Á bleiku pilsi

Fyrirsögnin gefur ekki fyrirheit um frásögn af hlaupi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en þarna stendur hún nú samt. Og þannig var það. Tobba mætti til hlaups á sunnudagsmorgni í bleiku pilsi. Aðspurð hverju þetta sætti horfði hún stolt á pilsið og kvað ekki hafa verið völ á öðru betra. Aðrir mættir í öllu hefðbundnari garderób Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni Benz og Ólafur skrifari. Einar blómasali sendi af sér mynd í hjálmi á vélsleða austan úr sveitum - og kunni ekki að skammast sín.

Mikil dýrðardásemd er nú að skottast um grundir á sunnudagsmorgni í veðurblíðunni, hreina loftinu, í samfloti við góða félaga. Ekki þekkir skrifari betri leið til þess að njóta dagsins en í félagsskap öðlingsfólks sem ræðir af fullkomnu fordómaleysi um hvaðeina er horfir til framfara fyrir land og þjóð. Vitanlega slæðist með alls kyns misskilningur, svo sem um pálmarækt og yfirvaraskegg, en slíkt má alltaf leiðrétta með þolinmæði og umburðarlyndi. Oftar en ekki byggist slíkur missklningur á því að menn ramba inn á vitlausar útvarpsstöðvar þegar þeir eru að leita að gamla Gufuradíóinu.

Á sunnudagsmorgnum er um að gera að njóta hlaups, því að eins og menn vita lýkur því svo að segja um svipað leyti og það hefst. Áður en maður tekur eftir er komið inn í Nauthólsvík og þá er hlaup nánast hálfnað. Margt er rætt á ferðum okkar um grundir og um flest ríkir trúnaður svo að ekki verður frá því sagt á þessum blöðum. En hitt er sönnu nær að flokkur vor náði inn í téða Nauthólsvík svo að segja áfallalaust og var þar staldrað við samkvæmt hefð og stráin barin augum. Menn reyndu einnig að sjá fyrir sér pálmana sem eru væntanlegir, en einhvern veginn gekk það hálf erfiðlega, enda búið að afskrifa framkvæmdina af til þess bærum og fróðum aðiljum.

Í Kirkjugarði brá Tobba myndavél sinni á loft og smellti af hópnum í gríð og erg eins og menn hafa væntanlega séð á fésbók. Þaðan var hlaupið áfram sem leið lá að tröppunum margfrægu og aftur smellt af.

Okkur tókst að forðast að láta Bjarna draga okkur inn á myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum, en í Bankastræti var ekki undan því vikist að fara inn í Cintamani til þess að skoða hlaupajakka á Formanninn. Í ljós kom að það sem hann taldi vera hlaupajakka var útivistarjakki ætlaður fólki sem stendur utandyra í mikilli rigningu. Ég benti Formanni á að ekki væri von á svo mikilli rigningu á Íslandi og varð hann þegar afhuga jakkanum.

Bjarni fór í fússi um Sæbraut bölvandi þessu listfjandsamlega pakki sem hljóp með honum. En þegar hann kom kjagandi upp Ægisgötu var hann allur orðinn mildari og saman tókum við niður höfuðföt, lutum Kristi bróður fyrir durum Kristskirkju og signdum okkur. Féll þá allt í ljúfa löð með okkur og var hlaupið í bróðerni og kristilegum kærleiksanda til Laugar.

Fáir pottar opnir vegna skorts á heitu vatni í frosthörkunum og ekki Örlygshöfn, fátt í boði annað en kaldur pottur. Var því staldrað stutt við. Segir því ekki af samræðum á sunnudegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband