Séra Georg og Margrét Möller, vænsta fólk að sögn

Þegar komið var í Pott eftir hlaup dagsins bar margt á góma. Segir af því hér á eftir. En fyrst er að segja frá upphafi hlaups. Mættir: próf. Fróði, Einar blómasali, Bjarni Benz, Denni skransali, Karl Gústaf og Ólafur Gunnarsson. Ekki félegur hópur við fyrstu sýn. Þeir jörðuðu hins vegar vantrúarraddir með ótrúlegri frammistöðu í hlaupi dagsins.

Nú er lesandinn beðinn að minnast þess að í gærkvöldi var þreytt Powerade-hlaup í Elliðavogi. Denni taldi sig tilamunda hafa séð gamla barnakennarann þar fársjúkan en þó hlaupandi nokkuð hraðar en gamla skransalann af Nesinu. Af þessari ástæðu kann að hafa verið öllu meiri fjarvera en venjulega. Altént kvartaði Denni yfir þyngslum, þreytu og stirðleika. Því var það að hann lét sig viljandi síga aftur úr þeim hinum sem fóru eilítið hraðar til þess að geta ráðið tempóinu.

Ekki vissi Denni hvað varð um þá hina, en hann hljóp og gekk út að Fossvogskirkjugarði, snöri við og hljóp tilbaka. Hafði hann mótvind framan af, en hljóp á lensinu tilbaka og gekk þá betur. Taldi hann sig hafa hlaupið eina 9 km og undraðist mjög að hitta ekki félaga sína er komið var tilbaka. Þó var það honum mikil uppörvun að hitta Skrifara í Potti. Tóku þeir tal saman og var skrafað um hlaup og ástand hlaupara.

Nokkru síðar birtust þeir hver á fætur öðrum: prófessorinn, Blómasalinn, Benzinn og Ólafur velferðarmaður. Höfðu þeir dröslast eina 11,3 km og fengið að launum kaffi og út í hjá Kaupmanninum. Ágúst var spurður út í höndina og hvort hann hefði skilið sneiðina sl. föstudag. Hann hafði ekki áttað sig á sneiðinni og kallaði reyndar Skrifara Flosa, en gamla barnakennarann Óla.

Menn lýstu yfir girnd. Allir hefðu girnd. Girnd til mismunandi hluta. Þetta kveikti í sumum. Talið barst að séra Georg og Margréti Möller. Hér var komið við viðkvæman blett hjá Denna og Benzinum. Þeir eru greinilega í mikilli varnarstöðu fyrir Katólsku kirkjuna á Íslandi og þvertóku fyrir það að þetta ágætisfólk hefði nokkurn tíma girnst það sem bannað er í pápísku.

Prófessorinn er farinn að eldast. Sést það ekki einasta á því að hann ruglar saman þeim Skrifara og gamla barnakennaranum, en ekki síður af því að hann talar ákafliga um sjúkdóma sína og meiðsli, sjúkrahúsvistir og aðgerðir. Máttu félagar hans nú þola langar tölur um meiðingar og skurmsl hvurs kyns, og þegar spurt var: "Hvað kom fyrir?" var svarað: "Spurðu frekar hvað kom EKKI fyrir!" Prófessorinn kvaðst hafa frekar viljað fá öll meiðslin á sama tíma, en ekki svona hver á eftir öðrum.

Eðlilegt er að talið bærist að Fyrsta. Fróði taldi sig eiga inni eina 15 ónýtta Fyrstu. Skrifari upplýsti að Fyrsti væri sameign Hlaupasamtakanna og ekki á færi einstakra hlaupara að taka hátíðina út prívat. Fróði skellti skollaeyrum við og hafði greinilega áform um að vísítera Ljónið.

Nú fer maður að kannast við sig í Hlaupasamtökunum, prófessor Fróði kominn aftur og byrjaður að kvarta. Nú er vorið skammt undan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband