Fæddur með múrskeið í munni...

Er komið var í Útiklefa dró ritari upp pakka með fjórum kókosbollum og tvær dósir af appelsínulímonaði og stillti þessum varningi upp. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali, Ingi og Jörundur. Einar varð glaður við er hann sá uppstillinguna og spurði hvort ekki væri hægt að fara stutt í dag. Rætt um sumarhöllina sem er í smíðum í Grímsnesi og ýmislega verkþætti þar, m.a. pípulagnir og múrverk. Menn spurðu hver ynni verkin. "Það geri ég" sagði blómasalinn. "Ertu með réttindi?" var þá spurt. "Ég er fæddur með múrskeið í munni..." sagði þá blómasalinn og vísaði til uppruna síns, Murmejster Breiðdal. Þetta var gott og bar enginn brigður á að Einar væri fullfær um að inna af hendi vel unnið verk.

Hefðbundið hlaup á sunnudagsmorgni í ágætu veðri. Rætt um dagskrá hátíðarafmælis og gestalista. Einhverjir höfðu farið út að hlaupa í gær, meðal þeirra var Ólafur Þorsteinsson. Lýsti hann því hvernig hann hefði fyrir slysni lent með fólki eins og Möggu og Jóhönnu og þær bókstaflega skilið hann eftir í reykmekki. Svo hefði Melabúðar-Frikki mætt á svæðið og hefði sú saga farið á sömu lund, og frændi hlaupið einn eftir það. Rætt um veikindi í hópnum og mikilvægi þess að halda áfram að hlaupa til að halda heilsunni.

Stanzað í Nauthólsvík. Þar er búið að skrúfa fyrir vatnið, eins og raunar er búið að gera á Sæbraut. Þessu þarf að mótmæla, þetta er eini lúxusinn sem við höfum, ókeypis vatn á tveimur stöðum á hlaupaleiðinni og búið að skrúfa fyrir á báðum stöðum. Hringjum í hlutaðeigandi aðila hjá Reykjavíkurborg og látum opna fyrir vatnið á ný! Enn rennur þó vatn í Kirkjugarði og var það drukkið ótæpilega meðan sagðar voru sögur af greftrunum, duftkerjum og væntingum manna um hinztu vist.

Haldið áfram upp úr garði og farið hjá Veðurstofu. Að þessu sinni var tekinn Laugavegur og engin goðgá að því, vegna þess að langt er síðan auð verzlunarrými hafa verið talin. Nú kom í ljós að þeim hefur fjölgað á ný, voru 10 í seinustu talningu, eru orðin 16. Einhver slatti af útlendingum hingað komnum til þess að hlýða á tónlist sem mikið er af. Ekki talin ástæða til þess að fara hjá Kaffi París eða um Austurvöll, við erum vinalausir aumingjar sem enginn vill hylla.  Áfram til Laugar.

Blómasalinn var ekki búinn að gleyma því hvers vegna hann mætti í hlaup dagsins: kókosbollur og appelsínulímonaði. Stoppað stutt við á Plani og farið til Útiklefa. Þar var þessum gæðum úthlutað og við sátum sælir og glaðir, hvor með tvær bollur og dós af appelsíni. Það kemur sérstakur svipur á Einar þegar hann er gladdur með góðgæti, það er svipur algleymisalsælu og ekkert truflar einbeitingu hans á meðan.

Sama agaleysið og venjulega í potti, menn tala þvers og kruss og engin leið að fylgjast með vitrænum umræðum. Blómasalinn og verkfræðingurinn tala saman þvert yfir pottinn um breiðband, ljósleiðara, Símann, Vodafone, tengingar, loftnet. Ég er löngu búinn að segja Einari að fá sér Vodafone Gull og ekki ræða málið meira. Nei, nei, hann þarf að pæla meira í hlutunum, velta þeim fyrir sér fram og tilbaka, láta svína á sér, eins og Símiinn gerir, klippir í breiðbandið án þess að bjóða nokkuð í staðinn og hefur engan fyrirvara á breytingunni. Svona fyrirtæki eiga menn ekki að skipta við.

Fyrirætlanir margvíslegar eftir hlaup. M.a. upplýsti Ólafur frændi minn að hann ætlaði á eina veitingahúsið í Garðabæ. "Veitingahús í Garðabæ, hvað er það?", spurðu menn. Jú, IKEA með sínar sænsku kjötbollur, full porsjón 15 stykki. Takk fyrir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband