Færsluflokkur: Bloggar
22.3.2015 | 16:39
Yndislegur dagur
Dagurinn var yndislegur. Meira um það seinna. En hann byrjaði engu að síður með brunahringingu úr Garðabænum kl. 7:50 (á sunnudegi HALLÓ!!!). Húsráðendur töldu öruggt að einhver væri dauður. Hinum megin hljómaði rödd þingmannsins: "Hver er hinn maðurinn?" Frést hafði að V. Bjarnason hefði verið endurkjörinn skoðunarmaður reikninga hjá Hinu íslenska biblíufélagi og honum til fulltingis kosinn Pétur Þorsteinsson sóknarprestur Óháðra, sem er ekki allra. Vilhjálm setti hljóðan um stund er hann frétti hver hinn maðurinn væri, en sagði svo: "Pétur er ekki vondur maður. Mér er illa við vonda menn."
Mættir til hlaups á sunnudagsmorgni Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Ólafur skrifari og svo Rúna og Frikki. Aðrir hafa greinilega talið sig undanþegna hlaupum. Íslenskt samfélag er undanþágusamfélag, um leið og sett hafa verið ný lög eða reglugerðir byrjar kórinn: "Get ég fengið undanþágu?" Ef Íslendingar fara í viðræður við aðrar þjóðir um samninga sem eru skuldbindandi fyrir Íslendinga er óskað eftir undanþágum frá skuldbindingunum.
Þessi hópur tók vakurt skeið um Ægisíðu á fögrum sunnudagsmorgni sem ég held við getum kallað vormorgun. Það var hlaupið rólega til að hlífa Frikka sem er enn að jafna sig eftir Tókýó maraþonið. Farnar þekktar leiðir, spurt um bílnúmer og Persónufræði, og í kirkjugarði laust Frikki upp miklu ópi:"Þetta er yndislegt!" Orð hans fönguðu vel stemmninguna í dag sem náði hápunkti í kirkjugarðinum. Lukum góðum 12 km hring (já, líka skrifari) og komum þreyttir en ánægðir á Plan.
Pottur góður mannaður þekktum persónum, próf. dr. Einari Gunnari, Mími og Stefáni verkfræðingi. Baldur er í fríi frá Pottskyldum vegna búferlaflutninga og verður það næstu vikur. Sagðar krassandi sögur úr samkvæmislífi Reykvíkinga.
Nú hefst kvíðinn. Skrifari mun mæta til hlaupa næstu daga. Verður einelti? Verður niðurlæging? Verður maður hrakyrtur og kallaður "Þessi"? Að öllum líkindum, já. Þá er að standa það af sér og þreyta eineltismánuðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2015 | 20:13
Blautbolskeppni
Mættir til hlaups á miðvikudegi: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Þorvaldur, Jörundur, Ingi, Rúna og Maggie. Í Brottfararsal var haft í frammi hefðbundið andlegt ofbeldi gegn skrifara, bent á hann og hann nefndur aumingi. Rætt um Einar, Belfast og prógrammið: hlaupa í skotheldu vesti með hjálm. Úti var glerhált og fremur napurt, en það fældi ekki frá hlaupi. Við lögðum upp með ólík markmið í huga, sumir vildu ná út að Skítastöð og tilbaka, aðrir stefndu á 10 mílur hið minnsta.
Það var dimmt úti og mjög fljótlega þurfti fólk að hafa augu og fætur hjá sér til að detta ekki. Við héldum hópinn býsna lengi, alveg út í Skerjafjörð, en svo fór að draga sundur með okkur - og Jörund sá ég bara í upphafi hlaups og ekkert meira. Skrifari kjagaði þetta áfram, en mátti jafnvel ganga þar sem mest hálka var, svo sem við Flugvöll. Var hikandi er kom að Skítastöð, átti maður að snúa við eða halda áfram? Jæja, við látum slag standa, þetta gengur svo vel.
Komið í Nauthólsvík og var ýmist hlaupið eða gengið eftir aðstæðum. Hér var hlaupari orðinn vel heitur og því var lítið mál að klára Hlíðarfót þótt engin met væru slegin í dag.
Við komu til Laugar hitti ég Ósk og Hjálmar, Ósk spurði hvort það hefði rignt svona mikið - og horfði á galla skrifara sem hefði sómt sér vel í hvaða blautbolskeppni sem er. Nei, Ósk, þetta var sviti, það var tekið á því í dag. Flosi og Einar komu stuttu á eftir mér og höfðu farið 10 km með Rúnu.
Framundan Þorrablót Hlaupasamtakanna - en fyrst verður hlaupið meira, næst á föstudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2014 | 20:36
Kirkjuráðssögur
Við Magnús Júlíus vorum einir mættir til hefðbundins sunnudagshlaups Hlaupasamtakanna stuttu fyrir jól. Við söknuðum vina í stað, Ó. Þorsteinssonar og Einars blómasala- en ekki síður Gísla okkar Ragnarssonar, sem í eina tíð var einkennistákn Samtaka Vorra. Svo mjög herjaði söknuðurinn á Magnús að hann réðst á blásaklausan hlaupara á leiðinni og spurði: "Er það Gísli?"
Einar hafði lýst yfir ásetningi um hlaup, en svaf að eigin sögn til 10, og var því dæmdur úr leik. Ekki fékkst viðhlítandi skýring á fjarveru formanns - og Jörundur er að vinna á gamals aldri.
Við Magnús lögðum í hann í afbragðs veðri og góðri færð, engin hálka. Við vorum flottir. Það komu sögur úr Kirkjuráði, en fæstar birtingarhæfar. Fórum rólega yfir og var enginn asi á okkur. Varð hugsað til drengjanna sem ætluðu að þreyta Sólstöðuhlaup í dag. Svoleiðis menn eru náttúrlega ekki í lagi.
Komið í Nauthólsvík og beygt af, enda engir sagnamenn með í för, sem gætu réttlætt langa gönguspeli og sögur. Raunar vorum við Magnús búnir að afgreiða porsjón V. Bjarnasonar þessa vikuna og það snemma hlaups. Einnig var búið að ræða kirkjugarða og jarðarfarir.
Við kláruðum glæsilegt hlaup á góðum nótum - og um það er komið var til Laugar dúkkuðu upp tveir jólasveinar sem ætluðu að þreyta "Sólstöðuhlaup" - og var haft á orði af viðstöddum að svona menn kæmu óorði á hlaup.
Í Pott mættu valinkunnir Vesturbæingar, próf. dr. Einar Gunnar, próf. dr. Baldur, Ó. Þorsteinsson, Einar blómasali - síðar komu Pjetur og Unnur og Stefán verkfræðingur. Margt rætt af skynsamlegu viti, gamlar bílnúmeraæfingar rifjaðar upp og ættir manna raktar. Umræðan náði hápunkti þegar fjallað var um gamla einkunnastiga og viðleitni Jónasar frá Hriflu til að stemma stigu við yfirgangi embættismannakerfisins með aðförinni að Reykjavíkur Lærða Skóla 1928 - og Framsóknarmenn samtímans hafa tekið upp af nýju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2011 | 21:57
Það var hlaupið - og rúllað
Fámennt í dag. Mættir voru: Bjarni Bens, Haukur og ég, Kári. Bæði var hvasst og mikill snjór, en svo ætla víst margir að hlaupa í gamlárshlaupinu á morgun.
Haukur sneri fljótlega við vegna einhvers skavanka en við Bjarni fórum Hlíðarfót, upp að Valsheimili og eftir gömlu Hringbraut til baka.
Ægissíðan hafði ekki verið rudd og við flugbrautina voru snjóþyngslin slík að við Bjarni klofuðum snjóinn upp að mitti. Á köflum urðum við að leggjast flatir og velta okkur því snjórinn var of djúpur. Það er gott að enginn var viðstaddur til að ljósmynda þær aðfarir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2011 | 20:54
Afhending Guðmundarbikarsins 29.ágúst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2011 | 21:29
Hvað ef Þorvaldur ætlaði Laugaveginn?
Ritari fékk kvíðahnút í magann í dag þegar hann opnaði póstinn frá Laugavegshlaupinu og las 12 síðna bækling sem gekk út á að útmála Laugaveginn sem algeran tortúr ekki ætlandi öðrum en þrautþjálfuðum úrvalshlaupurum. Efasemdaskýin hrönnuðust upp, leiðbeiningarnar voru þannig að aðeins afburðagreindir einstaklingar skilja þær: skilja eftir töskur þarna, svo verður taskan komin í Bláfjallakvísl, önnur taska verður flutt í Þórsmörk, og ef ég sæki ekki töskuna á tilsettum tíma verður henni hent, en illaþefjandi taskan fær hins vegar náð fyrir augum Reykjavíkurmaraþons. Djísus, er þetta virkilega svona flókið? Biggi sagði að svarið væri einfalt: ekki fara eftir neinum leiðbeiningum, bara hlaupa hlaupið. Einhvern tímann í miðju kvíðakasti sló þessi hugsun ritara: hvað ef Þorvaldur ætlaði Laugaveginn, háskólamenntaður stærðfræðingur sem ræður ekki við að henda reiður á einni flögu? Mér liggur við að segja að þetta hafi róað mig.
Nokkur fjöldi mættur til hlaups á mánudegi, nú er verið að trappa niður. Magga mætt eftir veikindi, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Helmut, Magnús tannlæknir, ritari, Sigurður Ingvarsson og var fagnað vel eftir glæsilega frammistöðu í hálfu á Akureyri, Biggi, Pétur Einarsson og Guðrún Harðardóttir. Ragnar bættist í hópinn á leiðinni. Helmut mæltist til þess að við færum rólega, ritari féllst á að fara Suðurhlíð. Sjálfsagt hefur Magga haft í huga einhverja sjálfspyndingaspretti í Öskjuhlíðinni, en hún lét ekkert uppi.
Dóluðum þetta af stað, þau fremstu í þessum gefna hlandspreng, en við Helmut skynsamir og rólegir og Maggi skynsamur líka. Það var leiðindaveður, dimmt yfir og engan veginn eins og það væri sumar. Nú nálgast Laugavegurinn og því eðlilegt að menn velti fyrir sér undirbúningi. Á að taka rútuna eða fara á prívatbílum? Á jafnvel að fara degi fyrr og gista einhvers staðar? Biggi undirstrikaði mikilvægi þess að menn væru mættir tímanlega til þess að komast á kamarinn í Landmannalaugum fyrir hlaup. (já, sæll, ég voða spenntur að komast á kamarinn í Landmannalaugum!)
Fólk að synda í sjónum úti fyrir Nauthólsvík og þá var rifjað upp að lítið hefur verið farið í sjó í sumar, enda sumar seint á ferð og sjór enn kaldur. Við Helmut vorum löngu búnir að missa af hlandsprengjunum og héldum því bara áfram með stefnu á Suðurhlíð. Þegar til átti að taka vorum við stemmdir fyrir Þriggjabrúa og dóluðum okkur yfir brúna á Kringlumýrarbraut. Upp brekkuna og ég játa að hún tók eilítið í og maður velti fyrir sér hvort miðvikudagurinn sæti enn svolítið í manni. En þetta hafðist og haldið áfram á Útvarpshæð og um Hvassaleitið yfir brú hjá Kringlu og svo niður Kringlumýrarbraut.
Hér fórum við að setja upp tempóið og fórum Sæbrautina á dágóðum spretti, hjá Hörpu og nýju leiðina um höfnina, Verbúðir, upp Ægisgötu og tilbaka til Laugar. Á stétt voru hlauparar að teygja, og einn syndaselur: Einar blómasali. Hann hafði ýmsar skýringar á reiðum höndum á fjarvistum sínum, það var vinna, það var bíll, það voru Pólverjar sem hann skildi ekki og þannig áfram endalaust. Allt ómarktækt. Menn þurfa að temja sér sjálfsaga og forgangsröðun, annars komast þeir ekki Laugaveginn!
Í potti var rætt um Ironman og hálfan járnkarl í Hafnarfirði um næstu helgi. Ennfremur um nálastungur og nál sem sat föst í Pétri í allan dag og uppgötvaðist fyrst í búningsklefa. Hann sagði frá merkilegri hjólreiðakeppni um Snæfellsnes upp á 161 km sem var svo lýjandi að eftir 7 tíma keppni lagðist hann til svefns og tapaði keppninni! Eða þannig. Afrek engu að síður að hjóla 161 km um Snæfellsnes með brekkum og djöfulskap.
Fundur boðaður at Helmuts og Jóhönnu miðvikudag 19:30 eftir hlaup til þess að skipuleggja og undirbúa. Mikilvægt að helztu jálkar mæti, einkum Jörundur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2011 | 21:03
Veðrabrigði
Það var hugur í mönnum er staðið var í Útiklefa, stigið var á stokk og heit strengd um að fara langt. Ólafur ritari ætlaði stutt og hægt, reyna við Hlíðarfót, og jafnvel fara styttra ef illa færi, enda með hexeskud í bakhöfðinu, sem er einn djöfullegur skafanki. Þarna stóð blómasalinn á sokkunum einum og reif kjaft eins og honum einum var lagið, storkandi glottið lék um útblásna hvoftana. Aðrir í Útiklefa voru Flosi, Kári og nýr félagi, Auðunn Atlason ef ég hef náð nafninu rétt. Hann lýsti yfir ásetningi um að fara hægt og stutt eins og ritari. Í Brottfararsal voru prófessor Fróði, Þorbjörg, Magga þjálfari, Rúnar, René, Guðmundur Löve, Maggi og svo birtust Helmut, dr. Jóhanna og Frikki Meló. Það voru einhverjir fleiri sem ég gleymi eða vantar nöfnin á.
Á miðvikudögum er hefðbundið að fara Þriggjabrúa, engar athugasemdir við það, en sem fyrr sagði voru fyrirætlanir um lengra. Farið af stað í björtu og fögru veðri, en skjótt skipast veður í lofti, áður en yfir lauk höfðu dunið á okkur flestar tegundir veðurs sem við þekkjum: sólskin, rok, rigning, haglél, og ég veit ekki hvað. Hópurinn var hægur framan af og er komið var í Nauthólsvík hékk ég enn í fremstu hlaupurum, og með frambærilegt fólk að baki mér. Þrátt fyrir yfirlýsingar um stutt og hægt var ég þannig stemmdur að ég tók brúna yfir Kringlumýrarbraut í stað þess að steðja upp Suðurhlíð eins og sumir. Hlaup er nefnilega fljótlega hálfnað eftir að maður er kominn upp hjá Bogganum og upp á Veðurstofuhálendið. Hér náði Magga mér loksins, orðin eitthvað hæg greyið, e.t.v. búin að bæta á sig nokkrum kílóum, hver veit?
Ég sá ekki blómasalann eða Flosa, en vissi að prófessorinn hefði haldið áfram í Fossvoginn. Sá eiginlega engan fyrr en Albert á brúnni yfir Miklubraut og Frikki skaut upp kollinum á Kringlumýrarbraut. Fórum rólega niður á Sæbraut, en þar gaf Frikki í og þar skall síðasta hryðjan á okkur, brjálað haglél og mótvindur sem erfitt var að berjast á móti. Það er erfitt og leiðinlegt að hlaupa við þessi skilyrði: Hannes Hafstein, eat my shorts! Og ekki bætir úr skák að ekkert vatn er að hafa á leiðinni svo að maður hefur enga ástæðu til að staldra við hjá drykkjarstöðinni. Áfram út að Hörpu.
Eftir þetta fór ég Geirsgötu og stytztu leið tilbaka. Þá voru aðeins Frikki og Þorbjörg þar, teygt lítillega og farið í Pott. Við máttum bíða lengi eftir næstu mönnum, Flosi og blómasalinn komu um hálfátta og höfðu farið 18 km, og við sáum prófessornum bregða fyrir í Móttökusal, hefur líklega ekki farið skemur en 20 km. Ágætishlaup hjá okkur öllum og nú er að muna að skrá í dagbókina!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2011 | 17:57
Níu hlupu á sunnudagsmorgni
Eftirfarandi hlauparar voru mættir til hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á sunnudagsmorgni: Jörundur, Maggi, Þorvaldur, Karl Gústaf, Kári, Helmut, René, ritari og ung kona að nafni Vala. Þar af voru nokkrir sem lítið höfðu iðkað hlaup upp á síðkastið og höfðu orð á að nokkur þyngdaraukning kynni hugsanlega að tefja fyrir þeim í hlaupi dagsins. En við erum yfirleitt róleg á sunnudögum og því engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af hægri yfirferð.
Athygli vakti að Formaður til Lífstíðar var ekki mættur, en það átti sér sínar skýringar. Lagt upp rólega, enda færðin dálítið erfið. Er við fórum yfir gangbraut á Ægisíðu varð á vegi okkar kampavínslit jeppabifreið innihaldandi kunnugleg andlit: sat þar við stjórnvölinn Formaður til Lífstíðar og veifaði tl félaga sinna. Við urðum furðu lostnir að mæta honum þarna, en engar skýringar fengust á staðnum á fjarvistum.
Við héldum hópinn nokkuð lengi, eða inn í Nauthólsvík, utan hvað Kári og Vala voru týnd. Nú sagði René skilið við hópinn, vildi fara hraðar og lengra en hefð er um á sunnudegi. Við hinir fórum fetið hefðbundið um Kirkjugarð og Veðurstofu. Það var staðnæmst á föstum stöðum og mikið rætt um Laugavegshlaup og skófatnað. Í Kirkjugarði var tekin málfræðiæfing, karlmannsnafnið Vöggur beygt með eftirfarandi tilbrigðum: Hér er Vöggur um Vögg frá Vöggu til Grafar, hins vegar Hér er Vöggur um Vögg frá Veggi til Veggjar. Gamall hlaupabrandari.
Stoppað við tréð hans Magga á Otharsplatz og því veitt nauðsynleg aðhlynning. Svo áfram niður á Sæbraut. Við vorum nokkuð góðir og héldum allir sex hópinn allt til loka hlaups, fórum um Hljómskálagarð og þá leið tilbaka, fulla 11,8 km. Teygt á Plani.
Pottur svellheitur og þar sat Formaður og hélt ádíens. Einnig mátti bera kennsl á frú Helgu Jónsdóttur, Einar Gunnar og litlu síðar kom dr. Baldur. Setið í góða klukkustund og rætt um þau málefni er hæst ber þessa dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2011 | 20:47
Tinnasögur
Veikindi hafa herjað á Hlaupasamtök Lýðveldisins og margir af helztu hlaupurum rúmliggjandi þessi missirin. Af þeirri ástæðu var þunnskipaður flokkurinn í dag miðað við að það var mánudagur og kjöraðstæður til þess að lenda undir bíl vegna hálkunnar. Meðal hlaupara mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, dr. S. Ingvarsson og próf. dr. Fróða. Auk þeirra Rúnar, Möggu, Melabúðar-Frikka, Ósk, Þorbjörgu K., Jóhönnu Ólafs, Jörund, ritara, Benzinn og Hjálmar. Þessi hópur setti kúrsinn strax á Nes, það átti að streða í Bakkavörinni í dag.
Í ljósi þess að við Jörundur erum að stíga upp úr meiðslum ákváðum við að fara rólega. Færið bauð heldur ekki upp á neitt annað, glerhált hvarvetna og mátti heita heppni að enginn varð undir bíl, en á móti kemur að Þorvaldur var ekki með í dag og því enginn með æfingar í Óðagotsstíl. Benzinn slóst í för með okkur og virtist það henta honum vel að dóla sér með okkur. Eðlilega var rætt um Laugaveginn og það sem við gætum vænst þar. Nú erum við vonandi loksins komnir af stað í hið eiginlega prógramm og framundan því strangar æfingar sem kalla á einbeitni og karaktér.
Farinn Víðimelur og sú leið út í Ánanaust og svo lagt á Nesið. Þau hin eitthvað á undan okkur, en urðu að vísu að hægja á sér út af hálkunni. Héldum við þó 5:30 mín. tempói sem var heldur hraðara en við ætluðum okkur. Þessi tala er að vísu fengin frá Jörundi sem var ekki með neitt mælitæki með sér, en hann hefur góða tilfinningu fyrir hraða. Þó ber að hafa í huga að þetta er huglægt mat, ekki strangvísindaleg mæling. Enn er maður svolíitið þungur á sér eftir að hafa ekki hlaupið að ráði í sex vikur. Svo þurfa menn líka að taka mataræðið í gegn, hætta að borða brauð og fara að taka inn magnesíum.
Töltum þetta yfir á suðurhliðina og út í Bakkavör. Þar tókum við einn sprett rólega samkvæmt tillögu þjálfara, sem hlustaði ekki á kveinstafi okkar og sagði að þetta myndi herða okkur. Héldum svo tilbaka um Sólbraut, Lambastaðahverfi og Flosaskjól. Komum fínir tilbaka eftir ágætishlaup og teygðum á Plani. Lögð á ráðin um æfingar fyrir Laugaveginn, en í maí setjum við stefnuna á Esjuna þar sem við æfum hlaup í fjalllendi, niður brekkurnar.
Í pott mætti fjöld hlaupara, m.a. Bjössi og Flosi sem létu sér nægja að synda í dag. Rifjaðir upp þeir góðu dagar þegar Súsanna baðaði sig á dansstöðunum, við daufar undirtektir þeirra Óskar og Þorbjargar. í framhaldinu komst Bjössi á flug við að segja Tinnasögur sem voru aldeilis ódauðlegar. Gekk á því þar til klukkan var farin að nálgast átta, þá dröttuðust síðustu menn úr potti. Gott hlaup að baki sem lofar góðu um framhaldið.
Bloggar | Breytt 15.2.2011 kl. 05:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2011 | 20:02
Undirbúningurinn er hafinn!
Sex hlauparar voru mættir við Vesturbæjarlaug kl. 10 í morgun til þess að taka fyrsta hlaup ársins. Þetta voru Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur, blómasali, ritari og Rúna Hvannberg. Veður gott og færð góð. Lagt upp á rólegu nótunum. Formaður sagði í ítarlegu máli frá dularfullu morðmáli í Bristol á Englandi þar sem formaður LibDem í plássinu hefur setið undir grun. Var þessi frásögn svo ítarleg að hún entist okkur 1,8 km leið og var ekki minnst á nafn V. Bjarnasonar alla þá leið. En svo var ekki hjá því komist að taka stuttan upplýsingapunkt um hann.
Eðlilega var Laugavegurinn ofarlega á baugi í hlaupi dagsins, þar eð senn líður að skráningu, 5. jan. n.k. Mun Jörundur miðla upplýsingum um hvenær skráningin byrjar. Staldrað við í Naúthólsvík þar sem við tókum umræðu um skófatnað sem er nauðsynlegur á Laugavegi. Svo tók við Kirkjugarður og Veðurstofuhálendi. Voru hlauparar þokkalega fram gengnir eftir hátíðirnar og gekk stórvandræðalítið að fara fetið.
Eftir Veðurstofu fórum við Jörundur og Þorvaldur að síga fram úr þeim hinum og var ákveðið að stoppa ekki eftir Ottarsplatz, en halda áfram allt til Laugar. Teygt vel á Plani. Í potti voru helztu fulltrúar sunnudagsklúbbsins, þ. á m. Mímir eftir nærri þriggja mánaða fjarveru. Aðrir: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, og þau hjón, Stefán og Helga Jónsdóttir. Setið góða stund og margt skrafað, t.d. um Skaupið.
Þetta var fyrsti leggur í undirbúningi fyrir Laugaveginn - og lofar bara góðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)