Hlaupið á fallegum sunnudagsmorgni

Í nýliðnum stjórnlagaráðskosningum samþykkti þjóðin að hlaupahópur ríkisins héti Hlaupasamtök Lýðveldisins og skyldi það skráð í Stjórnarskrá. Því til staðfestingar mættu þrír staðfastir hlauparar til hlaups á sunnudagsmorgni: Einar blómasali, Ólafur skrifari og Magga stórhlaupari. Okkur Einari þótti ekkert leiðinlegt að hafa Möggu með okkur. Dagurinn var fagur, stillt, sólríkt og fjegurra stiga hiti. Einar var búinn að fara á Nes. Hann hefur gerst náttúruvinur og lýríker í seinni tíð og notar hvert tækifæri til þess að biðja menn að horfa upp og dást að fegurð náttúrunnar. Hver segir svo að hann sé innantómur braskari? Þetta er maður með ást á þjóð og landi og unnir öllu sem lífsanda dregur. Hvað um það við töltum af stað.

Haustmaraþon bar á góma og frábær frammistaða okkar fólks þar. Dr. Jóhanna sigurvegari og Gummi Löve flottur. S. Ingvarsson með sitt 56. maraþonhlaup, "hljóp af vana" eins og Magga orðaði það. Einnig varð okkur hugsað til okkar fólks í Amsterdam, Maggiar, Frikka, Rúnu og Ragnars. Frammistaðan sýnir að Samtök Vor hafa unnið sér réttmætan sess í Stjórnarskrá Lýðveldisins.

Dóluðum þetta Ægisíðuna, en fórum líklega hraðar en alla jafna er farið á sunnudögum. Formaður var staddur á Túndru, ákvað að fara með dæturnar úr Borgarsollinum í haustfríinu í hreint loft Húnavatnssýslna. Rætt um framboðsmál Villa Bjarna í suðvesturkjördæmi þar sem hann kemur inn sem ferskur vindur í bæli braskara og svindlara. Nú mega menn fara að gæta sín.

Magga ætlaði bara stutt í dag, en fannst greinilega svo skemmtilegt að hlaupa með okkur Einari að hún fékk sig engan veginn til þess að skilja við okkur. Í Kirkjugarði var staldrað við leiði þeirra hjóna Guðrúnar og Brynleifs og sögð Sagan. Eftir á kom í ljós að Skrifari fór í öllum meginatriðum rangt með og telst því standa vel undir skyldleika við Ó. Þorsteinsson.

 Það var ekki fyrr en við Veðurstofu að Magga mannaði sig upp í heimferð og kvaddi. Við áfram á hálendið og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Það var rætt um sameiginlega kunningja, áform þeirra og afdrif í lífsstríðinu. Við héldum ágætu tempói og stoppuðum sjaldnar og skemur en alla jafna. Vorum sáttir við stjórnlagaráðskosninguna og einkum var Einar ánægður með að Íslendingar vilji halda í Þjóðkirkjuna þar eð hún sé ómissandi þegar kemur að því að búa menn undir tréverkið.

Triton var við Faxagarð og var að taka olíu. Við áfram hjá Ægisgarði og gengum upp Ægisgötu. Þrátt fyrir ást Einars á Þjóðkirkjunni sá hann ekki ástæðu til að taka ofan hjá Kristskirkju og signa sig. Hann er dæmigerður Íslendingur eins og þeim er lýst bezt í Innansveitarkróniku (sem hann NB lauk við að lesa í morgun). Ólafur á Hrísbrú er maður eftirminnilegur, sennilega trúlaus með öllu, en reiðubúinn að berjast með vopnum til að vernda kirkjuna í sveitinni. Ja, vopnum og vopnum, ljá og hrífu. Hlaupið létt niður Hofsvallagötu og til Laugar. Teygt lítillega.

Í Potti voru dr. Einar Gunnar, Jörundur, Helga og Stefán. Jörundur undraðist það að Magga hefði fengið af sér að hlaupa með okkur Einari. Við Einar urðum móðgaðir, enda alkunnir að gáfum og skemmtun. Einar upplýsti að næsti Fyrsti Föstudagur yrði að heimili hans, flatbökur á færibandi og hvers kyns meðlæti. Í gvuðs friði, skrifari.


Gerist ekki betra

Fjöldi frambærilegra hlaupara mættur í Vesturbæjarlaug á mánudegi þegar hlaupið er í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þar mátti sjá Karl Gústaf, Magnús Júlíus, Þorvald, Einar Þór, Gumma Löve, Ragnar, Bjarna Benz, Kára, Helmut, Ólaf Grétar, Tobbu og Möggu. Dagurinn var fagur, heiðskírt, stilla, hiti 10 gráður. Gerist ekki betra. Helmut heimtaði hlaup á Nes af slíkri ákefð að undrum sætti. Síðar kom í ljós hvað bjó undir. Lagt upp á hröðu tempói. Þau Magga, Ragnar og Gummi skildu okkur hin fljótlega eftir og koma ekki meira við þessa sögu. Fólk sem ekki skilur hið félagslega inntak hlaupa þarf ekki að kvarta yfir því að aldrei segir af því í pistlum. E.t.v. er það einmitt þess vegna sem það forðar sér: til að lenda ekki í frásögn.

Hratt tempó upp Hossvallagötu og vestur Víðirmel. Áfram rætt um glæsilega afmælisveizlu Óskar og Hjálmars á föstudaginn eð var sem var eftirminnileg og æ því meir sem blómasalinn svaf hana af sér. Við Helmut virtum Kalla fyrir okkur og ályktuðum að sonurinn hefði ekki erft hlaupastílinn hans. Kalli er svo vel lottaður að hlaupa í buxum sem hlaupa fyrir hann. Ekki geta margir státað af því. Áfram niður í Ánanaust og reynt að lenda fyrir bílum í kvöldsólinni. Engin slys urðu á mönnum og var stefnan sett á Nes.

Hér fór Helmut að draga sig frá okkur, skrifari lenti á milli og fyrir aftan voru Einar, Benzinn og Kalli. Er nær dró hefðbundnum sjóbaðstað Hlaupasamtakanna á Nesi gerðist Helmut ær, hann heimtaði að fá að baða sig í sjónum í kvöldsólinni. Skrifari var skynsamur og vakti athygli á því að sjórinn væri kaldur og aftankulið myndi gera endurkomu úr sjó frekar napra. Helmut lét sér ekki segjast og gerði sig líklegan til að rífa sig úr öllum klæðum. Tók þrjá fullhrausta karlmenn til þess að halda aftur af honum og telja honum hughvarf. Það hafðist á endanum og var haldið áfram hlaupinu með Helmut maldandi í móinn.

Fljótlega var sett upp nokkuð hratt tempó og var því haldið til loka hlaups. Meðaltempó hefur líklega verið 5:30 og á köflum vorum við á 5 mínútna jafnaðartempói eftir því sem Garmin Kalla sagði til um. Hér blandaði Þorvaldur sér í hlaup með styttingu og svindli. Var allt í einu kominn fram fyrir okkur, en við drógum hann uppi og mæltum blíðlega: "Fögur er fjallasýn."

Farin hefðbundin leið um Flosaskjól með fjöruborðinu (freistandi að fara í sjóinn þar!) og þá leið til Laugar. Teygt á Plani í yndislegu veðri. Mætt dr. Jóhanna og Tumi óhlaupin bæði. Setið góða stund í Potti og rætt um geimferðir og hvað verður um fólk sem stígur út úr geimstöðinni og skellir á eftir sér. Fræði fyrir nörda. Eins og að reikna út flatarmál kúlu. Þegar skrifari heyrir svona umræðu fær hann hausverk. Skrifari er máladeildarstúdent. Hann forðaði sér því snemma og hélt heim að elda súrsæta svínakássu. Næst: Þriggjabrúa á hröðu tempói. Í gvuðs friði.


Haustblíðan yfir mér

Fjórir hlauparar mættir á Plan Vesturbæjarlaugar á sunnudagsmorgni reiðubúnir til þess að renna skeið á Ægisíðu: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Sól, blíða, 10 stiga hiti og einhver vindbelgingur framan af, en svo lægði er komið var norður fyrir. Mönnum var ofarlega í hug glæsileg afmælisveizla Óskar á föstudagskvöld, sem Einar missti af. Ólafur sagði okkur frá útgáfuteiti vegna bókarinnar Boðið vestur,sem hefur að geyma glæsilegar uppskriftir með vestfirzku hráefni og ekki síðri ljósmyndir að vestan. Í útgáfuteitinu var boðið upp á snittur og rautt, hvítt og bjór. Einar blómasali missti af útgáfuteitinu. Þá var í hlaupinu sagt frá Nauthólshlaupi sem þreytt var að morgni laugardags, 5 og 10 km, og súpa, brauð og verðlaun að hlaupi loknu, m.a. málsverðir á Nauthóli. Einar missti af Nauthólshlaupi.

Við félagarnir erum í rólegu deildinni og því ekki mikill asinn þennan fagra morgun. Dólað sér rólega meðan Einar lét dæluna ganga um sukkið og svínaríið hjá Orkuveitunni, en hann hefur nýverið lokið lestri skýrslunnar góðu um Orkuveituna. Hann kvaðst vera orðinn reiður vegna þessarar óráðsíu og sjálftöku sem þarna var stunduð. Hann lét reiði sína bitna á hlaupafélögum sínum.

Ekki höfðum við lengi hlaupið þegar við mættum kunnuglegu andliti. Þar var kominn sjálfur Guðjón hortugi á reiðhjóli og lá vel á honum. Við stöldruðum við og áttum við hann stutt spjall. Hér bar Holtavörðuheiðarhlaup á góma, en Ó. Þorsteinsson hefur upplýst að það verði þreytt af nýju á næsta ári, mitt á milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Síðan hélt hlaup áfram og Einar hélt áfram að barma sér.

Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega sögu sem sýndi að í Vesturbænum býr eðalfólk sem er reiðubúið að veita meðborgurum sínum liðsinni þegar vandi steðjar að. Sagan fjallaði um dekkjaskipti hjá Borgarspítalanum þar sem erlend kona var vanbúin til verksins. Eftir stutta göngu og sögustund hlupum við af stað aftur endurnærðir og sannfærðir um að það eru enn til sannir heiðursmenn.

Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður (þar sem enn rennur vatn úr krönum), Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og stanzað við Óttarsplatz. Svo var rölt eftir Rauðarárstíg, en hlaupið á ný við utanríkisráðuneyti. Niður á Sæbraut og þaðan vestur úr. Enn gerðist Einar lýrískur, benti á Esjuna og bað okkur um að berja dýrðina augum. Hér var sannarlega fallegt og var maður þakklátur fyrir að vera staddur á þessum stað, á þessum tíma, í þessu veðri og í þessum hópi góðra félaga.

Miðbær, Túngata. Við Túngötu 20 var spurt: hver bjó hér á undan Gísla Sigurbjörnssyni? Hann var forsvarsmaður tæknistuddrar ríkisstofnunar, fæddur 1881. Við gizkuðum á fjölda stofnana áður en við duttum niður á Vegamálastjórn, þar sem Geir Zoega var vegamálastjóri. Þegar komið var á Plan kom þar Baldur Símonarson aðvífandi og svaraði sömu vísbendingaspurningu svo til umsvifalaust með mótspurningu: "Var hann frændi nöfnu eiginkonu Formanns til Lífstíðar og með sama ættarnafn?" Hér kom á okkur og við urðum að hugsa okkur um áður en svarað var.

Pottur góður og margt rætt. Mættir auk fyrrnefndra dr. Einar Gunnar og Jörundur. Svo kom dr. Jóhanna og taldi upp öll verðlaunin sem Einar blómasali missti af í Nauthólshlaupinu. Hann emjaði og æjaði eftir því sem þeirri frásögn vatt fram. Haustmaraþon ku vera um næstu helgi. Í gvuðs friði.


Ritstíbbla

Skrifari, hérna, blómasali, Jörundur, nei...

Reykjafellshlaup 2012

Reykjafellshlaup var þreytt laugardaginn 15. september 2012. Þessir söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug kl. 14: Helmut og Jóhanna, Maggie, Þorvaldur, S. Ingvarsson, Dagný, Benedikt, Einar blómasali, Rúna, Frikki á hjóli búinn að hlaupa á Nes, Ragnar og Ólafur ritari. Þorvaldur lagði af stað á undan öðrum, Einar hljóp heim að ná í drykki og svo var okkur ekið á eftir þeim hinum sem voru lögð af stað. Biggi hjólaði í kringum okkur út í Nauthólsvík, en svo ekki söguna meir, var að fara á myndakvöld. Ekki bólaði á Denna sem ætlaði að vera á reiðhjóli.

Stoppað í Nauthólsvík og beðið eftir Rúnu og Einari. Við vorum fimm sem héldum hópinn framan af, auk skrifara voru það Dagný, Helmut, Rúna og Einar. Næsti áfangi var Víkingsheimili og var jafnvel vænst þess að þau fremstu biðu eftir okkur þar, eins og hefð er um. Svo var þó ekki og var hlaupi bara haldið áfram. Hér mun Bjarni Benz hafa bæst í hópinn. Næst staldrað við í brekkunni upp af Gullinbrú og beðið eftir þeim síðustu. En eftir þetta var engin miskunn, það var bara sprett úr spori meðfram ströndinni og golfvöllunum og alla leið upp í Varmárlaug.

Frábært hlaup og menn ótrúlega frískir. Góð tilfinning að skella sér í pott og ísbað á eftir. Svo var haldið í sveitina til Helmuts og Jóhönnu, þangað mættu einnig Anna Birna og Kári, Flosi og Ragna og loks sjálfur Vilhjálmur Bjarnason. Urðu þar eðlilega fagnaðarfundir. Borin fram dýrindis kjötsúpa og kveiktur varðeldur um kvöldið. Ógleymanleg stund. Takk fyrir okkur!


Prófessor Fróði mætir til hlaupa á ný eftir heilt ár af depurð

Dagurinn lofaði ekki góðu um hlaup, vestan ofsaveður og kalt. Þó voru menn steigurlátir í skeytum dagsins og lýstu yfir góðum ásetningi um hlaup. Af þeim sem þar kvöddu sér hljóðs mættu eftirtaldir: skrifari, gamli barnakennarinn og Gummi Löve. Aðrir mættir: Magnús, Ragnar, Rúna og svo prófessor Fróði eftir árs fjarveru. Eru tilgreindir hlauparar því réttnefndir KARLMENNI. Aðrir mega sólskinshlauparar heita.

Rúna var spurð í Brottfararsal: "Hvurnig er með hann Frikka? Er hann maður eða mús?" "Hann er mús," sagði Rúna. "Og hvar er hann?" "Hann er í músarholunni sinni," svaraði Rúna að bragði. "Væntanlega að ígrunda sín músarholusjónarmið," var sagt og var efnið afgreitt með því. Það sást til Friðriks læknis, en hann var bara á leið í Pott, ekki hlaup.

Dagurinn var merkilegur fyrir það að félagi okkar, prófessor Fróði, var að mæta til hlaups með Hlaupasamtökunum í fyrsta skipti síðan í október 2011. Síðustu tólf mánuðir hafa verið honum ein löng þrautaganga: fyrst meiðsli í hné sem kölluðu á aðgerð; þegar gróið var um heilt og fyrir lá að hefja hlaup af nýju sá hann grjótvöluna ofan af reiðhjólinu í Sviss og paníkkeraði, greip í allar bremsur á 50 km hraða og flaug á hausinn og brotnaði lífshættulega á höndum og fótum. Nú var allt orðið gott og tímabært að fara að hreyfa skankana.

Menn tóku vel móti prófessornum og margir heilsuðu honum. Steinunn í afgreiðslunni tilkynnti öllum sem heyra vildu að Ágúst Kvaran væri mættur á ný til hlaupa. Hann var svo klæddur að hann var í svörtum hlaupagalla og á rauðum hlaupaskóm með nýtt Garmin-úr sem hann kunni ekki á. Hann bar sig afar illa og hafði þungar áhyggjur af hlaupi dagsins. Við hugguðum hann með því að við myndum bara fara stutt, Hlíðarfót eða svo. Hér helltist angistin yfir prófessorinn og hann sagði: "Er það ekki óþarflega langt?" Hér urðum við svolítið hissa, því að það eru hátt í 20 ár síðan Skátarnir skófu hann Ágúst okkar upp eftir 9 km hlaup í Laugardalnum.

Málamiðlunin var að fara upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og austur í Skerjafjörð að strætóskýli, þaðan vestur úr. Þessi áætlun var skynsamleg því að það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í dag, menn þungir á sér og lítið skjól að hafa. Þarna kjöguðum við gömlu félagarnir, Gústi, Flosi, Maggi og skrifari, Gummi og Ragnar farnir í spretti og Rúna týnd. Við börðumst við storminn í Skerjafirði og inn á Ægisíðu, en fórum svo aftur inn á Suðurgötuna og um bakgarða 107 tilbaka til Laugar. Svo til alla leiðina, heila 6 km, kvartaði prófessorinn yfir hraðanum, sem var jafnaðarlegt 6 mín. tempó.

Pottur yljaði. Þangað mætti Jörundur og kvaðst vera meiddur. Talaði um golfkúlu sem einhver hefði grýtt í sig á Nesi svo hann féll við og laskaðist. Nú þegar prófessorinn er mættur aftur fara hlaup að færast í eðlilegt horf og vantar bara Gísla til að setja punktinn yfir i-ið.


Einn á ferð á sunnudagsmorgni

Skrifari hlakkaði mikið til að hitta félaga sína í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á þessum fagra sunnudagsmorgni í september. Stillt veður og fagurt, ákjósanlegt til hlaupa. Er klukkan var orðin 10:10 sat skrifari einn í Brottfararsal og ekki einn einasti hinna hefðbundnu sunnudagshlaupara mættur. Úr því rættist ekki og hljóp hann því einn í dag. Gat hann sér þess til að fjórir þessara einstaklinga væru að vitja veraldlegra eigna sinna úr timbri, steinsteypu og gleri, en létu útiveru og holla hreyfingu sitja á hakanum.

Það var yndislegt að hlaupa á þessum degi, laus við barlóm um búksorgir og peningaleysi. Í Kirkjugarði var tekin aukalykkja til þess að skoða og signa yfir leiði venslafólks. Að öðru leyti var hlaupið í alla staði hefðbundið með stoppi á réttum stöðum.

Pottur góður með þeim dr. Einari Gunnari, dr. Baldri og Jörundi, auk Benzins og Bigga sem dúkkuðu upp. Allir tilgreindir voru óhlaupnir.

Framundan eru spennandi tímar. Prófessor Fróði ku ætla að mæta til hlaupa af nýju eftir slys á mánudag. Nk. laugardag er svo Reykjafellshlaup. Í gvuðs friði.


Horn í Hólavallakirkjugarði

Það er farið að kula af hausti og því tímabært að fara að huga að skjólfatnaði á hlaupum. Tími stuttbuxna senn liðinn. Mætt til hlaupa: Maggi, Flosi, Þorvaldur, Kalli, skrifari, Gummi, dr. Jóhanna, Benzinn, Kári og Ragnar. Engin sérstök áform, bara hlaupið beint af augum. Rólega. Skrifari þungur á sér, og þeir voru fleiri þungir á sér í hlaupi dagsins og enginn skilinn eftir.

Hlaupið hefðbundið um Ægisíðu og í Skerjafjörð, Ragnar, Gummi og dr. Jóhanna greinilega á hraðferð, Þorvaldur í sveppaleit, við hinir á góðum nótum. Við Flugbraut mættum við Formanni til Lífstíðar á vesturleið. Hann kvaðst hafa hlaupið inn að kirkjugarði. Einhver spurði hvort hann væri að líta eftir reitnum sínum. Hér þótti Formanni. "Legupláss í Fossvogi! Þvílíkt og annað eins." Skrifari útskýrði að Formaður ætti sinn öruggan hvílustað í Hólavallagarði. Nú gerðust menn dreymnir á svip og e-m varð á orði að e.t.v. ætti það fyrir okkur að liggja að halda undir horn á kistu í Hólavallagarði. Tilhugsunin gaf okkur aukinn kraft og þrek til þess að halda áfram hlaupi.

Fimm hlauparar sameinuðust í Nauthólsvík: Flosi, Benzinn, Maggi, Kalli og skrifari. Héldum hópinn eftir þetta, fórum Hlíðarfót með Laufássafbrigði og gott betur. Maggi átti erindi við séra Friðrik á Hlíðarenda, en náði okkur með góðum spretti á brú yfir Hringbraut. Þaðan var hlaupið upp á Laufásveg þar sem beið lögreglufylgdin sem vakir yfir velferð forsætisráðherra Dana. Lokaðar götur, en þó glaðbeittir þjónar réttvísinnar sem mættu okkur. Við niður Bragagötu og svo inn Fjólugötu, þaðan um Hallargarð og Fríkirkjuveg. Gleymdum að stoppa við Fríkirkjuna, en gerðum þóknanlegan stanz hjá Dómkirkju með tilheyrandi signingum. Kirkjustræti og upp Túngötu. Aftur stoppað hjá Kristskirkju og seremónían endurtekin þar.

Svo var það nú bara hefðbundið niður Hofsvallagötu og tilbaka. Eiginlega orðið of kalt úti til að teygja, svo menn héldu í Pott. Þangað kom maður sem stríðir við óútskýrða þyngdaraukningu, en hefur góð ráð að bjóða öðrum sem kljást við sama vanda. Kvaðst hafa hlaupið með Kára, hvað Kári staðfesti. Rætt um túristakonuna sem hvarf og fór að leita að sjálfri sér.


Hlaupið í regni á Nes

Hefðbundið föstudagshlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á föstudegi, mætt dr. Jóhanna, Jörundur, Þorvaldur, Bjarni Benz, skrifari og Maggi. Þegar leið að hlaupi brast á með hellirigningu svo að brottför tafðist og von kviknaði um að Einar blómasali myndi ná hlaupi. Tvær grímur runnu á Magga, sem ýmist er maður eða mús. Hann varð mús, snöri við og kvaðst ætla að synda. Aðrir stóðu í Brottfararsal og biðu þess að rigningu linnti. Á endanum var tekið af skarið og lagst í hlaup, við myndum hvort eð er blotna við það að fara í sjó, eins og ráðgert hafði verið.

Við fimm töltum þetta upp á Víðirmel og þaðan vestur úr niður í Ánanaust, farið hægt og haldið hópinn. Reim losnaði hjá Benzinum, en honum var gefið ráðrúm til að binda fast. Áfram meðfram ströndinni og rætt um maraþon sem hópurinn gæti farið sameiginlega í, Amsterdam, Munchen á næsta ári, og þannig. Jörundur er hvatamaður þess að menn setji sér markmið og fari saman í hlaup, hvað menn athugi.

Bjarni í miklum hug og skildi okkur hin eftir. Gerði þó stanz við hákarlaskúr og beið eftir okkur hinum. Saman fórum við svo hjá Gróttu og á Nes. Farið niður í fjöru og skellt sér í sjóinn, utan hvað Jörundur hélt áfram og fór fyrir golfvöll. Við hin, þ.m.t. Þorvaldur, slökuðum á í svalri Atlanzöldunni, og skolað af fótum á eftir í pollum sem myndast höfðu á steinum í rigningunni.

Haldið áfram, en farið hægt og nutum við þess að það var föstudagur og lok vinnuviku, allt í lagi að vera hægur. Fórum um hefðbundnar slóðir á Nesi, Lambastaðabraut og það dæmi allt, niður hjá og fram hjá Flosaskjóli, þar sem húsráðendur eru í óða önn að raða búslóð í gám fyrir flutning að Laufási. Við áfram, en Þorvaldur dokaði við og hóf að tína sveppi.

Er komið var í Pott kom þangað kunnuglegt andlit, prof. dr. Ágúst Kvaran með kút sem hjálpar honum að "hlaupa" í vatni. Hann reyndi að sannfæra okkur um að hlaupnir kílómetrar í vatni væru þrítugfaldir kílómetrar í hlaupi á hefðbundnum hlaupastíg. Hann var gerður afturreka með þá kenningu. Rætt um slysið og hvað hefði eiginlega gerst, hversu stór var steinvalan sem hann hjólaði á, var þetta stórgrýti eða steinvala, hjólaði hann á hana eða varð hann bara hræddur, paníkeraði og snarhemlaði með fyrrgreindum afleiðingum? Prófessorinn kvartaði yfir því að menn væru ekkert breyttir og sama andstyggilega eineltið í gangi. Okkur hlýnaði um hjartarætur að heyra þessi orð. Ákveðið að hann myndi mæta í reglulegt hlaup að nýju mánudaginn 10. september nk. - og fara Aumingja. Góður undirbúningur fyrir Reykjafellshlaup 15. september.


"This fat guy in the red shirt in front of us is amazingly fast!" (á áströlsku)

Nýjasti hlaupavinur Samtaka Vorra er frá Ástralíu og heitir Robin. Hún hefur hlaupið að undanförnu með Maggie, en mætti í dag til þess að fara einn hring með hópi sem hún hafði fundið á Netinu. Kvaðst mundu fara á rólegu tempói og þáði samfylgd skrifara. Aðrir mættir: Maggie, Flosi, Benzinn, Maggi, René (í fyrsta skipti í 6 mánuði), dr. Jóhanna, Kári, Einar blómasali og Gummi Löve. Veður gott, 18 stiga hiti, léttskýjað og hreyfði varla vind.

Allnokkur bið á Plani eins og venjulega eftir blómasala, eins var einhver vandræðagangur á Maggie og hún hlaupandi út og inn eftir e-m óskilgreindum varningi. Loks silaðist hópurinn af stað og fór rólega, héldum hópinn ótrúlega lengi. Hefðbundnir hraðfarar fremstir og fóru að setja upp tempóið, þá Maggi, Benzinn og blómasalinn, loks skrifari og Robin. Ég útskýrði fyrir henni hugmyndafræði Samtakanna, þar hlypi saman fólk af ýmsum stærðum og þykkleikum og ekki allir sem eltust við tímann. Tók dæmi af sjálfum mér og blómasalanum. Þessu samsinnti hún og bætti við: "Yes, the fat guy in the red shirt in front of us is amazingly fast." Skrifari áréttaði að það gæti virst svo nú, "...but soon he will be like a popped balloon and begging us not to go so fast". Hvað kom á daginn.

Tempóið var frekar hratt út, ekkert 6 mínútna tempó eins og ég hafði lofað, líklega nær því að vera 5:30. En ég á ekki klukku eins og þau hin og því er þetta ekki bundið vísindalegri nákvæmni, nógu nákvæmt þó fyrir máladeildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Við töltum þetta sumsé og ræddum hlaup á hinum ýmsu stöðum, ég sagði frá Holtavörðuheiðarhlaupi og Reykjafellshlaupi, en hún frá hlaupum hinum megin á hnettinum, í Malasíu og Ástralíu. Alls staðar hleypur fólk og ekki er betri leið til þess að kynnast landi og fólkinu sem þar býr en reima á sig skóna og leggja braut undir sóla í glaðra sveina og meyja hópi.

Fyrr en varði var komið í Nauthólsvík og þá voru þau fremstu horfin okkur, dr. Jóhanna, Gummi og Maggie og var það álit manna að þau hefðu ætlað að fara 18 km, trúlega á Kársnes. Dró saman með öðrum, utan hvað Kári og Robin fóru Hlíðarfót. Aðrir settu stefnuna á Þriggjabrúa. Fremstir fóru Bjarni og Maggi, svo Flosi og blómasalinn - og loks rak skrifari lestina. En það átti eftir að breytast.

Á Flönum kom þessi tilfinning yfir skrifara, að brátt yrði hlaupi lokið, þar sem Boggabrekka nálgaðist og þá væri bara heimleiðin eftir, að vísu yfir Veðurstofuhálendið. Yfir brú á Reykjanesbraut og svo lagt á brattann. Þá kom það fram sem skrifari hafði spáð fyrr í hlaupinu, að blómasalinn yrði ekki svo brattur allt hlaupið. Hann hætti að hlaupa og fór að ganga, meðan skrifari dró á hann og dró hann raunar uppi. Eftir þetta kjagaði hann upp brekku hálfskælandi og bað um að það yrði gengið er upp væri komið. Þá voru þeir Maggi og Benzinn löngu horfnir í síðsumarmóðuna.

Það sem eftir lifði hlaups héldum við þrír nokkurn veginn hópinn, blómasali, gamli barnakennarinn og skrifarinn, þótt stundum yrði vík milli vina. Þannig skildu þeir mig eftir hjá Kringlunni, en ég náði þeim aftur þegar komið var á Sæbraut. Þá byrjaði blómasalinn aftur að rifja upp hefðir frá sunnudagshlaupum um staði þar sem er gengið. Hann gerðist lýrískur og horfði til Esjunnar og bað okkur um að aðgæta hvort þar væri snjóskafl að sjá. Svo var ekki. Hann varð allur upplyftur af þessu og lagði til að fyrirsögnin á pistli kvöldsins yrði í þeim anda, enginn snjór í Esju. Skrifari kvaðst nú þegar vera kominn með annan betri.

Það var Sæbrautin, með hefðbundnu stoppi við drykkjarfont, svo áfram hjá Hörpu, þar var rifjað upp að hefð var um göngu. Þar dúkkaði Helmut upp á reiðhjóli, með kjapt, kvaðst vera ríkisstarfsmaður og þurfa að vinna. Skrifari kannaðist ekki við þessa kröfu og þótti hún tortryggileg. Loks þreytt hlaup að Verbúðum og gengið. Hlaupið upp Ægisgötu, pottlok af við Kristskirkju og hneigt sig fyrir nunnu sem gekk heim frá tíðum. Einar kunni sig ekki og tók ekki ofan húfu. Suma vantar allar andlegar þenkingar um hjálpræðið. Nú var ekki annað eftir en skokka niður Hofsvallagötu og klára þetta. Við Hringbraut kom barnakennarinn á fullu stími og fór á svigi yfir götuna móti rauðu ljósi sem Þorvaldur Gunnlaugsson hefði verið stoltur af. Teygt á Plani og Pottur. Á Plani voru Benzinn og Maggi. Þeir voru báðir á undan okkur hinum og við drykkjarfont á Sæbraut skildi Maggi Benzinn eftir og dró ekki saman með þeim fyrr en við Sólfar. Maggi kvaðst vera lakasti hlaupari Samtaka Vorra og þótti okkur hinum það kyndugt, skilja okkur hina eftir í hitamóðu og lýsa svo yfir aumingjaskap í lok hlaups á Plani. Af hverju ekki bara að halda sig við "fögur er fjallasýnin"?

Í Potti var Kári og Helmut óhlaupinn. Við inntum Kára eftir samræðum þeirra Robin. Jú, manneskjan var hin geðþekkasta, margt rætt og skrafað um lönd og þjóðerni. Robin kvaðst hafa heyrt að munurinn á Íslandi og útlöndum væri að í útlöndum mætti gera ráð fyrir að í hópi sem teldi tylft kvenna mætti finna ellefu ljótar og eina fallega, en í samsvarandi hópi á Íslandi mætti finna ellefu fallegar og eina ljóta. "Já, þetta er rétt," sagði Kári, "og ég veit hver hún er, hún er hollensk." Þetta var Kári dagsins, fullkomnaði hlaup.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband