Einmunablíða á laugardegi

Hópur fólks kom saman á Ljóninu í gær til að fagna Fyrsta föstudegi hvers mánaðar. Var hér um að ræða óúttekinn Fyrsta frá því á árinu 2009. Mætt voru prófessor Fróði (hlaupinn), Ólöf, Jörundur, Skrifari og Íris kona hans. Menn tóku til matar síns og kneyfuðu ölið af kappi meðan Jörundur sagði gamlar sögur úr baráttunni, m.a. þegar hann var handtekinn fyrir að hlæja að löggu sem datt og meiddi sig.

Skrifari fór síðan að hlaupa í morgun í veðurblíðunni, Vesturbæjasólin skein glatt, en hiti var ekki nema rétt um tvö stig. Það er einstök tilfinning að vera kominn á ný með braut undir sóla og byrjaður að hreyfa sig, alveg inn diss lekt, eins og Fróði hefði kallað það. Fór sem fyrr á rólegu nótunum, hljóp og gekk til skiptis, vitandi að svona á þetta að vera og þannig byggist þrek og úthald upp. Hljóp fram úr nokkrum konum úr Kópavogi sem voru á skokkinu og lét Skítastöð ekki nægja í þetta skiptið heldur fór alla leið út í Nauthólsvík. Beygði af þar og fór Hlíðarfót, yfir um hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina til baka. Dásamlegt! Er til eitthvað betra en að vera kominn í gírinn, bæta þannig geðheilsuna, bægja frá Allanum og seinka innlögninni? Að maður tali ekki um gyllinæðina!

Nú má hugsa með tilhlökkun til þess tíma er ég kemst með félögum mínum á sunnudagsmorgni inn í kirkjugarð að hlýða á Formann til Lífstíðar fara með æviatriði Brynleifs Tobíassonar af sinni alkunnu nákvæmni og sannleiksást.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband