Að lokinni Afmælishátíð - lífið heldur áfram

Föstudaginn 12. nóvember héldu Hlaupasamtök Lýðveldisins upp á 25 ára afmæli Samtakanna í Safnaðarheimili Neskirkju. Um 50 prúðbúnir gestir mættu til gleðinnar og voru eftirvæntingin uppmáluð er komið var á staðinn. Þar stóðu þeir Björn kokkur og Rúnar þjálfari á haus og höfðu dúkað borð og gert klárt fyrir kvöldið. Þeir tveir sáu um matreiðslu og framreiðslu og uppvask allt og eiga heiður skilinn fyrir góða frammistöðu.

Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, setti hátíðina með hugðnæmri ræðu þar sem rifjuð voru upp grunngildi Samtakanna, fornir sigrar og nýir auk þess sem minning frumherjanna var heiðruð. Nú var borin fram hátiðarmáltíð kokksins, humarveizla með aðskiljarnlegum salötum og öðru meðlæti. Var borið mikið lof á kokkamennskuna. Síðan var hátíðarávarp: Flosi Kristjánsson barnaskólakennari heiðraði hlaupara fyrri tíðar og sagði frá aðdragandanum að stofnun Samtaka Vorra.

Nokkrir félagar, með eða án hlaupaskyldu, ávörpuðu samkomuna og var gerður góður rómur að málflutningi ræðumanna. Stefnt er að því að birta ávörp hér á bloggi Samtakanna svo að fjarstaddir fái notið þess að heyra það sem um var rætt. Almennt má segja að hátíðin hafi tekizt í alla staði hið bezta, og samkvæmt viðteknum vísum urðu engir verulegir skandalar.

Jæja, að hlaupi dagsins. Mættur allnokkur hópur afbragðshlaupara í leiðindaveðri, hiti við frostmark, vindur á norðan, en þó bjart. Blómasalinn mætti nýklipptur á slaginu hálfsex þegar hersingin er vön að liðast af stað. Við Bjarni ákváðum að bíða eftir kallinum, enda á hann ekki marga vini eftir hér í Vesturbænum. Saman þræluðumst við þetta upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þaðan út í Skerjafjörð. Þar gerði blómasalinn sig líklegan til þess að taka spretti með fremstu hlaupurum og hvarf eitthvað út í myrkrið. Við Benzinn gerðum okkur ekki miklar grillur út af þessu, vissum sem var að við myndum tína hann upp á leið okkar er drægi nær Hofsvallagötu.

Forspá okkar sannaðist, hann náði ekki einu sinni Hofsvallagötu, við drógum hann uppi í myrkrinu á Ægisíðu og teymdum hann með okkur á Nes. Honum hafði daprast flugið og var afar spakur er hér var komið, þurftum við jafnvel að bíða eftir honum og hann bað okkur aftur og aftur um að bíða eftir sér. Fórum út að leikskólanum Mánabakka á Nesi, þaðan út að Haðkaupum og svo bakgarða tilbaka til Laugar. Öskruðum á Bigga er við hlupum framhjá húsi hans, en hann svaraði ekki. Tókum 9,3 km á 55 mín. - sem er með því rólegra. Sannaðist hér að við Benzinn erum góðmenni og sannir vinir, að halda blómasalanum við efnið og tryggja að hann færi þokkalega vegalengd í dag, en hann var greinilega á þeim buxunum að gefast upp og fara bara aumingja.

Matreiðsla til umfjöllunar í potti, ýmsar áhugaverðar uppskriftir ræddar. Hér voru upplýstar utanlandsferðir viðstaddra, blómasalinn pantaði strax nokkur kíló af Cadbury´s enda síðustu forvörð að gæða sér á slíkum lúxus áður en hækkanir á súkkulaði herja á. Í gvuðs friði. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband