Heimsfrægir menn hlaupa um Fossvoginn

Það er napurt þessa dagana. En það hindrar ekki hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins að koma saman og leggja á ráðin um hlaup. Þannig var það í dag og söfnuðust eftirtaldir í Brottfararsal: Gísli rektor, próf. Fróði, Flosi, Bjarni Benz, Bjössi, Jörundur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Magga þjálfari, Albert, Þorbjörg K., Guðrún Bjarnadóttir og Guðmundur bróðir hennar ásamt hundinum Bangsa sem ku vera nefndur í höfuðið á kokkinum, Kári, Birgir hlaupari, Melabúðar-Frikki, Dagný og René. Það voru örugglega einhverjir fleiri sem ég gleymi eða veit ekki nöfnin á. Ef menn verða varir við að ég gleymi einhverjum mega þeir varpa af sér allri feimni og láta ritara vita, það er sjálfsagt mál að bæta nöfnum við. Feimnina geta menn losnað við með sama hætti og Biggi Jógi, hann tók lyf, ég man ekki lengur nafnið á því, en það virkaði. (Það var að vísu placebo, en það virkaði engu að síður.)

Þjálfarinn er með ýmisleg plön og tekur tillit til mismunandi fyrirætlana fólks. Sumir ætla að fara í maraþonhlaup á laugardag, aðrir hálfmaraþon, en svo eru það menn eins og ritari sem stefnir ekki á neitt og vill bara hlaupa til þess að gleyma. Ég vélaði blómasalann með mér í Stokk, veit jafnframt að prófessorinn ætlaði 30 km - aðrir stilltu hlaupagleðinni í hóf, nefndar Suðurhlíðar með trukki. Frikki sagði okkur eftir á að það hefði verið tekið tempó frá Drulludælu út að Kringlumýrarbraut, upp Suðurhlíð hjá Perlu, niður Stokkinn, Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og þaðan á tempói út að Dælu, 7 km, góðan daginn! Við Einar vorum skynsamari. Fórum í Fossvoginn. Satt bezt að segja gerðum við okkur vonir um að einhver húsmóðirin væri að steikja buff tartar, hakkabuff með lauk, sósu, rauðbeðum, eggjarauðu - og að við myndum finna ilminn.

Mættum mýgrút af hlaupurum, sem horfðu forvitnum augum á okkur, því óneitanlega vorum við eilítið þekktari heldur en síðast, hafandi prýtt síður heimsblaðsins alkunna, og heilsuðu okkur margir og vildu greinilega ná að kynnast okkur. Gekk þetta svo langt að er komið var austarlega í Fossvoginn slógust hlauparar í för með okkur, eða við með þeim, og við trekktir upp í sprett, 4:10 í ca. 500 m, en þeir ætluðu lengra. Þetta voru tvær konur og þær tóku vara við því að við værum með derring í hópnum, nýir mennirnir. "Eruð þið KRingar? Eruð þið kannski úr Vesturbænum?" Okkur þóttu spurningarnar lýsa furðulegri vanþekkingu á þessum geðþekku hlaupurum, þessum þekktu andlitum úr Vesturbænum. Um þetta leyti ættu allir hlauparar á Íslandi að þekkja okkur. En við tókum sprettinn með þeim af hjartans lítillæti, slógum af inn við Elliðaár og fórum út í hólmann. Er hér var komið áttuðum við okkur á því að kokkamennska lá niðri í Fossvogi.

Aftur undir Brautina og upp Stokk. Hérna leyfðum við okkur að ganga, enda höfðum við um margt að ræða og gátum ekki haft hlaup of stutt, það varð að fara djúpt í málefnin. Það var farið hjá Réttarholtsskóla og greindir karaktérar í Hlaupasamtökunum. Líðan góð, farið að kólna, en þó vorum við sammála um að hlaupurum er nauðsynlegt að fara á dolluna fyrir hlaup og tæma sig. Einhver ólga gerði vart við sig og hamlaði árangursríku hlaupi. En þetta var allt í lagi, heilt yfir.

Komið tilbaka, engir á Plani, engir í Komusal. Við teygðum lítið en drifum okkur í pott. Þar lágu rektorinn, barnaskólakennarinn, kokkurinn, Benzinn, Jörundur og Friðrik kaupmaður. Þýzkir ferðamenn flæmdir úr potti með klúrheitum og vafasamri hegðun, samanburði á fótum og rasskinnum. Rætt um hlaup helgarinnar sem framundan er. Benzinn á leið til Írlands í óljósum erindgjörðum. Þarna lá maður í heitum pottinum og hugsaði sem svo að hér væri lokið enn einu árangursríku hlaupinu sem myndi lifa með manni um ókomna tíð.

Hvatt er til hlaups n.k. föstudag, kemur Skransalinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Garðar Hólm á ferðinni í Fossvogi

Jörundur (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 21:38

2 Smámynd: Hlaupasamtök Lýðveldisins

Öfundin á sér ýmsa talsmenn.

Hlaupasamtök Lýðveldisins, 25.10.2010 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband