Benzinn með skásta móti

Venju samkvæmt söfnuðust menn saman við Vesturbæjarlaug kl. 10:10 til þess að hlaupa, skrafa og fræðast. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Benzinn, skrifari, blómasali og Flosi á hjóli. Það var nokkurra stiga frost og menn því vel búnir. Balaklava er skilyrði við þessar aðstæður. Nokkuð er liðið síðan skrifari þreytti sæmilegt hlaup og hann búinn að bæta á sig, því var útlit fyrir átakahlaup. Fór þó rólega af stað.

Umræðan snerist eðlilega um þau ósköp að starfsmaður Akademíunnar hefur gerzt ber að óvandaðri umgengni um fjármuni stofnunarinnar og sætt fyrir að úttekt. Um tíma höfðu einhverjir af okkar minnstu bræðrum áhyggjur af því að sá sómakæri og gegnheili Ó. Þorsteinsson væri innblandaður og sæti jafnvel bak við lás og slá. Nokkur símtöl í þá veru fóru um landsnetið, en á móti sat Formaður og hafði vart undan að svara tölvuskeytum og brunahringingum, engri þó frá V. Bjarnasyni. En við sem þekkjum okkar mann að engu nema heiðarleik og séntilmennsku vissum að fréttin gat ekki átt við um hann. Um þetta snerist umræðan fyrsta spölinn.

Menn höfðu eðlilega áhyggjur af Bjarna, sem hefur valdið umferðaröngþveiti og handalögmálum í nokkrum af seinustu hlaupum Samtakanna. En það verður að segjast honum til hróss að hann var bara með ágætum í dag, hávaði með minnsta móti (líklega sökum hæsis) og umfjöllun í samhengi. Það var fjári kalt í dag og blés á norðan. Blómasali og Þorvaldur skildu okkur hina fljótlega eftir og sást síðast til þeirra í Nauthólsvík, en ekki eftir það.

Við hinir héldum ró okkar enda um margt að ræða þegar menn hafa verið fjarverandi frá hlaupum um lengri hríð. M.a. barst talið að próf. Fróða sem hefur ekki mætt í hlaup svo mánuðum skiptir og verður fljótlega afskrifaður fari hann ekki að gera vart við sig. Hefðbundinn stanz í Nauthólsvík og málin rædd. Svo var haldið áfram í Garðinn og hann genginn í andakt.

Eftir Veðurstofuhálendið lagaðist veðrið og varð bærilegt. Við dóluðum þetta á sömu rólegu nótum og var enginn skortur á umræðuefnum, gamlar frægðarsögur af Bjarna Benz. Farinn Laugavegur og talin tóm verzlunarrými, 9. Hylling á Café Paris. Rólega upp Túngötu, krossmark við Kristskirkju.

Er komið var tilbaka var blómasali á leið upp úr. Hann taldi það merki um hreysti að þurfa að þurrka sér á glerhörðu, gegnfrosnu handklæði, aðrir kölluðu það bara aulahátt. Hann lánaði Benzinum handklæðið, en Benzinn hafði gleymt sínu. Það var gauðrifinn, útslitinn handklæðissnepill sem sjaldan hefur sézt ómerkilegri slíkur í Vesturbænum. Pottur góður, rætt um allt frá La Boheme til Barbour-jakka. Aristókrata og prófessora. Nú er að sjá hvort skrifari helst sæmilegur í fótnum áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband