Ævintýrið heldur áfram

Tilefnið var hefðbundið föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins frá Vesturbæjarlaug Fyrsta Föstudag janúarmánaðar 2013. Mættir: Flosi, Benzinn, Karl Gústaf, Guðmundur Benzson, Denni, Skrifari og Blómasali. Áður en yfir lauk var þetta orðið eitt af þessum eftirminnilegu hlaupum sem lifa í minningunni. Veður þokkalegt, 10 stiga hiti, hvass vindur á austan og fremur blautt. Athygli vakti að yfirlýsingaglaðir hlauparar frá miðvikudegi, þeir próf. Fróði og Jörundur, kusu að vera fjarverandi. Snubbótt endurkoma það!

Denni rifjaði upp Kirkjuhlaup á annandaginn með blik í auga og sagði að það hefði mátt greina andakt og helgi í svipbrigðum félaga Hlaupasamtakanna þegar klerkur á Nesi blessaði hópinn sem hljóp. En ekki lengi. Er komið var út á Stétt voru Blómasali og Gummi Löve komnir í hár saman út af skatti á Cadbury´s súkkulaði (hér er lesanda ráðlagt að skoða myndir af tilgreindum deiluaðilum, t.d. á Facebook).

Farið um glerhála stíga og bakgarða í 107 til þess að losna við versta vindinn. Við héldum hópinn nokkuð framan af, eða nokkurn veginn út á Suðurgötu, svo skildu þeir hinir okkur Denna og Blómasala eftir, og það var allt í lagi. Við ætluðum að dóla þetta í rólegheitum. Óljóst hversu langt yrði farið. Mótvindur leiðinlegur og setti Skrifari sér það markmið að komast að Skítastöð og tilbaka aftur. Denni var líklega á svipuðum nótum. Það kom hins vegar á óvart að Blómasalinn var með aðrar hugmyndir, og sagði að það yrði farið hjá Flugvelli og niður Laugaveginn. Okkur lægi ekkert á, það mætti stoppa og ganga ef svo byði að horfa.

Næg voru umræðuefnin: flugdólgur í Flugleiðavél á leið til New York. Bæði Skrifari og Blómasali höfðu fjarvistasannanir. Denni og Skrifari þreyttir og þungir og því nauðsynlegt að fara hægt. Við þræluðumst þetta út í Nauthólsvík og svo snerum við inn á Hlíðarfót. Þá lægði vind og hlaup varð bærilegra. Við Slökkvistöð munaði minnstu að Blómasali gæfi Denna kjaftshögg þegar honum skrikaði fótur í hálku. Gott að vera nálægt Björgunarmiðstöðinni, hefði Denni rotast hefði mátt skilja hann eftir á tröppunum og hringja bjöllunni.

Við yfir Miklubraut, en létum eiga sig að fara yfir Klambratún, fórum meðfram Miklubraut og svo Rauðarárstíginn út að Hlemmi, beygt þar og niður Laugaveginn. Á Laugavegi urðu þau tíðendi að Einar réðst á konu sem ætlaði að kveykva sér í vindlingi, sló kveikjara og vindling úr hendi hennar. Áfram niður Bankastræti og Austurstræti þar sem endurbætur standa yfir á Ríkinu. Upp Túngötu þar sem við Denni tókum niður pottlok, hneigðum okkur og signdum hjá Kristskirkju. En ekki Blómasalinn.

Nú var ekki lengur þörf á að hvíla eða ganga, létum vaða niður Hofsvallagötu, orðnir sprækir og frískir eftir gott hlaup og góðar samræður. Fjölmennt í Potti og mættu þangað auk fyrrnefndra hlaupara, Ingi Vilhjálms. og Helmut, nýkominn frá Barcelona. Svo kom Pétur Einarss. í mýflugumynd, hafði farið á Nes. Stefnan sett á Ljónið til að halda upp á Fyrsta Föstudag. Menn spurðu um prófessor Fróða, hvort hann kæmi ekki örugglega á Ljónið. "Nei, hann kemst ekki", sagði einhver, "honum er illt í hendinni." Rifjað upp að prófessorinn skuldar ekki færri en þrjú Potthlaup frá næstliðnum missirum. Ákveðið að setja stefnuna á þátttöku í vormaraþoni.

Að Potti loknum var haldið á Ljónið og áttum við þar góða stund saman, Kaupmaðurinn kom, dr. Jóhanna, og loks Biggi jógi. Einar blómasali fékk hins vegar ekki heimfararleyfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hljóp 9.7 km. tími 1.00 klst. á stuttbuxum, .i logni í Hrútakofanum .

Jörundur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 11:12

2 identicon

Ég hljóp 9.7 km. tími 1.00 klst. á stuttbuxum í logni í Hrútakofanim heima.

Jörundur (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband