Götótt skýla

Jæja, nú voru nokkru fleiri mættir til hlaupa og Hlaupasamtökin óðum að ná vopnum sínum og öðlast fyrri dýrð. Hlauparar voru Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur Gunnlaugsen, Einar the Florist, Bjarni Benz og Magnús tanndráttur og Kirkjuráð. Fátt var sagt af afrekum hlaupara en þegar vansvefta skrifari mætir til Laugar hafandi náð svefni hinna réttlátu bylur á honum bylgja ókvæðisorða og illmælga um leti og ódug, líkt og sjálfur V. Bjarnason væri mættur á staðinn. 

Nú er ekkert meira með það nema að menn sammlast í hefðbundinn Sunnudagspott með þekktum gestum og venjubundnum vísbendingaspurningum. Einhver hafði hitt Baldur Símonarson sem ku vera óvenju Ófyrirleitinn þessa dagana, hortugur og uppástöndugur og var því fagnað í Potti að lífsmark væri með fólki á Skúlagötunni, þótt ekki væri von til þess að eiturbrasarinn í hinu sósíalíska eldhúsi mundi geta lengt lífdaga vors ástsæla vinar með sínum snitsel von schwein oder kalb. 

Nema hvað, kemur ekki Þorvaldur Gaunnlaugsen og er með áberandi gat á sundskýlu sinni aftanverðri. Reglu- og siðgæðisvörður Samtaka vorra benti Þorvaldi á þennan annmarka á dresskódi dagsins, en hann lét sér þetta í léttu rúmi liggja. Rætt var um fréttir síðustu daga af ástalífi manna og kvenna í Vesturbæjarlaug og rann þá upp sá fagri sannleikur fyrir Þorvaldi að hann tefldi mögulega fulldjarft með götóttum fatnaði á viðkvæmasta stað.

Jæja, Formaður upplýsti að næst yrði fagnað Fyrsta Föstudegi 9da júní að heimili hans Kvisthaga fjegur og þá yrði upplýst um hlaupatilhögun sumarsins. Kemur þá ekki í ljós að þrír félagar hafa verið grasekklar að undanförnu: Formaður, skrifari og Jörundur prentari og hafa ekki haft rænu á að slá saman í púkk og slá upp veizlu með víni og villtum meyjum. Jörundur kvartaði yfir að óljóst væri hver myndi gefa honum að borða í fjarveru frú Önnu Vigdísar, í gær hefði Biggi Jógi séð aumur á honum, en í dag yrði hann mögulega að banka upp á hjá blómasalanum og þykjast vanta borvél. 

Framundan: lokað í Vesturbæjarlaug. Sundhöll. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband