Flosi hljóp í dag

Ritari mætti í dag til Laugar og fann þar Flosa barnaskólakennara í fullu hlaupagíri, kvaðst hann ætla að lulla stutt hafandi steikt hlaupara gærdagsins á geðveiku tempói í Þriggjabrúa. Ég spurði hann hvort blómasalinn hefði farið langt. "Tja, hann fór álíka og við hin." Var þetta vegna þess að blómasalinn hafði lýst því yfir í sms-skeyti að hann hefði farið langt. Þriggjabrúa er ekki langt. Þriggjabrúa er tempóhlaup. Hér var maður afhjúpaður. En stúlkurnar fóru hratt að sögn Flosa, náðu honum á Kringlumýrarbraut og skildu hann eftir.

Er nú ekki að orðlengja það nema þegar ritari kemur út úr Melabúðinni hafandi höndlað til kvöldverðar ræðst téður blómasali að honum, rífur upp innkaupapokann og heimtar útlistun á því sem keypt var. Þar sem ritari er góðmenni útskýrði hann fúslega hvað var keypt og hvernig til stæði að matreiða herlegheitin, en meiningin var að elda gúllassúpu, enda nautagúllas á afslætti í dag. "Þetta er ekki nautagúllas! Þetta er beljukjöt!" sagði blómasalinn. Ritari tók upp hanzkann fyrir vin sinn Frikka Meló og sagði að þetta væri fínasta nautakjöt, UN-1, það gerðist ekki betra.

Næst gerist það að hlaupið verður á föstudegi hefðbundið og verður gaman að sjá hverjir mæta og hverjir kjósa frekar að nýta tímann til þess að láta traktera sig á ókeypis mat og drykk í boði Samskipa. Heyrst hefur að framundan sé mikill frami á síðum Dödens avis. Hvað merkir það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband