Hvað hélt stúlkan að hún væri að horfa á?

Mættir í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á mánudegi: Jörundur, Flosi, Helmut, Einar blómasali, skrifari, dr. Jóhanna, Ingi og Ragnar. Ákveðið að fara gamla Neshringinn, upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og þá leið út að Skítastöð. Farið afar rólega yfir, enda nokkrir félagar að rifja upp gamla hlaupatakta. Flosi, Jóhanna og Ragnar komin vel framúr okkur á Suðurgötunni. Einar sagði okkur af ævintýrum helgarinnar.

Hann ók brúðhjónum á gömlu VW bjöllunni sinni á laugardaginn. Eftir hjónavígsluna var ekið um bæinn. Leiðin lá framhjá Bæjarins beztu. Þá sagði brúðurin: "Ég er svöng." Einari var hleypt inn í röðina og útskýrði fyrir afgreiðslustúlkum að hann væri með brúðhjón í bílnum hjá sér sem vildu ekkert heitara en fá SS-pylsu. "Þetta verðum við að bjóða upp á," sagði afgreiðslustúlkan og snaraði fram tveimur pylsum og kóki með það sama. "En þú sjálfur, vilt þú ekkert?" spurði stúlkan. "Jú, skelltu á mig tveimur með öllu og kókglasi," svaraði Einar, og hefur ekki í annan tíma sært jafnmiklar veitingar út úr ferðaþjónustubransanum til handa sér og sínum. En á móti kemur rótarfylling sem hann lenti í og kostaði hann skyrtukaup mánaðarins, fyrir utan sársaukann og allar verkjatöflurnar sem neyta varð. 

Jæja, við vorum þarna á ferðinni, blómasali, skrifari, Helmut og Jörundur. Fórum í Skerjafjörðinn og út hjá Skítastöð, og svo var lagt í hann tilbaka. Skrifari rólegur þar sem hann er að koma tilbaka eftir tveggja og hálfs mánaðar hlé frá hlaupum. Gekk þess vegna inn á milli. Það myndaðist góður sviti á svo stuttu hlaupi eftir svo langt hlé. Við Einar lukum hlaupi við Hossvallagötu, en þeir Helmut og Jörundur héldu áfram á Nes og afrekuðu óskilgreinda hluti þar.

Nú var Pottur eftir og hann var líflegur. Setið í drjúga klukkustund og ræddar mataruppskriftir, hlaup, göngur, m.a. næsta framhald Reykjavegar. Um það mál berast fljótlega upplýsingar frá Helmut. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband