Snúið aftur til hlaupa

Á fögrum febrúarmorgni í stillu og 4 stiga frosti sneri skrifari Hlaupasamtakanna aftur til hlaupa eftir tveggja mánaða hlé vegna ökklameiðsla. Honum var tekið fagnandi sem vonlegt er, utan hvað Jörundur starði óþarflega lengi á persónu skrifara eins og hann vildi láta í ljós mikla furðu á nærveru hans. Aðrir mættir: Ólafur Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur og Maggie. Nú klæðast karlmenn hlaupafatnaði í inniklefa og þar geta hafist fyrstu frásögur dagsins af fólki sem Formaður hefur hitt nýverið. 

Við fórum afar rólega af stað sem kom sér vel fyrir skrifara, sem er bæði þungur á sér og aumur í fótum. Menn furðuðu sig á fjarveru Magnúsar og var spurt hvar hann gæti verið. Einna helst töldu menn hann hafa verið boðaðan á mikilvægt Kirkjuráðsþing til skrafs og ráðagerða um sálarheill þjóðar. Jörundur fékk fljótlega í bakið og átti erfitt með hlaup, kvaðst vera farinn að finna til Elli kellingar.

Í Skerjafirði brá svo við að kunnugleg týpa virtist vera búin að stilla hjóli sínu upp við flugvallargirðingu og gera sig kláran til hlaupa með okkur: Einar blómasali. En svo kom á daginn, eða það fullyrti hann alla vega, að hann hefði týnt lyklinum að lásnum á hjólinu og því þorði hann ekki að skilja það eftir. Hjólaði bara með okkur í staðinn.

Hér var skrifari farinn að finna til þyngdar og mæði og dróst aftur úr, en spjaraði sig þó inn í Nauthólsvík. Þar var gerður góður stans meðan beðið var eftir Jörundi. Ökklinn skrifara enn til friðs og því haldið áfram og stefnan sett á Kirkjugarð. Þar var gengið samkvæmt áralangri hefð, en svo haldið áfram um Veðurstofu og Hlíðar, klakabúnkar á víð og dreif og náði blómasalinn að detta af hjóli sínu á einum slíkum.

Er komið var á Klambra ákvað skrifari að láta gott heita og taka stystu leið tilbaka, enda aðeins farinn að finna fyrir eymslum í ökkla. Fór um Hringbraut og gekk megnið af leiðinni, endaði á Plani þar sem Flosi og Maggie voru þá þegar mætt.

Pottur óvenjuvel mannaður: dr. Baldur, dr. Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, dr. Magnús Lyngdal Magnússon, Helga og Stefán, Tobba, Maggie, Flosi, Jörundur, skrifari og Ó. Þorsteinsson. Svo mikið var rætt um persónufræði, bílnúmer og tónlist að menn gleymdu sér alveg og klukkan farin að ganga tvö er við loksins rönkuðum við okkur og fórum að tínast úr potti til hefðbundinna verka sunnudagseftirmiðdagsins, svo sem að gúffa í okkur Swedish meatballs á eina veitingastað Garðahrepps.

Í gvuðs friði! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband