Skráning að baki - þjálfun tekur rífandi start

Nokkrir úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins gengu frá skráningu sinni í Laugavegshlaupið í morgun. Hér ræðir um þá Einar blómasala, Jörund, Flosa og ritara. Fleiri hafa sýnt þessu málefni áhuga, svo sem Björn Nagli. Í byrjun febrúar kemur svo í ljós hvort við hljótum náð fyrir augum aðstandenda hlaupsins og verðum valdir til þátttöku. En við höldum ótrauðir áfram með undirbúninginn og göngum út frá því að við munum hlaupa á sumri komanda.

Menn minntust fallins félaga, dr. Jóns Braga Bjarnasonar, prófessors í lífefnafræði, eins af upphafsmönnum hlaupa frá Vesturbæjarlaug.

Fjöldi hlaupara mættur til hlaups í dag. Magga þjálfari, Magnús, dr. Friðrik, Melabúðar-Frikki, Jóhanna Ólafs, dr. Jóhanna, Tumi, Flosi, ritari, Einar blómasali, Þorvaldur, Jörundur, Hjálmar, René, Bjarni, Bjössi og Albert. Frost 6 stig, en stillt veður og þurrt. Sól að hníga til viðar í suðri og himinninn afar speisaður á að líta. Nú fer sól að hækka á lofti og við munum merkja mun í hverri viku hvað við njótum lengri sólargangs. Það verður ljúft. Þjálfari mælti fyrir um langt hlaup í dag (henni finnst Þriggjabrúa langt!), en fyrst rólega út að Skítastöð. Ég veit ekki hvort sumir hlauparar eru skilningssljóir, en svo virðist sem þeim sé hulin merking orðsins "rólega", menn æddu af stað þegar á Ægisíðu eins og þeir ættu lífið að leysa og skildu okkur hina eftir í frostreyk.

Við félagarnir, Jörundur, blómasali og ritari, sórumst í fóstbræðralag vegna þess að við ætlum að feta Laugaveginn saman í sumar og ákváðum að halda hópinn á rólegu nótunum, til þess að undirstrika mikilvægi þess að fara rólega í byrjun (bæði byrjun hlaups og við upphaf þjálfunartímabils). Það var þetta hefðbundna 6 mín. tempó sem er svo ágætt byrjunartempó. Það gekk vel, en blómasalinn var afar þungur á sér, 94,5 kg, og útlistaði hann fyrir okkur matseðlana sem lágu að baki þessari miklu þyngdaraukningu. Jörundur lýsti yfir furðu sinni og jafnvel vonbrigðum með að maður sem þættist ætla Laugaveginn í sumar gæti ekki reynt að hafa betur taumhald á matarlystinni, sínum versta óvin! Slíkar vangaveltur bíta ekki á blómasalanum, hann heldur bara áfram að gera grein fyrir því sem hann hyggst snæða á næstu dögum.

Einhvers staðar á leiðinni náði Bjarni okkur, en jafnframt var Þorvaldur að dóla með okkur. Við gerðum harða hríð að honum þar sem spurn hefur borizt af því að hann spili bridge vikulega og eigi fyrir makker ekki ómerkari mann en sjálfan Vilhjálm Bjarnason. Þessu hefur Þorvaldur haldið leyndu fyrir okkur þrátt fyrir að oftar en ekki sé rætt um Vilhjálm í löngu máli á sunnudagsmorgnum. Þorvaldur varðist fimlega og vildi gera sem minnst úr þessari spilamennsku V.B. Hann væri í bezta falli aukamaður.

Bjarni var ólmur eins og unghross og vildi keyra upp hraðann, en við þremenningar og vinir létum ekki spilla áður gefnum heitum og dóluðum þetta áfram rólega. "Á nokkuð að fara hratt í Brekkuna?" spurði Jörundur. Átti hann við Boggabrekkuna, sem er löng og erfið. "Nei, nei, við förum þetta rólega," svaraði ritari. Blómasalinn dróst smásaman aftur úr, en Bjarni reyndi sem fyrr að keyra upp tempóið. Er komið var í Brekku varð Jörundur viðskila við ritara, sem hélt jöfnum hraða upp brekku með Bjarna, og blómasalinn rak lestina. Er upp var komið höfðu þeir hinir dregist aftur úr, en við Bjarni gerðum stuttan stanz efra og héldum svo áfram, trúðum því að þessir ágætu hlauparar myndu ekki einasta hlaupa okkur uppi, heldur tæta fram úr okkur og skilja okkur eftir í fullkominni spælingu.

Áfram um Útvarpshæð, yfir Miklubraut og út á Kringlumýrarbraut. Er komið var niður hjá Fram-heimili stóðu þeir tveir uppi á brúnni og hrópuðu: "Ekki fara svona hratt!" Við hægðum lítillega á okkur og biðum þess að þeir skiluðu sér, en þegar það gerðist ekki var tempóið sett upp aftur og við stikuðum stórum niður Kringlumýrarbraut og yfir á Sæbraut. Þar var bara gler á stígnum og mátti fara varlega. Það var orðið anzi kalt og svitinn farinn að kæla skrokkinn niður. En við héldum okkar striki og væntum þess að senn skiluðu blómasalinn og Jörundur sér. Það gerðist ekki. Bjarni fór um Ægisgötuna, en ritari fór Hljómskálagarðinn til þess að ná 14 km. Var bara góður alla leið og lauk hlaupi í góðum gír.

Í Sal voru nokkrir hlauparar (þessir sem eiga erfitt með að skilja "rólega") og teygðu. Ég hóf að teygja. Að lítilli stundu liðinni komu Jörundur og blómasali tilbaka, horfðu í kringum sig með brjálæðisglampa í augum og gnístandi tönnum: "Hvar er hann? Hvar er svikarinn?" Ritari faldi sig á bakvið súlu. "Við erum sko búnir að hugsa upp margar leiðir til þess að refsa honum fyrir svikin. Það var talað um að halda hópinn, og svo svíkur hann." Fá svör voru við þessum ásökunum, önnur en að þetta væri allt Bjarna að kenna, hann væri svo alvitlaus þegar kæmi að hlaupum.

Setið í potti um stund og rætt um Kasakstan og Borat. Vildi þá ekki betur til en svo að það voru Kasakstanar fyrir í pottinum, en þeir virtust ekki taka það nærri sér að menn ræddu heimaland þeirra á léttum nótum.

Næst er það svo Fyrsti Föstudagur. Blómasalinn tók því ekki fjarri að hýsa viðburðinn að þessu sinni og verður nánar greint frá því síðar með hverjum hætti þátttakendur geta lagt sitt af mörkum til þess að gera kvöldið að vel heppnaðri skemmtun. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband