Lífið gengur sinn vanagang í Vesturbænum

Hlýtt og bjart í Vesturbænum þegar hlauparar mættu til hlaups í Vesturbæjarlaug. Þegar við inngöngu í Brottfararsal bar við nýlundu: dr. Friðrik Guðbrandsson klæddur og klár í slaginn kl. 17:20. Aðrir sem mættu: Þorvaldur, Jörundur, Flosi, Kalli, Einar blómasali, skrifari, Magga, Þorbjörg K., Ólafur Hj. og Ragnar. Hávær krafa um 15 km og ekki skrefi styttra, einkum bar á blómasalanum í hópi þeirra sem heimtuðu þessa vegalengd. Skrifari var raunsærri og hógværari, lagði til Suðurhlíð. Það sást á Möggu, þótt lasleg væri, að það væri stemmari fyrir sprettum í Öskjuhlíð. Hvað um það, hópurinn lullaði af stað, sem er fyrir öllu.

Þrískiptur hópur eins og KR-skokk ku vera: 1. Magga, Ragnar, Ólafur Hj., og Flosi. 2. Kalli, Þorvaldur, blómasali og skrifari. 3. Jörundur, Tobba og dr. Friðrik. Ég vona að enginn fornemmist þótt ég sé svona hreinskilinn, en svona var þetta bara og er allt í lagi. Allir eru gjaldgengir í Hlaupasamtök Lýðveldisins, hvort heldur þeir líta út eins og þurrkaðar leðurreimar eða eins og við Einar blómasali! En hópurinn skiptist sumsé í þrennt, til að byrja með alla vega, en svo riðluðust fylkingar eitthvað.

Heitt í veðri og svitinn rann. Ég var að dóla þetta með félögum mínum og það var venju samkvæmt rætt um kapítalista og fjárfestingar, einkum er hlaupið var framhjá húsi í Skerjafirði sem einn hinna siðvandari kapítalista hefur fjárfest í. Er komið var í Nauthólsvík urðu mikil og óvænt umskipti: blómasali, Þorvaldur og Kalli héldu inn á Flugvallarveg, sem sagt: Hlífðarfót. Þessu áttu menn ekki von á eftir yfirlýsingar á Plani. Ég hrópaði til þeirra að þeir væru eymingjar, en þeir skeyttu því ekki, héldu áfram á ákveðnum kúrsi.

Hér hafði Flosi sameinast hópnum og við héldum á Flanir og settum stefnu á Suðurhlíð, eins og ég hafði í raunsæi mínu lagt til í upphafi. Við Kringlumýrarbraut var dokað við því við héldum að við sæjum Jörund úti í fjarskanum. Það reyndist missýning og því var haldið í brekkuna. Það er ögrun fyrir skrokkinn að taka brekkuna, og þeim mun mikilvægara að taka þeirri ögrun og klára hana án þess að falla í þá freistni að hvílast. Þetta gerðum við og komum móðir og másandi upp á plan hjá geimskipinu. Svo niður hjá Gvuðsmönnum.

Þægilegheitarölt tilbaka til Laugar. Teygt á Plani, en þá varð manni hugsað til þess að það vantaði svolítið í hópinn, hvar er t.d. Biggi með jógaæfingarnar? Hvar er allt fólkið sem hefur haft fyrir vana að leggjast í grasið og gera teygjur? Hér er átaks þörf.

Í Potti var rætt um gönguferðir og hlaup í sumar. M.a. var rætt um Holtavörðuheiðarhlaup 28. júlí nk. Bráðlega mun skrifari senda út beiðni um skráningu í það merka hlaup. Ennfremur rætt um hina árlegu haustgöngu Hlaupasamtakanna sem undanfarin ár hefur verið farin á Fimmvörðuháls. Nú er hugmyndin að fara í Skaftafell og ganga þar. Meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband