Það var langt í dag...

Svo sem boðað var í föstudagspistli var boðið upp á langhlaup í dag. Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins var mættur í brottfararsal Vesturbæjarlaugar kl. 8:50 og beið þess að þar hópaðist fólk til langhlaups á fögrum sumarmorgni. Einu kunnuglegu andlitin sem birtust tilheyrðu Helmut og dr. Jóhönnu og sonum - öll með stírur í augum og ekki þessleg að þau stefndu á hlaup. Það var því einmana hlaupari sem lagði í hann í glimrandi hlaupaveðri, 13 stiga hita og logni. Það reyndi á andlegan styrk og karaktér að hefja hlaup að þessu sinni, aleinn eins og áður er komið fram, og vitandi það að framundan væru 25 langir kílómetrar í fullkominni einveru og einsemd. Vitanlega hefði verið skemmtilegra að hafa nokkra góða félaga við hlið sér, en það verður víst ekki á allt kosið öllum stundum. Þannig að ég reyndi að herða upp hugann, vera bjartsýnn, einbeittur og viljasterkur. Sem betur fer var fullkomið hlaupaveður og því hrein unun að streyma fram Ægisíðu á útopnuðu.

Mér varð hugsað til þess sem dr. Jóhanna sagði, hún rifjaði upp spurningu í potti í gær. Haukur spyr tvo pilta sem staddir voru í potti og töluðu sín á milli íslenzku: Eruð þið íslenzkir? Þeir horfðu hissa á hann og sögðu: Já! Og spurðu tilbaka: Eruð þið íslenzk? Já, sagði Haukur, við erum nú vön að hafa vara á okkur þegar við tölum saman um okkar heimulleg málefni og viðstaddir kunna að skilja það sem á milli okkar fer. Spurningin þótti svo einkennileg að furðu sætti.

Skeiðaði af krafti út í Nauthólsvík - ekki margir á ferli, fáir hlauparar. Mætti Sif Jónsdóttur langhlaupara í Fossvogi. Áfram inn að Víkingsheimili, undir Breiðholtsbraut og sem leið liggur upp Elliðaárdalinn og alla leið upp að Árbæjarlaug. Staldrað við, fyllt á vatnsbrúsa og svo tilbaka. Fór niður hinumegin í dalnum, og svo yfir á hólmann og þannig niðureftir. Aftur undir Breiðholtsbraut og inn í Fossvog. Þannig tilbaka. Líklega einir 22 km - nennti ekki í Laugardalinn, gat hugsað mér að fara í sjó í Nauthólsvík á bakaleiðinni - en þegar til kom var farið að kólna í veðri, hafgola, og ekki baðveður að sumri. Auk þess var ég einn að hlaupi, eins og áður er fram komið, og skv. reglum Ágústs telst það ekki sjóbað þegar menn fara einir í sjóinn og án eftirlits.
´
Mér fannst hlaup takast gizka vel. Ekki nein veruleg þreyta eða mæði í lokin. Nú verður hvílst meðan ritari heldur til starfa í þágu Lýðveldisins á erlendri grund - en stefnt er að löngu næstkomandi miðvikudag. Hvatt er til þess að hver og einn hlaupara stilli sig af miðað við hlaupaáætlun Ágústs og skrái samvizkusamlega öll hlaup. Vitanlega geta komið upp frávik og menn geta þurft að hliðra til með hlaup hér og hvar eins og raunin varð á s.l. miðvikudag hvað þennan hlaupara áhrærir. En menn geta alltaf bætt sér slík frávik upp, eins og gert var á þessum fagra degi.

Hittumst heil - hvet til átakahlaups á morgun, sunnudag, og á mánudag, þó án sjóbaða.

Góðar stundir!
Ritari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband