Færsluflokkur: Bloggar
2.5.2018 | 21:33
Stutt
Þegar við Magnús tannlæknir hlupum í dag af stað frá Laug brast á með snjóstormi og sá ekki út úr augum og horfur á mannskaða með þessu framhaldi. Borðleggjandi að slá hlaupið af. Þessi pistill er þegar orðinn lengri en hlaup dagsins svo að mál er að linni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2018 | 18:41
Ófyrirleitin ósannindi
Jörundur prentari var bandsjóðandivitlaus þegar hann kom í Sunnudagspott. Hann sagði að ómerkilegur fréttasnepill á Nesinu flytti þau ósannindi að TKS væri elsti hlaupahópur landsins. Hann upplýsti að TKS hefði byrjað sem gönguhópur kvenna og ekki umbreyst í hlaupahóp beggja kynja fyrr en eftir að Jón Ásbergsson, Þórarinn Eldjárn, Gísli Ragnarsson o. fl. hófu hlaup frá Vesturbæjarlaug undir merkjum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Vissulega voru aðeins hlaupnir 1-3 km í næsta nágrenni Laugar fyrsta árið, en eftir það lengdu menn í 5km án þess að finna fyrir því eða blása úr nös. Við höldum fast í þá söguskoðun að Samtök Vor séu elsti og virðulegasti hlaupahópur landsins, en jafnframt sá hógværasti.
Ólafur Þorsteinsson hljóp einn í dag, enda var Skrifari í ferð útskriftarnema frá Reykjavíkur Lærða Skóla 1978 í gær og þar var Saungvatn. Ólafur kvað það hafa verið einmanalegt að hlaupa einn í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2018 | 20:50
Svo gott að það er vont
Einar seinn að vanda er frú Vilborg skilaði honum til hlaups. Við Bjarni vorum ekki að bíða eftir þessu en lögðum upp í ágætu veðri, skýjað, rigning, 8 stiga hiti, logn, gerist ekki betra. Aðrir vildu doka eftir blómasalanum, það voru Jóhanna, Ólafur heilsulausi, G. Löve og Baldur Tumi. Léttir vorum við félagarnir á okkur og ekki vil ég minnast þess að þau hin hafi náð okkur fyrr en seint og um síðir. Og Einar bara alls ekki. Ólafur fór Suðurhlíð, aðrir fóru styttra, en við Bjarni settum stefnuna á Austurbæinn - og ekkert bólaði á Einari.
Við gengum yfir brúna yfir Kringlumýrarbraut og fórum svo fetið eftir það. Kemur ekki Einar sprengmóður og biður okkur í gvuðanna bænum að ganga spölkorn, hann væri alveg búinn. Hlupum af stað upp Boggabrekkuna, yfir hjá Útvarpinu, yfir Miklubraut og svo niður Kringlumýrarbraut á spretti. Þar rákumst við á Bigga Jóga sem hringdi fimm sinnum í blómasalann í dag að biðja hann að sækja fyrir sig sorptunnu í Hafnarfjörðinn og flytja hana á nýja Golfinum í Vesturbæinn. Valdi Einar honum nokkur hnitmiðuð ónefni og einkunnir.
Við áfram niður á Sæbraut og svo var tekinn samfelldur sprettur út að Hörpu. Eins og menn geta lesið er þessi hlaupari óðum að hlaupa sig niður á gamalt form og til alls vís í sumar. Eftir þetta var það bara formsatriði að klára tæpa 14 km og var það góð tilfinning að koma til Laugar og komast í Pott, þar sem við hittum Jóhönnu, Baldur og Ólaf hinn. Hefðu mátt vera fleiri hlauparar í dag - og hvar er Gústi?
Þetta var svo gott að það var vont - og á bara eftir að versna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2018 | 19:36
Góður dagur
Mætt á sunnudagsmorgni Ólafur Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Tobba og Ólafur skrifari. 6 stiga hiti við upphaf hlaups, heiðskírt og algjör stilla. Gat ekki betra verið! Magnús bar sig illa, kvaðst kvalinn í hálsi og var lofað rólegu hlaupi. Á það reyndi þó ekki því að hlaup var allþétt, fólk hélt hópinn alla leið og ræddi málin af yfirvegun og upplýsingu. Benzinn hafði minnt Formann til Lífstíðar á hlaup dagsins, en lét ekki sjá sig. Enginn vissi hvar blómasalinn hélt sig. Magnús ætlaði að segja sögu í Nauthólsvík, en hætti við af ótta við að hún endaði á netinu. Svona eru menn farnir að ritskoða sjálfa sig.
Þetta var bara hefðbundið á sunnudegi og sosum ekki mikið um það að segja, utan hvað menn voru á því að nú mætti Hjálmar okkar fara að skrúfa frá vatninu í vatnshönunum í borgarlandinu, úr því að búið er að opna fyrir vatnið í Kirkjugarðinum.
Mannval í Potti, próf. emeritus dr. Einar Gunnar, Jörundur, Mímir og Stefán verkfræðingur, Guðni Kjartansson landsliðsþjálfari, sem er nýr pottfélagi, uppfullur af skemmtisögum. Góður hlaupadagur að baki og Allinn á undanhaldi, gyllinæðin fjarskyld frænka. Í gvuðs friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2018 | 21:52
Hlaupið með stút á munni
Þetta var náttúrlega engin hemja hvernig menn hegðuðu sér í hlaupi dagsins. Talandi um metoo, þarf ekki að fara að ræða saman um youtoo? Meira um það seinna.
Menn minntust þess í dag að félagi okkar, Vilhjálmur Bjarnason, á afmæli. Tildrög máls voru þau að hlauparar söfnuðust saman til hefðbundins föstudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi. Mættir voru Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, Ólafur heilbrigði, Benz og Benzlingur, skrifari og blómasali - seinn að venju. Mér var eiginlega misboðið að sumir skyldu mæta fimm mínútum of seint og ætlast til þess að beðið væri eftir þeim. Kom ekki til greina. Við Þorvaldur af stað á hægu tölti. Hlaup okkar tveggja eru jafnan tíðindalítil, fátt er sagt og hvítlaukurinn ríkir ofar hverri kröfu. Eitthvað rætt um einhliða leiðara, eitthvað úr eðlisfræðinni hjá dr. Fróða. Þegar menn nefna eðlisfræði rennur niður járntjald í huga undirritaðs og hann óskar sér þess að vera helst staddur annars staðar. Því var ekki margt rætt með okkur félögum.
Nema hvað áður en mjög löng vegalengd var að baki var þessi hlaupari á fullu stími og varð ekki við neitt ráðið. Hann varð ekki var við aðra hlaupara fyrr en í Nauthólsvík - og Gústa fyrst í brekkunni upp hlíðina. Spurt var um afdrif blómasala. Prófessorinn kvaðst hafa veitt honum uppbyggilegar ráðleggingar, sumsé að vera ekkert að reyna að hlaupa neitt langt í dag. Ekki þurfti að viðhafa miklar fortölur til þess sannfæra blómasalann að það væri engin glóra í að fara lengra en að Skítastöð og snúa þar við og stefna á Laug. Að hugsa sér- þetta kalla menn vini sína!
Jæja, þarna tættum við upp hlíðina, og takið eftir: skrifari var enn í för með félögum sínum. Nema hvað þegar upp er komið vita menn ekki fyrr til en það dúkkar upp föngulegur kvenmaður á reiðhjóli sem kannast eitthvað við Gústa, en hann missir gjörsamlega taumhaldið, breiðir út faðminn og gerir ráðstafanir til þess að nálgast viðfangið með stút á vör. Við félagarnir náðum ekki að grípa inn í til þess að forða Samtökum Vorum frá álitshnekki, kossaflangs átti sér stað og dreyminn Fróði hljóp eftir þetta með stút á vör.
Þetta var hefðbundinn föstudagur, frá Öskjuhlíð var farið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar og Klambra, en þá var skrifari orðinn einn. Hlemmur og Sæbraut í fullkominni einsemd og eindrægni. Meira sem þessi hlaupari gat áorkað í hlaupi dagsins, enda var ekki þurr þráður á honum er komið var til Laugar.
Í potti veltu menn fyrir sér muninum á eðlisefnafræði og lífefnafræði. Ágúst fullyrti að Guð væri eðlisefnafræðingur. Bjarni ætlaði að fara og fá sér hammara með trúbróður sínum, Denna af Nesi, og var ekkert að auglýsa það of mikið.
Næst verður hlaupið á sunnudag kl. 9:10. Hvað menn athugi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2018 | 16:56
Fyrsta sunnudagshlaup í endurkomu
Boð var látið út ganga um að hlaupið skyldi á sunnudegi kl. 9:10. Til öryggis hringdi skrifari bæði í Ólaf Þorsteinsson og Einar blómasala til að árétta tímann. Mættur auk þessara þriggja Flosi barnakennari. Einar búinn að fara eina 10 km að morgninum og stefndi á 20 samtals í dag. Magnús forfallaður í morgunkaffi. Ætlunin var að fara rólega og gefa sér góðan tíma til að njóta veðurblíðunnar og náttúrunnar á þessum fagra morgni. Reyndin varð síðan sú að Flosi og Einar tættu af stað og skildu okkur frændur eftir í rykskýi.
Málefni líðandi stundar rædd á leiðinni inn í Nauthólsvík, m.a. starfslok Ó.Þ. hjá akademíunni og það sem tekur við, en frændi er hlaðinn störfum á ýmsum vettvangi, m.a. við gerð sögusýningar um Víking í tilefni 110 ára afmælis knattspyrnufélagsins. Í Nauthólsvík biðu þeir félagar eftir okkur og saman var tölt í Kirkjugarð. Það var hátíðleg stund að rölta um garðinn og virða leiðin fyrir okkur. Áfram haldið um Veðurstofu og Hlíðar, sprett úr spori á Klömbrum, en þeir hinir aftur komnir aðeins á undan okkur. Það var einhver þreyta í karli í dag, trúlega hefur föstudagshlaup enn setið í honum.
Á Sæbraut fóru menn aðeins að róa sig og var hlaupið eftir það nokkuð saman og rætt um nýjasta flugdólginn. Engin hylling við Kaffi París, hornborðið setið af túristum. Einar smellti myndum af hópnum á Austurvelli. Það hlýtur að hafa verið tilkomumikil sjón. Gengið upp Túngötu, en skeiðað niður Hofsvallagötu. Gott 12 km hlaup og mega menn vel við una.
Í Pott mættu auk hlaupara dr. Einar Gunnar, Dóra, Jörundur og Þorbjörg. Fræðst um Emil Thoroddsen, tónskáld og einn af stofnendum Víkings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2018 | 20:42
Enginn skilinn eftir
Föstudagur. Hástemmdar yfirlýsingar og svardagar að morgni, en eitthvað farið að snjóa yfir fögur fyrirheit er leið á daginn. Altént mætti blómasalinn ekki fyrr en við hin vorum að leggja upp frá Laug. Þetta voru Jóhanna, Rúna, Ólafur Gunn., Guðmundur Benz, Bjarni Benz, Þorvaldur og skrifari. Enginn Fróði, enginn Flosi.
10 stiga hiti, bjart, en einhver gjóla á sunnan. Ákveðið að fara hefðbundinn föstudag, sem er austur Sólrúnarvelli, hjá Skítastöð og inn í Nauthólsvík, upp á Flanir, beygt upp Hi-Lux og áfram upp Öskjuhlíðina, hjá Veðurstofu, Saung- og Skák, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig áfram til Laugar. Fyrirheit um að enginn skyldi skilinn eftir gleymdust þegar á Hossvallagötunni og Skrifari var skilinn eftir. Þorvaldur lónaði að vísu rétt fyrir framan hann, og á endanum fylgdust þeir að inn í Nauthólsvík, þar sem Þorvaldur beygði af og fór Hlíðarfót.
Skrifari er vanur að standa við markmiðssetningar sínar og hljóp svo sem fyrr var lýst. Nú eru Ásatrúarmenn búnir að girða fyrir Hi-Lux og þurfti ég að fara gegnum skóg til þess að komast inn á rétta leið. Hér mátti rifja upp gamla þjóðsögu um HiLux-jeppa sem stóð afsíðis í rjóðri fyrir töttögu árum og rúðurnar voru hélaðar, tölum ekki meira um það. Hljóp upp brekkuna, en hvíldi samkvæmt venju er upp var komið. Svo var þetta nokkuð hefðbundið með Veðurstofuhálendinu, Saung- og Skák, Klömbrum, Hlemmi, Sæbraut og þannig áfram.
Mikið sem þessi hlaupari var sveittur og þreyttur er komið var til Laugar! Þá voru félagar mínir þegar komnir til baka, en fögnuðu öngu að síður skrifara sínum. Við tók samtal um mat og matargerð.
Þetta er allt að koma, þrekið vex með hverju hlaupi, kílóin renna af í stríðum straumi og um leið verða hlaupin auðveldari.
Næst sunnudagur kl. 9 10.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2018 | 20:40
Ágúst náði Flosa
Ágúst hortugur er hann kom á Plan, kannaðist ekki við að skulda neinum skýringar á fjarvist sinni frá hlaupi sl. mánudag. Aðrir mættir á miðvikudegi: Flosi, Einar blómasali, Ólafur Gunnarsson, Guðmundur Löve og Bjarnason, Jóhanna og skrifari. Stíf austanátt og 8 stiga hiti, sólarlaust. Gústi vildi fara 3 Perlur, aðrir virtust sáttir við þá tillögu, en skrifari hugðist fara Suðurhlíð, sem er það lengsta í ár.
Þetta var ansi stíft að hlaupa móti vindinum, en tókst vonum framar, og að þessu sinni hélt skrifari dampi alla leið inn í Nauthólsvík í einni lotu, sem er gegnumbrot og þáttaskil á endurkomutíma. Ekki var látið staðar numið þar en haldið áfram á Flanir. Farið neðan við Kirkjugarð meðan aðrir hlauparar fóru Hi-Lux og brekkur, Jóhanna og Gummi fremst, svo Flosi og loks kom Gústi og var aðframkominn, en Jóga og Gummi urðu aldrei vör við hann. Ágúst náði þó Flosa og má vel við una.
Skrifari á fullu blasti út að Kringlumýrarbraut og tók fram úr G. Bjarnasyni. Gengið á kafla upp Suðurhlíð, en svo var allt sett á fullt og hlaupið í einum rykk niður Öskjuhlíð, hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina alla leið að Háskóla. Svona performans hefur ekki sést hjá þessum hlaupara um langt árabil.
Komið við í Melabúð og rabbað við Kaupmann áður en haldið var til Laugar. Einar kom með skýringu á slakri frammistöðu í hlaupi dagsins og tengdist einkar ólystugum hádegisverði. Var það ófögur lýsing. Áhyggjurnar snúa hins vegar að morgundeginum, þá er vigtunardagur karla í Vesturbæjarlaug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2018 | 23:00
Dapurt
Menn voru slakir í dag. Mætt til hlaupa á föstudegi próf. dr Fróði, Jóhanna, Súsanna, Maggie, blómasali, Benz, Þorvaldur Gunnlaugsson, Skrifari. Svo kvaðst Denni skransali hafa hlaupið, en fyrir því eru engar áreiðanlegar heimildir.
Blómasalinn sporðrenndi heilu stykki af Cadburys sem Jörundur gaf honum fyrir kl 9 í morgun þrátt fyrir yfirlýstan ásetning um að hann væri ekki lengur háður súkkulaði.
Það var lagt upp í góðu veðri, sól, stilla, fimm stiga hiti hið minnsta. Þorvaldur að koma tilbaka eftir tveggja mánaða veikindi, slappur og útnefndi Skrifara sem sinn héra. Farið rólega og fljótlega grúppuðu sig saman Skrifari, Þorvaldur, Benz og blómasali. Það var nefnilega þannig að er komið var í Skerjafjörð var sá feiti búinn að gefast upp. Það þurfti meiriháttar átak að draga hann áfram, alls kyns afsakanir spruttu fram af vörum hans, súkkulaðiát, svefnleysi, eggjaát í gærmorgun, og ég veit ekki hvað.
Skrifari hélt sínu striki, enginn afsláttur, þeir hinir máttu bara reyna að halda í við hann. Áfram steðjað fram hjá Skítastöð inn í Nauthólsvík og svo upp hjá HR og þá voru þeir þar á göngu, blómasali og Benz. Við Þorvaldur komum á feiknaferð og rífum þá upp úr dagdraumum og neyddum þá til að lyfta fótum upp af malbikinu.
Á þessu gekk út Hlíðarfót, hjá Gvuðsmönnum og yfir á Hringbraut. Þá var þetta eiginlega komið, eftir þetta lá bein leið tilbaka til Laugar. Sumir á ótrúlegu stími.
Pottur góður að vanda. Denni mættur og sagði lygasögur af eigin hlaupaafrekum. Svo var ætt á Ljónið að halda upp á Fyrsta Föstudag. Þangað mættu allir fyrrnefndir hlauparar, nema Maggie, en að auki Helmut og Jörundur, uppástöndugir og kjaftforir sem aldrei fyrr.
Næsta hlaup: sunnudagur kl. 9:10, rólegt hvíldarhlaup með stoppi í Garði. Eru það eindregin tilmæli félagsmanna að Formaður til Lífstíðar láti sjá sig þá og taki góða rispu í persónufræðum og bílnúmerum, auk þess sem saga Brynleifs Tobíassonar verður rifjuð upp.
Í gvuðs friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2018 | 20:23
Vorleysingar
Hvílíkur hópur sem mætti til miðvikudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins! Mætt voru: próf. Fróði, Jóhanna, Flosi, Ólafur Gunn., Guðmundur Bjarna, Skrifari og Einar blómasali, og svo fréttist af Bjarna Benz á næstu grösum og Baldur Tumi kom þegar við vorum að leggja í hann. Súsanna og Friðrik í Melabúðinni voru á ferðinni, en fóru ekki með okkur.
Bjart veður, sól, nokkur stilla, en líklega ekki nema 5 stiga hiti. Við Flosi fórum á undan, en þau hin fylgdu á eftir og náðu okkur í Skerjafirði eftir mikinn barning. Ágúst lét miður uppörvandi ummæli falla er hann tók fram úr Skrifara, en ég lét það ekki á mig fá. Kominn í góðan gír, náði því markmiði dagsins að hlaupa í einni beit út að Skítastöð, ganga um stund og taka svo vegalengdina út í Nauthólsvík í einu samfelldu hlaupi. Þau hin löngu horfin, ætluðu að taka nokkrar Perlur.
Ég tók Hlíðarfót og nú brá svo við að ég tók góða spretti á köflum, fannst mér sem hér væri vorleysing á ferð, klakabrynjaður hrímþurs að brjóta af sér vetrarhlekkina og hlaupa sig niður í dádýrsform. Það var harla góð tilfinning.
Allir áðurnefndir hlauparar mættir í Pott og Helmut að auki, en prófessorinn hvergi sjáanlegur. Trúlega hefur hann skammast sín fyrir að atyrða Skrifara í ljósi þeirra framfara sem menn eru vitni að.
Næst hlaupið á föstudag og Fyrsti Föstudagur í framhaldinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)