Rólegt fyrir Gamlárshlaup

Allnokkur fjöldi hlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi fyrir Gamlárshlaup ÍR. Margrét þjálfari albrjáluð og vildi að menn tækju á því, en skynsamir menn gengu á milli og töldu hóflegt að fara Hlíðarfót á léttu nótunum í ljósi þess að framundan væri keppnishlaup. Prófessor Fróði skimaði of alla kima og króka í leit að bandamönnum til þess að fara langt og rökstuddi það með því að "keppnishlaupið" á föstudag væri svo stutt! Honum fannst algert lágmark að fara Stokk, þrátt fyrir það illa orð sem fór af honum fyrir að skilja barnakennarann eftir einsamlan við Elliðaár sl. mánudag. Hér hlakkaði í prófessornum og hann viðurkenndi að þetta væri eitt af þessum velheppnuðu hlaupum þegar hann nær að draga velmeinandi hlaupara með sér sem lengst í austurátt og svo þegar hann er við það að leka niður er gefið í og viðkomandi hlaupari skilinn einn eftir i myrkri, kulda og hálku.

Jæja, það komu fjórir nýir hlauparar til brottfarar í dag og höfðu greinilega haft veður af tilvist Samtaka Vorra. Var þeim vel tekið sem venja er og boðið að hlaupa með okkur. Það var lagt upp á hægu nótunum í sömu vetrarblíðunni og ríkt hefur undanfarið, en í ljós kom að launhált var á stígum og mátti því fara varlega. Alltaf sama myrkrið á Ægisíðunni, en Pollýönnur hópsins bentu upp í himininn og sögðu: "Sko, sjáið þið hvað það er að birta!"  Come on! Það er 29. des. Talið við mig eftir mánuð.

Það var dólað í rólegheitum framan af, en svo var náttúrlega bara gefið í, og vakti athygli hvað blómasalinn var sprækur í dag, þrátt fyrir að hafa ekki slegið slöku við jólaborðhaldið. Ritari dróst aftur úr enda staðráðinn í að halda sig við upphaflegt prógramm um að fara rólega. Fyrir framan voru Helmut, nýbúinn að innbyrða hlaðborð á Vox, og Guðrún Harðardóttir, hlaupari á framfarabraut. Þau hin voru einhvers staðar þarna langt fyrir framan og héldu þéttu tempói.

Er komið var í Nauthólsvík sást hópurinn beygja upp Fótinn, en prófessorinn og Helmut héldu áfram út í óvissuna. Menn lýstu yfir furðu á því að maður með svona mikinn hádegisverð í belgnum skyldi treysta sér lengra. En hvað um það, Hlíðarfótur. Þar beið Guðrún eftir ritara og er greinilega smituð af ærlegheitum Helmuts og fl. að bíða eftir okkur lakari hlaupurum. Við héldum hópinn tilbaka um hornið hjá Gvuðsmönnum, Þrjár brýr á Hringbraut og hjá Háskóla. Þá leið tilbaka. Við ræddum m.a. um frönskunám við Reykjavíkur Lærða Skóla.

Nokkur hópur á Plani og sagðar bænir. Svo var pottur. Þar áttum við langt samtal við kínverskan vin okkar um núðlubúskap í Kína og mismunandi tegundir núðlna. Einnig rætt um fylliorð í mismunandi tungumálum. Svo kom Björn kokkur með Guðjón bróður sinn sem búsettur er á Kúbu og voru fluttar lofgjörðir um Fídel sem hefur ávallt verið boðinn og búinn að senda lækna til svæða þar sem þeirra er þörf, svo sem á Haíti eftir jarðskjálftann þar fyrr á árinu og til svæða í Bandaríkjunum sem urðu fyrir eyðileggingu Katarínu, New Orleans o.fl. staða.

Nú þurfa hlauparar að skrá sig í Gamlárshlaup ÍR - Hlaupasamtökin stefna að því að vera með myndarlega sveit þar. Hlaupið hefst kl. 12, en hægt er að skrá sig á Netinu. Næsta hefðbundna hlaup Hlaupasamtakanna sunnudaginn 2. jan. 2011 stundvíslega kl. 10:10 frá Vesturbæjarlaug. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband