Aumingjar

“Ég er aumingi” heitir ljóð eftir Þórberg. Svo voru mál vaxin á þessum degi að mættir voru einungis þrír hlauparar á lögboðnum hlaupadegi Samtaka Vorra: dr. Jóhanna og tveir af hlaupasveinum hennar, Skrifari og blómasali. Jóhanna var allt annað en sátt með mætinguna og lét þau orð falla að þegar hún væri reiðubúin að taka svolítið seríöst hlaup þá byðist bara hlaup með aumingjum. Við Einar tókum þetta ekki til okkar og vissum sem var að Jóhanna meinti þetta meira sem hvatningu til okkar að standa okkur í hlaupi dagsins. Sem við gerðum, á okkar hátt. 

Vitanlega veltum við fyrir okkur hvar Ágúst væri, hann hafði sent myndir af brúsum með torkennilegu innihaldi og drógum við okkar ályktanir af því: líklega væri hann lagstur í kojufyllerí á einhverjum orkudrykkjum.

Við af stað í einmuna hlaupaveðri daginn fyrir Skírdag og héldum hópinn inn í Skerjafjörð. Þá heltók skynsemin skrifara og hann ákvað að ganga, en þau hin héldu áfram á skokkinu. En er skrifari kom í námunda við Skítastöð beið blómasali hans þar og hafði einnig ákveðið að vera skynsamur, enda bíður hlaup í fyrramálið frá Minni-Borg um Sólheima og tilbaka með viðkomu í árbíti hjá Gylfa Kristinssyni. Við fórum á léttu tölti tilbaka um Skuggahverfi Skerjafjarðar og ræddum bækur Stefáns Mána og þann veruleika sem þær endurspegla. Einnig spillingu í íslensku samfélagi. 

Gott hlaup þótt stutt væri. Þetta er allt að koma. Næst verður hlaupið frá Laug Vorri Föstudaginn langa kl. 10:10.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband