Hlaupið á föstudegi

Magnús hefur frétt af rauðleitu afbrigði af lúpínu og er búinn að tryggja sér einn sekk af þessari nýju tegund, vongóður um að Jörundur muni bregðast vel við þegar þessi nýi gróður teygir anga sína um garðinn hans. En Magnús rapportéraði einhverja taugaveiklun við dyrnar hjá Jörundi, hann má ekki sýna sig utandyra með bréfpoka, þá er strax farið að rjátla við dyrnar hjá Jörundi og farið að undirbúa útrás.

Ólafur Þorsteinsson er að mati V. Bjarnasonar einkennilegur maður. Rætt var um uppákomu á Skaga þar sem sonur G. Þórðarsonar skoraði umdeilt mark og þótti ekki karlmannleg framkoma. Þar öttu Skagamenn kappi við Keflvíkinga. Í stað þess að koma Keflvíkingum til bjargar og veita þá hlutlægu umsögn að markið hafi verið andstætt góðum sið í knattspyrnu, sagði frændi minn og vinur að Keflvíkingar væru svo orðljótir menn að ekki væri hægt að bjóða kvenmanni á kappleik í Keflavík. Það er umhugsunarefni hvers vegna ekki má bjóða kvenfólki á kappleiki þar sem orðljótir menn mæta, er kvenfólk minna orðljótt en karlar? Ekki rekur mig minni til þess. Við VB vorum sammála um að þessar áhyggjur Ó. Þorsteinssonar væru teikn um aldurdómlegan hugsunarhátt hans, karlmennsku og riddaramennsku gagnvart kvenfólki, en Ó. Þorsteinsson er kominn af reykvízkum aðli gegnum aldir.

Fátt í hlaupi: stöllur af Nesi, Rúna og Brynja, trúlega gíraðar áfram af loforði um Fyrsta Föstudag, Vilhjálmur, ritari, Haukur, Kári, Magnús, og dr. Jóhanna. Þetta var góður þéttur hópur. Í þetta skiptið voru engin Garmin-tæki og var það ákveðinn léttir. Þær Brynja og Rúna settu óneitanlega svip á hlaupið, leiddu framan af og voru alla jafna fremstar í flokki, en þó er skylt og rétt að greina frá því að Haukur var flottur í hlaupi í dag, teinréttur, bar höfuð hátt, lyfti fótum hátt á hlaupi og var bara glæsilegur forystumaður fyrir Hlaupasamtökunum, til sannrar prýði. Maður skammast sín ekki að hlaupa með slíkri úrvalssveit.

Eins og samsetning hópsins gefur til kynna var hraði ekki aðalmálið í kvöld. Það var silast áfram um Ægisíðu og út í Nauthólsvík. Þær héldu okkur við efnið dömurnar af Nesi. aðrir hægir. Nokkur hiti, líklega 16-17 gráður, en vindur sem kældi. Upp í Öskjuhlíð, Hi-Lux, og þar fram eftir götunum. Annað hefðbundið allt þar til er við komum að Ægisgötu, þá höfðu þær stallmeyjar af Nesi ákveðið að halda áfram Mýrargötu - Magnús horfði á mig og spurði: "eigum við fylgja þeim?" - skít og la´go hugsaði ég. Það var farið niður í Ánanaust og yfir á sjávarstíginn og svo alla leið út að Rekagranda - ekki var ég að nenna þessu. Yfir hjá Þokkabót og KR-heimili og þannig tilbaka til Laugar. Líklega einir 12-13 km. Fólk var í góðu formi eftir hlaup, það var teygt vel og látið braka í liðum.

Margt skrafað að hlaupi loknu, bæði utandyra og í potti. Mættir Ellert Schram og dr. Einar Gunnar Pétursson. Rætt um ævir sýslumanna og presta. Fram kom að Kári verður í Frakklandi á haustönn og fékk hann ýmis góð ráð um úthald einsemdar og kokkamennsku hins einmana karlmanns. 

Minnt er á hlaupaáætlun Á. Kvarans, ritari verður að vísu að tilkynna syndir: utanlandsferðir í þágu Lýðveldisins framundan. En til þess að bæta fyrir yfirsjónir undanfarinna daga verður hlaupið langt á morgun, farnir vonandi 25 km í fyrramálið frá Vesturbæjarlaug kl. 9. Áhugasömum er frjáls þátttaka.

Í gvuðs friði. Ritari.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband