Hann er feitur, hann er latur, hann er hlaupari júlímánaðar

Í hófi að loknu hefðbundnu föstudagshlaupi, höldnu að heimili Bigga og Unnar, þar sem innbyrt var gómsæt fiskisúpa löguð af meistarakokknum Bjössa, var krýndur hlaupari júlímánaðar. Rúna sá um að velja gripinn og hafði þau orð um hann að hann væri feitur, latur, sífellt svangur, vildi drekka, borða súkkulaði og þrifist jafnt á mótlæti sem meðlæti. Var honum útdeilt veglegum verðlaunaborða og súkkulaðisósu á flösku. En sjálfur var júlílöberinn fjarverandi að berjamó með fjölskyldu og var því fjarri góðra vina faðmi.

 

Hvað um það, mættir til hlaups: Vilhjálmur, Flosi, Eiríkur, Bjössi, Biggi, Helmut, dr. Jóhanna, Kári, Rúna, ritari og... blómasalinn sást í Brottfararsal með sýnishorn af hlaupatreyjum og buxum sem verða valdar fyrir Berlín. Nú er komið að því að trappa niður fyrir Reykjavíkurmaraþon og fara róleg hlaup um helgi og í næstu viku. Engu að síður virtu ónefndir hlauparar fyrirmæli þjálfara í þá veru að vettugi og settu í fluggírinn frá fyrstu byrjun. Verður að teljast makalaust að Helmut, sá prúði drengur, skuli láta etja sér út í svona vitleysu. Hann og Bjössi fóru fremstir og fóru hratt og skildu aðra hlaupara eftir. Svona framferði er óþekkt í hópi vorum, sem leggur áherslu á samveru og samræður á hlaupum, þar sem gáfulegar umræður um háleit málefni sitja í  fyrirrúmi.

 

Aðrir fóru hægar og ræddu málefni dagsins, skipti á fólki í borgarstjórn höfuðborgarinnar. Einnig var töluvert rætt um blómasalann og kom mönnum saman um að þar færi öflugur hlaupari en latur. Tilgreind voru ýmis dæmi þess að hann ætti inni töluverða orku á hlaupi en nýtti hana ekki til þess að fara hratt, annað hvort af leti eða vegna þess að hann hafði misst sig í áti í hádeginu. Ekki hvarflaði þó að neinum að hann stæði uppi sem júlílöber áður en dagurinnn væri að kveldi kominn. En það eru fleiri latir en blómasalinn. Birgir og Eiríkur voru ekki að nenna að hlaupa og voru afar hægir, þannig að ritari náði að hanga í þeim. En þannig er það stundum, dagsformið fræga, stundum er þessi sprækur, næst er einhver annar sprækari, og alltaf einhver sem setur tempóið og dregur hópinn áfram.

 

Það gerðist markvert í hlaupinu að við mættum þjálfara á Hofsvallagötu og vorum myndaðir í bak og fyrir. Hann hefur lofað brekkusprettum á mánudag, til þess að liðka fæturna, eins og það er kallað. Fjölmennt í potti og rætt um lögun fiskisúpu. Loks hvarf hver til síns heima að undirbúa kvöldið. Ritari þakkar ánægjulegt kvöld að Bigga. Guðlaun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband