4.7.2012 | 21:08
Aulabandalagið - eða að hlaupa í sátt við sjálfan sig
Maðurinn þarf að vera sáttur. Hann verður að hlusta á líkamann, hlera öll aukahljóð og ískur, huga vandlega að öllum kvillum og verkjum, og umfram allt: ekki ofgera sér. Hafi menn þetta hugfast er hægt að hlaupa fram á gamals aldur, eins og Jörundur okkar er helzta vísbending um. Nema hvað, þegar mætt er til Laugar er á fleti að finna eftirfarandi: Flosa, Helmut, dr. Jóhönnu, Magga og skrifara. Aðrir voru ekki, eftir því sem mig rekur minni til. Hlýtt í veðri, 17 stiga hiti, skýjað og nánast logn. Í Brottfararsal heimtaði Helmut eitthvað stutt og Magnús var fljótur að fallast á tillögu hans, skrifari staðfesti að myndað hefði verið Aulabandalag - eða A Confederacy of Dunces, eins og hann John Kennedy Toole skrifaði um hér á árunum. Annað átti eftir að koma á daginn.
Lagt upp og ákveðið að stefna á Suðurhlíð, þau Helmut og Jóhanna fara Laugaveg eftir tíu daga og því væntanlega að trappa niður. Farið afar rólega af stað, minnti hópurinn eiginlega á líkfylgd fremur en hlaupahóp. Hins vegar vaknaði von með skrifara um að hér væru að endurfæðast hin eiginlegu Hlaupasamtök, fólk sem heldur hópinn og ræðir menningu, persónur og málefni líðandi stundar og enginn er skilinn eftir. Kom á daginn að það fór nærri sanni.
Magnús hitti mann með barnakerru og bað um að fá að kíkja upp í ungabarnið, menn verða að vera vakandi fyrir viðskiptatækifærum! Það truflaði hann ekki mikið og hljóp hann okkur hin uppi af alkunnri snilld þar sem við fetuðum Sólrúnarbrautina. En við fórum hægt. Mættum manni sem minnti á Sjúl, en við vorum ekki viss hvort það var hann. Á leiðinni náðu okkur Rúna, Ragnar og Kaupmaðurinn og voru bara spræk.
Í Nauthólsvík var skrifari kominn með verk í síðuna og dróst aðeins aftur úr, en þó þannig að Magnús hægði ferðina og fylgdumst við að það sem eftir lifði hlaups. Okkur varð hugsað til þeirra glöðu tíma þegar menn skelltu sér í ölduna í Nauthólsvík, en það er víst búið mál. Nú gerist endrum og eins að menn skoli af sér á Nesi.
Við áfram út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna. Brekkan leynir á sér og það er mikilvægt að halda áfram og fara ekki að ganga, við héldum áfram alla leið upp að Perlu, þar gengum við stuttan spöl og sáum þá enn til þeirra hinna. En eftir það voru þau horfin sjónum okkar og munu líklegast hafa snúið upp í 101 í Þingholtunum að skoða hús eitt. En við Maggi héldum áfram hjá Gvuðsmönnum og lögðum svo í Hringbrautina.
Á leiðinni varð okkur hugsað til hans Gústa okkar. Hvort karlgreyið saknaði nú ekki sinna gömlu hlaupafélaga mikið og yrði kátur að hitta okkur. Magnús sagði að það væri nú gustuk að heilsa upp á karlinn. Þá sagði skrifari: "Ja, þó hann megi ekki stíga í fótinn, þá getur hann kannski fengið sér í tána." Upp úr því fæddist sú hugmynd að halda Fyrsta í Lækjarhjalla, en eins og menn gera sér vonandi grein fyrir brestur Fyrsti á á föstudag. Hér leið skrifara eins og sönnum mannvini og hugsaði sem svo: "Mikið held ég að prófessorinn verði glaður að hitta okkur."
Með þessar góðu hugsanir liðum við í Hlað á Laug og vorum glíkastir grískum goðverum. Þrátt fyrir allt höfðum við átt ágætt 10 km hlaup og vorum engir aumingjar, hvað þá aðrir sem höfðu lýst yfir aumingjaskap. Þannig gera hlaupin fólki gott: því líður vel á eftir. Nú gafst stuttur tími til bollalegginga, skrifari hafði heimilisskyldum að gegna og varð að hraða sér, tími í Potti varð því enginn. Hann mætti öðrum hlaupurum við brottför. Eftir stendur spurningin: Fyrsti?
25.6.2012 | 20:33
Lífið gengur sinn vanagang í Vesturbænum
Hlýtt og bjart í Vesturbænum þegar hlauparar mættu til hlaups í Vesturbæjarlaug. Þegar við inngöngu í Brottfararsal bar við nýlundu: dr. Friðrik Guðbrandsson klæddur og klár í slaginn kl. 17:20. Aðrir sem mættu: Þorvaldur, Jörundur, Flosi, Kalli, Einar blómasali, skrifari, Magga, Þorbjörg K., Ólafur Hj. og Ragnar. Hávær krafa um 15 km og ekki skrefi styttra, einkum bar á blómasalanum í hópi þeirra sem heimtuðu þessa vegalengd. Skrifari var raunsærri og hógværari, lagði til Suðurhlíð. Það sást á Möggu, þótt lasleg væri, að það væri stemmari fyrir sprettum í Öskjuhlíð. Hvað um það, hópurinn lullaði af stað, sem er fyrir öllu.
Þrískiptur hópur eins og KR-skokk ku vera: 1. Magga, Ragnar, Ólafur Hj., og Flosi. 2. Kalli, Þorvaldur, blómasali og skrifari. 3. Jörundur, Tobba og dr. Friðrik. Ég vona að enginn fornemmist þótt ég sé svona hreinskilinn, en svona var þetta bara og er allt í lagi. Allir eru gjaldgengir í Hlaupasamtök Lýðveldisins, hvort heldur þeir líta út eins og þurrkaðar leðurreimar eða eins og við Einar blómasali! En hópurinn skiptist sumsé í þrennt, til að byrja með alla vega, en svo riðluðust fylkingar eitthvað.
Heitt í veðri og svitinn rann. Ég var að dóla þetta með félögum mínum og það var venju samkvæmt rætt um kapítalista og fjárfestingar, einkum er hlaupið var framhjá húsi í Skerjafirði sem einn hinna siðvandari kapítalista hefur fjárfest í. Er komið var í Nauthólsvík urðu mikil og óvænt umskipti: blómasali, Þorvaldur og Kalli héldu inn á Flugvallarveg, sem sagt: Hlífðarfót. Þessu áttu menn ekki von á eftir yfirlýsingar á Plani. Ég hrópaði til þeirra að þeir væru eymingjar, en þeir skeyttu því ekki, héldu áfram á ákveðnum kúrsi.
Hér hafði Flosi sameinast hópnum og við héldum á Flanir og settum stefnu á Suðurhlíð, eins og ég hafði í raunsæi mínu lagt til í upphafi. Við Kringlumýrarbraut var dokað við því við héldum að við sæjum Jörund úti í fjarskanum. Það reyndist missýning og því var haldið í brekkuna. Það er ögrun fyrir skrokkinn að taka brekkuna, og þeim mun mikilvægara að taka þeirri ögrun og klára hana án þess að falla í þá freistni að hvílast. Þetta gerðum við og komum móðir og másandi upp á plan hjá geimskipinu. Svo niður hjá Gvuðsmönnum.
Þægilegheitarölt tilbaka til Laugar. Teygt á Plani, en þá varð manni hugsað til þess að það vantaði svolítið í hópinn, hvar er t.d. Biggi með jógaæfingarnar? Hvar er allt fólkið sem hefur haft fyrir vana að leggjast í grasið og gera teygjur? Hér er átaks þörf.
Í Potti var rætt um gönguferðir og hlaup í sumar. M.a. var rætt um Holtavörðuheiðarhlaup 28. júlí nk. Bráðlega mun skrifari senda út beiðni um skráningu í það merka hlaup. Ennfremur rætt um hina árlegu haustgöngu Hlaupasamtakanna sem undanfarin ár hefur verið farin á Fimmvörðuháls. Nú er hugmyndin að fara í Skaftafell og ganga þar. Meira um það seinna.
24.6.2012 | 16:51
Paradísarheimt
Nú er búið að opna Laug á ný eftir endurbætur og auk þess farið að opna kl. 9 um helgar, lífið færist í samt lag á ný og félagslíf í Vesturbænum verður með eðlilegum hætti. Til áréttingar þessu hittust þrír hlauparar í Laug í dag til hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og skrifari. Eðlilega urðu fagnaðarfundir þar sem Formaður til Lífstíðar hefur ekki sézt á svæðinu um nokkurra vikna skeið. Það var tekið til við að fylla í göt þekkingarinnar sem eðlilega höfðu myndast þegar helsti persónufræðingur og sagnauppspretta Vesturbæjarins er fjarri.
Hluti af umræðunni var tileinkaður V. Bjarnasyni álitsgjafa eins og fara gerir og þeim símtölum sem farið hafa milli hans og Formanns upp á síðkastið. Þá var sagt frá ferð Formanns til Washington og New York, þar sem hann lenti í ýmsum ævintýrum og hitti þeldökka iðnaðarmenn að störfum sem báðu að heilsa VB. Enn var rætt um Holtavörðuheiðarhlaup og þær áskoranir sem því fylgja. Ljóst er að hlaupið verður erfitt og mikilvægt að menn byggi sig vel upp fyrir það. Að hlaupi loknu verður farið í sund á Hvammstanga, og grillað að Melum um kvöldið.
Afar heitt á Ægisíðu og svitinn lak af hlaupurum. Þetta skánaði er komið var á Veðurstofuhæð, þá blés svalandi vindur á norðan og kældi okkur eilítið. Hlupum sem leið lá um Hlíðar, Klambra, Hlemm og niður á Sæbraut. Hér skal viðurkennt að við gengum líklega oftar en alla jafna og í stað þess að fara hjá Hörpu beindi Formaður okkur inn á þá leið sem farin hefur verið samkvæmt hefð, hjá Sjávarútvegshúsi og þaðan í gegnum miðbæinn. Loks upp Túngötu og þá leið tilbaka til Laugar.
Í Potti var rætt um mannaráðningar í forsætisráðuneyti og forsetakosningar. Mætt: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, frú Helga, auk hlaupara.
22.6.2012 | 20:47
Hlaup og sjóbað á Nesi
Í morgun mætti Biggi of seint í sund. Hann kvaðst hafa sofið yfir sig vegna þess að hann dreymdi okkur blómasalann. Hann hafði tekið til hendinni framan við Laug, rifið þar upp hvönn sem var gjöf frá frönsku þjóðinni. Ekki stóð á viðbrögðum frá frönskum, reiðir menn hringdu frá París og heimtuðu skýringar. Bigga var falið að hringja til Parísar og biðjast afsökunar, sem vafðist ekki fyrir honum, verandi starfsmaður Íslandsstofu og fyrrum stúdent í París. Hann gerði hins vegar þau afdrifaríku mistök að hringja í dýrasta hringiflokki, þriðja flokki af þremur. Þetta vakti illt blóð í skrifara og hann hellti sér yfir Bigga fyrir að vera að eyða fjármunum úr ríkissjóði með þessum hætti. Þetta dreymdi Bigga í morgun og þess vegna var hann seinn til Laugar.
Félagslíf hefur verið fábreytt í Vesturbænum meðan Laug var lokuð. Því tóku menn gleði sína á ný er opnað var sl. þriðjudag. Í dag var hlaupið frá Laug kl. 16:30. Mættir helztu drengirnir: Magnús tannlæknir, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Ef þetta er ekki tryggð við málstað Hlaupasamtakanna þá skil ég ekki hugtakið. Það var gassandi sumarhiti, sól, logn og því full ástæða til að setja stefnuna á Nes. Við vorum allir eitthvað bilaðir: skrifari ekki búinn að hlaupa í þrjár vikur, Maggi eitthvað slappur og Þorvaldur búinn að vera í Panama í 10 daga.
Við vorum sammála um að fara hægt og við stóðum við það. Héldum hópinn alla leið, eða þannig. Skrifari þungur og blés eins og fýsibelgur, slagaði í desítonnið á vigt Vesturbæjarlaugar við vogun í gærmorgun. Þá hló blómasali. Jæja, hvað um það, við fórum upp á Víðimel og þaðan vestur úr niður í Ánanaust og út á stíginn á Nes, sem hreppsnefndin neitar að breikka af ótta við aðkomufólk. Þorvaldur sagði okkur frá dvöl sinni í Panamá, m.a. frá skipaskurðinum sem er hundrað ára gamall og enn búinn upprunalegum vélbúnaði. Hann mætti í bjóð við kanalinn þar sem fylgst var með skipi sem dregið var af tveimur eimreiðum sitt hvorum megin skurðarins.
Þegar komið var á réttan stað á Nesi brá skrifari sér niður í fjöru, en hvatti félaga sína til að halda áfram hlaupi. Skrifari dró af sér svitastorkin hlaupafötin og skellti sér í svalandi Atlanzölduna, það var yndislegt! Fyrsta sjóbað á þessu sumri. Hélt svo áfram hlaupi og var bara sprækur. Fór hefðbundið tilbaka af Nesi, um Lambastaðabraut og svo niður á Nesveg og til Laugar, þar sem Magnús og Þorvaldur biðu á Plani. Við áttum gott spjall saman.
Framundan: Bláskógaskokk á morgun. Nú er tímabært að félagar Hlaupasamtaka Lýðveldisins nái vopnum sínum á ný eftir að reglubundin samvera féll niður við lokun Laugar. Hvatt er til þess að menn mæti fjölmennir n.k. sunnudag kl. 10:10, en eins og menn vita opnar Laug kl. 9:00 þann dag. Þá verður hægt að nýta snaga í Útiklefa á ný í fyrsta skipti í marga mánuði. Vel mætt!
19.6.2012 | 14:00
Miðnætursól á Heiðarhorni
Hin árlega Miðnæturganga Hlaupasamtaka Lýðveldisins var þreytt mánudaginn 18. júní - og lauk raunar ekki fyrr en að morgni þess 19da. Þátttakendur voru 9: Flosi og Ragna, skrifari, Helmut og Jóhanna, auk tveggja kennara í FÁ, Ársæls og Eiríks og þeim tengdum konum, Ingveldi og Hjördísi. Ekið var sem leið liggur um Vesturlandsveg, um Hvalfjarðargöng og í Melasveitina, að bænum Efra-Skarði. Þar fengum við að leggja bílum í túnfætinum og lögðum á brattann.
Þessi ganga var mun erfiðari en sú á Esjuna í fyrra. Uppgangan reyndi mun meira á og var skrifari orðinn vel heitur eftir stundarfjórðungs göngu, svo ekki sé meira sagt! Alltaf skal það koma manni í koll að vera vitlaust klæddur, mætti hafa verið minna klæddur í upphafi, með þann möguleika að bæta á sig fötum er ofar kæmi og kulaði. Við nutum leiðsagnar hins reynda fjallagarps, Helmuts, sem lofaði rólegri göngu og stóð að mestu við það. Hins vegar pískaði hann menn áfram af vinsemd með nokkrum "jæjum". Fyrsta nesti eftir 1,5 klst. Skoðuðum Skessubotna og Skessubrunn og var þar fagurt um að litast.
Skriðan upp á Skessuhyrnu var strembin, en eftir það var þetta ljúf ganga upp hrygginn á Heiðarhorn. Þar vorum við komin um eittleytið um nóttina, sól var að setjast og nutum við sólarlagsins þar um stund og tókum annað nesti. Lituðumst um, sáum vítt of heima, Snæfellsjökul, upp á Mýrar, Skessuhorn, Baulu og í Borgarfjarðardali. Hér voru vatnsbirgðir farnar að þverra hjá skrifara og hann horfði löngunaraugum niður í dalinn þangað sem við áttum að setja stefnuna. Ekki þurftum við að ganga nema í 20-30 mín. þegar við komum að fyrstu fjallallækjum hjalandi með sitt blátæra og svalandi lindarvatn. Hér stillti fólk sér upp í röð til þess að fylla á flöskur og svolgruðu menn í sig guðaveigarnar. Þetta er ávallt mesta tillökkunarefnið, að svala þorstanum með vatni úr fjallalækjum.
Gangan gekk vel, hópurinn samstilltur og almennt í góðu formi, héldum vel hópinn og enginn dróst aftur úr. Niðurgangan var snurðulaus og vorum við komin að bílunum aftur um þrjúleytið að morgni 19. júni. Erfiðri en ánægjulegri göngu lokið, menn voru sveittir og þreyttir en ánægðir.
4.6.2012 | 21:25
Hlaupið á Nesi þar sem hreppsnefndin neitar að breikka stíga
Það kann að hafa farið fram hjá hlaupurum þrátt fyrir ítarlega auglýsingu að Vesturbæjarlaug er lokuð frá 4. júní til 19. júní. Við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd að sumir af okkar minnstu bræðrum/systrum eru ekki betur læsar en svo að einfaldur miði í rúðu fer algerlega fram hjá þeim og þeir/þær skynja ekkert. Koma svo að læstum dyrum og skilja ekkert. Líkt og fór fyrir honum Þorvaldi okkar hérna um árið þegar hann kom að bílalausu bílaplani við Vesturbæjarlaug og lék forvitni á að vita hvað stæði á miðanum á hurð Laugar - með þekktum afleiðingum.
Jæja, við þessir betur gefnu hlauparar mættum alla vega í Neslaug kl. 17:30 og settum stefnu á hlaup. Þetta voru auk skrifara, Jörundur, Þorvaldur, Kalli og Ólafur Hj. Það sást til nokkurra hlaupara TKS, en þeir voru ekki margir. Spurt var hvort samtök þeirra væru að liðast í sundur og var ekki laust við að vonleysis gætti í svörum. Við spurðum um grindarbotnsæfingar, en enginn vildi kannast við að þær væru iðkaðar á Nesi. Þó er þekkt að hlauparar hverfa upp í grasbolla upp af Laug fyrir hlaup og teygja sig og engja á alla kanta í annarlegum tilgangi. Þorvaldur var ólmur að hefja æfingar af þessu tagi, en við náðum að teygja hann frá slíkum áformum.
Það var ákveðið að setja stefnu á Neshlaup, fara kringum golfvöll, út að Gróttu og skoða svo möguleika á að lengja í tíu km. Fórum þetta nokkuð rólega út, Kalli nýkominn frá Mallorca og ekki búinn að hlaupa um nokkurt skeið. Við Jörundur með slæmsku í öndunarfærum og hægir í gang. Þorvaldur hins vegar og Ólafur hinn alhressir og fóru á undan okkur. Ekki varð tíðinda framan af, hiti um 20 stig, sólskin, en góður andvari, einkum er komið var fyrir golfvöll og stefnan sett á Gróttu.
Við norðurhornið á Nesi sáum við mann sem var að reyna að hefja flugdreka á loft. Þetta var stór og mikill flugdreki, og það sem gerði verkefnið enn tilkomumeira var að hann ætlaði greinilega að flytja sjálfan sig í drekanum. Við fylgdumst með honum þar sem hann færðist nær hafi og flaut svo endanlega út á hafflötinn og er ekki vitað meira af afdrifum hans.
Jæja, við áfram. Það var mikið um dýrðir um síðastliðna helgi. Blómasalinn með afmælisveizlu í bústað sínum og bauð upp á dýrindismat í framhaldi af Sólheimahlaupi sem þrír þreyttu: blómasalinn, Ragnar og Þorvaldur. Þá hjóluðu Kári og Biggi 85 km leið frá Vesturbæ Reykjavíkur alla leið í Selholt að heimsækja vin sinn og heiðra hann á fimmtugsafmælinu. Aðrir komu akandi austur og treystu sér ekki til að hlaupa. Við áttum yndislega stund í sveitinni að sveitasetri Einars og Vilborgar.
Það var einhver leti í mannskapnum og við enduðum með að fara 7,5 km í dag og kenndum æfingarleysi og slæmri heilsu um. En hér með er hvatt til þess að félagar Hlaupasamtakanna mæti til hlaups frá Neslaug á hefðbundnum hlaupatímum Samtaka Vorra á meðan Vesturbæjarlaug er lokuð. Bara svo að það sé frá.
31.5.2012 | 11:01
Hlaupið í sterkri sól á fimmtugsafmæli ónefnds blómasala
Hópur afburðahlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi, og svo vorum við Þorvaldur líka mættir. Þau hin voru dr. Jóhanna, Magga, Ragnar, Gummi, Ólafur Hj. og Hjálmar - og svo sást til Frikka á hjóli. Sterk sól, 13 stiga hiti og einhver gjóla á norðan sem var svalandi þegar hitinn var að drepa mann. Þau hin voru ekki mikið að leita eftir skoðunum okkar Þorvalds á því hvert skyldi hlaupið, sögðu bara: "Er ekki stemmari fyrir Kársnesi?" Jújú, var svarað og svo rokið af stað. Ég held við höfum náð að hanga í heim alla leið upp að sjoppuhorni á Hofsvallagötu og svo ekki söguna meir!
Þetta var sosum allt í lagi. Þorvaldur er fjölfróður maður og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Ræddum um barnauppeldi og refsingar sem uppeldisaðferð. Hann taldi þær ekki vænlegar til árangurs. Ég upplýsti hann hins vegar um rannsókn sem sagt er frá í gamalli sálfræðihandbók sem sýndi fram á(meintan) áþreifanlegan árangur af notkun rafstuða við að fá fólk til að endurskoða kynhegðun sína. Ekki er ég viss um að bók þessi hafi síðan verið endurprentuð óbreytt.
Það var einhver þreyta í skrifara, líklega frá því að hafa hlaupið bæði sunnudag og mánudag (samtals um 22 km) og svo frá langri gönguferð um Hafnarsvæðið kveldinu áður. Fyrst hélt ég að þetta væri orkuskortur, en komst svo að því að þetta væri bara þreyta. Áttum samleið út að Kringlumýrarbraut, en þá sneri Þorvaldur upp Suðurhlíð og ég áfram yfir brú, setti stefnuna á Þriggjabrúa. En strax í Brekkunni var ég hálfuppgefinn og þurfti hreinlega að ganga. Náði þó að hlaupa yfir hjá Útvarpshúsi og naut maður þess að fá svalandi vindinn á móti sér. Síðan niður Kringlumýrarbraut og alla leið niður á Sæbraut. Svo tók maður þetta í bútum, drukkið við drykkjarfont á Sæbraut og áfram hjá Hörpu.
Það er svo margt að skoða í Hafnarhverfinu, þar spretta upp ferðaþjónustufyrirtæki, og engin ástæða að hraða för sinni þar um. Ægisgatan gengin að mestu en tölt niður Hofsvallagötu. Um það leyti sem ég kom á Plan voru þau hin að tínast til baka hafandi farið 18 km leið á Kársnesi.
Í Pott komu, auk dr. Jóhönnu og skrifara, Frikki, Benzinn og Biggi. Eins og vænta mátti urðu hávaðaumræður um hvaðeina. Leitað eftir þátttöku í Sólheimahlaupi að blómasalans og lagt á ráðin um ferðir austur. Hér vildi vitanlega hver koma sér hjá því að keyra því að það kemur í veg fyrir að menn fái notið veitinga hins veitula blómasala til fullnustu. Menn munu þó hafa ráð við því að þátttaka verði til sóma og manninum sýndi tilhlýðileg virðing á þessum tímamótum, þegar hann fetar sig yfir í hóp virðulegra hlaupara á sextugsaldri.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2012 | 20:07
Þéttur hópur á ferð
Fjórir mættir í auglýst hlaup Hlaupasamtakanna frá Laug kl. 16:30 í dag: Jörundur, Ragnar, Guðmundur og skrifari. Þetta eru ekki hlauparar sem eru vanir að fylgjast að á föstum æfingum Samtaka Vorra, en nú urðu menn að gjöra svo vel og hemja sig og alda hópinn. Hér kom til gagnkvæm málamiðlun, þeir Ragnar og Gummi fóru hægar en alla jafna, og við Jörundur bættum aðeins í svo að tempóið var á köflum komið niður í 5:20 eða þar um bil, eftir því sem klukkueigendur tjáðu okkur.
Það var ákveðið að setja stefnuna á Nauthólsvík og sjá svo til eftir það hvert við færum. Við vorum allir léttklæddir enda skein sól í heiði og varla að vindur bærðist, en hiti líklega um 12-13 gráður. Því varð svolítið heitt á leiðinni, og gott að komast í skjól og skugga þar sem svalandi vindur blés. Mönnum hitnaði í hamsi af hita og átökum og voru bara í skaplegu formi. Rætt um næstu hlaup, sem eru Grafningshlaupið, Minningarhlaup Guðmundar Karls og Hamarshlaup, allt utanvegahlaup.
Afar óljósar fregnir eru af sammenkomst í kringum Grafningshlaup, en einn félagi okkar á sumarbústað á þessum slóðum og fyllir jafnframt fimmta tuginn um svipað leyti. Hann hefur gefið í skyn að vænta megi einhvers konar skemmtunar af þessu tilefni, en ekki meir en svo að menn geti undirbúið neitt. Líklegast þótti að þeim sem skráðu sig í Grafningshlaupið yrði boðið í sumarbústaðinn í gleðskap - en þetta eingöngu tilkynnt eftir að skráningarfrestur í hlaupið væri útrunninn - þ.e. í kvöld. Svona gekk umræðan.
Er komið var í Nauthólsvík vorum við orðnir vel heitir og ekki annað tekið í mál en stefna á Suðurhlíð. Hér hertu þeir hinir hlaupið og skildu skrifara eftir. Hann náði þó að hanga nokkurn veginn í þeim og missti aldrei sjónar á þeim. Það var farið á spretti upp Suðurhlíðina, tekinn hringur hjá Perlu, utan hvað Jörundur hélt kúrsi og stefndi beint á Stokk. Niður hjá Gvuðsmönnum og svo skeiðað vestur Hringbraut. Lukum rúmum 10 km á 55-56 mín. Hittum Hjálmar, Ósk og Frikka á Plani, en þau voru að leggja upp í hlaup.
Setið lengi í Potti, þangað sem Biggi og Ingi mættu. Rætt um Evróvisjón og landsölu.
27.5.2012 | 14:04
Hefðbundið á sunnudegi - Sif mætt
Ekki var útlitið bjart er komið var til Laugar og klukkan rúmlega tíu. Aðeins tveir hlauparar mættir: þeir Þorvaldur og Ólafur skrifari. Á síðustu stundu rennir þó Sif Jónsdóttir í hlað og bjargar deginum. Hún ákvað að slást í för með okkur þar sem hún má ekki reyna um of á sig og getur því aðeins hlaupið með slökum hlaupurum.
Við sögðum henni frá velheppnaðri afmælisveislu Bigga jóga sl. föstudag þar sem hann safnaði saman fjölskyldu, hlaupafélögum og kunningjum úr listamannageiranum. Boðið upp á kraftmikla fiskisúpu og nóg af vökva til þess að skola henni niður með. Skrifari flutti ávarp í nafni Samtaka Vorra og mærði afmælisbarnið.
Sif upplýsti okkur um hlaupahópinn KR-skokk sem varð á vegi hennar um daginn þar sem hún var á ferð á reiðhjóli. Hópurinn var svo stór að hann tók yfir bæði hlaupastíg og hjólastíg á Ægisíðu og var henni nóg um. Einhver orðaskipti urðu af þessu tilefni og verða þau ekki tilfærð hér.
Nú við hlaupum sem leið liggur um Ægisíðu og bara nokkuð hlýtt í veðri. Rætt um heilsufar sem hefur verið með ýmsu móti upp á síðkastið og höfðu allir yfir einhverju að kvarta, bólgur og eitranir ýmiss konar, og lækningin ámóta fjölbreytt: hvítlauksgeiri, bólgustillandi, kvíðastillandi...
Það var staldrað við í Nauthólsvík eins og hefðin býður, en þar sem Formaður var ekki með í för var ekki haldin sögustund, og ekki stoppað lengi. Áfram í Kirkjugarð og hlaupið megnið af leiðinni og yfir á Veðurstofuhálendið. Segja má að varla hafi verið stoppað eftir þetta, nema þegar drukkið var á Sæbraut. Við fórum hefðbundið hjá Hörpu og Hafnarhverfi, upp Ægisgötu og til Laugar.
Fámennt og góðmennt í Potti, dr. Einar Gunnar, frú Helga - og svo kom Jörundur óhlaupinn í Pott. Nú þurfa menn að fara að huga að næstu hlaupum, því að þau koma hvert á fætur öðru: Grafningshlaup, Hamarshlaup o.s.frv. Og svo verður blómasalinn víst fimmtugur um næstu helgi...
9.5.2012 | 22:01
Dr. Feelgood vill líða vel
Í póstsamskiptum dagsins var um það deilt hvenær Skátarnir hirtu hann Gústa okkar. Sumir sögðu 1994, aðrir sögðu 1995. Jörundur er venjulega óskeikulastur okkar manna í þessum efnum, vegna þess að hann getur yfirleitt tengt viðburðinn einhverju öðru sem gerðist um svipað leyti. Líkt og maðurinn fyrir austan sem miðaði tímatal sitt við árið þegar hann lánaði Fúsa fyrir trillunni. "Það var þremur árum eftir að ég lánaði Fúsa fyrir trillunni." Þannig staðfesti Jörundur í dag að það hafi verið árið 1995 sem að Skátarnir hirtu hann Gústa okkar eftir að hann hafði hlaupið heila 9 km og átti bara 1 km eftir. Helvítin tóku hann og skutluðu eins og hverjum öðrum rolluskrokki aftan í Unimog og keyrðu til viðeigandi aðhlynningar. Eftir það hefur Ágúst ekki þolað Skátana. En um þetta var rætt á póstlista Samtaka Vorra í dag. Tilefnið voru einhverjir tímar í 10 km sem allir eru búnir að gleyma nú. Enn muna menn þó eftir því þegar Skátarnir hentu Ágústi aftan í trukkinn. Og hann hatar þá síðan og hleypur ekki vegalengdir undir 20 km.
Nóg um það. Gríðarleg mæting afbragðshlaupara í hlaup dagsins. Menn söknuðu Bjössa, Benzins og Magga. Mættir: Jörundur, Flosi, Þorvaldur, skrifari, blómasali, Helmut, dr. Jóhanna, Pétur, Ólafur Gunnarsson, Magga, Denni af Nesi, Tobba (eftir langt hlé), Frikki, og ég veit ekki hvað og hvað, örugglega hátt í 20 manns. Blómasali með afkáraleg sólgleraugu, leit út eins og amerísk túristakelling. Flott veður fyrir hlaup, sól, tiltölulega stillt og hiti 8 stig. Helmut heimtaði langt hlaup, 18 km á Kársnes. Skrifari dró úr. Ekki vitað hvað aðrir ætluðust fyrir.
Skrifari lét í það skína að hann væri ekki fullkomlega afhuga Kársnesi, en hann gerði sér ljóst að það væri fullkomlega óraunsætt þar sem hann hefur lengst farið 13,6 km það sem af er vertíð. Jæja, hersingin af stað. Gengur vel framan af. Þó var ljóst að það yrði töluvert heitt og menn myndu svitna vel á leiðinni. Fjöldi fólks á leiðum úti, gangandi, hjólandi eða hlaupandi. Nú er vorið svo sannarlega komið og von bráðar förum við að taka túra í Elliðaárdalinn, upp að Stíbblu og Laug. Blómasalinn á leið í Copenhagen Marathon, en snöri við eftir stuttan spöl með verk í rist.
Á leiðinni upplýsir Helmut mig um að hann þurfi að bregða sér afsíðis í prívaterindum, að hann muni fara á undan okkur og biður um að beðið verði eftir sér þegar menn fara á Kársnesið. Nú var þannig statt að hann sagði þetta við mig prívat og Flosi og Jörundur, hinir Kársnessfararnir voru í hávaðasamræðum sín á milli um gömul hlaup og misstu af þessum upplýsingum. Og til að auka á vandann hafði skrifari ekki endanlega gert upp við sig hvort hann ætlaði á Kársnesið. Er kom á Flanir og Garður nálgaðist varð þó ljóst að skrifari átti ekkert erindi á Kársnes og myndi bara daga uppi á Kópavogshálsi við Gerðarsafn.
Af þeirri ástæðu leyfði hann þeim hinum að halda áfram í nágrannasveitarfélagið en hélt sjálfur áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp Boggabrekku. Samt flögraði að honum hvort hann hefði ekki átt að láta þá Jörund og Flosa vita að til þess væri ætlast að þeir biðu eftir Helmut á ákveðnum stað á Fossvogsaurum, en kom því einhvern veginn ekki í verk. Stundum er maður eitthvað svo verklítill! Það var þá bara að takast á við Boggabrekku og það tókst með ágætum.
Hér varð skrifara hugsað til félaga síns, Benzins, og þegar við reyndum að drepa okkur í brekkunni í síðustu viku en tókst ekki. Það vantaði allan hávaðann til þess að taka hugann af eigin vangaveltum og efasemdum. Ef maður hefur kjaftaganginn í eyrunum hættir maður að vorkenna sjálfum sér og fer að hugsa um eitthvað annað. Þannig þraukar maður hlaupið og tekur varla eftir öllum kílómetrunum sem maður leggur undir skósóla. Einsemdin ríkti ofar hverri kröfu. Það var farið um Hvassaleiti, yfir brú á Miklubraut og svo niður á Sæbraut, grænt á nánast hverju ljósi. Svo var bara tekið tempó innan um reykjandi útlendinga alla leið út að vatnsfonti. Drukkið kalt og svalandi Gvendarbrunnavatn.
Afgangurinn var góður og engin ástæða til þess að staldra við eða gera hlé á hlaupi, ekki einu sinni til þess að signa sig, enda voru hvorki Bjarni né Denni með í för. Kláraði gott hlaup á viðunandi tíma, en fámennt var í Laug er komið var tilbaka. Stuttu síðar kom þó Denni og þegar við sátum í Potti komu þau hvert af öðru, Helmut, Jóhanna og Flosi. Helmut kvartaði yfir því að ekki hafi verið beðið eftir honum, hann hefði mætt Jóhönnu, en ekki séð tangur eða tetur af Flosa og Jörundi. Helmut horfði ásakandi á skrifara, en skrifari sagði eitthvað á þá leið að svona gæti gerst þegar menn gerðu afbrigði í miðju hlaupi. Framundan er Neshlaup, hverjir ætla?