Hefðbundinn föstudagur með dánumönnum

Föstudagur. Mættir: Þorvaldur frá Óðagoti, Denni, skrifari, Benzinn, Bjössi - og hver dróst ekki þarna inn með semingi og þvermóðsku nema hann Jörundur okkar sem hefur verið örlátur á fé við skrifara gegnum tíðina vegna nauðsynlegra utanlandsferða í þágu Lýðveldisins. Jæja, samtöl í Brottfararsal fóru fram af kurteisi og hógværð allt þar til Benzinn mætti, þá var friðurinn úti. "Er hann slæmur í dag?" spurði Denni. "Það kemur bara í ljós," sagði skrifari. "Á hverju er hann?" spurði Denni. "Það er nú nefnilega málið, hann er ekki á neinu" sagði skrifari. "Nú?" sagði Denni skilningsríkur.

Jæja, hvað um það. Ekki kom til álita annað en fara hefðbundið á föstudegi og ekkert helvítis Nes. Menn voru hægir, og þeir Denni og Jörundur hægastir. Aðrir hraðari og Bjössi bara flottur. Það blés á austan, bölvaður strekkingur á móti hlaupurum. Við létum það ekki á okkur fá og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar þegar viðsnúningur yrði eftir Veðurstofu. Það var hávaði í Benzinum eins og venjulega, en svo krimti í honum á milli og var eins og hann væri að hrekkja menn með hávaðanum. Menn spurðu um blómasala sem ku vera á leið í maraþon eftir mánuð.

Þetta var nú ekki með stórtíðindum fram að Nauthólsvík, þar beygði Björninn af, en við hinir héldum áfram. Síðar fréttum við að Jörundur og Denni hefðu farið Hlífðarfót og svo Klambra. Endurnýjuð kynni við Hi-Lux og þá kom próf. Fróði upp í hugann, Benzinn kvaðst hafa reynt að hringja í hann í Akademíunni, en einhverjir Kínverjar svarað og haft litlar upplýsingar um íverustað prófessorsins. Menn eru sumsé að leita að karlinum, en ekkert fæst uppgefið um hvar hann heldur sig. Það verður líklega að fara að lýsa eftir honum eins og krökkunum sem strjúka af upptökuheimilum.

Fórum brekkuna rólega, staldrað við inn á milli enda menn þungir, tveir á tíunda tugnum og daðrandi við Desítonnið. Hér er verk að vinna. Áfram hjá Garði og upp hjá Veðurstofu. Saung- og skák, Hlíðar, Klambrar og Einar Ben. Rauðarárstígur tíðindalítill, en þegar kom á Hlemm sveik Þorvaldur okkur og fór Laugaveginn sem er geðbilun á föstudegi með kaupsjúka korthafa á nýju tímabili. Við Benzinn fórum niður á Sæbraut og hvern sáum við þar? Var ekki Denni dólandi sér í vorkyrrðinni með sjávarölduna við hlið sér. Við náðum honum og höfðum við samfylgd til loka hlaups. Frikki kaupmaður dúkkaði upp á Plani og hafði farið 8 km - Benzinn byrjaði að grenja á hann, en Frikki lét sem hann heyrði ekki. Það æsti Benzinn bara upp og hann hljóp á eftir kaupmanni öskrandi.

Í Móttökusal gerðust þau tíðendi að Samfylkingarþingmaðurinn R. Marshall átti leið um án þess að Benzinn tæki eftir honum og komst hann því óáreittur út á stétt. Hér var rifjað upp að aðrir Samfylkingarþingmenn hafa ekki verið jafnlánsamir, og nefndu menn hér nafn Marðar Árnasonar, sem var svo óheppinn einn föstudagseftirmiðdag að lenda í Benzinum og öfgum hans.

Pottur makalaus. Þar var Kristján Hreinsmögur Skerjafjarðarskáld með ádíens. Hann flutti okkur ljóð og tækifærisvísur. Hér var Biggi mættur og hafði skoðanir á hlutunum. Hann hefur ekki hlaupið svo lengi að hann er farinn að fjarlægjast hugsjónir Nagla. Það þarf að taka hann í klössun við tækifæri. Svo mætti Guðrún Harðardóttir og var fagnað vel. Hérna sátum við og áttum gæðastund saman. Framundan árshátíð 14. apríl, eru allir skráðir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband