Vinaríki

Skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins er ríkur að vinum. Fyrir það ber að þakka. Flestir þeirra hlaupa með Samtökum Vorum og hafa sýnt skrifara mikinn hlýhug og skilning í meiðslum á hné. Þrír þeirra, Magnús tannlæknir, Bjarni Benz og Einar blómasali, hlupu með skrifara sl. miðvikudag í stuðnings- og tryggðaskyni, og blómasalinn fórnaði 18 km hring sem hann hafði hugsað sér að taka til þess að geta sýnt veikburða hlaupara sem var að koma tilbaka stuðning. Að vísu eru til skelmislegir félagar eins og Jörundur sem hreytir gjarnan ónotum í skrifara og býsnast yfir utanlandsferðum sem greiddar séu beint úr veski þessa fátæka prentara. En allar slíkar umvandanir eru fram fluttar af mikilli elsku og umhyggju fyrir velferð skrifara. 

Nú brá svo við að skrifari varð að hætta við hlaup dagsins vegna þess að fyrri meiðsli tóku sig upp, bólga og eymsli í hné sem kalla á meiri hvíld og meira Íbúfen. Hann saknaði þess að geta ekki hlaupið með félögum sínum á svo ágætum hlaupadegi. En það er paranormal aktívitet í Hlaupasamtökunum. Í hlaupi dagsins upplifði blómasalinn það að skrifari hefði plantað sér í mínímí útgáfu í höfðinu á honum og hvíslaði stöðugt: "Farðu hægt! Farðu stutt! Hvíldu þig, hvíld er góð." Líkt og litli kallinn í höfðinu á Magga sem er óþreytandi að reyna að sannfæra hann um að hann sé of þreyttur og slappur til að hlaupa.

Jæja, skrifari var ekki heillum horfinn, hann sá tækifæri til þess að rækta góðan þorsta í anda Hjálmars líkamsræktarkennara Hagaskóla Íslands. Mætti því til Laugar og viðhafði hefðbundna rútínu: heitasta pott, gufu, kalda sturtu, meiri gufu og loks Örlygshöfn. Þar var aðkomufólk fyrir á fleti - og Denni skransali, en óviðkomandi hurfu fljótt á braut þegar þeir heyrðu hvert umræður stefndu. Sá síðasti fór þegar Bjarni Benz mætti í Pott. Jæja, Denni var óánægður með að hafa ekki verið getið í pistli sl. föstudag. Þá hafði hann hlaupið með blómasala og Jörundi og inntekið allar veigar sem Gvuðmundur vinalausi hafði boðið upp á í veizlunni sem haldin var til að fagna komu Skálafells. Taldi hann að hér væri einelti á ferðinni, en Samtök Vor eru þekkt að slíku framferði. En málið er að Einar og Jörundur minntust ekki einu orði á skransalann er þeir loks komu í Pott eftir hlaup, vel maríneraðir úr rauðu og hvítu í boði útgerðarauðvaldsins.

Í Potti dagsins gafst skrifara tækifæri til þess að leiðrétta þennan leiða misskilning og árétta að hér væri sennilega á ferðinni sálræn meinloka hjá þeim félögum: þeir einfaldlega skilgreina ekki hlaupara af Nesi sem fólk og því þótti þeim ekki taka því að hafa orð á því að Denni hefði hlaupið, þrátt fyrir að hann sé fæddur Vesturbæingur og uppalinn við Hólatorg, sem ætti eiginlega að vera gæðastimpill á manninum. Hvað um það, Denni var fullvissaður um að hann væri fullgild persóna og meira en fullgildur í vorum hópi. Við þetta glaðnaði yfir Denna og hann upplýsti að stefnt skyldi að Palli 7. júní nk. Er hann heyrði að blómasali yrði á palli í Tiomaria USA og skrifari á palli í Brussel hjaðnaði gleðin og depurð helltist yfir. En svo lagði hann upp nýtt plott: hvað ef við flytjum Pall til 14. júní og segjumst eiga hann inni? Engar mótbárur bárust gegn þessari hugmynd og verður hún til ígrundunar næstu daga, fer þó allt eftir veðri.

Blómasali með heimboð í sveitina 1. júní nk. eftir Grafningshlaup. Matseðill tilbúinn. Vel mætt! Eintóm gleði. Í gvuðs friði.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband