Færsluflokkur: Bloggar

Aumingjar

“Ég er aumingi” heitir ljóð eftir Þórberg. Svo voru mál vaxin á þessum degi að mættir voru einungis þrír hlauparar á lögboðnum hlaupadegi Samtaka Vorra: dr. Jóhanna og tveir af hlaupasveinum hennar, Skrifari og blómasali. Jóhanna var allt annað en sátt með mætinguna og lét þau orð falla að þegar hún væri reiðubúin að taka svolítið seríöst hlaup þá byðist bara hlaup með aumingjum. Við Einar tókum þetta ekki til okkar og vissum sem var að Jóhanna meinti þetta meira sem hvatningu til okkar að standa okkur í hlaupi dagsins. Sem við gerðum, á okkar hátt. 

Vitanlega veltum við fyrir okkur hvar Ágúst væri, hann hafði sent myndir af brúsum með torkennilegu innihaldi og drógum við okkar ályktanir af því: líklega væri hann lagstur í kojufyllerí á einhverjum orkudrykkjum.

Við af stað í einmuna hlaupaveðri daginn fyrir Skírdag og héldum hópinn inn í Skerjafjörð. Þá heltók skynsemin skrifara og hann ákvað að ganga, en þau hin héldu áfram á skokkinu. En er skrifari kom í námunda við Skítastöð beið blómasali hans þar og hafði einnig ákveðið að vera skynsamur, enda bíður hlaup í fyrramálið frá Minni-Borg um Sólheima og tilbaka með viðkomu í árbíti hjá Gylfa Kristinssyni. Við fórum á léttu tölti tilbaka um Skuggahverfi Skerjafjarðar og ræddum bækur Stefáns Mána og þann veruleika sem þær endurspegla. Einnig spillingu í íslensku samfélagi. 

Gott hlaup þótt stutt væri. Þetta er allt að koma. Næst verður hlaupið frá Laug Vorri Föstudaginn langa kl. 10:10.


Einmunablíða á laugardegi

Hópur fólks kom saman á Ljóninu í gær til að fagna Fyrsta föstudegi hvers mánaðar. Var hér um að ræða óúttekinn Fyrsta frá því á árinu 2009. Mætt voru prófessor Fróði (hlaupinn), Ólöf, Jörundur, Skrifari og Íris kona hans. Menn tóku til matar síns og kneyfuðu ölið af kappi meðan Jörundur sagði gamlar sögur úr baráttunni, m.a. þegar hann var handtekinn fyrir að hlæja að löggu sem datt og meiddi sig.

Skrifari fór síðan að hlaupa í morgun í veðurblíðunni, Vesturbæjasólin skein glatt, en hiti var ekki nema rétt um tvö stig. Það er einstök tilfinning að vera kominn á ný með braut undir sóla og byrjaður að hreyfa sig, alveg inn diss lekt, eins og Fróði hefði kallað það. Fór sem fyrr á rólegu nótunum, hljóp og gekk til skiptis, vitandi að svona á þetta að vera og þannig byggist þrek og úthald upp. Hljóp fram úr nokkrum konum úr Kópavogi sem voru á skokkinu og lét Skítastöð ekki nægja í þetta skiptið heldur fór alla leið út í Nauthólsvík. Beygði af þar og fór Hlíðarfót, yfir um hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina til baka. Dásamlegt! Er til eitthvað betra en að vera kominn í gírinn, bæta þannig geðheilsuna, bægja frá Allanum og seinka innlögninni? Að maður tali ekki um gyllinæðina!

Nú má hugsa með tilhlökkun til þess tíma er ég kemst með félögum mínum á sunnudagsmorgni inn í kirkjugarð að hlýða á Formann til Lífstíðar fara með æviatriði Brynleifs Tobíassonar af sinni alkunnu nákvæmni og sannleiksást.


Endurkoma á vori

Ja, það fór þó aldrei svo að Skrifari mætti ekki af nýju til hlaupa. Raunar hafði hann laumast einum þrimur sinnum út að hlaupa í kyrrþey áður en hann hafði kjark til að sýna sig innan um félaga sína. Seinast var það á mánudaginn eð var, en þá varð prófessor Fróði á vegi hans fyrir slysni. Prófessorinn horfði á fætur Skrifara þar sem hnýttir höfðu verið hlaupaskúar á fæturna. “Eru þetta hlaupaskór?” spurði hann forviða. “Hvað eru hlaupaskór að gera á fótunum á ÞÉR?” - og þannig áfram. 

Nú var mætt á miðvikudegi á lögboðnum hlaupatíma og mætt voru Jóhanna, Flosi, fyrrnefndur Fróði, Magnús tannlæknir og Einar blómasali. Einar hefur heitið Skrifara mórölskum stuðningi á endurkomutíma meðan þrek og úthald er að byggjast upp. Á meðan er bannað að hæða og leggja í einelti. Er komið var út á stétt dúkkaði upp hreppsnefndarfulltrúi Sveinsson og bar ekki við að kasta kveðju á Skrifara enda þótt nærvera hans hljóti að teljast til nýlundu. Ja, sá hefur ekki áhyggjurnar af atkvæðum í hreppsnefndarkosningunum á vori komanda.

Einar er á leið í Kaupmannahafnarmaraþon í maí og má því fara að herða sig, hann ætlaði 16 km. Aðrir voru hófstilltari. Lagt upp á rólegu nótunum og fékk Skrifari það óþvegið frá ónefndum hlaupurum, hvort hann væri ekki þreyttur, hvort hann ætlaði alla leið niður á Einimel o.s.frv. Ég lét ókvæðisorðin sem sem vind um eyrun þjóta og hélt mínu striki og hélt enda í við Flosa, Einar og Magga út í Skerjafjörð, ja, eða kannski væri nákvæmara að segja að Lambhóli, nánast. Þá tók við ganga hjá undirrituðum, enda mikilvægt að fara sér hægt og skynsamlega í endurkomunni og ekki of geyst. Á þessu gekk út að Skítastöð, en þar sneri ég við og fór tilbaka. Nú brá svo við að ég var orðinn heitur og gat tekið Ægisíðuna á góðu blússi. Mætti þar TKSurunum Guðrúnu Geirs, Rúnu, Hönnu og Öldu - svo var Baldur Tumi eitthvað að villast þarna. 

Kom þreyttur og sveittur til baka til Laugar og hitti Magga, sem fór fyrir flugvöll. Gott hlaup sem lofar góðu um framhaldið. (Nefndi e-r Fyrsta Föstudag nk. föstudag?)


Að kunna á klukku

Fjórir vaskir sveinar mættir til hlaupa á sunnudagsmorgni kl. 9:10. Þetta voru gamli barnakennarinn, barnatannlæknirinn, blómasalinn og skrifari. Það blés hressilega, en við létum það ekki stöðva okkur, og það enda þótt skrifari væri vettlingalaus. Annar vettlingurinn var talinn vera í Kópavogi og bauðst Magnús til að kippa honum með næst.

Töltum af stað á rólegu nótunum og fórum okkur í engu óðslega. Rætt um bíla og verð á bílum. Sömuleiðis viðhald bíla og kostnað við það. Það var jafnvel gengið á völdum stöðum og var engu minni áreynsla en að hlaupa. Farinn Hlíðarfótur og tókst bara bærilega, þeir hinir eitthvað á undan okkur Magnúsi.

Svo komu hinar nöktu staðreyndir í ljós er komið var til Laugar: fjórir piltar hlaupa kl. 9:10, Ó. Þorsteinsson fer kl. 10:00 og Þorvaldur Gunnlaugsson kl. 10:10! Hér kynni einhverjum góðum manni að detta í hug að vantaði samræmingu, ellegar að eitthvað sé ábótavant þekkingu ónefndra manna á gangverki tímans. Er hér með lagt til að framvegis verði samræmis gætt og menn hlaupi þá saman á fyrirfram útgefnum og vottuðum tíma.

Jæja, við vorum rekin úr Örlygshöfn sakir klórmagns og var þá farið í þann stóra. Þar gengur illa að halda uppi samræðum, en mætt voru Formaður til Lífstíðar, Mímir, Þorbjörg, Stefán verkfræðingur, Margrét Ásgeirsdóttir barnakennari í Melaskóla Íslands, skrifari og Þ. Gunnlaugsson. Rætt um heilsufar fjarstaddra félaga og framtíðarhorfur. 

Góður hlaupamorgun að baki og nú verður aldeilis tekið á því við að koma skrifara í skikkanlegt hlaupaform.


Götótt skýla

Jæja, nú voru nokkru fleiri mættir til hlaupa og Hlaupasamtökin óðum að ná vopnum sínum og öðlast fyrri dýrð. Hlauparar voru Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur Gunnlaugsen, Einar the Florist, Bjarni Benz og Magnús tanndráttur og Kirkjuráð. Fátt var sagt af afrekum hlaupara en þegar vansvefta skrifari mætir til Laugar hafandi náð svefni hinna réttlátu bylur á honum bylgja ókvæðisorða og illmælga um leti og ódug, líkt og sjálfur V. Bjarnason væri mættur á staðinn. 

Nú er ekkert meira með það nema að menn sammlast í hefðbundinn Sunnudagspott með þekktum gestum og venjubundnum vísbendingaspurningum. Einhver hafði hitt Baldur Símonarson sem ku vera óvenju Ófyrirleitinn þessa dagana, hortugur og uppástöndugur og var því fagnað í Potti að lífsmark væri með fólki á Skúlagötunni, þótt ekki væri von til þess að eiturbrasarinn í hinu sósíalíska eldhúsi mundi geta lengt lífdaga vors ástsæla vinar með sínum snitsel von schwein oder kalb. 

Nema hvað, kemur ekki Þorvaldur Gaunnlaugsen og er með áberandi gat á sundskýlu sinni aftanverðri. Reglu- og siðgæðisvörður Samtaka vorra benti Þorvaldi á þennan annmarka á dresskódi dagsins, en hann lét sér þetta í léttu rúmi liggja. Rætt var um fréttir síðustu daga af ástalífi manna og kvenna í Vesturbæjarlaug og rann þá upp sá fagri sannleikur fyrir Þorvaldi að hann tefldi mögulega fulldjarft með götóttum fatnaði á viðkvæmasta stað.

Jæja, Formaður upplýsti að næst yrði fagnað Fyrsta Föstudegi 9da júní að heimili hans Kvisthaga fjegur og þá yrði upplýst um hlaupatilhögun sumarsins. Kemur þá ekki í ljós að þrír félagar hafa verið grasekklar að undanförnu: Formaður, skrifari og Jörundur prentari og hafa ekki haft rænu á að slá saman í púkk og slá upp veizlu með víni og villtum meyjum. Jörundur kvartaði yfir að óljóst væri hver myndi gefa honum að borða í fjarveru frú Önnu Vigdísar, í gær hefði Biggi Jógi séð aumur á honum, en í dag yrði hann mögulega að banka upp á hjá blómasalanum og þykjast vanta borvél. 

Framundan: lokað í Vesturbæjarlaug. Sundhöll. Í gvuðs friði. 


Lögð fyrir snúin vísbendingaspurning

Við vorum mættir þrír, Ólafur Þorsteinsson, Bjarni Benz og skrifari. Hefðbundinn sunnudagur, fallegur vordagur, heiðskírt og stefndi í sautján stiga hita. Lögðum upp eftir hefðbundna úttekt á viðburðum vikunnar, þar sem frammistaða V. Bjarnasonar í yfirheyrslu á Olaviusi Olaviusi bar hæst.

Mættum Unni á Ægisíðu og svo manni sem Ó. Þorsteinsson heilsaði innilega. Því kom okkur á óvart þegar Formaðurinn spurði: "Hver var þessi maður?" Það reyndist hins vegar upplegg í afar snúna vísbendingaspurningu sem entist í einar tuttugu mínútur í Potti.

Hlaupið í bongóblíðu með þægilegum hita og hægum andvara sem var svalandi. Aftur sama spursmál hjá þessum hlaupara, verður það Skítastöð, Hlíðarfótur eða full porsjón? Þar eð félagar mínir biðu eftir mér á strategískum stöðum var ekki undan því vikist að taka fulla porsjón með þeim, enda stillti Formaður sér upp þar sem undankomu var auðið, hindraði brotthlaup og benti á leiðina áfram. Venju samkvæmt heilsaði Formaður á báða bóga með enskri kveðju - og aðallega íslenskum barnafjölskyldum.

Kláraði gott hlaup, en var búinn að keyra mig í þrot á Sæbraut. Frikki Meló tók á móti okkur við Melabúð og bauð upp á kaffi.

Pottur góður með völdum manni í hverju rúmi: Jörundur prentari og Jón Jörundur dóttursonur hans, próf.dr. Einar Gunnar, Mímir, Dóra, Stefán og svo við hlauparar. Vísbendingaspurningin snúin, spurt um mann í utanríkisþjónustunni og með fylgdu alls kyns tengingar út og suður. Enginn gat giskað á rétt svar, enda kom í ljós að spurt var um algerlega óþekktan einstakling.

Næst hlaupið á morgun, mánudag, kl 17:30.


Full porsjón

Mættir sem fyrr á sunnudagsmorgni Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur Gunnlaugsson og Ólafur skrifari. Veður milt, en sólarlaust er hlaup hefst að loknum fyrstu bollaleggingum í Brottfararsal. Til umræðu fyrirhuguð sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla, þeirrar merku og öflugu menntastofnunar þeirra Gísla og Helmuts. Einnig merkilegt afmælishóf á Sal Reykjavíkur Lærða Skóla sl. laugardag. 

Lagt upp og bryddaði Þorvaldur upp á þeirri nýbreytni að fara malarstíginn austan við Laug í stað þess að fara eftir gangstétt eins og hefðin býður. Setti að okkur hinum nokkurn ugg við svo afgerandi frávik frá viðtekinni venju. 

Skrifari að fara í annað skiptið í hlaup eftir átta mánaða hvíld og hlustaði því venju fremur eftir hljóðum og merkjasendingum þessa þunga skrokks. Hlaupurum sem koma tilbaka eftir fjarvistir er vel tekið í Hlaupasamtökunum, það er ekki híað og bent á þá eða þeir hafðir að athlægi, háði og spotti. Þeir eru hvattir áfram og studdir góðum orðum. Ekki var farið hratt yfir, heldur staplað áfram í takt við getu skrifara, jafnvel gengið. 

Nú skyldi stefnan sett á Skítastöð og vonir bundnar við að lukkast mætti enn betur en seinast að ljúka góðu hlaupi. Þegar þangað kom blasti hins vegar við að engin sérstök ástæða var til að láta staðar numið þar, enda blasti Nauthólsvíkin við með björtum fyrirheitum í allri sinni dýrð. Þeir hinir voru lítillega á undan skrifara, en þó ekki svo mikið að vandkvæðum væri bundið að draga þá uppi með góðum spretti.

Þegar komið var í Nauthólsvík þurfti að ákveða framhaldið og nefndi skrifari að hann myndi beygja af og fara Hlíðarfót. Formaður tók það ekki í mál og kvað upp úr með það að úr því komið væri í Nauthólsvík lægi beinast við að halda áfram í Kirkjugarð. Svo var gert. Minntist skrifari orða Kirkjuráðsmanns Kristinssonar er hann sagði eitt sinn að það gilti einu þótt haldið yrði í humátt eftir Formanni eftir Nauthólsvík því að hann myndi hvort eð er eyða restinni af hlaupinu í göngu og skraf.

Við fengum skýrslu af ágætu starfi Hollvinasamtaka Menntaskólans í Reykjavík og var m.a. rætt um mönnun stjórnar þeirra merku samtaka. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofuhálendið, Klambra og alla leið niður á Sæbraut. Þar var furðu lítið gengið og talað, en tekinn nánast samfelldur sprettur út að Kalkofnsvegi. Gengið og hlaupið um Miðbæ, gengið upp Túngötu en svo skokkað tilbaka til Laugar. Skrifari þreyttur og sveittur eftir gott hlaup, en að sama skapi ánægður með að vera kominn svo fljótt í hlaupagírinn.

Hittum Unni í Móttökusal og lýsti hún mikilli ánægju með afrek dagsins. Í Potti voru próf. dr. emeritus Einar Gunnar, Mímir, Dóra, Þorbjörg og Stefán verkfræðingur. Voru umræður allar upplýsandi og fræðandi með bílnúmerum og persónufræði. Bjart framundan.


Endurkoma - bjartar vonir

Í day varð sá sögulegi viðburður að Skrifari mætti af nýju í hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Fyrir á fleti voru Ólafur Þorsteinsson og Þorvaldur Gunnlaugsson og fögnuðu þeir endurkomunni innilega. Við hófum þegar í Brottfararsal að gefa yfirlit yfir umfjöllunarefni dagsins: Vilhjálm Bjarnason, starfsumhverfi tannlækna, ættir kvenna o. fl. Lagt af stað í fögru veðri stundvíslega kl. 10:10, en mikið söknuðum við Magga. Ekkert jafnast á við sunnudagshlaupin, þau eru helgistund með heilbrigðisinnslagi. 

Það skal viðurkennt að skrifari var bæði þungur og hægur á sér, stirður og mæðinn. En það sem skipti máli var að fara út og hreyfa sig og standa við áður útgefin loforð um hlaup í apríl. Að ná upp svita. Það tókst þótt ekki væri farið lengra en að Skítastöð, þar kvaddi skrifari félaga sína, þakkaði fyrir samhlaupið og sneri við. 

Það var ýmist hlaupið eða gengið tilbaka og komið í Pott upp úr 11. Í Potti voru próf. dr. Einar Gunnar, Denni, Jörundur, og síðar bættust Ólafur Þ. og Þorvaldur G. auk Stefáns verkfræðings í hópinn. Eins og gefur að skilja var farið víða í umfjöllun dagsins, rétt fyrir rangt svar í Hrepparnir keppa, starfsumhverfi tannlækna, leikhúsgagnrýni, Eftirlitsstofnun EFTA, ný hlaupaleið í Hrútafirði á sumri komanda, rektorsefni Reykjavíkur Lærða Skóla o. fl. o. fl. Ávallt hugað að ættum manna og hefðbundinni persónufræði. Gaf Formaður það út að Sæmundur Þorsteinsson væri mátulega hortugur fyrir hópinn og æskileg viðbót við félagatalið, en Sæmi er sonur Steina sem var lengi sundlaugarvörður í Laug Vorri.

Allt um það, ákveðið að hlaupa af nýju á morgun, Verklýðsdaginn, kl. 10:10. Vel mætt!


Skrifari mætir til hlaupa á ný

Þau tíðindi urðu í dag í annálum Samtaka Vorra að Skrifari mætti til hlaups á sunnudegi og mun vera í fyrsta skipti í ár að það gerist. Aðrir mættir voru Jörundur, Maggi og Einar blómasali. Veður fagurt, hægur vindur og 6 stiga hiti, gerist vart betra á þessum árstíma. Var skrifara að vonum fagnað eftir svo langa fjarveru, en jafnframt lýst yfir vilja til að fara hægt, jafnvel ganga inn á milli.

Í Brottfararsal var sett fram hugmynd um það að Vilhjálmur þingmaður vor flytti tillögu í þingflokknum um slit stjórnarsamstarfs. Með því tryggði hann sér þingsetu alla vega eitt kjörtímabil í viðbót. 

Lagt upp frá Laug á hægu tempói og snerist umræðan um væntanlegan Kastljóssþátt í kvöld þar sem er að vænta mikillar afhjúpunar. Við Jörundur héldum hópinn en þeir hinir fóru á undan með miklum gorgeir og yfirlýsingum. Fórum bara rólega og ræddum möguleikann á að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoni, við myndum þó alla vega vera á undan VB þótt engar yrðu rósirnar.

Gengið í Skerjafirði og leitað að Bauganesi. Svo var hlaupið áfram og eftir það skiptist á göngu og hlaupi sem er svo sem ekkert nýtt á sunnudögum. Náðum þannig einum 5 km og allnokkrum svita sem verður að teljast bara þokkalegt í fyrsta hlaupi eftir meiðsli. Mættum Línu á leið til kirkju og lýsti hún yfir mikilli ánægju með þessa tvo hlaupagarpa.

Pottar allir meira og minna dysfunksjónal svo að menn urðu að hnappast í stóra pottinn, en þar var valinn maður í hverju rúmi: Helmut og Jóhanna, Unnur og Pjetur, Tobba, Einar Gunnar, Mímir, Dóra og Stefán verkfræðingur auk okkar Jörundar. Sumsé enginn Formaður til Lífstíðar og er því eðlilegt að menn spyrji: hvar var Formaður á svo ágætum degi þegar við helstu drengirnir í Vestbyen hlupum?

Næst er hlaupið á morgun mánudag kl. 17:30.


Hádegispottur

Pottur vel mannaður á nýju ári: Formaður Vor til Lífstíðar, Jörundur prentari, Mímir, Einar Gunnar, Þorbjörg, Dóra, Helga, Unnur, Pjetur, Stefán og skrifari. Hér var ekki töluð vitleysan. Upplýst om tvær nýjar krossfestingar: Ólafur Þorsteinsson er nýr handhafi gull merkis Víkings, sem aðeins 20 manns fá að bera á hverjum tíma. Jörundur var heiðraður með silfurmerki Flugbjörgunarsveitarinnar. Það eru heiðursmenn á meðal vor. Rætt um væntanlegar hreinsanir meðal toppa lögreglunnar í Reykjavík, hrókeringar í röðum sendiherra í utanríkisþjónustu og væntanlega frambjóðendur til forseta Íslands.

Minnt er á Þorrablót Samtaka Vorra 5. febrúar nk. Þátttaka óskast tilkynnt skrifara.

í gvuðs friði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband