Erfitt að byrja aftur eftir árshátíð

Hlaupasamtökin héldu hina árlegu árshátíð sína í Viðey sl. laugardag, 14. apríl. Örlygur Hálfdánarson tók á móti okkur á Skarfabryggju og benti hópnum á kennileiti úr landi, Þórsnes, Kvennagönguhóla o.fl. 30 manna hópur flaut með ferjunni hans Tuma út í eyna og var kominn á augabragði yfir. Þar hélt kynningin áfram og benti Örlygur á ýmislegt merkilegt sem fyrir augu bar. Gengið til kirkju og sátu hlaupafélagar prúðir á bekkjum meðan Viðeyjarjarl talaði. Síðan var gengið um kúmenbrekkur, að minnismerki um Skúla fóveda, gengið austur eyna, skoðaðar húsarústir og barnaskóli. Skrifari bar það á Örlyg að hafa ævinlega komð of seint í skólann þrátt fyrir að hafa búið hinum megin við götuna. Kvað Örlygur það vera helvítis lygi.

Viskífleygar sáust á lofti, það hýrnaði yfir mönnum. Síðan var haldið í Vatnstankinn, félagsheimili þeirra Viðeyinga. Þar sló Bjössi kokkur upp dýrindisveislu með úrbeinuðu lambakjöti, meyru svo það bráðnaði á tungum viðstaddra. Ekki sló aðstoðarkokkurinn, Steinn Logi, slöku við og stóð sig með prýði og er verður verkalauna. Formaður til Lífstíðar setti hátíðina og flutti hjartnæm minningarorð um fallna félaga, þá Jón Braga Bjarnason og Ingólf Margeirsson, sem féllu frá á seinasta ári.

Síðan tók við mikil menningarvaka sem einkenndist af hófstillingu í öllum atriðum, en mikilli menningu, kurteisi, skemmtun og söng. Veður var með eindæmum fagurt, og mátti standa úti á palli langt fram eftir kvöldi, en þar stóð Lagavúlin-flaska í eigu Bjarna Benz og sýndu margir innihaldi hennar áhuga. Loks var tekið til við tiltekt og haldið heim er rökkva tók. Rusl allt fjarlægt og poki með flöskum og dósum. Kvaðst Eyjarjarl sjaldan hafa upplifað jafnmikla kurteisi og hófstillingu af hálfu gesta Viðeyingafélagsins. Vel heppnað kvöld og eftirminnilegt!

Jæja, sumir mættu í sunnudagshlaup daginn eftir - og sumir ekki. En á mánudegi var afskaplega fámennt: það var Þorvaldur, Flosi, blómasali, skrifari, Bjössi kokkur, Kári og Benz. Svo dúkkaði Ragnar upp eftir að hlaup var hafið. Lagt upp í leiðindastrekkingi og var skrifari frekar þungur á sér eftir schnitzel í hádeginu. Hélt í við þá hina í nokkur hundruð metra, en dróst svo aftur úr og fór inn í Skerjafjörð við Suðurgötu, út að Skítastöð og þaðan tilbaka vestur úr. Mætti Benzinum og saman skeiðuðum við tilbaka til Laugar. Þetta var ágætt hlaup svona í byrjun viku!

Svo var legið í Potti í klukkutíma og skrafað um flug og fleira. Ég fór með væmna vorvísu fyrir Benzinn sem er svona:

Þröstur minn, vorið og þú eruð eitt.
Þið berið ljós inn í sálarhró mitt.
Ég dillandi sönginn þinn dýrka heitt,
svo drullarðu á bílinn minn, helvítið þitt!

Haft eftir organista úr morgunpotti.


Þyngsli í slyddu

Þrátt fyrir slyddu var fjöldi hlaupara mættur til reglubundins miðvikudagshlaups frá Laug: Jörundur, Helmut, dr. Jóhanna, Magga, Björninn, Beta, Biggi,skrifari, blómasalinn, Maggi, B. Sævarsson, og einhverjir fleiri sem kennsl voru ekki borin á. Mikið rætt í Brottfararsal um árshátíð Samtakanna í Viðey n.k. laugardag. Mikil spenna fyrir þessum árlega viðburði.

Það var slydda er komið var út á Plan og blómasalinn teygði höndina upp í loftið með úrinu á, en við Jörundur gripum hana strax svo að það liti ekki út eins og Hitlerskveðja. Magga spurði hvað menn vildu gera, það var bara Þriggjabrúa, nema hvað? Við Jörundur vorum hæverskir og héldum okkur aftarlega ásamt með Bigga og Betu, þetta var Trabantklúbbur dagsins. Skrifari eitthvað þungur í dag, en kokkurinn í Arnarhváli bauð upp á grænmetis canneloni með spínati, mexíkóska kraftsúpu og salat. Frikki dró okkur uppi og skildi okkur eftir. Hann er á leið í London-maraþon.

Spurt var um skemmtiatriði á árshátíðinni. Ja, þar mun Formaður flytja ekki færri en þrjár ræður, hverja annarri skemmtilegri, með viðeigandi útúrdúrum og afbrigðum. Hér mun reyna á athyglisgáfu viðstaddra, en eins og menn vita er ekki öllum gefið að fylgja þræði Formanns þegar hann kemst á flug. Síðan má vænta þess að hvers kyns skemmtan verði höfð í frammi, söngur og gleði.

Nú, við kjöguðum þetta Trabantarnir og gekk bara bærilega. Aðrir voru löngu horfnir í snjóreyk. Við veltum vöngum yfir maraþonhlaupum og árangri félaga okkar í næstliðnum hlaupum, sem eru alla vega. Síðan var rætt um göngur á fjöll, t.d. Hvannadalshnjúk. Hvaða leyndarpukur var þetta á henni Ósk okkar hér um daginn? Hún kvaðst vera á leið á Hvannadalshnjúk með celebra manneskju. Það skyldi þó aldrei hafa verið hún Kate okkar Winslet? Fór í nístandi kulda á fjallið og stóð sig bara vel.

Er komið var í Nauthólsvík var okkur Jörundi orðið kalt og við nenntum ekki að halda áfram, snörum inn á Hlíðarfót. Biggi og Beta að baki okkur að teygja. Mættum hópi göngumanna sem gengu ákveðið á móti okkur og viku hvergi undan. Farið yfir hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka um Hringbraut, slakað á við Háskóla, en klárað með góðu hlaupi alla leið á Plan.

Teygt innan dyra. Þar dúkkaði upp Bjarni Benz og var kátt í vaskra drengja hópi. Rætt um bíla, mat og fleira. Haldið áfram undirbúningi árshátíðar. Góðir tímar framundan.


Engu logið á Einar

Marsmánuður var heldur dapurlegur að hlaupum hjá skrifara. Hlaupnir rúmir 40 km á einum mánuði og langt á milli hlaupa. Síðast hlaupið í Svíaríki fyrir tíu dögum. Þrálát meiðsli valda því að ekkert verður af samfellu og uppbyggingu. En á þessum sunnudagsmorgni skyldi tekið á því. Dagurinn var fagur og lofaði góðu, sól skein í heiði, stillt, hiti um 5 gráður. Mæting eftir því: Formaður, Þorvaldur, Jörundur, Magnús, skrifari, og svo bættust Magga, Gummi og Biggi í hópinn stuttu síðar.

Þegar svo langt er liðið frá því að frambærilegir hlauparar hittist var um margt að skrafa. Einkum hvarflaði hugur manna til ágætrar frammistöðu hans Villa okkar í Útsvarinu og voru menn stoltir af því að vera samtímamenn hans. Þá var einnig rætt um kvikmyndina 79 á Stöðinni sem sýnd var í sjónvarpi nýlega og tekin að einhverju leyti upp á æskuheimili hans Þorvaldar okkar við Dunhaga. Myndin þótti söguleg heimild um útlit Vesturbæjarins 1962 með fátæklegri byggð og ómalbikuðum, holóttum götum. Beint framhald af þeirri mynd var svo Mamma Gógó, þar sem Kristbjörg var komin með Allann.

Jæja, þar sem við erum komnir að Flugbraut heyrist hratt tipl. Það hljómaði kunnuglega í eyrum. Hver kemur ekki á hröðum spretti nema Einar blómasali og þeysist fram úr okkur. Við Jörundur vorum sammála um að þessi sprettur myndi ekki endast og hann myndi springa fljótlega eins og blaðra. Sem varð raunin þegar kom í Nauthólsvík, þá var Einar gangandi og sýndi engin tilþrif eftir það. Hér var engu logið á blómasalann.

Gummi og Magga voru enn með okkur er hér var komið en settu stefnuna á lengra eftir Flanir svo að við fórum okkar hefðbundna sunnudagstúr í Garðinn. Það eru alltaf hátíðlegar kyrrðarstundir í Garðinum og ekki lætin þar. Rifjuð upp ganga Hlaupasamtakanna á Fimmvörðuháls í sumar og óheppni Einars með gönguskóna og afdrif þeirra. Þetta var eftirminnileg ferð, ekki síst það að Biggi þurfti að rífa sig úr öllu við hvern foss fyrir myndatöku. Og skemmtileg kvöldstund í Skagfjörðsskála að göngu lokinni.

Framundan er spennandi árshátíð í Viðey nk. laugardag og eru margir spenntir að njóta leiðsagnar heimamanns um Eyna.

Farin hefðbundin leið um Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Menn leiddu hugann að því hvort Vilhjálmur okkar biði eftir okkur á reiðhjóli við kínverska sendiráðið, en svo reyndist ekki vera. Greiðlega gekk að komast yfir Sæbraut og hlaupið samfellt að Hörpu, um Hafnarsvæði, upp Ægisgötu og svo til Laugar. Nú var veður svo gott að það mátti teygja úti á Plani og ræða við aðsteðjandi laugargesti sem voru margir.

Það er til vansa að Laug opnar ekki fyrr en kl. 11 á sunnudagsmorgnum. Það þýðir að alltof margir þyrpast til Laugar á sama tíma um hádegisbil, sem skerðir lífsgæði hlaupara í Hlaupasamtökunum. Í stað þess að geta lagt heilan pott undir okkur og gáfumannahjal okkar um bílnúmer og kosningaúrslit, slitnar hópurinn í tvennt, annar hírist með eldri borgurum í Örlygshöfn, en hinn með ómálga börnum í Barnapotti. Ekki gott. Þannig skortir alla heildarsýn á umræður dagsins.

Næst er reglulegt hlaup á miðvikudag. Í gvuðs friði.


Hefðbundinn föstudagur með dánumönnum

Föstudagur. Mættir: Þorvaldur frá Óðagoti, Denni, skrifari, Benzinn, Bjössi - og hver dróst ekki þarna inn með semingi og þvermóðsku nema hann Jörundur okkar sem hefur verið örlátur á fé við skrifara gegnum tíðina vegna nauðsynlegra utanlandsferða í þágu Lýðveldisins. Jæja, samtöl í Brottfararsal fóru fram af kurteisi og hógværð allt þar til Benzinn mætti, þá var friðurinn úti. "Er hann slæmur í dag?" spurði Denni. "Það kemur bara í ljós," sagði skrifari. "Á hverju er hann?" spurði Denni. "Það er nú nefnilega málið, hann er ekki á neinu" sagði skrifari. "Nú?" sagði Denni skilningsríkur.

Jæja, hvað um það. Ekki kom til álita annað en fara hefðbundið á föstudegi og ekkert helvítis Nes. Menn voru hægir, og þeir Denni og Jörundur hægastir. Aðrir hraðari og Bjössi bara flottur. Það blés á austan, bölvaður strekkingur á móti hlaupurum. Við létum það ekki á okkur fá og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar þegar viðsnúningur yrði eftir Veðurstofu. Það var hávaði í Benzinum eins og venjulega, en svo krimti í honum á milli og var eins og hann væri að hrekkja menn með hávaðanum. Menn spurðu um blómasala sem ku vera á leið í maraþon eftir mánuð.

Þetta var nú ekki með stórtíðindum fram að Nauthólsvík, þar beygði Björninn af, en við hinir héldum áfram. Síðar fréttum við að Jörundur og Denni hefðu farið Hlífðarfót og svo Klambra. Endurnýjuð kynni við Hi-Lux og þá kom próf. Fróði upp í hugann, Benzinn kvaðst hafa reynt að hringja í hann í Akademíunni, en einhverjir Kínverjar svarað og haft litlar upplýsingar um íverustað prófessorsins. Menn eru sumsé að leita að karlinum, en ekkert fæst uppgefið um hvar hann heldur sig. Það verður líklega að fara að lýsa eftir honum eins og krökkunum sem strjúka af upptökuheimilum.

Fórum brekkuna rólega, staldrað við inn á milli enda menn þungir, tveir á tíunda tugnum og daðrandi við Desítonnið. Hér er verk að vinna. Áfram hjá Garði og upp hjá Veðurstofu. Saung- og skák, Hlíðar, Klambrar og Einar Ben. Rauðarárstígur tíðindalítill, en þegar kom á Hlemm sveik Þorvaldur okkur og fór Laugaveginn sem er geðbilun á föstudegi með kaupsjúka korthafa á nýju tímabili. Við Benzinn fórum niður á Sæbraut og hvern sáum við þar? Var ekki Denni dólandi sér í vorkyrrðinni með sjávarölduna við hlið sér. Við náðum honum og höfðum við samfylgd til loka hlaups. Frikki kaupmaður dúkkaði upp á Plani og hafði farið 8 km - Benzinn byrjaði að grenja á hann, en Frikki lét sem hann heyrði ekki. Það æsti Benzinn bara upp og hann hljóp á eftir kaupmanni öskrandi.

Í Móttökusal gerðust þau tíðendi að Samfylkingarþingmaðurinn R. Marshall átti leið um án þess að Benzinn tæki eftir honum og komst hann því óáreittur út á stétt. Hér var rifjað upp að aðrir Samfylkingarþingmenn hafa ekki verið jafnlánsamir, og nefndu menn hér nafn Marðar Árnasonar, sem var svo óheppinn einn föstudagseftirmiðdag að lenda í Benzinum og öfgum hans.

Pottur makalaus. Þar var Kristján Hreinsmögur Skerjafjarðarskáld með ádíens. Hann flutti okkur ljóð og tækifærisvísur. Hér var Biggi mættur og hafði skoðanir á hlutunum. Hann hefur ekki hlaupið svo lengi að hann er farinn að fjarlægjast hugsjónir Nagla. Það þarf að taka hann í klössun við tækifæri. Svo mætti Guðrún Harðardóttir og var fagnað vel. Hérna sátum við og áttum gæðastund saman. Framundan árshátíð 14. apríl, eru allir skráðir?


"Nú er Bleik brugðið!"

Bleik var brugðið í dag. Meira um það seinna. Veður með bezta móti þegar hlauparar söfnuðust saman til hlaupa frá Vesturbæjarlaug. Þurrt, stillt, 6 stiga hiti hið minnsta. Og það bara batnar fram að helgi. Mættir: Magnús, Flosi, Þorvaldur, Magga, dr. Jóhanna, Ósk, Helmut, blómasali, skrifari, Bjössi, Benz, Frikki - og loks kom Kalli af Brimum, vinur Goðmundar vinalausa. Hann hefur ekki sézt að hlaupum um langt árabil. Í okkar hópi er engin skömm að því að vera vinalaus, það er legio.

Jæja, það var þetta venjulega karp í Brottfararsal og baktal um náungann. En loks var ekki undan því vikizt að hefja hlaup. Nes var nefnt, sem er óvenjulegt á miðvikudegi, en það var einhver pastoral rómantík í mannskapnum, menn sáu fyrir sér hæga ölduna falla að og frá, bleika akra og slegin tún. Skrifari hafði efasemdir, en á þær var ekki hlustað frekar en fyrri daginn. Magga lagði til að það yrði byrjað á að fara út að Drulludælu og svo vestur úr. Leist þeim vel á þessa áætlun sem stefna á langt á næstunni, en okkur hinum var sosum alveg sama.

Skrifari hélt sér aftast af ráðnum hug, hann hefur ekki hlaupið að ráði síðustu þrjár vikurnar, orðinn feitur og þungur af hreyfingarleysi og óhófi í mat og drykk er tengist fundahöldum um landið. Einhverra hluta vegna raðaði blómasalinn sér í sama flokk, maður sem er búinn að æfa eins og heltekinn síðustu vikur og ætti að vera í fantaformi. Þarna voru Maggi, Benzinn, Kalli, Bjössi og fleiri.

Blómasalinn er ólíkindatól og hrekkjusvín. Hann hafði frétt af því að Benzinn væri viðkvæmur fyrir Hamborgarabúllunni. Upphóf hann nú mikinn munnsöfnuð og afflutning á þessum hjartnæma og geðþekka matsölustað, taldi fæðinu þar allt til foráttu og menn ættu að forðast hann eins og pestina. Ekki hafði hann lengi malað þegar Bjarni var stokkinn upp á nef sér, orðinn trítilóður og kvaðst ekki hlusta á svona óhróður. Var sem rakettu væri stungið í óæðri endann á honum og hann var horfinn með sama, náði hraðförunum á stuttum tíma og hélt sig þar.

Við hinir fórum þetta í hægðum okkar í Skerjafjörðinn og snörum við hjá Stoppustöð SVR og Oddi ættfræðingi. Á móti okkur kemur Friðrik kaupmaður og hafði eitthvað villst. Hann sneri líka við og hélt á Nes. Nú tók Kalli við sér og Bjössi og skildu okkur eftir. En blómasali og Maggi voru rólegir. Ég innti menn eftir því hvað blómasalinn hefði fengið í hádeginu, það var skyrdolla og glas af ávaxtasafa - ekkert sem getur útskýrt hægaganginn. Fór fetið er komið var að Hofsvallagötu, en lagði svo á Nes með Magga. Bjössi og blómasalinn hættu hlaupi hér.Hér var Bleik brugðið.

Við Maggi fengum félagsskap af Þorvaldi á Nesi og saman héldum við út að Haðkaupum, niður á Norðurströnd og svo í humátt að Laug. Er þangað kom sátu Bjössi og blómasalinn úti í glugga að trúnaðarhjali. Skrifari slóst í hópinn og áttum við langt spjall þar. Svo kom Sif langhlaupari og hafði pínt sig 6 km, hálffarlama konan. Svo var farið í Pott. Þar áttum við gæðastund nokkur. Bjarni með hávaða að venju, en sem betur fer hás svo það heyrðist ekki mikið í honum. Lagt á ráðin um Árshátíð og eru þeir hvattir til að skrá sig sem ekki hafa gert það, plássin fara að fyllast! Björn upplýsti að hann ætlaði að opna nýjan dagskrárlið: "The airing of grievances" í anda Frank Costanza. Leyfa félögunum að heyra um öll þau tilvik sem þeir hafa valdið honum vonbrigðum allt síðastliðið ár, hér verða einkum ákveðnir félagar skotspónn kokksins. Hins vegar verður enginn látinn gjalda fyrir hugsunarleysi sitt í mat Kokksins - hann verður ósvikinn! Hægri afturlöpp af íslenzkri rollu. Laugardaginn 14. apríl, muna það.

Í gvuðs friði.
Skrifari


Benzinn með skásta móti

Venju samkvæmt söfnuðust menn saman við Vesturbæjarlaug kl. 10:10 til þess að hlaupa, skrafa og fræðast. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Benzinn, skrifari, blómasali og Flosi á hjóli. Það var nokkurra stiga frost og menn því vel búnir. Balaklava er skilyrði við þessar aðstæður. Nokkuð er liðið síðan skrifari þreytti sæmilegt hlaup og hann búinn að bæta á sig, því var útlit fyrir átakahlaup. Fór þó rólega af stað.

Umræðan snerist eðlilega um þau ósköp að starfsmaður Akademíunnar hefur gerzt ber að óvandaðri umgengni um fjármuni stofnunarinnar og sætt fyrir að úttekt. Um tíma höfðu einhverjir af okkar minnstu bræðrum áhyggjur af því að sá sómakæri og gegnheili Ó. Þorsteinsson væri innblandaður og sæti jafnvel bak við lás og slá. Nokkur símtöl í þá veru fóru um landsnetið, en á móti sat Formaður og hafði vart undan að svara tölvuskeytum og brunahringingum, engri þó frá V. Bjarnasyni. En við sem þekkjum okkar mann að engu nema heiðarleik og séntilmennsku vissum að fréttin gat ekki átt við um hann. Um þetta snerist umræðan fyrsta spölinn.

Menn höfðu eðlilega áhyggjur af Bjarna, sem hefur valdið umferðaröngþveiti og handalögmálum í nokkrum af seinustu hlaupum Samtakanna. En það verður að segjast honum til hróss að hann var bara með ágætum í dag, hávaði með minnsta móti (líklega sökum hæsis) og umfjöllun í samhengi. Það var fjári kalt í dag og blés á norðan. Blómasali og Þorvaldur skildu okkur hina fljótlega eftir og sást síðast til þeirra í Nauthólsvík, en ekki eftir það.

Við hinir héldum ró okkar enda um margt að ræða þegar menn hafa verið fjarverandi frá hlaupum um lengri hríð. M.a. barst talið að próf. Fróða sem hefur ekki mætt í hlaup svo mánuðum skiptir og verður fljótlega afskrifaður fari hann ekki að gera vart við sig. Hefðbundinn stanz í Nauthólsvík og málin rædd. Svo var haldið áfram í Garðinn og hann genginn í andakt.

Eftir Veðurstofuhálendið lagaðist veðrið og varð bærilegt. Við dóluðum þetta á sömu rólegu nótum og var enginn skortur á umræðuefnum, gamlar frægðarsögur af Bjarna Benz. Farinn Laugavegur og talin tóm verzlunarrými, 9. Hylling á Café Paris. Rólega upp Túngötu, krossmark við Kristskirkju.

Er komið var tilbaka var blómasali á leið upp úr. Hann taldi það merki um hreysti að þurfa að þurrka sér á glerhörðu, gegnfrosnu handklæði, aðrir kölluðu það bara aulahátt. Hann lánaði Benzinum handklæðið, en Benzinn hafði gleymt sínu. Það var gauðrifinn, útslitinn handklæðissnepill sem sjaldan hefur sézt ómerkilegri slíkur í Vesturbænum. Pottur góður, rætt um allt frá La Boheme til Barbour-jakka. Aristókrata og prófessora. Nú er að sjá hvort skrifari helst sæmilegur í fótnum áfram.


Endurfundir eftir meiðsli og veikindi

Þessir voru: Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Hjálmar, dr. Jóhanna, Haraldur, Heiðar, Stefán, blómasali, skrifari, Benz, Bjössi, Jóhanna Ólafs, Dagný, G. Löve og svo dúkkaði Kaupmaðurinn upp þegar hlaup var hafið. Hávaði í Benzinum sem þarf að stilla. Áhugi á brekkum hjá einhverjum og þeim var leyft að renna skeiðið út í Öskjuhlíð þar sem völ er á brekkum. Aðrir spakir, enda sumir búnir að fara langt á laugardag.

Skrifari nýstiginn upp úr meiðslum og Jörundur að lyfta höfði frá kodda eftir tveggja vikna flensu. Voru því ekki til stórræðanna í dag, en hlaup nauðsynlegt engu að síður. Fórum þetta afar hægt og héldum okkur aftast, má vel una við Trabant-nafngiftina þar. Magnús nálægur. Jörundur við það að gefast upp þegar hann fann að veikindin voru enn viðloðandi, en hélt þó áfram og seiglaðist þetta.

Þegar komið var í Skerjafjörð kom blómasalinn á miklum hraða og virtist ætla að taka á því, hætti þó fljótlega við og fór að kvarta yfir þyngdaraukningu og fitusöfnun, það væri sama hvað hann hlypi, ekkert gengi að léttast eða grennast. E.t.v. er orðið tímabært að fá næringarfræðing til þess að hjálpa okkur þessum sem nýtum vel matinn sem við borðum í forðasöfnun, verst að líklega myndum við ekki fara að ráðum viðkomandi.

Það var bara farinn Hlíðarfótur og þetta voru Magnús, Benzinn, skrifari og blómasali og trúlega hafa Bjössi og Dagný einnig farið þessa sömu vegalengd í kvöld. Mikið skrafað á leiðinni og Benzinn lýsti hneykslaður yfir því að Biggi hefði nefnt villikött í höfuðið á honum. Skaðræðisskepnu sem sæti um kettina hans Bigga og reyndi að vinna þeim allt til miska. Biggi tók sig til og fjarlægði kvikyndið úr Vesturbænum og fór með hann upp í Kattholt. En velviljaður Vesturbæingur leysti skepnuna úr prísundinni gegn greiðslu og kom honum til sinna fyrri heimkynna þar sem hann er öllum til ama og leiðinda. M.a. lenti Jörundur í mikilli rimmu við hann um daginn sem leystist ekki fyrr en hann sparkaði honum í burtu og henti grjóti á eftir honum.

Benzinn sagði: "Já, mér þætti gaman að sjá þig sparka mér svo auðveldlega í burtu, hvað þá heldur að grýta mig í ofanáálag!" Benzinn vissi að upplýsa okkur um prófessor Fróða, en það sást til hans ganga eðlilega um Háskólaplanið. Þegar hann sá Benzinn helltist hins vegar mikil helti yfir hann á vitlausum fæti. Sagðar fleiri sögur af Bigga og hlegið mikið. Og hver kemur þá ekki akandi eftir Hringbrautinni og öskrar ókvæðisorðum að okkur nema sjálfur téður Birgir!

Pottur hreint magnaður og sagðar sögur. Þangað mætti Flosi og hafði hjólað langa vegalengd. Nú fer að styttast í löng hlaup hjá sumum - vordagskrá fer að hefjast. Þetta fer bara batnandi!


Félag eldri borgara lýsir með fjarveru sinni - ásetningur um árshátíð

Óvenju kjaptfor og ósvífinn eldri borgari hefur farið hamförum í Netheimum að undanförnu til þess að hallmæla virðulegum embættismönnum sem kljást við offitu og þyngdaraukningu, en sýna þó furðumikinn vilja til þess að takast á við vandann og bæta ástandið með hlaupum og heilbrigðu líferni. Því þótti furðu sæta og stappa nærri framhleypni að viðkomandi lætur ekki svo lítið að mæta til hlaupa á auglýstum hlaupatíma opinberra samtaka hlaupara í Vesturbænum.

Ekki skal farið mörgum orðum um mætta hlaupara, en þó skal getið Friðriks Guðbrandssonar, sem mætti til þess að auðsýna hlaupurum virðingu sína og heilsa upp á gamla félaga. Enn var spurt um Gústa gamla og hvort hann væri ekki á leið í Marathon des Sables. Óljósar fregnir af honum. G. Löve æfir skv. brezku prógrammi sem kveður á um 8 mílna sprett á miðvikudag. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig það gengur fyrir sig.

Það væri að æra óstöðugan að hafa yfir þuluna um betri hlaupara og lakari hlaupara, en aðgreiningin gerist bara meiri og meiri. Þó held ég að til sé að verða hlaupakategorían "skárri hlauparar" og myndi skrifari flokka sjálfan sig, Helmut, Dagnýju, jafnvel Benzinn með og einnig Þorvald í þá grúpperingu. Þessir hlauparar aðgreindu sig með afgerandi hætti gegn Trabant-tendensinum, sem þó saknaði foringja í stað og var líklega framan við tölvuna að ausa úr sér óforskömmugheitum yfir vammlaust fólk.

Töluverður sunnanstrekkingur og var hálfgert til leiðinda, þó hlykkjast stígurinn með ströndinni svo mjög að maður var ýmist með vindinn í hliðina, í fangið eða í bakið. Og stundum lygndi. Tekið vel á því að góðu tempóhlaupi og má Benzinn hafa heiður fyrir með sín 104 kg að hafa pínt skrifara með sín 89 kg á góðum hraða, Helmut og Dagný fyrir framan okkur, Þorvaldur á einhverju óljósu róli í kringum okkur.

Er komið var í Nauthólsvík beið Helmut eftir okkur og ég benti áfram á Flanir. "Suðurhlíð?" sagði Helmut. Skrifari samsinnti. Aðrir beygðu af og fóru Hlífðarfót. Við hertum hlaupið ef eitthvað var og tókum það sem eftir var á tempói. Brekkan upp Suðurhlíð steinlá og við önduðum vart úr nös er komið var upp hjá Perlu. Afgangurinn var bara formsatriði og við sprettum úr spori.

Eins og menn vita er blómasalinn veikur fyrir súkkulaði. Á nýlegri ferð sinni til Flórída keypti Benzinn Hershey´s súkkulaði. Hann hafði það með sér í dag. Pokinn var rifinn upp í Útiklefa og blómasalinn sótti sér lúku. Svo sat hann á bekknum og maulaði meðan aðrir drifu sig í sturtu. "Ummm, þetta er gott," sagði blómasalinn og taumurinn lak niður munnvikin. Við máttum bíða eftir honum í einar tuttugu mínútur áður en hann sýndi sig í Potti.

Þar var Björn kokkur og spurði hvort áhugi væri á árshátíð. Skrifari greip boltann á lopti og nefndi Viðey. Nú er spurt: er áhugi fyrir því að halda árshátið Hlaupasamtakanna í Viðey í aprílmánuði þegar veður eru sæmileg og sæmilega bjart fram eftir kvöldi? Vafalítið væri kokkurinn fús til að liðsinna með próvíant við sanngjörnu verði. Meira um það seinna.


Kyrrlátum sunnudagsmorgni varið til hlaupa

Þeir eru einstakir, sunnudagsmorgnarnir í Vesturbænum, varla sál á ferli og tæplega að bærist hár á höfði manna eða dýra. Menn eru mættir stundvíslega kl. 10:10 við Laug, alklæddir í hlaupagalla, því að enn opnar Laug ekki fyrr en kl. 11 og er þó fólk enn að koma kl. 10 haldandi það dyr verði opnaðar fljótlega. Jæja, að þessu sinni voru það skrifari, Magnús og Þorvaldur sem hugðu á hlaup. Nú verða sjálfsagt einhverjir hissa að sjá ekki nafn Formanns til Lífstíðar, Jörundar eða Einars blómasala, en þeir tveir síðastnefndu hafa verið einkar háværir um afrek sín í hlaupum og með ónot við ónefnda félaga þeirra sem hafa misst af einu og einu hlaupi vegna mikilvægra embættisferða til Brussel. Hvað um það, félagsskapurinn var góður og engin ástæða til að ætla annað en hlaup yrði farsælt.

Skrifari að vísu þungur á sér þar sem hann hafði farið Þriggjabrúahlaup í gær, laugardag, á þokkalegasta tempói. Það er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að stemma stigu við hinni ógnvænlegu þyngdaraukningu síðustu vikna. En það var lagt í hann, rigningarlegt og einhver sunnanátt. Eðlilega var rætt um úrslit í Júróvisjón og voru menn sammála um að lagavalsins vegna mætti gjarnan fella niður þátttöku þetta árið. Þetta var morgunninn þegar fréttist af andláti söngdívunnar Whitney Houston þar vestur í Hollywood. Menn tjáðu hug sinn þar um og um það eiturlyfjaumhverfi sem þetta fólk býr við.

Nú bættist Flosi í hópinn á reiðhjóli og kvartaði yfir meiðslum, en hann hljóp einnig í gærmorgun. Þá vorum við komnir í Nauthólsvík þar sem standa yfir miklar framkvæmdir, bæði á plani uppi og eins niðri í fjöru. Fróðlegt verður að sjá hvað þar rís. Aðeins gerður stuttur stans og svo haldið áfram. Aftur gengið í Kirkjugarði, en eftir það var hlaupið alla leið.

Er komið var að Hörpu taldi ég heppilegast að ganga smáspöl vegna þreytunnar, en hélt svo áfram hlaupandi og náði þeim hinum fljótlega. Svo var aftur gengið upp Ægisgötu og þá skildu þeir Þorvaldur og Magnús mig eftir. Þrátt fyrir þetta var komið til Laugar á mun betri tíma en alla jafna og skakkaði líklega einum 15 mín.

Í Pott mættu syndaselir. Ó. Þorsteinsson kvað hlaupafatnað sinn ekki hafa náð að þorna yfir nótt frá hlaupi gærmorgunsins og verður að teljast á veikum grunni byggt. Hins vegar kom blómasalinn svo að segja beint úr nætursukki, Þorrablóti með vinum þar sem bæði var etið og drukkið ótæpilega. Ja, menn ættu að vera háværari í skeytum sínum! Þar að auki voru í Potti dr. Einar Gunnar og Tobba, sem ekki hefur sést að hlaupum lengi. Síðar bættust í hópinn Stefán verkfræðingur og frú Helga. Rætt um kosningaúrslit og bílnúmer, nýjustu jarðarfarir og misjafnar ævir manna.


Örlög Jameson flöskunnar

Skrifari er vinur vina sinna. Meira um það seinna. Í fögru veðri söfnuðust margir valinkunnir hlauparar saman. Mátti bera kennsl á Þorvald, Magga, Möggu, Helmut, Bjössa, Stefán, Gumma, Ósk, Hjálmar, dr. Jóhönnu, Jóhönnu Ólafs, Harald, auk þess sem Kára brá fyrir, en ekki ljóst hvort hann hafi hlaupið. Skrifari var mættur. Miðvikudagur og þá er farið langt, ekki styttra en Þriggjabrúa, jafnvel lengra. Haraldur Jónsson að koma úr sjóbaði með loðhött á höfði.

Skrifari hitti blómasalann í gærkvöldi. Strengdu menn þar þess heit að hlaupa langt í miðvikudagshlaupi. Þeir áttu langt spjall. Skrifari var nýkominn úr mikilli svaðilför til Brussel. Á heimleiðinni var flogið gegnum Köben og varð hálftíma seinkun. Sem var allt í lagi, nema hvað eftir lendingu tók við þriggja tíma bið úti í vél eftir því að fá að koma inn í flugstöð, mönnum þótti víst vindurinn vera eitthvað háskalegur. Ekki urðu menn varir við vind úti í vél. Jæja, skrifari er vinur vina sinna og færir þeim gjarnan eitthvað eftir dvöl í útlöndum. Í þetta skiptið hafði hann hálfflösku af Jameson í handraðanum ætlaða blómasalanum. Nú voru góð ráð dýr! Ekkert að hafa í vélinni í þrjár klukkustundir! Hvað gera menn? Nú, þeir bjarga sér. Tappi dreginn úr Jameson og byrjað að teyga. Um það bil sem dyr á farkostinum voru opnaðar var komið niður í miðjar hlíðar á Jamesoninum.

Blómasalinn brást harla kátur við þegar honum var fengið Lindt súkkulaði og hálfur fleygur af Jameson. Litlu verður Vöggur feginn. Hann var fullvissaður um að næst fengi hann fullan fleyg. Það þurfti ekki meira til þess að gleðja þessa einföldu sál. Um sama leyti lýsti blómasalinn yfir því að það yrði farið langt miðvikudag. Hann lét hins vegar ekki sjá sig í hlaupi dagsins.

Nú, menn lögðu vissulega upp og Maggi hafði á orði að langt væri umliðið síðan Frikki Guðbrands hefði sýnt sig. Fórum þetta á léttu og rólegu dóli, en áður en langt var um liðið var "hinn" hópurinn búinn að skilja okkur lakari hlaupara eftir. Ég fór með Helmut og Magga og við vorum bara rólegir. Björn var rólegur líka, fór 5 km, er að byggja sig upp eftir hlaupaleysi Víetnam- og Taílandsfarar.

Óskaplega var skrifari þungur á sér eftir utanlandsferðina, skrýtið hvað svona ferðalög fara illa með skrokkinn á manni! En við djöfluðumst þetta inn í Nauthólsvík og svo var stýrt inn á Hlíðarfótinn hjá HR og þá leið tilbaka. Þetta voru Þorvaldur, Magnús og skrifari, en Helmut hélt áfram Þriggjabrúa. Hér var farið að kólna svo eftir var tekið og eins gott að ekki var farið lengra.

Ástandið skánaði þegar á leið og við vorum bara góðir á Hringbrautinni. Teygt með dr. Jóhönnu í Móttökusal. Svo var legið í Potti með Bjössa og Jóhönnu og rætt um austurlenska matreiðslu, ávexti og landabrugg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband