Öldungar

Ekki er fráleitt að tala um helstu öldunga Hlaupasamtakanna þegar í hlut eiga Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur fræðimaður og Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, en þessir þreyttu einmitt hlaup að morgni þessa dags og fóru svo ótt og títt að skrifari varð að grípa til bifreiðar sinnar til þess að draga þá uppi langt komna inn á Ægisíðuna. Ákafa skrifara að ná þeim má að hluta skýra með því að tveir óskyldir honum í hópnum skulda enn fyrir Þorrablót í janúar sl. - en það er önnur saga og ekki til þess fallið að varpa rýrð á rótgróna vináttu, en samt, það er alltaf prinsippið, ekki það séu peningarnir, en prinsippið, menn eiga vitanlega að gera upp skuldir sínar við aðra, þetta finnst manni að eigi að vera ákveðið leiðarljós hjá fólki. Gera fljótt og vel upp við þá sem taka að sér að sjá um félagslíf Samtaka Vorra og standa í streðinu og leiðindunum.

Nema hvað, þarna taka þeir skeiðið og skrifari er fullur öfundar, en við því er ekki að gera. Ekki er hægt að rökræða málin við ökklann, hann lifir sínu eigin lífi og er ofurseldur eigin forsendum. Þannig að það er bara hægt að horfa, dást og öfunda. Að sama skapi má samgleðjast félaga okkar Hjálmari sem náði settu marki í framboðsslagnum í Reykjavík og fyllir hóp glæsilegra einstaklinga sem munu bjóða fram í Hreppnum á vormánuðumm.

Viðstaddir tóku eftir því að Einar blómasali var ekki með á hlaupum og hlýtur það að teljast áhyggjuefni öllum þeim sem vilja stuðla að heilbrigðum lífsstíl, meiri fegurð og menningu í Vesturbænum. Ef einhver þarf að hlaupa, léttast og njóta menningar og persónufræði þá er það  blómasalinn. Meðan kílóin fjúka af skrifara þá ýmist stendur þessi garpur í stað eða bætir við sig fleiri kílóum. Nú er vorið að koma og ekki seinna að menn fari að reka slyðruorðið af sér. Hér er verk að vinna og skulum vér, félagar Einars, taka hann í umsjá okkar og hjálpa honum að takast á við þyngdina. Já, við eigum að gæta bróður okkar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband