Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum...

Á sunnudagsmorgnum koma Öldungar Hlaupasamtakanna saman og taka léttan sprett um höfuðborgina sem er að vakna af svefni eftir sukk og svall nætur. Nú voru það Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur skrifari sem lögðu braut undir sóla. Veður gott og hlýtt. Laug opin frá kl. 9:00 að morgni og því hægt að hafa skipti á fatnaði.

Eðlilega var Holtavörðuheiðarhlaup aðalviðfangsefnið í dag. Nú stefnir í að ekki færri en tíu hlauparar spretti úr spori yfir heiðina um 20 km leið laugardagsmorguninn 28. júlí nk. Rætt hefir verið við sýslumanninn í Húnaþingi um aðkomu réttvísinnar að málum, en ekki hefur fengist á hreint hver hún verður. Hins vegar verður leitast við að haga málum svo að það aki bíll með blikkandi ljósum á eftir hópnum til að vara aðvífandi bílista við. Þannig má hugsanlega draga úr mannfalli á leiðinni.

Fyrstu og erfiðustu brekkur verða klipptar út úr hlaupinu, lagt til að það hefjist við Sigurjónsbrú, en þaðan ku vera um 20 km heim í hlað á Melum. Benzinn hefur gefið vilyrði fyrir akstri úr höfuðborginni gegn sanngjörnu endurgjaldi. Gisting í boði á Melum fyrir þá er þess fýsa, sundlaug á Hvammstanga, sem mun verða hápunktur ferðarinnar.

Jæja, um þetta var rætt á Ægisíðunni, og jafnframt það að Formaður Vor vill auglýsa þetta vel í blöðum svo að alþjóð þurfi ekki að frétta fyrst af viðburðinum í minningargreinum, eins og Þorvaldur benti svo illkvittnislega á. Enn fremur þótti sjálfsagt og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að Vilhjálmur fengi að ræsa hlaupið með stæl.

Hlaupið í dag var í alla staði hefðbundið og ánægjulegt og ekki alltof erfitt, enda stoppað á hefðbundnum stöðum og málin rædd. Nú kom að því að Ó. Þorsteinsson var rekinn á gat í Potti í bílnúmerafræðum - af BALDRI SÍMONARSYNI! Spurt var: hver átti bílnúmerið R-206? Þetta vissi Ólafur ekki og var maður að minni fyrir vikið. Fékk hann verkefnið fyrir næstu viku að hafa uppi á eigandanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband