Fjölgar í þingmannaliði Hlaupasamtakanna

Rætt var um sigra á hinum pólitíska vettvangi. Mætt til hlaups á sunnudagsmorgni voru: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, blómasali, Ósk og skrifari. Þetta er annan sunnudaginn í röð sem Ósk mætir og hefur bragur hlaupa þegar batnað með þátttöku hennar, minna slen, snarpara hlaup, en þó eru málin rædd.

Um fátt var rætt meira í hlaupi dagsins en sigur Vilhjálms í Kraganum, þar sem hann hreppti fjórða sætið. Formaður til Lífstíðar upplýsti að fjöldi manns hefði hringt í hann langt fram eftir nóttu til að færa honum árnaðaróskir í tilefni af þessum góða árangri. Svo virðist sem fjölmargir líti á Formann sem sérstakan umboðsmann Vilhjálms hér í Vestbyen og of langt sé að hringja alla leið í Garðabæinn.

Orð var haft á því hve slaka kosningu formaður flokksins fékk á sama tíma. Með hans eigin reikniaðferðum mátti komast að því að 80% flokksmanna í kjördæminu hefðu EKKI kosið hann.

Ekki á að þurfa að koma á óvart að hópurinn skiptist fljótlega í tvennt: við nafnar og frændur í síðari hópnum og þau hin í þeim fyrri. Upplýst var eftir hlaup að mikið hefði verið rifist í fremri hópnum. Mestir voru þar hávaðamenn blómasalinn og Þorvaldur, stækir íhaldsmenn báðir tveir og höfðu allt á hornum sér: umhverfisvernd, efnahagsmál, menntun og menningu. Þeir vilja virkja ALLT og draga úr ríkisbákninu. Ósk varðist fimlega.

Við náðum saman við Skítastöð og svo aftur í Kirkjugarði, en eftir það skildu þau okkur Ólaf eftir. Í Fossvogsgarði var athöfn erlendra sendimanna í tilefni af 11.11. - friðardeginum. Þar glytti á pyttlur, að sjálfsögðu kl. 11.

Skrifari var þungur á sér eftir að hafa ekki hreyft sig í heila viku, eina utanlandsferð og því sem slíku fylgir. Því var gott að geta stoppað og hvílt inn á milli. Var það gert á öllum hefðbundnum stöðum. Fórum Sæbrautina, þar var stillt veður og gott. Þau hin fóru víst Laugaveginn, héldu að það væri brjálað veður við Sæbraut.

Er komið var tilbaka í Útiskýli afhenti skrifari blómasala Lindt súkkulaði eins og lofað hafði verið. Síðan var Pottur. Hann var fremur kaldur til að byrja með, en eftir hálftíma var hann orðinn óbærilega heitur og ekki verandi í honum. En í Pott mættu auk hlaupara dr. Mímir, dr. Einar Gunnar, Jörundur óhlaupinn, Helga og Stefán. Miklar umræður urðu um prófkjör og virkjanir. Gott að vera kominn aftur til hlaupa, nú verður tekið á því!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband