Vorleysingar

Hvílíkur hópur sem mætti til miðvikudagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins! Mætt voru: próf. Fróði, Jóhanna, Flosi, Ólafur Gunn., Guðmundur Bjarna, Skrifari og Einar blómasali, og svo fréttist af Bjarna Benz á næstu grösum og Baldur Tumi kom þegar við vorum að leggja í hann. Súsanna og Friðrik í Melabúðinni voru á ferðinni, en fóru ekki með okkur. 

Bjart veður, sól, nokkur stilla, en líklega ekki nema 5 stiga hiti. Við Flosi fórum á undan, en þau hin fylgdu á eftir og náðu okkur í Skerjafirði eftir mikinn barning. Ágúst lét miður uppörvandi ummæli falla er hann tók fram úr Skrifara, en ég lét það ekki á mig fá. Kominn í góðan gír, náði því markmiði dagsins að hlaupa í einni beit út að Skítastöð, ganga um stund og taka svo vegalengdina út í Nauthólsvík í einu samfelldu hlaupi. Þau hin löngu horfin, ætluðu að taka nokkrar Perlur. 

Ég tók Hlíðarfót og nú brá svo við að ég tók góða spretti á köflum, fannst mér sem hér væri vorleysing á ferð, klakabrynjaður hrímþurs að brjóta af sér vetrarhlekkina og hlaupa sig niður í dádýrsform. Það var harla góð tilfinning. 

Allir áðurnefndir hlauparar mættir í Pott og Helmut að auki, en prófessorinn hvergi sjáanlegur. Trúlega hefur hann skammast sín fyrir að atyrða Skrifara í ljósi þeirra framfara sem menn eru vitni að.

Næst hlaupið á föstudag og Fyrsti Föstudagur í framhaldinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband