Hlaup á Bastilludegi

Það var þjóðhátíðardagur Frakka og af virðingu við eina helstu menningarþjóð Evrópu var blásið til hlaups frá Vesturbæjarlaug kl 9:10 eins og hefðin býður á sunnudögum. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, formaður vor og forn knattspyrnugoðsögn, Þorvaldur Gunnlaugsson, orðvar og orðlagður vísindamaður - og svo sá er þetta ritar, skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Veður eins og best verður á kosið á sunnudegi, milt, stillt og hlýtt. 

Tvennt frásagnarvert þegar í upphafi. Annars vegar að ekið var á bíl Formanns sl miðvikudag. Árekstrinum olli maður er ók leigubíl og álasi hver sem vill Formanni fyrir að hafa velt því fyrir sér hvort eðlilegt gæti talist að erlendur maður sem hvorki talar íslensku né getur gert sig skiljanlegan á ensku keyri leigubíl undir eðlilegum og löglegum formerkjum hér á landi. Skammt frá óhappsstað birtist flótlega eftir óhappið annar bíll sem staldraði við og fylgdist ökumaður hans með framvindu mála og því sem verða vildi. Kringum þessa frásögn Formanns spannst mikil umræða um ökuleyfi, leigubílaleyfi, atvinnuleyfi og mansal. 

Hitt sem þótti vert frásagnar var óvæntur vinningur í lottói. Það eru peningar líka. 

Um það var rætt að í gær lauk Súsanna Laugavegshlaupi með miklum bravúr, ein Lýðveldishlaupara að þessu sinni. Fylltust menn stolti við svo góð tíðindi. Í sama hlaupi var bróðir skrifara og þeirra Flosa, Þorvaldur, fremstur meðal jafningja í sínum aldursflokki, þeirra sem skriðnir eru á áttræðisaldurinn. 

Þá er vert að nefna það að á föstudag hringdi Bjarni Benz í skrifara og tilkynnti náðarsamlegast að hans hátign þóknaðist að hlaupa á föstudegi. Hann væri með öðrum orðum væntanlegur til hlaups á tilsettum tíma. Nú skrifari gerir sig kláran og er mættur í Brottfararsal stundvíslega kl 16:20 og fer að bíða eftir Bjarna. Líður og bíður og ekkert bólar á karli. Kl 16:28 þótti skrifara einsýnt að hann hefði verið hafður að háði og spotti og fór einsamall í hlaup á föstudegi, fór Hlíðarfót, skrefstuttur, andstuttur og geðvondur. Að hlaupi loknu dúkkaði Bjarni fyrstur manna upp í Potti, kvaðst vera hlaupinn og mjög hissa. Honum var bent á að hlaup væri stundvíslega kl 16:30 á föstudögum. “En ég var mættur kl 16:29, ég á atómúr!” 

Jæja, um þetta allt var rætt í hlaupi dagsins. Horfur á að Holtavörðuheiðarhlaup frestist um eina viku vegna fjarveru Formanns á fjöllum vestur. Hlaupið hefðbundið um Kirkjugarð, Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og Sæbraut. Heilsað sem fyrr á báða bóga á íslensku og ensku. 

Mættir í Pott á sunnudegi Guðni landsliðsþjálfari og kona hans, Einar Gunnar, Jörundur prentari, Sverrir símamaður, auk hlaupara. Rætt um nýlega kappleiki, m.a. milli KR og norsks liðs, leikur sem við viljum gleyma fljótlega. Á það var bent að nú hefðu menn þreytt hlaup tvo sunnudaga í röð án þess að nefna V. Bjarnason á nafn. Þótti það merkilegt og dæmi um að flestir gætu fallið í gleymskunnar dá.

Von er á blómasala frá París fljótlega og þá verður farið að taka á því á hlaupum. Í Gvuðs friði. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband