Endurfundir eftir meiðsli og veikindi

Þessir voru: Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Hjálmar, dr. Jóhanna, Haraldur, Heiðar, Stefán, blómasali, skrifari, Benz, Bjössi, Jóhanna Ólafs, Dagný, G. Löve og svo dúkkaði Kaupmaðurinn upp þegar hlaup var hafið. Hávaði í Benzinum sem þarf að stilla. Áhugi á brekkum hjá einhverjum og þeim var leyft að renna skeiðið út í Öskjuhlíð þar sem völ er á brekkum. Aðrir spakir, enda sumir búnir að fara langt á laugardag.

Skrifari nýstiginn upp úr meiðslum og Jörundur að lyfta höfði frá kodda eftir tveggja vikna flensu. Voru því ekki til stórræðanna í dag, en hlaup nauðsynlegt engu að síður. Fórum þetta afar hægt og héldum okkur aftast, má vel una við Trabant-nafngiftina þar. Magnús nálægur. Jörundur við það að gefast upp þegar hann fann að veikindin voru enn viðloðandi, en hélt þó áfram og seiglaðist þetta.

Þegar komið var í Skerjafjörð kom blómasalinn á miklum hraða og virtist ætla að taka á því, hætti þó fljótlega við og fór að kvarta yfir þyngdaraukningu og fitusöfnun, það væri sama hvað hann hlypi, ekkert gengi að léttast eða grennast. E.t.v. er orðið tímabært að fá næringarfræðing til þess að hjálpa okkur þessum sem nýtum vel matinn sem við borðum í forðasöfnun, verst að líklega myndum við ekki fara að ráðum viðkomandi.

Það var bara farinn Hlíðarfótur og þetta voru Magnús, Benzinn, skrifari og blómasali og trúlega hafa Bjössi og Dagný einnig farið þessa sömu vegalengd í kvöld. Mikið skrafað á leiðinni og Benzinn lýsti hneykslaður yfir því að Biggi hefði nefnt villikött í höfuðið á honum. Skaðræðisskepnu sem sæti um kettina hans Bigga og reyndi að vinna þeim allt til miska. Biggi tók sig til og fjarlægði kvikyndið úr Vesturbænum og fór með hann upp í Kattholt. En velviljaður Vesturbæingur leysti skepnuna úr prísundinni gegn greiðslu og kom honum til sinna fyrri heimkynna þar sem hann er öllum til ama og leiðinda. M.a. lenti Jörundur í mikilli rimmu við hann um daginn sem leystist ekki fyrr en hann sparkaði honum í burtu og henti grjóti á eftir honum.

Benzinn sagði: "Já, mér þætti gaman að sjá þig sparka mér svo auðveldlega í burtu, hvað þá heldur að grýta mig í ofanáálag!" Benzinn vissi að upplýsa okkur um prófessor Fróða, en það sást til hans ganga eðlilega um Háskólaplanið. Þegar hann sá Benzinn helltist hins vegar mikil helti yfir hann á vitlausum fæti. Sagðar fleiri sögur af Bigga og hlegið mikið. Og hver kemur þá ekki akandi eftir Hringbrautinni og öskrar ókvæðisorðum að okkur nema sjálfur téður Birgir!

Pottur hreint magnaður og sagðar sögur. Þangað mætti Flosi og hafði hjólað langa vegalengd. Nú fer að styttast í löng hlaup hjá sumum - vordagskrá fer að hefjast. Þetta fer bara batnandi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Vil taka fram að ég hjólaði með Flosa.

Kári Harðarson, 27.2.2012 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband