Óráðshjal

Það er segin saga að þegar prófessor Fróði mætir í Föstudagspott snýst talið um áfengisdrykkju og hann verður drafandi. Þannig var það á þessum degi þegar skrifari mætti meiddur í Pott til þess að hitta hlaupandi félaga sína. Hann greindi Magnús tannlækni, Þorvald, Flosa, prófessorinn, Ólaf heilbrigða og Kalla - óhlaupin voru Kári, Anna Birna, sjálfur skrifari - og svo birtust seint og um síðir óhlaupnir Einar blómasali, Biggi jógi og er skrifari yfirgaf Laug kom Benzinn stormandi á rútunni.

Þeir kváðust hafa mætt til hlaupa á réttum tíma, hvað veit ég um það. Altént var það svo að skrifari mætti til Laugar um fimm- hálfsexleytið og tók fljótlega nótís af Þorvaldi Gunnlaugssyni, sem var kominn tilbaka frá hlaupum, en bar ekki við að heilsa frekar en alla jafna. Lét sem hann sæi ekki skrifara, sem þó hefur embættisgengi í Samtökum Vorum og því virðingar verður. Ekki sást til dr. Einars Gunnars, en sonur hans, dr. Ólafur Jóhannes sást í Laug í gær.

Nú það var ekki um annað að ræða en að þrífa sig og halda til eimingar. Þar voru settar á tölur um fiskneyslu við Stefán Sigurðsson verkfræðing. Að lokinni hreinsun hins innri manns var steðjað á ný í Pott. Nú voru Kári og Anna Birna mætt og Magnús tannlæknir var í heita pottinum. Svo var stefnan sett á Barnapott og þangað komu hlauparar hver á fætur öðrum. Einkennilegt með Föstudagspott hvað talið berst fljótt að áfengisdrykkju og blöndum. Cuba Libre, tvöfaldur brennivín í tvöföldum Bianco og smáborð fyrir bland. Og svo rifjuðu menn upp uppáhaldsþynnku- og æluminningar sínar. Kári benti á mikilvægi þess að menn þrifu vel klósettin fyrir drykkjuna þannig að þeir gætu faðmað Gustavsberg af þeim mun meiri ástríðu þegar kæmi að því að skila því frá sér sem drykkjan útheimti.

Jæja, svona tal var fjarri hug skrifara, sem einbeitti sér að göngu morgundagsins. Hann lagðist gegn því að prófessorinn fengi sér rauðvínsglas til undirbúnings göngu. Kemur í ljós hvort því ráði hafi verið fylgt. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband