Frá mörgu að segja

Eftir hefðbundið föstudagshlaup sem var heldur fámennt, ritari, Bjössi, Ragnar, Karl G. og Kári, bauð blómasalinn heim til sín í tilefni af því að frú Vilborg hélt til New York. Þar bauð hann upp á flatböku og bjór og var það mál manna að hvort tveggja hefði smakkast með afbrigðum vel.

Á laugardag þreyttu fjöldi félaga okkar haustmaraþon, fimm í heilu og þó nokkrir í hálfu, í afbragðsveðri. Vorum við Biggi mættir á Ægisíðu að hvetja fólk áfram. Til tíðinda heyrir að Magga vann sinn flokk í hálfu, Jóhanna Skúladóttir í öðru sæti í sínum flokki, dr. Jóhanna vann sinn flokk í heilu, S. Ingvarsson vann sinn flokk og Jörundur var í öðru sæti í sínum flokki, gaf eftir fyrsta sætið til Svans. Til hamingju hlauparar, með góðan árangur!

Í dag var svo hlaupinn hefðbundinn sunnudagshringur og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, ritari, Ingi - og René náði okkur í Nauthólsvíkinni. Vitanlega bar fræga mynd enn hæst í umræðuefnum dagsins, en fjölmargir hafa leitað til okkar nafna og frænda í tilefni myndatökunnar, óskað eftir að fá að kynnast okkur og tjá okkur virðingu sína og aðdáun. Fyrir þessu höfum við báðir fundið og virðist enginn endir ætla að verða á þessu fári. Jörundur hafði einhverjar efasemdir um málið, en hann hafði fallið í skuggann af okkur hávaxnari mönnum þennan dag og sjást aðeins fæturnir á myndinni. Það er alltaf við því að búast að öfund spretti upp þegar einhverjir í hópnum geta baðað sig í frægðarljóma og njóta aðdáunar og virðingar hvarvetna. Ekki höfum við heldur farið varhluta af óánægju úr þeim áttum þar sem gjallarhornssýki er viðvarandi vandamál.

Hiti um frostmark en logn og heiðskírt. Fallegt veður til að hlaupa. Farið rólega því að Jörundur hljóp heilt maraþon í gær. Haldið áfram að skipuleggja afmælishátíð Hlaupasamtakanna, en vel gengur að hafa upp á gömlum hlaupurum og trekkja þá til þátttöku. Fljótlega munum við senda út dagskrá og veita lokafrest til skráningar.

Hringurinn sem var farinn var í alla staði hefðbundinn og er varla hægt að segja að nokkuð óvænt hafi komið upp á. Á tröppu Laugar beið okkar enn meiri aðdáun lesenda dagblaða og kæmi ekki á óvart þótt við fyndum fljótlega fyrir fjölgun í hlaupahópnum af þessari ástæðu. Setið í potti í klukkutíma og þar bættust Biggi og Unnur í hópinn, nýbúin að hlaupa eigin hring á sunnudagsmorgni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband