Félag eldri borgara lýsir með fjarveru sinni - ásetningur um árshátíð

Óvenju kjaptfor og ósvífinn eldri borgari hefur farið hamförum í Netheimum að undanförnu til þess að hallmæla virðulegum embættismönnum sem kljást við offitu og þyngdaraukningu, en sýna þó furðumikinn vilja til þess að takast á við vandann og bæta ástandið með hlaupum og heilbrigðu líferni. Því þótti furðu sæta og stappa nærri framhleypni að viðkomandi lætur ekki svo lítið að mæta til hlaupa á auglýstum hlaupatíma opinberra samtaka hlaupara í Vesturbænum.

Ekki skal farið mörgum orðum um mætta hlaupara, en þó skal getið Friðriks Guðbrandssonar, sem mætti til þess að auðsýna hlaupurum virðingu sína og heilsa upp á gamla félaga. Enn var spurt um Gústa gamla og hvort hann væri ekki á leið í Marathon des Sables. Óljósar fregnir af honum. G. Löve æfir skv. brezku prógrammi sem kveður á um 8 mílna sprett á miðvikudag. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig það gengur fyrir sig.

Það væri að æra óstöðugan að hafa yfir þuluna um betri hlaupara og lakari hlaupara, en aðgreiningin gerist bara meiri og meiri. Þó held ég að til sé að verða hlaupakategorían "skárri hlauparar" og myndi skrifari flokka sjálfan sig, Helmut, Dagnýju, jafnvel Benzinn með og einnig Þorvald í þá grúpperingu. Þessir hlauparar aðgreindu sig með afgerandi hætti gegn Trabant-tendensinum, sem þó saknaði foringja í stað og var líklega framan við tölvuna að ausa úr sér óforskömmugheitum yfir vammlaust fólk.

Töluverður sunnanstrekkingur og var hálfgert til leiðinda, þó hlykkjast stígurinn með ströndinni svo mjög að maður var ýmist með vindinn í hliðina, í fangið eða í bakið. Og stundum lygndi. Tekið vel á því að góðu tempóhlaupi og má Benzinn hafa heiður fyrir með sín 104 kg að hafa pínt skrifara með sín 89 kg á góðum hraða, Helmut og Dagný fyrir framan okkur, Þorvaldur á einhverju óljósu róli í kringum okkur.

Er komið var í Nauthólsvík beið Helmut eftir okkur og ég benti áfram á Flanir. "Suðurhlíð?" sagði Helmut. Skrifari samsinnti. Aðrir beygðu af og fóru Hlífðarfót. Við hertum hlaupið ef eitthvað var og tókum það sem eftir var á tempói. Brekkan upp Suðurhlíð steinlá og við önduðum vart úr nös er komið var upp hjá Perlu. Afgangurinn var bara formsatriði og við sprettum úr spori.

Eins og menn vita er blómasalinn veikur fyrir súkkulaði. Á nýlegri ferð sinni til Flórída keypti Benzinn Hershey´s súkkulaði. Hann hafði það með sér í dag. Pokinn var rifinn upp í Útiklefa og blómasalinn sótti sér lúku. Svo sat hann á bekknum og maulaði meðan aðrir drifu sig í sturtu. "Ummm, þetta er gott," sagði blómasalinn og taumurinn lak niður munnvikin. Við máttum bíða eftir honum í einar tuttugu mínútur áður en hann sýndi sig í Potti.

Þar var Björn kokkur og spurði hvort áhugi væri á árshátíð. Skrifari greip boltann á lopti og nefndi Viðey. Nú er spurt: er áhugi fyrir því að halda árshátið Hlaupasamtakanna í Viðey í aprílmánuði þegar veður eru sæmileg og sæmilega bjart fram eftir kvöldi? Vafalítið væri kokkurinn fús til að liðsinna með próvíant við sanngjörnu verði. Meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband