Þyngsli í slyddu

Þrátt fyrir slyddu var fjöldi hlaupara mættur til reglubundins miðvikudagshlaups frá Laug: Jörundur, Helmut, dr. Jóhanna, Magga, Björninn, Beta, Biggi,skrifari, blómasalinn, Maggi, B. Sævarsson, og einhverjir fleiri sem kennsl voru ekki borin á. Mikið rætt í Brottfararsal um árshátíð Samtakanna í Viðey n.k. laugardag. Mikil spenna fyrir þessum árlega viðburði.

Það var slydda er komið var út á Plan og blómasalinn teygði höndina upp í loftið með úrinu á, en við Jörundur gripum hana strax svo að það liti ekki út eins og Hitlerskveðja. Magga spurði hvað menn vildu gera, það var bara Þriggjabrúa, nema hvað? Við Jörundur vorum hæverskir og héldum okkur aftarlega ásamt með Bigga og Betu, þetta var Trabantklúbbur dagsins. Skrifari eitthvað þungur í dag, en kokkurinn í Arnarhváli bauð upp á grænmetis canneloni með spínati, mexíkóska kraftsúpu og salat. Frikki dró okkur uppi og skildi okkur eftir. Hann er á leið í London-maraþon.

Spurt var um skemmtiatriði á árshátíðinni. Ja, þar mun Formaður flytja ekki færri en þrjár ræður, hverja annarri skemmtilegri, með viðeigandi útúrdúrum og afbrigðum. Hér mun reyna á athyglisgáfu viðstaddra, en eins og menn vita er ekki öllum gefið að fylgja þræði Formanns þegar hann kemst á flug. Síðan má vænta þess að hvers kyns skemmtan verði höfð í frammi, söngur og gleði.

Nú, við kjöguðum þetta Trabantarnir og gekk bara bærilega. Aðrir voru löngu horfnir í snjóreyk. Við veltum vöngum yfir maraþonhlaupum og árangri félaga okkar í næstliðnum hlaupum, sem eru alla vega. Síðan var rætt um göngur á fjöll, t.d. Hvannadalshnjúk. Hvaða leyndarpukur var þetta á henni Ósk okkar hér um daginn? Hún kvaðst vera á leið á Hvannadalshnjúk með celebra manneskju. Það skyldi þó aldrei hafa verið hún Kate okkar Winslet? Fór í nístandi kulda á fjallið og stóð sig bara vel.

Er komið var í Nauthólsvík var okkur Jörundi orðið kalt og við nenntum ekki að halda áfram, snörum inn á Hlíðarfót. Biggi og Beta að baki okkur að teygja. Mættum hópi göngumanna sem gengu ákveðið á móti okkur og viku hvergi undan. Farið yfir hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka um Hringbraut, slakað á við Háskóla, en klárað með góðu hlaupi alla leið á Plan.

Teygt innan dyra. Þar dúkkaði upp Bjarni Benz og var kátt í vaskra drengja hópi. Rætt um bíla, mat og fleira. Haldið áfram undirbúningi árshátíðar. Góðir tímar framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband