Löðrandi blíða

Það má merkilegt heita að á degi þegar veðurblíðan sleikir íbúa Vesturbæjarins eins og hin rósfingraða morgungyðja skuli ekki fleiri hlauparar mæta til hlaups, og maður spyr sig: Hvar eru Hlaupasamtökin stödd á vegi? Hvað er fólk að hugsa? Hvar var Magnús? Hvar var Flosi? Ja, er von maður spyrji. 

Mætt voru þessi: próf. dr. Ágúst Kvaran, dr. Jóhanna, dipl.tech.ing. Einar blómasali og Ólafur skrifari MPA. Í búningsklefa gerði prófessorinn eftirfarandi játningu: veiztu, skrifari góður, ég sleppti hlaupi á mánudaginn er var, það var svo vont veður. En ég segi þér þetta í aaaaalgjörum trúnaði og þú mátt engum segja þetta. Skrifari er orðheldinn maður og lofaði því.

Jæja, þarna söfnuðumst við saman í Brottfararsal og ætluðum öll stutt og hægt: prófessorinn með slæmsku í læri, Jóhanna á leið í Powerade á morgun, og Einar bara latur eins og venjulega. Skrifari hins vegar er að koma tilbaka til hlaupa eftir langvarandi álagsmeiðsli og hefur því gilda afsökun fyrir því að fara bara stutt.

Við ákváðum að fara á Nes, og settum stefnuna á Víðirmel. Einar þurfti að vísu að skjótast heim og skila konunni bílnum. Við Einar þurfum að fá námskeið hjá Magga tannlækni í eiginkonustjórnun. Nema hvað við hin fórum á Víðirmelinn og lofuðum að hirða blómasalann upp á leið okkar á Nes. Það stóðst á endum að hann var búinn að skila bíllyklunum þegar við komum á móts við Reynirmelinn. Svo var stefnan sett á Nes. Þetta var bara rólegt, skrifari þungur á sér, þreklaus og slappur. En þetta var altént fyrsta skrefið í endurkomu og heilun þessa endurfædda hlaupara.

Ekki man ég hvar ég beygði af, þau hin voru komin allnokkuð fram úr mér og það skiptir sosum ekki máli hvað ég fór langt, maður náði alla vega að hlaupa sér til svita. Svo var bara tölt tilbaka til Laugar þar sem setið var innan um Kínverja og Finna í Potti.

Á leið upp úr varð Magnús tannlæknir á vegi mínum. Ég innti hann eftir góðum ráðum í stjórnunarfræðunum. Hann sagðist ekki þora að stíga á Línuna, "Aníta var dæmd úr leik fyrir að stíga á línuna".

Ja, það er bara að vona að mæting verði betri í hlaupi föstudagsins (hvernig er það, eigum við ekki inni e-a Fyrstu Föstudaga?).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband