir að árum, en Denni engin.

Öndvegispottur sem aldregi fyrr, mönnun með eindæmum, sól fer hækkandi og veður batnandi. Nú fer skrifara að batna ökklameiðslin, en fyrst kemur ein Brusselferð sem Jörundur borgar, en eftir það má búast við því að skrifari mætti beittur til hlaupa á ný. Í gvuðs friði, skrifari.  


Ótrúleg snerpa

Þar sem skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins gengur úr Brottfararsal Laugar Vorrar um hádegisbil sl. sunnudag til Útiklefa furðar hann sig á skepnunni sem liggur ofan á höfðinu á honum Haraldi Jónssyni arkitekts Haraldssonar leikara Björnssonar og því lá beinast við að spurja hvað þetta væri. Haraldur gaf þá skýringu að þetta væri óþekkt dýr sem hefði veiðst í Bjarmalandi og móðir hans hefði innhöndlað honum til handa. Ekki það þetta væri ekki aðdáunarverður gripur, en hálf ólögulegur engu að síður. 

Er út var komið í klefa blasti við ótrúleg, en þó, kunnugleg sýn: búið var að hengja til þerris hlaupafatnað svo að hann blokkeraði eina 9 (segi og skrifa: NÍU) snaga. Ekki þurfti lengi að rýna í garmentið til þess að sjá að hér voru leifarnar af Þorvaldi af Óðagoti komnar á snagann að loknu hlaupi. Ég útskýrði þetta fyrir Haraldi, sem stóð enn opinmynntur og trúði eiginlega ekki sínum eigin augum.  Það reyndist erfitt að útskýra hinar félagslegu og sálfræðilegu implíkasjónir er fæddu af sér innsetningar af þessu tagi, sem Haraldi þótti allt annað en listrænar. Svo var sturtað sig.

Bjarni að vanda með hávaða og leiðindi og réðst að skrifara með óbótaskömmum. Pottur venju fremur vel mannaður og maður sá einhvern prakkaraskap í fari dr. Baldurs. Það voru Flosi, Bjarni, Jörundur, dr.  Mímir, Ó. Þorsteinsson, Tobba, próf. dr. Einar Gunnar - og svo Sverrir. Er skrifari var mættur var upplýst að Baldur væri með vísbendingaspurningu úr bílnúmeraflokki - óvænt uppákoma svo ekki sé meira sagt! Rifjuð var upp spurning Potts sl. sunnudag: RE-884. Nú kom dr. Baldur með spurninguna: "... en hver átti bifreiðina RE-883?"

Hér setti menn hljóða - og þó engan hljóðari en frænda minn og vin, Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Er hann sagði: "Þetta veit ég ekki," þurfti ekki lengi að bíða andsvars dr. Baldurs: "Ja, þá veiztu ekki mikið!" Nú var dr.  Baldur minntur á að þetta ætti að vera vísbendingaspurning - og hverjar væru vísbendingarnar. Jú, eigandi téðrar bifreiðar var kominn til álita og tveggja mikilsvirtra embætta á unga aldri. Vísbending tvö: seinni kona hans var nánast tekin í gvuða tölu meðal Íslendinga á fjórða áratug aldarinnar er leið. Hér kviknaði týra í andliti Formanns og hann sagði: "Sigrún Ögmundsdóttir." Og í framhaldinu varð ljóst að spurt var um Árna Tryggvason, er bæði var orðinn héraðsdóms- og hæstaréttardómari innan við fertugt. Síðasta vísbending var svo "fæddur 1911".

Mikill smeðjuskapur uppstóð er Agnes Bragadóttir blaðamaður birtist í Potti og spurði hvort þetta væri karlaklúbbur. Þeir Bjarni og Flosi hömuðust við að rifja upp gamla tíma og gamla bekkjarfélaga úr Réttarholtsskóla sem hefðu verið samtíða Agnesi þar eystra. Skrifara var ekki meir en svo skemmt og lét sig hverfa fljótlega úr Potti.  


Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar

Enn var bólginn ökklinn skrifara svo að ekki var hlaupið á þessum fyrsta hlaupadegi á nýju hlaupaári. Engu að síður taldi hann nauðsynlegt að mæta til Laugar að hlaupi loknu og vera félögum sínum fyrirmynd og hvatning til góðra verka. Fyrstan hitti hann fyrir blómasala á hröðum flótta, nýhlaupinn að vísu og nýskrúbbaðan, en flóttalegan engu að síður. Við félagar féllumst í faðma óskandi hvor öðrum góðs nýs árs og heitandi ævarandi vináttu. Blómasali upplýsti að Bjarni væri á svæðinu og væri á góðum nótum. 

Að aflokinni skrúbbun var haldið til Potts, fyrst þess heita, þar sem eitthvert þýzkt leiðindatúristalið var til almennra leiðinda, svo var gufa og loks Örlygshöfn. Þar var ekki annað mannval fyrir en Stefán Sigurðsson verkfræðingur.  Þar næst bættist við Anna Birna - og svo birtist Bjarninn, öskrandi eins og bjarndýr, hrópandi á skrifara, lýsandi því miður skemmtilegum orðum hvað ætti að gera við skrópagemlinga eins og hann. Flosi og Ólafur Gunn voru í Barnapotti. 

Mættir í hlaup dagsins voru Bjarni, blómasali, Þorvaldur, Magnús og Ólafur Gunnarsson. Uppi var ráðabrugg um að hlaupa í Kópavoginn og alla leið í Lækjarhjalla með rúmrusk til að hvekkja þann fróða góða prófessor sem þar býr, og jafnvel ráðast í Pott. En meður því að í för voru ráðagóðir og geðstilltir menn var þeirri fyrirætlan forðað. 

Bjarni flutti langan og snjallan fyrirlestur um nafna sinn og kollega, Bjarna Pálmarsson, leigubílstjóra, flugvirkja og píanóstillingarmann, sem var góðvinur Nixons, Kissingers og Bob Hope. Er hér var komið og enginn Denni mættur var orðið ljóst að ekki yrði af Fyrsta á Ljóninu.  


Prófessorinn hleypur einn

Þar sem skrifari haltrar með bólginn ökkla niður í búningsklefa Vesturbæjarlaugar verður fyrir honum prófessor Fróði að klæða sig í hlaupagírið. Klukkan var langt gengin sex - en þó ekki runninn upp lögbundinn hlaupatími á mánudegi. "Það lítur illa út með þátttöku í hlaupi dagsins," sagði prófessorinn. "Þú hleypur áreiðanlega einn," sagði skrifari. Hér beygði prófessorinn af og varð dapur í bragði. Hann kvaðst hafa lítið hlaupið upp á síðkastið vegna tognunar í kálfa. Skrifari lýsti sömuleiðis meiðslum sínum og sýndi bólginn  ökkla. Prófessorinn tók hann trúanlega við yfirborðslega skoðun. 

Rætt var um ókosti þess að hlaupa á Íslandi þar sem er kalt og dimmt og einkum vært fyrir ísbirni, en ekki mannfólk. Heppilegra væri að halda sig við suðlægari gráður þar sem er heitt og þurrt. Nú var spurt um ÍR-hlaupið á Gamlársdag og hvort prófessorinn myndi ekki setja sér það markmið að bæta tímann frá því í fyrra: 66 mínútur. Nei, hann hélt nú ekki, helst var hann á því að fara á lakari tíma, ekki undir 69 mínútum. Sixtínæn.

Skrifari óskar félögum sínum velfarnaðar í hlaupi morgundagsins og þakkar ánægjulegar samvistir á árinu sem er að líða.

Í gvuðs friði. 


Skrifari hljóp einn

Einmanaleikinn og einstæðingsskapurinn er fylgikona hlaupanna. Hlaupasamtök Lýðveldisins eru íþrótta- og menningarsamtök í Vesturbænum. Þar hlaupa alla jafna afrekshlauparar, jafnt konur og karlar, og svo fá menn eins og Einar blómasali og skrifari einnig að dingla með. Boð gekk út um hlaup á Þolláksmessu kl. 16:30 frá Laug Vorri. Mættir, nei, ég meina mættur: skrifari. Aðrir voru ekki mættir. Það má sosum ímynda sér að menn hafi verið að tapa sér í jólastressinu og ekki verið mönnum sinnandi. Skrifari er skilningsríkur maður. Vitanlega hefur maður skilning á því að menn vilji vera vel búnir undir hátíð Frelsarans. Síst hvarflar það að skrifara að fara að núa mönnum því um nasir að þeir forgangsraði vitlaust og láti Hátíð Kaupmanna (Federico included) ganga fyrir hlaupum, en þó fær hann ekki staðist þá freistingu að senda félögum sínum þessa jólakveðju: ÞIÐ ERUÐ SÓLSKINSHLAUPARAR!

Sjáumst í Kirkjuhlaupinu á Annandaginn, hlaupið frá kirkju þeirra á Nesinu stundvíslega kl. 10:00 á annan dag jóla. Kakó og kökur að hlaupi loknu.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband