Geðhlaup

Það var allt annað líf að hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag. Þegar ritari mætti í Brottfararsal var Vilhjálmur Bjarnason þegar mættur og búinn að króa kanadískt sjónvarpsteymi af úti í horni og hélt ádíens. Þegar Jörundur kom var hann líka drifinn út í horn og kynntur sem síðasti kommúnistinn á Íslandi, 67 ára ungmenni sem hlypi eins og hind. Mér var ekki ljóst hvað þarna var í gangi eða hvað verið væri að kynna, Hlaupasamtök eða kynlega kvisti. Það setti að mér ugg þegar ég sá hvað VB var... kátur. Sumir hlauparar hafa talið það merki um vonda hluti. Hraðaði mér í útiklefa og sá á leiðinni Þorvald gera æfingar á mottu í líkamsræktarsal sem minntu á eitthvað indverskt

Í útiklefa var þegar mannmergð, mættir Björn og Bjarni, stuttu síðar Flosi, Einar blómasali og Helmut. Þetta var bara fyrirboði um það sem varð í hlaupinu, mæting hreint með ólíkindum og almennt góð stemmning. Dr. Friðrik, dr. Jóhanna, báðir þjálfarar, próf. dr. Fróði, Eiríkur, Una og svo fullt af hlaupurum sem ég þekkti ekki. Kanadíska teymið var að snövla í kringum okkur, hafði langt viðtal við Villa úti á stétt og við færðum okkur út til þess að komast í mynd. Þjálfari flutti pistil um hlaup dagsins og greinilegt að það á að fara að herða á hlaupurum, fyrirmæli um Skítastöð og Nes og þéttinga á milli.

Menn eru raunverulega í góðum fílíng þessi missirin og allir að koma til eftir Berlín. Það var farið á léttu skeiði út, farið hefðbundið um Hagamel og þannig út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð. Blómasalinn ólmur eins og foli sem ærslast fram úr öðrum hlaupurum, greinilegt að hann ætlaði að gera rósir í hlaupi dagsins. Rifjuð upp viðskiptahugmynd Birgis frá gærdeginum, hún útfærð frekar og þróuð með aðstoð góðra manna. Tempóið var undir 5 mín. Og ekki alveg það sem maður hafði hugsað sér. Stemmning þó öll önnur en í þunglyndislegu sunnudagshlaupinu – menn bara léttir og sprækir og sáu ekkert nema tækifæri framundan.

Ekki var slegið af á Ægisíðu, gefið í ef eitthvað var, blómasalinn og Eiríkur og lá einhver ósköp á. Svo gerðist það fyrirsjáanlega, blómasalinn gafst upp við Hofsvallagötu og gekk beygður til Laugar. Eiríkur hélt áfram á Nes, sem og við hin. Neshópur var á sínum stað, en nokkuð gisinn og vantaði margar mikilvægar persónur. Ekki var slegið af hraðanum hér, áfram kringum 5 mín. Tempó. Ég fór Lindarbraut ásamt með ótilgreindu fólki (maður þekkir orðið ekki helminginn af fólkinu sem hleypur með okkur), Ágúst og Bjarni fóru fyrir golfvöll, hvað um aðra varð veit ég ekki. Það gekk vel að halda uppi hraða og eygði ég hina hröðu hlaupara alllengi – en var þó alla jafna einn. Ekkert nýtt þar!

Komið á ný til Laugar. Þar stóðu hlauparar á stétt og teygðu. Það fylgir því alltaf sérstök stemmning að hlaupa á haustin og minnir á bernskuárin þegar maður var götustrákur. Upplýst er að ferðum ritara fækkar mjög á næstunni og hann getur hlaupið ótruflaður í allan vetur án þess að tefjast af utanferðum og öllum þeim ósóma sem þeim fylgja. Jörundur var með skemmtilega kenningu á stétt sem hann kenndi próf. Fróða. Sá hafði sagt að við vöðvasliti væri gott að innbyrða prótein. Með sömu röksemdafærslu mætti fullyrða að við beinbroti væri gott að innbyrða beinamjöl.

Pottur óvenjuvel mannaður, þótt ekki væri VB viðstaddur. Margt rætt af speki og þó tók steininn úr þegar Ágúst upplýsti að hann væri þegar kominn með lagið „Þrjú tonn af sandi“ á heilann fyrir Sahara-hlaupið og óttaðist að það myndi sitja fast í höfðinu á honum meðan á hlaupi stæði. Þannig glataðist mikilvægur tími við það að hrista hausinn í hlaupinu til þess að losna við lagið úr höfðinu.

Samþykkt að hlaupa langt n.k. miðvikudag. Tillaga um 24 km. „Ja, ekki styttra“ sagði Ágúst og vildi helst fara 28 km. Enda er hann í prógrammi fyrir Sahara. Hlauparar mæti með drykki með sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband