Hvalir eru spendýr

Mættir á sunnudagsmorgni í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur Gunnlaugsson, Friðrik Kaupmaður og Ólafur skrifari. Þrátt fyrir afleita spá var ekkert að veðri og mátti vel hlaupa, en fara þurfti varlega í slabbi og hálku. Menn voru almennt sáttir við vel heppnað Þorrablót sl föstudag og bárust Formanni engar kvartanir vegna óspekta eða hávaða. Mun hafa verið sungið og spilað til miðnættis sem telst nokkuð gott í hópi þar sem meðalaldurinn er hátt í sjötíu ár. 

Nú, það var sosum rætt um ýmislegt á hlaupum, t.d. hvað grænmetisætur myndu leggja sér til munns af Þorraborði og nefndu menn rófustöppu, uppstú, harðfisk, annan fisk... “Hval...” sagði Þorvaldur. “Já en hvalur er spendýr, Þorvaldur.” Við svo augljósa ábendingu gerðist Þorvaldur fráhverfur hlaupi og sneri við. Vorum við þá staddir í Nauthólsvík. 

Eftir Kirkjugarð þar sem við gengum í mestu makindum kom maður hlaupandi fram úr okkur móður og másandi og fékk sig ekki stöðvað sökum skriðþunga. Var þar mættur Einar blómasali seinn að vanda en sýndi þó góða viðleitni með því að mæta yfirleitt. Hann lýsti þungum áhyggjum af prófessor Fróða sem hefur ekki hlaupið með okkur síðan í vor er leið. Var honum falið það rannsóknarverkefni að hafa uppi á prófessornum og athuga hvort hann væri ekki fáanlegur að hnýta á sig skúana. 

Tröppurnar eru hreinn skandall og þurfum við að eiga alvarlegt orð við hann Hjálmar okkar af þeim sökum. Steypa sprungin og handrið sett skakkt á. Svona vinna ekki fagmenn og fráleitt að við munum sætta okkur við svona fúsk. Færi erfitt eftir Stokk og mátti fara varlega. Gerð könnun á Laugavegi þar sem allar skárri verslanir virðast á förum, en í staðinn væntanlegar lundabúðir og túristasjoppur hvers kyns. 

Þetta var rólegur dagur í Lýðveldinu, það skal viðurkennast. Og það er bara allt í lagi. Auk hlaupara voru dr Einar Gunnar og Jörundur prentari í Potti, sá síðarnefndi hortugur að vanda. En Pottur var langur og góður og menn voru ekkert að flýta sér. Senn kemur vor með sól á vanga og þá gerast hlaup tíðari og harðari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband