Fantar á ferð

Nei, djók. Þetta var bara nokkuð hefðbundið. Mætt í Brottfararsal: Flosi, Maggi, skrifari, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Pétur, Gummi, Heiðar, Haraldur, Karl von Bremen og hlaupari sem mig vantar nafnið á. Sennilega verður það að teljast óhefðbundið þegar fastaliðið lætur ekki sjá sig. Hvar var blómasali? Hvar var Benzinn? Eða Þorvaldur?

Einhver nefndi Þriggjabrúa á Plani. Við Maggi stóðum þarna eins og illa gerðir hlutir innan um ofurhlaupara meðan beðið var eftir að Pétur yrði klár. Skyndilega sló hugsunin mig hvað þetta væri súrrealískt: við Maggi að bíða eftir Pétri til þess að hann geti skilið okkur eftir í reykmekki þegar á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu. Ég nefndi þetta við Magga og hann tók kipp og við rukum af stað með Þorbjörgu með okkur. Þau hin gætu þá bara reynt að ná okkur!

Þau náðu okkur eftir 2 km. og fóru geyst fram úr, fnæsandi eins og hross. Maggi ætlaði bara Hlíðarfót þar sem hann átti að mæta á kóræfingu um kvöldið til að syngja "Hver á sér fegra föðurland?" Skrifari var ekki búinn að gera upp við sig hvert skyldi haldið. Þegar kom í Nauthólsvík var líðanin of góð til þess að stytta og það var haldið áfram á Flanir. Stefnan sett á Suðurhlíð í kompaníi við Kalla, en Tobba var týnd.

Gott tempó á okkur, meðaltempó 5:45. Snerum upp Suðurhlíðina og tókum brekkuna í einum sprett án þess að stoppa, alla leið upp á plan hjá Perlu, þar pústaði skrifari út meðan Kalli skokkaði létt í hringi. Svo haldið niður Stokk og hjá Gvuðsmönnum. Þá leið vestur úr og var allt tíðindalaust á meðan. Gott veður til hlaupa, hvorki of kalt né of heitt. Komum til Laugar á innan við klukkutíma, gott hlaup og sýnir að skrifari er ekki dauður úr öllum æðum.

Þau hin munu hafa strækað á Þriggjabrúa og fór Gummi Löve víst þar fyrir uppreisnarseggjum. Í staðinn var farið í Fossvoginn og teknir sprettir. Flosi mun einn hafa farið Þriggjabrúa.

Tekinn góður tími í teygjur eftir hlaup og svo inntekinn Pottur. Að þessu sinni voru allir pottar opnir, en að undanförnu hafa tveir verið lokaðir vegna vanstillingar. Ljúft að hvílast og slaka á eftir gott hlaup og ræða val ungmenna á framhaldsskólum, en þar virðast Vesturbæingar vera mjög samstiga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband