Laumast úr landi - ævisaga embættismanns

Er von menn spyrji: hvar er blómasalinn? Hvar er Gústi gamli á Grund? Frétzt hefur að blómasalinn hafi laumað sér úr landi án þess að mikið bæri á og ættu menn að hafa meiri áhyggjur af ferðalögum ritara. Mættir fyrstir á svæðið Björn matreiðslulistamaður, Bjarni Benzfræðingur og Ólafur ritari. Aldrei þessu vant fór bara vel á með þeim köppum og vakti það vonir um góðan og farsælan hlaupadag. Það sást til Þorvaldar, svo kom Flosi og Helmut og þá var þetta farið að verða verulega lofandi. Menn ræddu eðlilega um kosningar til Stjórnlagaþings, en að þessu sinni fóru þær umræður fram af stillingu, varfærni og virðingu fyrir skoðunum viðmælenda. Slíkt er fátítt í hópi vorum.

Svo var gengið til Brottfararsalar og þar sáust Magga, S. Ingvarsson, Ragnar, Flóki (með hund), Ósk og René á stuttbuxum. Kári var einnig mættur, en hvorki blómasalinn né Ágúst. Veður var með ágætum, 6 stiga hiti, nánast logn og færð góð. Ekki var staldrað lengi við á Plani, þangað mætti Rúnar þjálfari og hugðist ferðast áfram án hjálpartækja eins og reiðhjóls.

Það var dimmt á Ægisíðu, svo dimmt að við lá að við rækjumst á aðra vegfarendur á stígnum. En það var farið rólega og enginn asi á mannskapnum. Fyrr en komið var fyrir Skerjafjörð, þá fóru þessir vanalegu að setja upp hraðann. Ritari dróst aftur úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, en hafði verið býsna lofandi í byrjun. Loks var svo komið að ég varð að láta mér nægja félagsskap þeirra Þorvaldar og Kára.

Þannig var kjagað áfram í Nauthólsvík. Þar biðu eftir mér þeir höfðingjar Helmut og Bjarni. Þetta líkaði mér vel. Ég hef í seinni tíð velt fyrir mér þessum æðibunugangi sem einkennir hlaupin okkar seinni misserin, þar sem við lakari hlauparar erum skildir eftir einir og megum una við eigin félagsskap langar leiðir. Það sem gefur hlaupunum gildi er félagsskapurinn og samtölin. Hérna sýndu þeir félagar að haldin eru í heiðri hin fornu gildi og enginn skilinn eftir. Því var það svo að við héldum hópinn saman Suðurhlíð og Þorvaldur bættist við.

Ritari var undarlega þungur og þreyttur í dag og eins og orkulaus. Varð að hvíla inn á milli, ganga. Upp Suðurhlíð, hjá Perlu og þar mætti ég þessum öðlingum aftur, nema Þorvaldi, sem sá greinilega ekki ástæðu til þess að taka þátt í þessu félagslega hlaupi. Við niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum Þrjár brýr til þess að lengja örlítið svo að þetta aumingjalega hlaup gæti staðið undir nafni. Hjá Háskóla og tilbaka til Laugar. Teygt á Plani og rætt um einkenni hópsins, sem eru hógværð, sérhæfing, efagirni, en jafnframt þekking á eigin takmörkunum.

Pottur hefðbundinn, utan hvað Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti. Hún vill gjarnan njóta hins bezta af báðum heimum, hleypur með afburðahlaupurum, en blandar geði við skemmtilegt fólk sem hún finnur í hópi vorum. Einhverra hluta vegna barst talið að bloggi. Gat Sif þá upplýst að hún hefði fyrir þremur árum verið að velta fyrir sér Garmin málefnum, en ekki munað hvar fyrirtækið væri að finna hér á landi. Hefði hún gert það sem allir gera: gúgglað. Hún gúgglaði "Garmin". Kom þá upp setningin: "...illa þefjandi blómasali lagði frá sér Garmin úrið á stétt..." - og þá rann það upp fyrir Sif að líklega mætti óska sér meiri grandvarleika þegar ritun pistla í Samtökum Vorum er annars vegar.

Fyrsti Föstudagur: hvað gerist? Verður það Ljónið? Verður það heimilisböl hjá einhverjum í hópnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband