Óhjákvæmilegt að sannleikurinn komi fram

Sunnudagur í Lýðveldinu og hlaupið frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Nú vantaði bara Blómasalann og Magnús tannlækni, þá hefði hópurinn verið fullmannaður. En fullkomið ástand er fremur sjaldgæft svo við þetta mannval varð að una. Fjögurra stiga hiti, logn, fallegt veður, en búast mátti við hálku. Í Brottfararsal var sem endranær rætt um góðkunningja okkar sem vænta má að bætist í stétt þingmanna að loknum kosningum í vor.

Farið rólega af stað, enda stígar varasamir, en þó voru aðstæður þolanlegar alveg austur í Nauthólsvík. Þar var venju samkvæmt tekinn fyrsti stans. Sagðir einn eða tveir ljóskubrandarar úr safni Magnúsar tannlæknis. Rákumst á þrjá hjólreiðamenn undir forystu Péturs í Kók, maður sem framleiðir eitur milli 8 og 4 á daginn, en eyðir því sem eftir lifir dags í að útryðja því sama eitri.

Hér fóru aðstæður versnandi og voru eiginlega stórhættulegar það sem eftir lifði hlaups, eða allt þar til komið var í Túngötubrekkuna. Enda fór svo að Jörundur flaug á hausinn í Kirkjugarðinum og snarruglaðist. Kallaði Skrifara Flosa, en Flosa Óla, og sagðist sjálfur heita Svavar!

Við reyndum að hlaupa eftir því sem skilyrði buðu upp á, sums staðar var hreinlega ekki möguleiki að hlaupa fyrir hálku. Farið um Veðurstofuhálendi, Stigahlíð, Klambra og Hlemm. Hér yfirgaf Þorvaldur hópinn og fór Laugaveg, en við hinir fórum Sæbrautina. Hún var stórhættuleg. En er komið var í Miðbæinn fór þetta að lagast og mikill var feginleikinn að komast í Vesturbæinn þar sem veðurskilyrði virðast öll önnur en annars staðar í Borginni.

Mikið er gott að komast út undir bert loft og geta hreyft sig eftir langa fjarveru! Alveg nauðsynlegt fyrir geðheilsuna, seinkar innlögn og Alla. Ekki verra að hitta ágæta félaga í Potti, nú var Baldur mættur og hafði ádíens. Mikið rætt um kosningakerfi og úrslit gamalla kosninga. Nöfn og nafnahefðir, bæði á Íslandi og í Svíaríki.

Næst er hlaupið mánudag, þá verður tekið á því.


Óhjákvæmilegt að sannleikurinn komi fram

Sunnudagur í Lýðveldinu og hlaupið frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Nú vantaði bara Blómasalann og Magnús tannlækni, þá hefði hópurinn verið fullmannaður. En fullkomið ástand er fremur sjaldgæft svo við þetta mannval varð að una. Fjögurra stiga hiti, logn, fallegt veður, en búast mátti við hálku. Í Brottfararsal var sem endranær rætt um góðkunningja okkar sem vænta má að bætist í stétt þingmanna að loknum kosningum í vor.

Farið rólega af stað, enda stígar varasamir, en þó voru aðstæður þolanlegar alveg austur í Nauthólsvík. Þar var venju samkvæmt tekinn fyrsti stans. Sagðir einn eða tveir ljóskubrandarar úr safni Magnúsar tannlæknis. Rákumst á þrjá hjólreiðamenn undir forystu Péturs í Kók, maður sem framleiðir eitur milli 8 og 4 á daginn, en eyðir því sem eftir lifir dags í að útryðja því sama eitri.

Hér fóru aðstæður versnandi og voru eiginlega stórhættulegar það sem eftir lifði hlaups, eða allt þar til komið var í Túngötubrekkuna. Enda fór svo að Jörundur flaug á hausinn í Kirkjugarðinum og snarruglaðist. Kallaði Skrifara Flosa, en Flosa Óla, og sagðist sjálfur heita Svavar!

Við reyndum að hlaupa eftir því sem skilyrði buðu upp á, sums staðar var hreinlega ekki möguleiki að hlaupa fyrir hálku. Farið um Veðurstofuhálendi, Stigahlíð, Klambra og Hlemm. Hér yfirgaf Þorvaldur hópinn og fór Laugaveg, en við hinir fórum Sæbrautina. Hún var stórhættuleg. En er komið var í Miðbæinn fór þetta að lagast og mikill var feginleikinn að komast í Vesturbæinn þar sem veðurskilyrði virðast öll önnur en annars staðar í Borginni.

Mikið er gott að komast út undir bert loft og geta hreyft sig eftir langa fjarveru! Alveg nauðsynlegt fyrir geðheilsuna, seinkar innlögn og Alla. Ekki verra að hitta ágæta félaga í Potti, nú var Baldur mættur og hafði ádíens. Mikið rætt um kosningakerfi og úrslit gamalla kosninga. Nöfn og nafnahefðir, bæði á Íslandi og í Svíaríki.

Næst er hlaupið mánudag, þá verður tekið á því.


Ævintýrið heldur áfram

Tilefnið var hefðbundið föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins frá Vesturbæjarlaug Fyrsta Föstudag janúarmánaðar 2013. Mættir: Flosi, Benzinn, Karl Gústaf, Guðmundur Benzson, Denni, Skrifari og Blómasali. Áður en yfir lauk var þetta orðið eitt af þessum eftirminnilegu hlaupum sem lifa í minningunni. Veður þokkalegt, 10 stiga hiti, hvass vindur á austan og fremur blautt. Athygli vakti að yfirlýsingaglaðir hlauparar frá miðvikudegi, þeir próf. Fróði og Jörundur, kusu að vera fjarverandi. Snubbótt endurkoma það!

Denni rifjaði upp Kirkjuhlaup á annandaginn með blik í auga og sagði að það hefði mátt greina andakt og helgi í svipbrigðum félaga Hlaupasamtakanna þegar klerkur á Nesi blessaði hópinn sem hljóp. En ekki lengi. Er komið var út á Stétt voru Blómasali og Gummi Löve komnir í hár saman út af skatti á Cadbury´s súkkulaði (hér er lesanda ráðlagt að skoða myndir af tilgreindum deiluaðilum, t.d. á Facebook).

Farið um glerhála stíga og bakgarða í 107 til þess að losna við versta vindinn. Við héldum hópinn nokkuð framan af, eða nokkurn veginn út á Suðurgötu, svo skildu þeir hinir okkur Denna og Blómasala eftir, og það var allt í lagi. Við ætluðum að dóla þetta í rólegheitum. Óljóst hversu langt yrði farið. Mótvindur leiðinlegur og setti Skrifari sér það markmið að komast að Skítastöð og tilbaka aftur. Denni var líklega á svipuðum nótum. Það kom hins vegar á óvart að Blómasalinn var með aðrar hugmyndir, og sagði að það yrði farið hjá Flugvelli og niður Laugaveginn. Okkur lægi ekkert á, það mætti stoppa og ganga ef svo byði að horfa.

Næg voru umræðuefnin: flugdólgur í Flugleiðavél á leið til New York. Bæði Skrifari og Blómasali höfðu fjarvistasannanir. Denni og Skrifari þreyttir og þungir og því nauðsynlegt að fara hægt. Við þræluðumst þetta út í Nauthólsvík og svo snerum við inn á Hlíðarfót. Þá lægði vind og hlaup varð bærilegra. Við Slökkvistöð munaði minnstu að Blómasali gæfi Denna kjaftshögg þegar honum skrikaði fótur í hálku. Gott að vera nálægt Björgunarmiðstöðinni, hefði Denni rotast hefði mátt skilja hann eftir á tröppunum og hringja bjöllunni.

Við yfir Miklubraut, en létum eiga sig að fara yfir Klambratún, fórum meðfram Miklubraut og svo Rauðarárstíginn út að Hlemmi, beygt þar og niður Laugaveginn. Á Laugavegi urðu þau tíðendi að Einar réðst á konu sem ætlaði að kveykva sér í vindlingi, sló kveikjara og vindling úr hendi hennar. Áfram niður Bankastræti og Austurstræti þar sem endurbætur standa yfir á Ríkinu. Upp Túngötu þar sem við Denni tókum niður pottlok, hneigðum okkur og signdum hjá Kristskirkju. En ekki Blómasalinn.

Nú var ekki lengur þörf á að hvíla eða ganga, létum vaða niður Hofsvallagötu, orðnir sprækir og frískir eftir gott hlaup og góðar samræður. Fjölmennt í Potti og mættu þangað auk fyrrnefndra hlaupara, Ingi Vilhjálms. og Helmut, nýkominn frá Barcelona. Svo kom Pétur Einarss. í mýflugumynd, hafði farið á Nes. Stefnan sett á Ljónið til að halda upp á Fyrsta Föstudag. Menn spurðu um prófessor Fróða, hvort hann kæmi ekki örugglega á Ljónið. "Nei, hann kemst ekki", sagði einhver, "honum er illt í hendinni." Rifjað upp að prófessorinn skuldar ekki færri en þrjú Potthlaup frá næstliðnum missirum. Ákveðið að setja stefnuna á þátttöku í vormaraþoni.

Að Potti loknum var haldið á Ljónið og áttum við þar góða stund saman, Kaupmaðurinn kom, dr. Jóhanna, og loks Biggi jógi. Einar blómasali fékk hins vegar ekki heimfararleyfi.


Nýtt líf

Á þessum degi voru endurreistir til fyrra lífernis þrír af glötuðum sonum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Meira um það seinna, en fyrst er að greina frá því er Skrifari kom til Sundlaugar Vorrar er klukku hallaði í hálfsex og glerhált var úti. Hann bar kennsl á örvasa gamalmenni við afgreiðsluborð sem var að myndast við að greiða fyrir aðgang að Laug Vorri. Er hann hafði rýnt í fyrirbæri þetta sá hann seint og um síðir að hér var á ferð hlaupari er tíðum rann skeiðin með okkur um grundir og brekkur á árum áður, sjálfur Prófessor Fróði. Var hann mættur í von um að verða endurreistur sem félagi í elzta og virðulegasta hlaupahópi landsins, aukinheldur þeim hógværasta. Hér var orðin slík fjarlægð á kynnin að menn féllust ekki í faðma, en létu nægja að heilsast kurteislega með handabandi. Furðu var karlinn ern.

Skrifari heldur sem leið liggur og samkvæmt venju til Útiklefa. Þar var þröng á þingi og ekki allt fólk sem stefndi á hlaup. Hann bar kennsl á reyfin af sumum félögum og verður ekki farið nánar út í þá sálma. Næstan ber að garði bróður Skrifara, sjálfan barnakennarann roskna. Á leið til Brottfararsalar varð vart við fleiri félaga, sosum Benzinn og Blómasalann sem gerðu mjög hróp að Skrifara, lustu upp miklum furðuhrópum og var hávaðinn ægilegur. Aðrir mættir: Magga, Maggi, Jörundur, Gummi Löve, Þorvaldur og strákurinn Benzins.

Mikil rekistefna varð í Brottfararsal um hlaupaleiðir, Þorvaldur heimtaði hlaup á Laugavegi, aðrir vildu fara með ströndum. Niðurstaðan varð sú að fara Ægisíðuna og treysta á að Gnarrinn hefði látið ryðja hana nægilega til þess að hitinn og rigningin í dag hefðu hreinsað restina af brautinni. Prófessorinn tinaði af áhyggjum yfir því að farið yrði of langt og of hratt. Sömuleiðis lýsti Jörundur yfir fullkomnum aumingjaskap og kvaðst mundu hlaupa á eftir öllum öðrum. Skrifari bættist í hóp eymingja og kvaðst varla hafa hlaupið í tvo mánuði. Hér voru því góðar nýliðunarhorfur fyrir Trabant.

Svo var lagt upp og stefnan sett á Ægisíðu. Varla höfðum við lengi hlaupið er Prófessorinn fór að kvarta yfir hraða. Jörundur hljóp með Blómasalanum og fóru þeir hægt, en Blómasalinn hefur bætt á sig miklum forða yfir jólahátíðina. Það var farið fetið og varla hægt að fara hægar, en þau í hraðfarasveit skeyttu lítt um okkur hægfarana og á þann hátt var undirstrikuð tvískipting hópsins.

Hlaupaleiðin var fremur varasöm, hál og blaut, en hlauparar létu skeika að sköpuðu. Það var ætt áfram á hógværu tempói og stefnan sett á Skítastöð. Þar héldu flestir áfram, en Skrifari, Jörundur og Blómasali sneru við og héldu til Laugar, aðrir áfram og segir ekki af þeim. Á leiðinni tilbaka gegnum Skerjafjörð kom í ljós hvers konar minniháttar botnlangi út úr Siðmenningunni þetta krummaskuð er, því að bílum var lagt þvert yfir göngustíga og lokuðu þeim fullkomlega, og ómálga börn hrópuðu ókvæðisorð að hlaupurum, spyrjandi sosum hvort "svona gamlir karlar" gætu hlaupið! Er svona byggðarlagi við bjargandi? Mætti ekki sem bezt setja jarðýtu á svæðið og byggja myndarlegan alþjóðaflugvöll út frá aðstöðunni á Reykjavíkurflugvelli?

Jæja, sem Skrifari er svo hugsandi heldur hann áfram hlaupi sínu tilbaka til Laugar, verandi í endurheimt fyrra styrks og krafta eftir langvarandi meiðsli og bólgur. Hlaupið gekk vel og ekki var verra að hitta fyrrgreinda félaga á Plani, Jörund og Blómasala og fóru fram upplýsandi umræður um Skaupið og annað meðan menn blésu úr nös.

Gott að vera kominn til hlaups á ný, gott að endurheimta Fróða og Jörund, nú fer maður að kannast við sig! Sá einhver Gísla Ragnarsson? Næst: Fyrsti Föstudagur, misheyrðist mér að Jörundur hefði eitthvað í undirbúningi?


Frændur á ferð

Á kyrrlátum sunnudagsmorgni í desember mættu þessir til hlaups frá Vesturbæjarlaug: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Ólafur Grétar skrifari. Morgunninn var fallegur, heiðskírt og suðurhjólið að færast upp á festinguna, einhver gjóla og hiti um 2 gráður. Undirlagið gat verið hált og því varkárni þörf. Skrifari óhlaupinn í þrjár vikur eða svo vegna fótarmeiðsla og því forvitnilegt að sjá hvernig tækist til og hvort hnéð yrði til friðs.

Lagt rólega upp og rætt um ástandið í Sjálfstæðisflokknum, "þeirri gvuðsvoluðu flokksdruslu" eins og einn ónefndur álitsgjafi nefndi gjarnan flokkinn. Leitun væri að þeim forystumanni flokksins sem væri ekki innvikklaður í einhvers konar brask eða gróðabrall. Forvitnilegt yrði að sjá hver framvindan yrði eftir því sem þeirri kröfu hins almenna flokksmanns yxi fiskur um hrygg að til forystu veldist eingöngu fólk sem hefði stjórnmálin að aðalstarfa og væri ekki með einhvern hliðarbissness í skúffunni.

Þannig gekk nú dælan niður á Ægisíðu. Þar standa aldeilis bílarnir í röðum með flottum bílnúmerum og eðlilegt að næst væru þau tekin fyrir. Hér var Ólafur, frændi okkar Flosa, í essinu sínu og kvaðst hafa fengið að gjöf bók Guðmundar Magnússonar um íslensku höfðingjaættirnar. Þar væri heill kafli um bílnúmer og hver ætti hvaða bíl. Með þessu taldi Ólafur að búið væri að renna stoðum undir nýja fræðigrein innan sagnfræðinnar: bílnúmerafræði.

Á þessum degi hafði verið boðað til Bröns í Hlaupasamtökunum á Nauthóli. Þar sem Flosi ætlaði að mæta þar boðaði hann aðeins stutt hlaup um Hlíðarfót og Gvuðsmenn, en við frændur settum stefnuna á hefðbundið. Helga Jónsdóttir frá Melum var á stígum úti og gerði ýmist að dragast aftur úr okkur eða taka fram úr okkur. Við tókum nefnilega hefðbundna göngustansa og ræddum málin af nokkurri einurð. M.a. var tekin góð rispa á skólamálum, stöðu mála í Reykjavíkur Lærða Skóla og rifjaðir upp eftirminnilegir kennarar frá fyrri tíð og drykkfelldir árgangar.

Það blés eilítið við flugvöll og þá kólnaði manni hratt, en hita mátti fá í sig aftur með því að byrja að hlaupa og eftir Kirkjugarð má segja að það hafi verið bærilegt að hlaupa og ekki heldur kalt á Sæbraut. Farið um Miðbæ, hjá Kaffi París og úttekin viðeigandi hylling. Eftir það upp Túngötu, hjá Kristskirkju og niður Hofsvallagötu.

Í Pott mættu auk fyrrnefndra tveggja hlaupara dr. Einar Gunnar, dr. Mímir og dr. Baldur. Setið í góðan klukkutíma og tekin upp fyrri umræða um bílnúmer. M.a. bílnúmer Thors Thors, R-30. "Hvar er það í dag?" spurði Ólafur Þ. og hélt spurningum sínum mjög að Baldri. Einhver giskaði á öskuhaugana. "Nei, aldeilis ekki. Situr á gljáfægðri bifreið í bílskúr á miðju Seltjarnarnesi." "Og hver á bílinn í dag?" Spurningunni var beint að Baldri. Engin svör. Nefndur var eigandi bifreiðarinnar, Bjarni sonur Thors. Enn var frændi í essinu sínu. En þá spurði Baldur á móti: "Og hver er dóttir hans?" Það komu vöfflur á frænda og hann reyndi að snúa sig út úr spurningunni með því að leiða talið að öðru. En Baldur gaf sig ekki og heimtaði svar. Ólafur varð að viðurkenna að þetta vissi hann ekki og þá varð Baldur kátur. Svona gengur þetta nú stundum fyrir sig.

Gott hlaup í góðu veðri og fóturinn nokkurn veginn til friðs.


Fyrsti föstudagur

Sumir mættu í hlaup á Fyrsta Föstudegi hvers mánaðar í desember 2012. Nefndir voru Benzinn, Denni, Karl Gústaf, Þorvaldur, Rúna og svo ungur, slánalegur maður á að gizka 25 ára sem Denni vissi ekki nafnið á. Hlaupurum var fagnað í Potti Vorum í Vesturbæjarlaug að hlaupi loknu og samanstóð móttökusveitin af Kára, Önnu Birnu og skrifara. Setið lengi vel í Potti og tekið upp nördahjal um siglingavegalengdir og -tíma. Alveg til þess að drepa mann!

Af þessum voru aðeins tveir hinir fyrstnefndu auk skrifara sem sáu sóma sinn í að mæta á hefðbundinn Fyrsta á Ljóninu. Þar var nú öllu gáfulegri umræðan yfir glasi af jólaöli. Rætt um ESB, gjaldmiðilsmál, sjávarútveg, stönduga fjölskyldu í Eyjum og gamlan Golf.

Vonandi munu félagar Hlaupasamtakanna sýna hefðbundnum Hátíðisdögum Samtakanna meiri ræktarsemi í framtíðinni og mæta þar sem vaskir piltar koma saman.


Fantar á ferð

Nei, djók. Þetta var bara nokkuð hefðbundið. Mætt í Brottfararsal: Flosi, Maggi, skrifari, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Pétur, Gummi, Heiðar, Haraldur, Karl von Bremen og hlaupari sem mig vantar nafnið á. Sennilega verður það að teljast óhefðbundið þegar fastaliðið lætur ekki sjá sig. Hvar var blómasali? Hvar var Benzinn? Eða Þorvaldur?

Einhver nefndi Þriggjabrúa á Plani. Við Maggi stóðum þarna eins og illa gerðir hlutir innan um ofurhlaupara meðan beðið var eftir að Pétur yrði klár. Skyndilega sló hugsunin mig hvað þetta væri súrrealískt: við Maggi að bíða eftir Pétri til þess að hann geti skilið okkur eftir í reykmekki þegar á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu. Ég nefndi þetta við Magga og hann tók kipp og við rukum af stað með Þorbjörgu með okkur. Þau hin gætu þá bara reynt að ná okkur!

Þau náðu okkur eftir 2 km. og fóru geyst fram úr, fnæsandi eins og hross. Maggi ætlaði bara Hlíðarfót þar sem hann átti að mæta á kóræfingu um kvöldið til að syngja "Hver á sér fegra föðurland?" Skrifari var ekki búinn að gera upp við sig hvert skyldi haldið. Þegar kom í Nauthólsvík var líðanin of góð til þess að stytta og það var haldið áfram á Flanir. Stefnan sett á Suðurhlíð í kompaníi við Kalla, en Tobba var týnd.

Gott tempó á okkur, meðaltempó 5:45. Snerum upp Suðurhlíðina og tókum brekkuna í einum sprett án þess að stoppa, alla leið upp á plan hjá Perlu, þar pústaði skrifari út meðan Kalli skokkaði létt í hringi. Svo haldið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum. Þá leið vestur úr og var allt tíðindalaust á meðan. Gott veður til hlaupa, hvorki of kalt né of heitt. Komum til Laugar á innan við klukkutíma, gott hlaup og sýnir að skrifari er ekki dauður úr öllum æðum.

Þau hin munu hafa strækað á Þriggjabrúa og fór Gummi Löve víst þar fyrir uppreisnarseggjum. Í staðinn var farið í Fossvoginn og teknir sprettir. Flosi mun einn hafa farið Þriggjabrúa.

Tekinn góður tími í teygjur eftir hlaup og svo inntekinn Pottur. Að þessu sinni voru allir pottar opnir, en að undanförnu hafa tveir verið lokaðir vegna vanstillingar. Ljúft að hvílast og slaka á eftir gott hlaup og ræða val ungmenna á framhaldsskólum, en þar virðast Vesturbæingar vera mjög samstiga.


"Lífið er svo stutt að maður getur ekki eytt því í að drekka vont kaffi."

Alltaf hrjóta spakmæli af vörum félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessi féllu í Potti að loknu átakahlaupi (fyrir suma), höfundur: Dr. Jóhanna. En upphaf þessarar sögu var að fjöldi valinkunnra hlaupara mætti til Laugar í þeim góða ásetningi að þreyta hlaup á mánudegi. Þessir voru: fyrrnefnd dr. Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Pétur, Gummi, Karl Gústaf og S. Ingvarsson. Gríðarlegt mannval. Nú heyrir það til sögunni að menn hafi í frammi ónot í Brottfararsal, en þó var eftir því tekið að Þorvaldur kom að borði Hlaupasamtakanna við gluggann þar sem fyrir á fleti voru útlendingar með hafurtask á borðinu, og kona sat og gaf barni sínu brjóst. Þorvaldur ruddi burtu dóti þessa fólks, enda átti það engan rétt á að hafast við á borði Samtaka Vorra, og lagði á borðið ýmsar miður frambærilegar hlaupaflíkur. Fór svo að gera teygjur sínar sem hann er þekktur af.

Dr. Jóhanna ákvað að farinn yrði Neshringur og teknar Bakkavarir. Hér æjuðu miðaldra menn og eldri, sögðu að þetta væri ekkert fyrir þá. "Við fylgjum þá bara í humátt á eftir hinum og förum stutt." Hefðbundin þróun hlaups, fremstir fóru þekktir afrekshlauparar, en við hinir lakari þar á eftir. Nú er hlaupið í myrkri og verður að varast allan þann fjölda bíla sem þvælist fyrir hlaupurum. Það var vitanlega rætt um hann Vilhjálm okkar og þann óhróður sem andstæðingar hans í eigin flokki hafa í frammi um hann. Einhver sagði það mat flokksforystunnar að Villi væri ekki nógu vitlaus til þess að sæma sér á lista Sjálfstæðisflokksins.

Upp á Víðirmel, út í Ánanaust og svo vestur úr. Fljótlega var vesalingur minn orðinn aftastur, hafði snætt fiskbollur í hádeginu sem reyndust vond undirstaða fyrir hlaup. Og eitthvað þreyttur í ofanálag. Bjarni aumkaði sig yfir mig og fylgdi mér alla leið, gekk með mér þegar við átti, og hvatti áfram eftir atvikum. En þar kom að honum blöskraði og hann sagði: "Nei, nú verður þú að herða þig upp!"

Farið út á Lindarbraut og yfir á Suðurströndina, þaðan austur úr og að Bakkavör. Þar var hópur vaskra hlaupara að búa sig undir að fara 8 brekkuspretti. Aðrir fóru bara þrjá, enn aðrir sex "Borgarneslega séð" eins og það var orðað. En við Bjarni, Maggi og Þorvaldur héldum bara áfram og skeyttum ekki ókvæðishrópum félaga okkar. Niður á Nesveg og stystu leið tilbaka. Teygt í Móttökusal og svo inntekinn Pottur. Ljúf stund með umræðu um mat, svoldið um hlaup, kaffidrykkju, en einnig efnahagsmál.

Vonandi verður þetta eitthvað skárra á miðvikudag.


Fjölgar í þingmannaliði Hlaupasamtakanna

Rætt var um sigra á hinum pólitíska vettvangi. Mætt til hlaups á sunnudagsmorgni voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, blómasali, Ósk og skrifari. Þetta er annan sunnudaginn í röð sem Ósk mætir og hefur bragur hlaupa þegar batnað með þátttöku hennar, minna slen, snarpara hlaup, en þó eru málin rædd.

Um fátt var rætt meira í hlaupi dagsins en sigur Vilhjálms í Kraganum, þar sem hann hreppti fjórða sætið. Formaður til Lífstíðar upplýsti að fjöldi manns hefði hringt í hann langt fram eftir nóttu til að færa honum árnaðaróskir í tilefni af þessum góða árangri. Svo virðist sem fjölmargir líti á Formann sem sérstakan umboðsmann Vilhjálms hér í Vestbyen og of langt sé að hringja alla leið í Garðabæinn.

Orð var haft á því hve slaka kosningu formaður flokksins fékk á sama tíma. Með hans eigin reikniaðferðum mátti komast að því að 80% flokksmanna í kjördæminu hefðu EKKI kosið hann.

Ekki á að þurfa að koma á óvart að hópurinn skiptist fljótlega í tvennt: við nafnar og frændur í síðari hópnum og þau hin í þeim fyrri. Upplýst var eftir hlaup að mikið hefði verið rifist í fremri hópnum. Mestir voru þar hávaðamenn blómasalinn og Þorvaldur, stækir íhaldsmenn báðir tveir og höfðu allt á hornum sér: umhverfisvernd, efnahagsmál, menntun og menningu. Þeir vilja virkja ALLT og draga úr ríkisbákninu. Ósk varðist fimlega.

Við náðum saman við Skítastöð og svo aftur í Kirkjugarði, en eftir það skildu þau okkur Ólaf eftir. Í Fossvogsgarði var athöfn erlendra sendimanna í tilefni af 11.11. - friðardeginum. Þar glytti á pyttlur, að sjálfsögðu kl. 11.

Skrifari var þungur á sér eftir að hafa ekki hreyft sig í heila viku, eina utanlandsferð og því sem slíku fylgir. Því var gott að geta stoppað og hvílt inn á milli. Var það gert á öllum hefðbundnum stöðum. Fórum Sæbrautina, þar var stillt veður og gott. Þau hin fóru víst Laugaveginn, héldu að það væri brjálað veður við Sæbraut.

Er komið var tilbaka í Útiskýli afhenti skrifari blómasala Lindt súkkulaði eins og lofað hafði verið. Síðan var Pottur. Hann var fremur kaldur til að byrja með, en eftir hálftíma var hann orðinn óbærilega heitur og ekki verandi í honum. En í Pott mættu auk hlaupara dr. Mímir, dr. Einar Gunnar, Jörundur óhlaupinn, Helga og Stefán. Miklar umræður urðu um prófkjör og virkjanir. Gott að vera kominn aftur til hlaupa, nú verður tekið á því!


Höfum séð það svartara

Það hristist allt og skalf utan á Vesturbæjarlaug þegar skrifari kom þar á Plan kl. 17:15 í dag, slík var veðurhæðin. Nú skyldi hlaupið. Skrifari hlakkaði til hlaups. Hann sá að fleiri voru spenntir, því að Einar leirskáld og blómasali var klæddur og kominn í Brottfararsal kl. 17:15! Segi og skrifa: seytján fimmtán. Maður sem er vanur að koma hlaupandi með símann límdan við eyrað tvær mínútur í hálfsex vælandi: á ekki að bíða eftir mér? Í Útiklefa stóð skrifari á Adamsklæðum þegar Bjössi aðalnagli kom inn og sagði:"Djöfull ertu sexí!" Stuttu síðar komu Flosi yfirnagli og Bjarni súpernagli og fljótlega fór að hitna í kolunum með skeytum í allar áttir. Þorvaldur sást rjátla. Aðrir mættir: Maggi, Heiðar, Gummi Löve, Ragnar, Rúna, René og svo einn í viðbót sem ekki fékkst nafn á. Það eru svo margir sem vilja hlaupa með okkur. Framangreindir eru allir réttnefndir NAGLAR, aðrir mega SÓLSKINSHLAUPARAR heita.

Ekki urðu neinar bollaleggingar um skynsamlegar leiðir í þessari veðráttu, menn settu bara hausinn undir sig og hlupu af stað. Stefnan sett á Ægisíðu, ekki bakgarða. Er þangað var komið létti mjög veðri og var eiginlega bara þolanlegt, ef ekki allgott alla leið. Hér voru þrír hópar: Gummi, Ragnar, Heiðar og hinn gaurinn fremstir, Þorvaldur að þvælast fyrir þeim,en hann slóst fljótlega í hóp með heppilegri félagsskap, skrifara og Magga. Þar á eftir komu aðrir, þó dróst enginn verulega aftur úr.

Við Maggi og Þorvaldur ákváðum að taka hlaup dagsins í félagsskap hver annars. Þetta fer nú að verða eins og gamalt, þreytt hjónaband. Það var rifist og kítt um hvaða leið ætti að fara. Hlíðarfót? Nei, það er alltof hvasst þar. Öskjuhlíð, nei, þar eru perrarnir. Veðurstofa, nei, þar fjúkum við um koll. Þorvaldur heimtaði að farið yrði inn í hverfi þar sem við nytum skjóls. Á endanum var ákveðið að fara í Kirkjugarð, upp að Bústaðavegi og undir hann, en snúa strax til vinstri. Ég verð að segja að það var nánast logn alla þessa leið.

En svo var framhaldið. Enn heimtaði Þorvaldur íbúðagötur, en við Maggi vorum bara brattir. "Förum niður Eskihlíðina og sjáum til." Þetta fannst Þorvaldi hið mesta glapræði. "Við fjúkum um koll við BSÍ!" hrópaði hann. En hún er opt lúnknari, músin sem læðist, heldur en sú sem stekkur. Kom á daginn er við fórum niður hjá Kristsmönnum að þar var blankalogn, sem hélst alla leið meðfram Hringbraut út að Tjörn. Þar gerði hæg gola vart við sig, en annars var þetta eins og á ljúfum síðsumardegi. Við sáum einkaþotu hefja sig á loft og dáðumst að því hvað hún fór bratt upp. Farþegar hljóta að hafa setið í 60 gráðu vinkli og hafa þrýstst niður í sætin. Magnús hafði áhyggjur af því að þeim myndi veitast erfitt að ná nærbuxunum út aftur millum kinnanna.

Þetta var glæsilegt hlaup hjá okkur og vorum við ánægðir að því loknu. Fórum líklega e-a 10 km á ágætistíma. Aðrir hlauparar voru komnir eða að koma á Plan um svipað leyti og við, utan hvað Flosi kom síðastur, fór enda Þriggjabrúa með lensi á Sæbraut.

Nú er upplýst að Kaupmaður heldur Fyrsta Föstudag hvers mánaðar. Hver lætur slíkt boð framhjá sér fara? Vel mætt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband