Færsluflokkur: Pistill Ritara

Fáeinir hlauparar hyggja á gagnaðgerðir

Það var mánudagur að loknum síðasta legg Reykjavegar undir styrkri forystu Helmuts og dr. Jóhönnu. Á Reykjavegi gengu Jörundur prentari og Helmut 16 km á 7 klst. - en kjöftuðu víst út í eitt, og tóku marga útúrdúra og skógarferðir svo að gangan varð kenski óþarflega löng. Þau hin hlupu, dr. Jóhanna og próf. dr. Ágúst og e-r tveir með þeim, og luku glæsilegu hlaupi á 3 klst. Engu að síður voru bæði Helmut og Ágúst mættir í hlaup mánudagsins. Aðrir mættir: Flosi, Ó. Gunnarsson og skrifari. Fleiri voru ekki mættir. 

Skrifari hugsaði sem svo: ég hef syndgað mikið að undanförnu og kannski kemst ég eitthvað áleiðis í Sgerjafjörð og þaðan heim aftur. Á var nokkuð gott veður, 8 stiga hiti, bjart, sólarglenna öðru hverju, og þetta leit ágætlega út. Illu heilli hengdi Helmut sig á skrifara og fór jafnhægt og hann. Skrifari hugsaði: "Hvað, ætlar maðurinn ekki að fara að drífa sig og hlaupa með alvöruhlaupurum?" En nei, hann hljóp við fót og fór sér í engu óðslega.  Flosi tengdi sig við þá Ólaf heilbrigða og próf. Fróða, en við Helmut héldum okkar ótrúlega tempói. Maður setti stefnuna á Skítastöð og hugsaði sem svo: gott væri að hvíla hér. Þegar þangað var komið var engin ástæða til að hvíla og því áfram haldið. Ekki einu sinni í brekkunni upp í Nauthól til hennar Jósefínu var ástæða til að hvíla, við Helmut brunuðum þetta áfram af krafti. En eftir 4 km er hefð fyrir smá slaka. Gengið um stund og svo sameinuðumst við Flosa, sem var á e-u óskilgreindu flögri á þessum slóðum. Prófessorinn og Ó. Gunnarsson farnir áfram og luku hefðbundnum föstudegi.

Jæja, við fórum Hlíðarfót og vorum gizka ánægðir með frammistöðu okkar. Hlaupið nokkuð stíft um nýja stíga og yfir hjá Gvuðsmönnum, og svo viðstöðulaust út að Akademíu, þar var að vísu rölt því að þar er mjög á fótinn. En eftir það bara sett á fullt stím um Mela og alla leið að Sundlaug Vorri. Hlaupið jafnaðarlega á hefðbundnu 6 mín. tempói til heiðurs Jörundi prentara. 

Þessa dagana er allt fullt í Sundlaug Vesturbæjar og varla hægt að skjóta inn einum kjafti í Pott, hvað þá að fylla pott með kjaftaglöðum einstaklingum eins og tíðkuðust hér í frægðartíð Samtaka Vorra. Er þá ekki að undra að undan fæti halli. en við því eru ráð. Nú hefur Jörundur prentari lagt á ráðin um gagnárás gegn KR sporti með auglýsingaherferð sem er hönnuð af Bigga Jóga, allur áróðurstexti saminn af skrifara og veggspjöld prentuð af Prentara Lýðveldisins. Við sættum okkur ekki við að það sé vaðið yfir okkur á skítugum skónum á þrjátíu ára afmæli Samtaka Vorra!  

Á morgun er hefðbundið miðvikudagshlaup: spurt verður hvar ónefndur Stórkaupmaður í Vesturbænum heldur sig. Er hann búinn að jafna sig eftir langvarandi dvöl meðal bjórdrykkjufólks í Austur-Þýzkalandi? 


Gæði umfram magn

Það var föstudagur og stórkaupmaður í Vestbyen var að sögn búinn að greiða gömlum barnakennara fyrir ónýtt Garmin-úr, uppsett verð, að sögn. Einhverjir hlupu í Icelandair hlaupi og náðu að setja persónuleg met; aðrir náðu að ljúka hlaupi. Svo fara Laufáss-hjón á fjöll á morgnana áður en nokkur maður er kominn á fætur. Ýmislegt hafast menn að. 

Þessir voru mættir í hlaup föstudags: próf. Fróði, Helmut, Bjarni Benz, skrifari, Kári og Ingi. Við áttum gæðastund í Brottfararsal fyrir hlaup og hvöttum hver annan til afreka á þessum degi. Helmut spurði að vísu hver væri stytzta þekkt vegalengd í hlaupi svo að það fengist viðurkennt sem hlaup. Prófessorinn misskildi spurninguna og fór að tala um 50 og 60 m hlaup - skrifari sagði hins vegar að stytzta þekkta hlaup hjá Samtökum Vorum væri út að Skítastöð og tilbaka.

Dr. Jóhanna og Rúna sviku okkur í dag, ákváðu að fara frekar á reiðhjólum inn í Heiðmörk.

Við lögðum af stað í ágætu veðri, sólbjart var, stillt og hiti 12 stig. Farið hægt af stað. Kári var ósáttur við að Maggi mætti ekki til hlaups, hann hafði fyrir því að viða að sér brandörum til þess að kæta tannlækninn, svo mætir hann ekki! Þess í stað sagði hann okkur brandarana. Einn var um konu sem kom á lögreglustöðina og sagði farir sínar ekki sléttar, Land Roverinn hefði drepið á sér þegar hún var á leið til vinnu og átti ófarna 100 m, svo að hún varð að snúa við og fara heim, en þegar heim var komið gómaði hún eiginmanninn við að máta kjólana hennar framan við spegilinn "og hvað á ég að gera, lögreglumaður?" "Sko, þegar Land Rover drepur á sér 100 m frá vinnunni þá er líklega kominn skítur í olíuverkið og það þarf að hreinsa það rækilega..." Svo var annar brandari um mann sem gat lýst bílnum sínum betur fyrir lögreglu en brotthlaupinni eiginkonu. 

Þarna dóluðum við okkur, missprækir, Gústi alveg að springa af orku og spenningi, Benzinn bara nokkuð flottur og sömuleiðis þeir hinir, skrifari í alveg þokkalegu formi. Ingi og Kári tóku skemmri skírn í dag, Kári kvaðst hafa farið Hlíðarfót, en við Benz og Gústi fórum hefðbundið, hjá Jósefínu, Hi_Lux, Kirkjugarður og Veðurstofa. Hér hafði skrifari orð á því að hafin væri herferð til höfuðs Samtökum Vorum á vefsíðunni hlaup.is - þar sem hlauparar sem ganga undir heitinu KR-skokk gefa sig út fyrir að vera einu hlaupararnir í Vesturbænum og hafi sankað að sér 50 manns, aðallega eldri og miðaldra einstaklingum í lítilli þjálfun. Það er til sanns um þá staðreynd að Hlaupasamtök Lýðveldisins eru hógværasti hlaupahópur landsins að þau skuli láta þennan ófögnuð yfir sig ganga og halda jafnaðargeði sínu. Enda afgreiddi prófessorinn málið með þessum orðum: "Það er sitthvað magn og gæði. Geta þessir einstaklingar eitthvað hlaupið? Hafa þeir unnið afrek?" Segir maður sem kýs að hlaupa 250 km í eyðimörkinni frekar en að draga á sig hlaupaskúa og drattast 7 km eins og sumir.

Jæja, þetta var svolítið erfitt, skrifari að koma tilbaka og byggir upp þrek og þol. Gústi beið eftir okkur á öllum strategískum punktum, svo sem í brekkunni í Öskjuhlíðinni og þá gekk ekki að drolla, við píndum okkur upp brekkuna. Sama gerðist á Klambratúni og Sæbraut, það var þéttingur frá Sólfari að Hörpu. Þar fundum við Benz slöngu sem kalt vatn rann úr, drukkum kalt vatn ekki vitandi hvaðan það var runnið, en gott var það! Einhver bið virðist ætla að verða á því að Hreppsnefndin skrúfi frá krönum Borgarinnar þrátt fyrir fögur fyrirheit. 

Höfn, Ægisgata og Ágúst framlengdi í Ánanaust, en við Benz tókum niður höfuðföt, hneigðum höfuð okkar í bljúgri bæn og signdum okkur frammi fyrir krossi Krists í Kristskirkju. Hér söknuðum við Denna sálufélaga okkar. Haldið niður Hofsvallagötu á hæfilegu tempói og lukum hlaupi löðrandi sveittir og þreyttir. Frábært!

Stuttur Pottur með þátttöku próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, en minnt er á sunnudagshlaup kl. 9:10 nk. sunnudag. Mánudagur verður vandamál þar eð Laug verður lokuð, og Seltjarnarnesslaug verður einnig lokuð! Hvað gera bændur þá? Laugardalur?  


Garmin greiddur að fullu

Það var upplýst á eternum í dag að ónefndur stórkaupmaður í Vesturbæ Lýðveldisins væri búinn að greiða bláfátækum barnakennara uppsett verð fyrir forláta Garmintæki, sem samkvæmt verðlista á Amazon hefði átt að fara á miklu hærra verði. Um það var rætt á Plani fyrir hlaup hvernig kaupin gerast á Eyrinni, téður stórkaupmaður heimavið að múra svalir, en þessir mættir til hlaups: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, Magnús tannlæknir, Tobba og skrifari. Hér upplýsti prófessorinn að Garmin tækið hans væri hætt að virka, hætt að taka tungl. Þá gall í barnakennaranum: "Gerðu bara eins og ég. Tékkaðu á prísnum á Amazon, láttu stórkaupmanninn vita að hann sé að kaupa Garmin tæki við gjafvirði. Skiptir engu máli þótt það sé ónýtt. Hann tekur ekki eftir því. Hann kann ekki á Garmin tæki." 

Jæja, það var fagurt veður fyrir hlaup, sól, stilla og ábyggilega 12-14 stiga hiti. Sumir vildu fara stutt og hægt í tilefni af Icelandairhlaupi á morgun, en prófessorinn vildi fara minnst 69 í tilefni af kjöraðstæðum. Skrifari setti markið á Suðurhlíðar. Lagt upp með bjartsýni í farteskinu. Léttleiki í liðinu framan af hlaupi.

En svo kom þessi hefðbundna skipting: prófessorinn setti upp hraðann, Maggi og barnakennarinn þar á eftir, svo skrifari og loks var bókasafnsfræðingurinn einhvers staðar að baki. Hlaup leit vel út, gott tempó og menn bara sprækir. Markmiðið var að geta hlaupið hindrunarlaust alla leið til Jósefínu. Það gekk upp, en hitinn var svakalegur og lýsið rann í lítratali. Þeir Flosi og Maggi beygðu af og fóru Hlíðarfót, en skrifarinn, sem er einn einbeittur karl, hélt sig við sín markmið að taka Suðurhlíðar og hélt því áfram upp Flanir, Ristru Flanir þar sem Lúpínan vex svo fagurlega ár hvert.

Hann sá að prófessorinn var að hringsóla nærri brúnni yfir Kringlumýrarbraut og svo birtist Sif Jónsdóttir langhlaupari í e-m óskilgreindum hlandspreng, manneskja sem maður hélt að heilbrigðisvísindin væru búin að afskrifa sem hlaupara. Jæja, skrifari fer upp brekkuna í Suðurhliðum, en það skal játað að stundum var gengið. Einhvers staðar á þessum kafla fór vísa flutt í Morgunpotti að herja á skrifara, svofelld:

Fljóðið unga sem fagurt var
forðaðist þunga getnaðar,
en Árni slunginn á sér bar
eistu, pung og þessháttar.

Þá vitið þið það, svona erum við Húnar í Morgunpotti: pornodogs. Það var kjagað áfram upp brekkuna og upp að Perlu, en svo datt maður niður Stokk hjá Dælu og Gvuðsmönnum. Eftir það var þetta eiginlega bara keyrsla, lýsið rann taumlaust og það var sveittur og einmana maður sem snöri til Laugar eftir átakahlaup.

Það var farið að fækka aðkomufólki í Laug, en utanVesturbæjarfólki hefur fjölgað mjög í Laug Vorri eftir að Nýi pottur kom. Örlygshöfnin nánast tóm, þar sat barnakennarinn, svo bættist Tobba í hópinn, Kári og loks kom Helgi aðstoðarskolli í MK ásamt dóttursyni, Helga Jökli. Áttum gott spjall saman um íbúðakaup og hjólaviðgerðir.  


Sundlaug lokuð

Þessi voru skilaboðin þegar skrifari kom til Laugar stuttu fyrir kl. 9 á þessum sunnudagsmorgni: "Sundlaugin er lokuð vegna of mikils klórmagns." Sundlaugargestir sem komu aðvífandi á sama tíma hurfu frá og settu stefnuna á Nes. Skrifari hugsaði sinn gang um stund, en ákvað síðan að fara á Nesið og hlaupa þaðan. Það kæmi þá bara í ljós hvort félagar hans kæmu líka. 

Starfsfólk Laugar Vorrar mætti vera örlítið nákvæmara í orðavali þegar það kemur skilaboðum á framfæri við laugargesti. Það kom nefnilega í ljós að Sundlaugin var ekki lokuð sem stofnun, aðeins laugin sem menn synda í og sem skrifari stígur aldrei fæti sínum í. Þeim, sem komu á eftir skrifara til Laugar, var nefnilega hleypt inn, þ. á m. félögum Hlaupasamtakanna og gátu þeir klæðst hlaupafatnaði venju samkvæmt. Meira um það síðar.

Það er einmanaleg iðja að hlaupa á Nesi. Manni er mætt með fjandskap í Neslaug og laugargestir fitja upp á nefið þegar þeir ganga fram hjá manni, tvinnandi saman blótsyrðum af fáheyrðri fimi. Ég tíndi á mig spjarirnar í búningsklefa, en hagur minn vænkaðist þegar Örlygur Hálfdánarson, bókaútgefandi kom og áttum við gott spjall saman. Svo var bara spurningin hvað maður kæmist langt í dag. Það yrði bara að koma í ljós. Veður ágætt, sæmilega hlýtt, stillt og hugsanlega einhver rigning í kortunum.

Ákvað að hlaupa til höfuðborgarinnar og í Vesturbæinn. Þræddi íbúðagötur og stíga þar til komið var í Skjólin, fór með sjónum um hið forna Flosaskjól og loks inn á Ægisíðuna. Þar hafði ég ekki lengi hlaupið er ég heyrði háreysti að baki mér, sá þar kunnuglegan klæðaburð og fóta. Voru þar komnir félagar mínir og fóru hefðbundinn sunnudag kl. 9:10 og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Tobba og Einar blómasali. Við urðum sem gefur að skilja fegnir að hitta hverir aðra og urðu fagnaðarfundir.

Það er gott að hlaupa í hópi, einn saman er maður ekki mikill hlaupari og leitar að fyrsta besta tækifæri til þess að stytta og hætta og halda til Laugar. En nú var skrifari kominn með félagsskap og ljóst að það yrði til þess að lengja hlaup. Einar blómasali heimtaði að heyra sögu þá er skrifari hafði lofað í föstudagssamtali þeirra. Skrifari varð við þeirri bón, sagan var stutt en skorinorð, upplýsandi og falleg.

Það var komið að Skítastöð og skrifari hafði einhver orð um að nú væri komið nóg og e.t.v. tími til þess að fara að snúa við. Ó. Þorsteinsson heldur vel utan um sína hjörð og sagði það ekki koma til greina að hverfa frá hlaupi hér, það yrði að minnsta kosti farið til Jósefínu í Nauthól. Ekki þýðir að deila við Formann til Lífstíðar og skrifari fylgdi hópnum áfram. Í Nauthólsvík var gengið og sagðar nokkrar fallegar sögur. Hér hefði hugsanlega mátt lauma sér úr hópnum og fara Hlíðarfót, en e-n veginn skipti það ekki máli lengur. Hlaupið var nánast hálfnað, líðan góð, heitur skrokkur og lýsið rann. Það var bara að halda áfram.

Nú var farið hefðbundið það sem eftir lifði hlaups, við frændur vorum eitthvað rólegri en þeir hinir og drógumst aftur úr, en þannig vill það verða þegar næg eru umræðuefnin. Farin Sæbrautin og Miðbær, Austurvöllur og Túngata. Upplýst að í tilefni þrjátíu ára afmælis Hlaupasamtakanna á næsta ári yrði efnt til keppni um bestu frásögnina, af hlaupum eða úr potti. Þó mátti skilja kátínu formanns svo að hann hefði nú þegar valið bestu söguna. En ekki er úr vegi að benda á að skrifari hefur á sinni skrá 8 ára samfellda frásögn af hlaupum með ýmsum uppákomum og er ekki fráleitt að sagnfræðingar Samtakanna leggist í lestur á fyrirliggjandi gögnum í leit að bestu sögunni.

Er komið var til Laugar átti skrifari enn ófarna leið á Nes, en Jörundur bjargaði honum með því að keyra hann þangað, ellegar hefðu þetta verið um 16 km í dag. Það var skolað af sér á Nesi, en að því búnu haldið til Laugar Vorrar og í Pott. Mættir Ó. Þorsteinsson, blómasali, Jörundur og svo bættust við dr. Einar Gunnar, Mímir og Baldur. Vísbendingaspurningar gengu á víxl með tilheyrandi svívirðingum og ásökunum um fáfræði.

Góður dagur að hlaupum í frábæru veðri.  


Hlaupið á bíl og umferðarmerki

Fáeinir hlauparar mættir til hefðbundins föstudagshlaups á Fyrsta Föstudegi: próf. Fróði, Þorvaldur, Denni og Ólafur Gunnarsson. Aðrir voru uppteknir við þjóðþrifastörf í þágu lands og lýðs. Eftir á var okkur sagt frá því að hersingin hefði lagt af stað venju samkvæmt niður Hofsvallagötuna - en ekki var ferð þeirra orðin gömul þegar glymur mikill kvað við: Þorvaldur hafði hlaupið á bíl, nánar tiltekið vörubíl, enn nánar tiltekið á spegilinn á þessum tiltekna vörubíl. Hávaðinn var slíkur að heyrðist um gervallan Vesturbæinn. Þorvaldur virtist að sögn viðstaddra nokkuð vankaður að loknu þessu samstuði. Félagar hans spurðu: "Þorvaldur, ertu vankaður?" Hann svaraði: "Já, ég er vankaður." 

Upp úr þessu samstuði kviknaði á einhverri áru í Þorvaldi, það runnu upp úr honum brandarar óstöðvanda að sögn próf. Fróða, og muna menn ekki þá tíð að Þorvaldur hafi áður sagt brandara í samanlagðri hlaupasögu Samtaka Vorra. Mönnum var mjög brugðið. Þess vegna voru þeir þeim mun fegnari þegar hann hljóp á umferðarskilti stuttu síðar og hætti að segja brandara, varð normal, ef slíkt er hægt að fullyrða um meðlimi Óðagotsættar.

Nú voru nokkrir syndaselir mættir í VBL í sólskini og fallegu veðri, þ. á m. skrifari og Flosi, Denni kominn tilbaka eftir stutt hlaup út að Skítastöð. Þarna sátum við, dáðumst að stúlkunum, þróuðum með okkur góðan þorsta og biðum eftir félögum okkar. Við ræddum um góðan árangur körfuboltadrengjanna okkar í Vesturbænum, búnir að skila dollunni heim á rétta hillu og strákurinn hennar Möggu okkar meginhetjan.

Svo var haldið á Nes, á Ljónið hjá Hafsteini verti - enginn pantaði sér Benna, en þeim mun fleiri sem fengu sér bjór. Þarna komu saman Flosi, skrifari, prófessorinn, Denni, Ólöf, Þorvaldur, Jörundur, Ó. Gunnarsson - við skemmtum okkur við að rifja upp óheppni Þ. Gunnlaugssonar að hlaupum og alla árekstra sem hann lenti í á hlaupi dagsins og maður sá ofan í kokið á prófessornum þegar hann hló innilega að óförum þessa ágæta hlaupafélaga okkar. Sú var staðan þegar skrifari hélt heim á leið til þess að elda fyrir heimafólk.  Í gvuðs friði. 


Fyrsti Föstudagur í sumri - fagnað sigri í Víðavangshlaupi

Ný hefð varð til í sögu Hlaupasamtaka Lýðveldisins í dag: Fyrsti Föstudagur í sumri. Meira um það seinna. En fyrst ber að þakka hlaupurum Samtakanna sem héldu merki þeirra hátt á loft í Víðavangshlaupi gærdagsins og enduðu í þriðja sæti í flokkahlaupinu. Snorri, Frikki, G. Löve, Ragnar og S. Ingvarsson, hafið heila þökk fyrir frammistöðuna! 

Mættir til hlaups í dag, föstudag, hiti 11 gráður, stillt og bjart: próf. Fróði, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur skrifari, Ingi og Kári. Í Brottfararsal kvartaði Einar yfir gamla dollaragríninu sem átti að fungera sem mælitæki og hann hafði sært út úr þeldökkum sölumanni í dollarabúð í Boston að viðlögðum eið um að koma aldrei aftur í verzlunina. Nú spurði hann viðstadda hvort þeir ættu ekki gamalt mælitæki sem þeir væru hættir að nota og gæti gagnast honum við að mæla hraða og vegalengdir á hlaupum. Hér blandaði skrifari sér í samræðurnar og spurði um tilgang slíkra mælinga. Blómasalinn brást forviða við og sagði: "Nú, til að vita hvað ég fer langt og hratt." Eins og það skipti einhverju máli!

Þeir lögðu saman þekkingu sína um mælitæki og voru eins og litlir drengir, nefndu týpur og tölur og skrifari var engu nær. Þeir sögðu hvað úrið þeirra gæti gert, "mitt sýnir fjórar tölur", "mitt sýnir tölu" og þar fram eftir götunum. Eru þetta örlög Hlaupasamtakanna að sitja uppi með einhverja tækjanörda sem hugsa fyrst og fremst um tækin sem mæla hlaupin - og hlaupin mæta afgangi!

Jæja, við biðum eftir síðustu mönnum, Þorvaldur án hlaupaskúa og Magnús hljóp undir bagga, reddaði gömlum Adidasskóm sem hann fann hjá varadekkinu í bílnum sínum. Og af stað lagði hersingin. Hægt og rólega. 

Á leið niður á Ægisíðu var flautað á okkur úr kampavínslitri jeppabifreið með skráningarnúmerinu R-158, þar var á ferð Formaður Vor, vakinn og sofinn yfir velferð menningar, sögu og bílnúmera í Vesturbænum. Við vörpuðum kveðju á foringja vorn.  

Fljótt varð vart við derring í sumum hlaupurum, þrátt fyrir að sumir þeirra hefðu sporðrennt fimm (segi og skrifa FIMM) flatbökusneiðum í hádeginu. Prófessorinn, Flosi og Einar blómasali settu upp hraðann, þrátt fyrir yfirlýsingar um að fara rólega í dag. En stefnan var sett á hefðbundið. Við hinir vorum rólegri. Á endanum fór það svo að við héldum hópinn Magnús, Þorvaldur og skrifari. Kári og Ingi voru sér á parti, en samt var Kári flottur, búinn að grennast. Einar spurði: "Kári, ertu búinn að grennast?" Þetta eru vondar fréttir fyrir skrifara, hann hafði í Útiklefa lýst yfir ánægju með að vera í hópi félaga með hæg efnaskipti.

Jæja, þarna siglum við áfram og skrifari bara flottur, finnur svitann brjótast út og þetta verður léttara með hverju hlaupinu sem hann raðar inn. Þetta er alltaf auðveldara með góðum félögum, ekki gæti maður gert þetta einn. Maggi talaði líka um þetta að það væru lífsgæði að eiga þess kost að hlaupa með góðum drengjum eins og okkur Þorvaldi og eiga uppbyggileg samtöl við okkur.

Jæja, við þraukuðum hlaup út í Nauthólsvík og þar var gengið stuttlega, og félagar okkar horfnir sjónum. Hlaup tekið upp af nýju, farin Hi-Lux brekkan, og svo langa brekkan og sú leið áfram hjá Kirkjugarði og um Birkihlið, Veðurstofu, Saung- og skák og um Hliðar og Klambra. Við drógum ekki af okkur, orðnir vel heitir, Hlemmur og niður á Sæbraut. Ekki er búið að skrúfa frá vatnshönum þótt komið sé sumar.

Það var steðjað vestur úr, hjá Hörpu, Höfn og vestur að Slipp, upp Ægisgötu og niður Hofsvallagötu. Við Magnús áttum síðasta spölinn saman.

Að hlaupi loknu söfnuðust hlaupnir og óhlaupnir félagar saman í Nýjapotti, Helmut og dr. Jóhanna, auk próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, og var rætt um árshátíð Hlaupasamtakanna 2014, sem væntanlega verður að loknum síðasta legg Reykjavegarins, einhvers konar sammenkomst í Garðinum, meira um það seinna. Kári fékkst ekki til að segja söguna af ljóninu og apanum.

Fyrsti Föstudagur sumars haldinn hátíðlegur á Rauða Ljóninu. Mættir: próf. Fróði, Þorvaldur, skrifari. Horfðum á körfuboltaleik við hlið Jakobs Möllers hæstaréttarlögmanns og KR-ings. Áttum gott spjall saman þar sem ég útskýrði söguna af ljóninu og apanum sem Einar reyndi að segja þeim Flosa í hlaupi dagsins, en tókst ekki betur en svo að prófessorinn, alveg yfir meðalgreind, skildi ekki söguna. Í gvuðs friði.  


Hlaupasamtökin eru föst í hefðinni

Ævinlega er hlaupið á miðvikudögum frá Vesturbæjarlaug kl. 17:30. Á þessu var engin breyting á síðasta vetrardegi 2014. Þó virðist sem páskarnir hafi ruglað einhverja í ríminu, því að einungis voru fjórir hlauparar mættir á lögbundnum tíma: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Ólafur skrifari og Guðmundur Löve. Guðmundur stefnir á Kaupmannahafnar-maraþon 18. maí og því búinn að toppa og farinn að trappa niður. Hann bað um rólegt. Ekki stóð á okkur Magga, við erum báðir eymingjar og fúsir að hlaupa hægt og stutt hvenær sem það er í boði. Jafnvel prófessorinn lagðist ekki gegn því, en svo er annað mál hvort hann skilji "hægt og stutt" sama skilningi og við dauðlegir. 

Jæja, klukkan orðin 17:30 og við að leggja í hann í 13 stiga hitamollu þegar gamli barnakennarinn dúkkaði upp og hljóp orðalaust í Útiklefa með tuðru sína.  Einnig varð vart við Inga, en óljóst hvort hann óskaði eftir að beðið væri eftir honum. Við fjórir sómar Samtaka Vorra ákváðum að hér væru ekki séríösir hlauparar á ferð og lögðum af stað. Það var rætt um Hlíðarfót - prófessornum þótti það heldur stutt, nýbúinn að fara 37,5 km frá heimili sínu og um Heiðmörk, en hann kom ekki á framfæri mótmælum. En við lögðum af stað með magana fulla af góðum ásetningi.

Þetta var erfitt fyrir feitlaginn hlaupara í endurkomu. Þeir hinir sýndu mér þann sóma að leyfa mér að hanga í sér. Meira að segja Guðmundur Löve spurði á einum stað hvort ekki væri hefð fyrir göngu hér. Það var eftir að Magnús Júlíus hafði hitt hjón með barnavagn og hann heimtaði að fá að kíkja upp í væntanlegan skjólstæðing sinn þótt í vöggu væri. Svo var haldið áfram. Það var hér sem Snorri Gunnarsson dúkkaði upp og var upplýstur af G. Löve að hér væri hæg lest á ferð. Skrifara heyrðist Snorri segja: "Come on! Ertu ekki að djóka í mér?" - eða eitthvað í þá veru. Enda settu þeir tveir fljótt upp tempóið og yfirgáfu okkur hina.

Prófessorinn hékk enn í okkur Magga og virtist njóta þess að vera samferðamaður okkar. Við höfum oft náð góðum samtölum okkar í millum í gegnum tíðina og því upplifði maður þessa klassísku stund að vera á ferð með góðum félögum, hreyfandi sig, reynandi á sig, svitnandi og þar fram eftir götunum. Það skal viðurkennt að fyrstu 4 km reyndust skrifara erfiðir, hann var þungur á sér, andstuttur, en hafði ekki nægilega ástæðu til þess að hlaupa ekki eða fara að ganga og ákvað því að hanga í Magga.

Við komum í Nauthólsvík og þar er gert lögbundið stopp. Við upplýstum prófessorinn um að við myndum fara Hlíðarfót, honum þótti það helst til stutt og hélt áfram og setti stefnuna á Stokk. Við Maggi beygðum af og fórum inn á stíginn hjá HR. Við gengum ekki lengi en tókum upp hlaup og þá sagði ég Magga fallega dæmisögu af apa og ljóni sem myndi ganga vel í Kirkjuráðið, sögu sem Kári sagði mér og er upplýsandi um völd fjölmiðlanna í nútímasamfélagi.

Hér var skrifari orðinn heitur og léttur og það var hlaupið sleitulaust og án tafa rakleiðis til Laugar, framhjá Gvuðsmönnum, um Hringbraut, hjá Akademíunni, Þjóðarbókhlöðunni og þá leið til Laugar. Hér sannaðist sem endranær að þegar menn eru komnir af stað og búnir að hita skrokka sína upp þá er eftirleikurinn auðveldur. Þetta mætti ónefndur blómasali sem best tileinka sér, hann hefur ekki sést lengi að hlaupum og Halldór Bergmann er farinn að kvarta yfir fjarveru hans í morgunhlaupum þrátt fyrir yfirlýstan góðan ásetning. 

Það var tómlegt í Laug. Við teygðum lítillega, stuttur Pottur og bara útlendingar, en ekki kátir sveinar að ræða málefni líðandi stundar. Hér er þörf á félagslegu átaki til þess að forða Samtökum Vorum frá tortímíngu. Því er tímabært að huga að árlegri Árshátíð Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þá er spurt: vill fólk halda sig við Viðey eða er vilji til þess að kanna aðra kosti? Kona spyr sig.  

Er skrifari hafði sig á brott var prófessorinn að koma til baka af hröðu 16 km hlaupi og Flosi ekki enn kominn tilbaka, en þeir giskuðu á að hann gæti hafa farið Þriggjabrúa.  


Sumartími

Nú er búið að opna nýjan pott í Laug Vorri og varla þverfótað fyrir baðgestum. Á sama tíma hafa konur endurheimt inniklefa sinn á efri hæð og karlar útiklefa sinn, en merkingar eru ekki nægilega skýrar svo að enn villast konur í útiklefa karla, hátta sig þar og fara í sturtu. Það getur valdið óþægindum. Á sunnudegi mættu þessir til hefðbundins sunnudagshlaups: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Ingi, blómasali, Þorvaldur og skrifari. Þeir voru sprækir. 

Lagt upp í björtu og fögru veðri, en svölu, ca. 5 stiga hita. Farið afar rólega af stað. Mættum Rúnu sem kom á móti okkur á Hofsvallagötu. Aðspurð hvers vegna hún kæmi ekki með okkur sagði hún að við færum of seint af stað. Hér kviknaði hugmyndin um að færa klukku Samtaka Vorra framar og hefja sunnudagshlaup eigi síðar en 9:10 á sumrin. Var hugmyndinni vel tekið og hún samþykkt og ákveðið að frá og með Sumardeginum fyrsta yrði hlaupið 9:10 á sunnudögum.

Hlaup hélt áfram á hefðbundnum nótum. Aðallega rætt um hinn nýja stjórnmálaflokk Benedikts Jóhannessonar sem mun vafalítið draga mikið fylgi frá Sjálfstæðisflokki. Nefndir voru tveir af núverandi þingmönnum Flokksins sem munu fylgja Benedikt - og Formaður Vor til Lífstíðar taldi líklegt að sér yrði boðið sæti á lista hins nýja flokks.

Venju samkvæmt var gengið í Nauthólsvík og aftur í Kirkjugarði, enda er brýnt fyrir gestum er þangað koma að virða helgi staðarins og frið þeirra sem þar hvíla. Svo var það bara þetta hefðbundna, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og Hlemmur. Farið niður á Sæbraut og þá leið gegnum Miðbæinn. Jörundur bara brattur þrátt fyrir háan aldur og hékk í okkur yngri mönnum alla leiðina.

Vandræði voru með hinn nýja pott er komið var tilbaka, mökkur af baðgestum, sumum hverjum alla leið frá Seltjarnarnesi, en nýi potturinn lokaður vegna of mikils klórmagns í vatni. Það lagaðist þó fljótlega og áður en langt var liðið á hádegissamtal Pottverja streymdi hópurinn yfir í nýja pottinn og það varð rúm til þess að halda hefðbundinn ádíens á sunnudegi með dr. Baldri og Stefáni verkfræðingi, en auk þeirra var Helga Jónsdóttir frá Melum mætt í Pott.  


Afmælisdrengur

2. apríl á sérstakur sómapiltur Hlaupasamtakanna afmæli: gamli barnatannlæknirinn. Hann mætti ekki til hlaups í dag fyrir sakir hógværðar og meðfæddrar hlédrægni. Magnús okkar er líklega fyrsti brotthvarfsnemandinn í menntasögu Lýðveldisins. Hann var ungur nemandi á Vesturborg hjá forvera eiginkonu skrifara og gegndi nafninu "Magnús prúði", en leiddist námið verandi kominn á sjötta aldursárið og ákvað að strjúka og var í framhaldinu sendur vestur á firði í vist.

Þessir voru mættir til hlaups: blómasalinn, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Jörundur, Ólafur Gunnarsson, Baldur Tumi, Kaufmann, og loks kom hvítur hrafn steðjandi: sjálfur Benzinn, strýhærður og síðskeggjaður og úfinn í skapi og hafði ekki sést svo mánuðum skipti í Vesturbænum. Skrifari reyndi að beina honum í Útiklefa, en aðrir hlauparar komu í veg fyrir að hann ylli uppnámi í kvennaklefa. Síðar fréttist svo af Hjálmari og Ósk að hlaupum og Benedikt mættum við á Tröppum í lok hlaups. Þannig að kunnuglegum andlitum brá fyrir á þessum degi, en ekki sást prófessor Fróði. 

Átti að bíða eftir Benz? Nei, það kom ekki til greina. Við Helmut héldum af stað og fórum rólega. Aðrir biðu eitthvað, en er leið á hlaupið kom liðið streymandi. Blómasalinn fullyrti að skrifari skuldaði honum Cadbury´s súkkulaði. Ástæðan er sú að er skrifari sté á vigt Vesturbæjarlaugar seinni partinn í gær teljandi sig harla óhultan, dúkkaði blómasali skyndilega upp fyrir horn og náði að spenna glyrnum í töluna á skjánum. Hann hótaði að segja félögum Hlaupasamtakanna frá uppgötvun sinni ef skrifari léti honum ekki í té Cadbury´s súkkulaði. Málið er óuppgert þeirra í millum, en því má skjóta að hér í algjörum trúnaði að nú skilja aðeins tvö kíló þessa tvo félaga að í líkamsvigt, og er skrifari á hraðri niðurleið. Sannleikurinn kemur í ljós í fyrramálið, á lögbundnum vigtardegi Vesturbæjarins.

Nú, það var þetta hefðbundna, kjagað í mótvindi og mótlæti inn í Nauthólsvík þar sem var tímajafnað og Benzinum leyft að ná okkur, en það var þá sem Kaufmann Friedrich hljóp fram úr okkur. Við fórum inn á Hlíðarfótinn og söfnuðum hópnum saman. Hér vorum við fimm sem héldum hópinn, þessir lökustu og hægustu. En þó má segja að við höfum sótt í okkur veðrið er leið á hlaupið og tókum seinni hlutann af þó nokkrum röskleika. Enginn skilinn eftir, Hlaupasamtökin að ná vopnum sínum á ný.

Menn voru eitthvað seinir að koma sér til Potts og hefði þó ekki veitt af ærslafullum Benz til þess að ryðja pott fullan af aðkomufólki. Um síðir gafst skrifari upp og hélt á vit heimilislífsins. Honum var ofarlega í sinni Fyrsti Föstudagur og boð frænda hans og vinar, Ó. Þorsteinssonar, að heimili hans. Boðin þau eru ævinlega hátíðleg, þar er fjallað um sögu málaralistar á Íslandi, staldrað við bílnúmer og persónufræði. Vel mætt!  


Aldeilis einstakt hlaup

Er skrifari kom á Plan sá hann prófessor Fróða á tröppum, búinn að vefja um andlit sitt klúti að hætti hryðjuverkamanna. Útundan sá hann blómasala í hávaðasamræðum við sjálfan sig. Það var skipst á ónotum, en að því búnu haldið til klefa. Þar var fyrir á fleti gamli barnakennarinn. Vel horfði um hlaup, nokkrir af vöskustu hlaupurum Hlaupasamtakanna mættir til hlaups á föstudegi. Þegar upp var staðið voru þessir mættir: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Ó. Gunnarsson, Rúna Hvannberg og Jörundur prentari. Glæsilegur hópur!

Blómasalinn búinn að gefa út plan um hefðbundið hlaup og ekki var gerður ágreiningur um það á slíkum degi, stilla, bjart yfir og hiti 4 stig. Gerist vart betra. Lagt upp á rólegu nótunum, skrifari ætlaði bara stutt og hægt, enda lítið búinn að hlaupa og auk þess nýstaðinn upp úr veikindum. Fljótlega drógu þeir sig frá okkur, barnakennarinn, prófessorinn og Ólafur hinn. Það var einhver rembingur í þeim. Við hin rólegri. Þó var til þess tekið hvað skrifari var sprækur, hélt sig töluvert á undan blómasala og Rúnu, að ekki sé talað um Jörund sem dróst aftur úr. Hér rifjuðust upp ummæli Fróða um 95 kg skrokkinn sem gat hlaupið svo hratt - og blómasalinn tók til sín.

Fyrst var spurningin: kemst ég út að Skítastöð? Þegar þangað var komið breyttist spurningin í fullyrðingu: ég fer alla vega út í Nauthólsvík! Svo skyldi bara skoðað hvert framhaldið yrði. Þau hin alltaf á eftir mér svo furðu vakti. Þegar komið var í Nauthólsvík var þetta ekki lengur spurning: nú yrði bara farið hefðbundið, Hlíðarfótur hefði verið niederlag. Í Hi-Lux töltu þau hin fram úr mér, enda er formið þannig þessa dagana að maður gengur brekkur. Sú forysta var þó ekki lengi að hverfa, við Kirkjugarð skildi ég þau aftur að baki.

Það var farið hefðbundið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra, og enn hélt skrifari forystu sinni, en hvorki sást tangur né tetur af prentaranum.  Er komið var á Hlemm var ákveðið að fara um Laugaveg vegna svalrar norðanáttar sem kældi viðkvæm hjörtu. Er hér var komið leyfði ég þeim hinum að fara fram úr mér, orðinn þreyttur og fannst bara ágætt að ganga á köflum. Margt fólk á Laugavegi og ekki alveg einfalt að þreyta kapphlaup. 

Gengið upp Túngötu, en hlaupið niður Hofsvallagötu, enda veisla framundan. Er komið var að Melabúð var búið að reisa stórt, hvítt tjald utan við verslunina og þar var haldið upp á grænlenska daga með hátíðlegum hætti. Þar var Pétur og þar var Frikki, ýmislegar veitingar, en einhverra hluta vegna stilltum við hlauparar okkur upp við skálina með frostpinnunum, ekki hef ég tölu á fjölda frostpinna sem runnu niður kverkar blómasalans, en Pétur hafði á orði að við værum ekkert skárri en börnin. Hér hittum við Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Hann var ómissandi hluti af hátíðinni verandi framúrskarandi íbúi í Vesturbæ Lýðveldisins. Hann heilsaði öllum með virktum og rifjuð var upp ódauðleg vísbendingarspurning Einars blómasala: "Spurt er um eiganda kampavínslitaðrar jeppabifreiðar með skráningarnúmerinu R-156."  Ólafur Þorsteinsson svaraði að bragði: "Jú, þetta var vel þekktur gleraugnasali í Reykjavík." Hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að Fyrsti Föstudagur aprílmánaðar yrði að heimili hans föstudaginn 4. apríl nk. Hann lýsti fyrirhuguðum veitingum og framreiðslu þeirra. 

Nú var haldið til Laugar. Einar blómasali dró fram restarnar af Cadbury´s súkkulaðinu sem Jörundur gaf honum. Hann hélt uppi vænum bita, otaði honum að skrifara og spurði: "Langar þig í?" Stakk síðan bitanum upp í sig og kjammsaði gráðuglega á honum, svo að súkkulaðitaumarnir runnu niður munnvikin. Það var haldið til Potts. Búið að draga tjöldin frá nýjum Potti í Laug Vorri og var fólk impónerað, en ekki verður fólki hleypt að honum fyrr en 11. apríl nk. Við uppgötvuðum Magnús tannlækni í Laug, sem og próf. dr. Einar Gunnar og áður en yfir lauk hafði Kári sameinast okkur í einu herlegu baði í Potti.

Þetta var einn af þessum frábæru hlaupadögum, veður gott, hlaup gott, félagsskapur framúrskarandi, Pottur góður, hver fimmaurabrandarinn af öðrum flaug og við hlógum eins og vitleysingar. Próf. Fróði hélt umræðu um áfengi í lágmarki, er líklega farinn að reskjast.

Næsti viðburður: Reykjavegsganga nk. sunnudag kl. 9:55.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband