Enginn afsláttur - engin miskunn

Í Hlaupasamtökum sem til hafa valist þróttmiklir hlauparar, þéttir í lund, uppfullir af æskufjöri eins og kálfar á vori, er ekki gefinn neinn afsláttur af hlaupum, sérílagi á dögum sem þessum þegar sólin skín og hægur andvari gælir við kinn. Við vorum mættir frændur, Ó. Þorsteinsson og skrifari, við Vesturbæjarlaug kl. 9:10 með ásetning um hlaup sem boðað var til á Kjaftaklöpp. Aðrir ekki mættir og kom það okkur spánskt fyrir sjónir. Fórum raunar einnig á Páskadag, þá var með okkur Ó. Gunnarsson. Farið hefðbundið báða dagana.

Þegar rætt var um utanvegahlaup prófessors Fróða spurði Ólafur:”Er hann farinn út um þúfur?” Það er þessi hægláta kímni sem engan meiðir sem einkennir gott hlaup. 

En í dag varð sumsé á vegi okkar frænda kona nokkur í Nauthólsvík sem búin var til hlaupa og beið eftir félögum sínum. Hún féllst á að taka mynd af okkur og var greinilega mjög impóneruð yfir myndefninu, svo meira sé ekki sagt. 

Við fórum hefðbundna porsjón á rólegum takti og áttum alveg eins von á að blómasali kæmi á fullri ferð á hjólfáki sínum, en ekki sást reykurinn af honum. Né heldur voru fastir sunnudags hlauparar mættir, þeir Þorvaldur og Bjarni. Nú er spurt hvort ekki sé tímabært að menn hristi af sér slyðruorðið, dusti rykið af hlaupaskónum og geri sig klára fyrir átök sumarsins með léttu skokki í kátra sveina- og (eventúellt) meyjaflokki. Margt er framundan, m.a. Two oceans hlaup í Suður-Afríku á næsta ári. Meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband