Engu logið á Einar

Marsmánuður var heldur dapurlegur að hlaupum hjá skrifara. Hlaupnir rúmir 40 km á einum mánuði og langt á milli hlaupa. Síðast hlaupið í Svíaríki fyrir tíu dögum. Þrálát meiðsli valda því að ekkert verður af samfellu og uppbyggingu. En á þessum sunnudagsmorgni skyldi tekið á því. Dagurinn var fagur og lofaði góðu, sól skein í heiði, stillt, hiti um 5 gráður. Mæting eftir því: Formaður, Þorvaldur, Jörundur, Magnús, skrifari, og svo bættust Magga, Gummi og Biggi í hópinn stuttu síðar.

Þegar svo langt er liðið frá því að frambærilegir hlauparar hittist var um margt að skrafa. Einkum hvarflaði hugur manna til ágætrar frammistöðu hans Villa okkar í Útsvarinu og voru menn stoltir af því að vera samtímamenn hans. Þá var einnig rætt um kvikmyndina 79 á Stöðinni sem sýnd var í sjónvarpi nýlega og tekin að einhverju leyti upp á æskuheimili hans Þorvaldar okkar við Dunhaga. Myndin þótti söguleg heimild um útlit Vesturbæjarins 1962 með fátæklegri byggð og ómalbikuðum, holóttum götum. Beint framhald af þeirri mynd var svo Mamma Gógó, þar sem Kristbjörg var komin með Allann.

Jæja, þar sem við erum komnir að Flugbraut heyrist hratt tipl. Það hljómaði kunnuglega í eyrum. Hver kemur ekki á hröðum spretti nema Einar blómasali og þeysist fram úr okkur. Við Jörundur vorum sammála um að þessi sprettur myndi ekki endast og hann myndi springa fljótlega eins og blaðra. Sem varð raunin þegar kom í Nauthólsvík, þá var Einar gangandi og sýndi engin tilþrif eftir það. Hér var engu logið á blómasalann.

Gummi og Magga voru enn með okkur er hér var komið en settu stefnuna á lengra eftir Flanir svo að við fórum okkar hefðbundna sunnudagstúr í Garðinn. Það eru alltaf hátíðlegar kyrrðarstundir í Garðinum og ekki lætin þar. Rifjuð upp ganga Hlaupasamtakanna á Fimmvörðuháls í sumar og óheppni Einars með gönguskóna og afdrif þeirra. Þetta var eftirminnileg ferð, ekki síst það að Biggi þurfti að rífa sig úr öllu við hvern foss fyrir myndatöku. Og skemmtileg kvöldstund í Skagfjörðsskála að göngu lokinni.

Framundan er spennandi árshátíð í Viðey nk. laugardag og eru margir spenntir að njóta leiðsagnar heimamanns um Eyna.

Farin hefðbundin leið um Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Menn leiddu hugann að því hvort Vilhjálmur okkar biði eftir okkur á reiðhjóli við kínverska sendiráðið, en svo reyndist ekki vera. Greiðlega gekk að komast yfir Sæbraut og hlaupið samfellt að Hörpu, um Hafnarsvæði, upp Ægisgötu og svo til Laugar. Nú var veður svo gott að það mátti teygja úti á Plani og ræða við aðsteðjandi laugargesti sem voru margir.

Það er til vansa að Laug opnar ekki fyrr en kl. 11 á sunnudagsmorgnum. Það þýðir að alltof margir þyrpast til Laugar á sama tíma um hádegisbil, sem skerðir lífsgæði hlaupara í Hlaupasamtökunum. Í stað þess að geta lagt heilan pott undir okkur og gáfumannahjal okkar um bílnúmer og kosningaúrslit, slitnar hópurinn í tvennt, annar hírist með eldri borgurum í Örlygshöfn, en hinn með ómálga börnum í Barnapotti. Ekki gott. Þannig skortir alla heildarsýn á umræður dagsins.

Næst er reglulegt hlaup á miðvikudag. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband