Hlaup og sjóbað á Nesi

Í morgun mætti Biggi of seint í sund. Hann kvaðst hafa sofið yfir sig vegna þess að hann dreymdi okkur blómasalann. Hann hafði tekið til hendinni framan við Laug, rifið þar upp hvönn sem var gjöf frá frönsku þjóðinni. Ekki stóð á viðbrögðum frá frönskum, reiðir menn hringdu frá París og heimtuðu skýringar. Bigga var falið að hringja til Parísar og biðjast afsökunar, sem vafðist ekki fyrir honum, verandi starfsmaður Íslandsstofu og fyrrum stúdent í París. Hann gerði hins vegar þau afdrifaríku mistök að hringja í dýrasta hringiflokki, þriðja flokki af þremur. Þetta vakti illt blóð í skrifara og hann hellti sér yfir Bigga fyrir að vera að eyða fjármunum úr ríkissjóði með þessum hætti. Þetta dreymdi Bigga í morgun og þess vegna var hann seinn til Laugar.

Félagslíf hefur verið fábreytt í Vesturbænum meðan Laug var lokuð. Því tóku menn gleði sína á ný er opnað var sl. þriðjudag. Í dag var hlaupið frá Laug kl. 16:30. Mættir helztu drengirnir: Magnús tannlæknir, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Ef þetta er ekki tryggð við málstað Hlaupasamtakanna þá skil ég ekki hugtakið. Það var gassandi sumarhiti, sól, logn og því full ástæða til að setja stefnuna á Nes. Við vorum allir eitthvað bilaðir: skrifari ekki búinn að hlaupa í þrjár vikur, Maggi eitthvað slappur og Þorvaldur búinn að vera í Panama í 10 daga.

Við vorum sammála um að fara hægt og við stóðum við það. Héldum hópinn alla leið, eða þannig. Skrifari þungur og blés eins og fýsibelgur, slagaði í desítonnið á vigt Vesturbæjarlaugar við vogun í gærmorgun. Þá hló blómasali. Jæja, hvað um það, við fórum upp á Víðimel og þaðan vestur úr niður í Ánanaust og út á stíginn á Nes, sem hreppsnefndin neitar að breikka af ótta við aðkomufólk. Þorvaldur sagði okkur frá dvöl sinni í Panamá, m.a. frá skipaskurðinum sem er hundrað ára gamall og enn búinn upprunalegum vélbúnaði. Hann mætti í bjóð við kanalinn þar sem fylgst var með skipi sem dregið var af tveimur eimreiðum sitt hvorum megin skurðarins.

Þegar komið var á réttan stað á Nesi brá skrifari sér niður í fjöru, en hvatti félaga sína til að halda áfram hlaupi. Skrifari dró af sér svitastorkin hlaupafötin og skellti sér í svalandi Atlanzölduna, það var yndislegt! Fyrsta sjóbað á þessu sumri. Hélt svo áfram hlaupi og var bara sprækur. Fór hefðbundið tilbaka af Nesi, um Lambastaðabraut og svo niður á Nesveg og til Laugar, þar sem Magnús og Þorvaldur biðu á Plani. Við áttum gott spjall saman.

Framundan: Bláskógaskokk á morgun. Nú er tímabært að félagar Hlaupasamtaka Lýðveldisins nái vopnum sínum á ný eftir að reglubundin samvera féll niður við lokun Laugar. Hvatt er til þess að menn mæti fjölmennir n.k. sunnudag kl. 10:10, en eins og menn vita opnar Laug kl. 9:00 þann dag. Þá verður hægt að nýta snaga í Útiklefa á ný í fyrsta skipti í marga mánuði. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband