Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
30.4.2011 | 17:00
Einn í slyddunni í Fossvogsdal
29.4.2011 | 21:35
"Ég er ekki að nenna þessu..."
Í Útiklefa var mannval. Þar voru Flosi, Þorvaldur og Helmut, Magnús og við bættist ritari. Magnús að tæma skinnsokkinn. Helmut var alklæddur og sagði:"Ég er ekki að nenna þessu!" Magnús sem er mannasættir og Pollýanna Samtakanna sagði "Nei, auðvitað nennum við þessu ekki, Helmut minn!" Vel þekktur leikari í Vesturbæ Reykjavíkur var viðstaddur og sagði:"Strákar mínir, ég þekki þetta. Ég er að fara í einleik í kvöld og ég verð að segja að ég nenni því varla." Þarna voru saman komnir miklir laukar hver á sínu sviði og allir játuðu að þeir heyktust frammi fyrir stórum verkefnum, en tækjust á við þau engu að síður af karlmennsku. Og við bárum saman tilfinninguna að standa frammi fyrir públíkúm ellegar að koma sæll og ánægður til Laugar að hlaupi loknu, uppblásinn af adrenalíni og endorfíni.
Fámennt í dag, Ágúst, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Karl Gústaf, Denni af Nesi, Guðrún, ritari, Helmut og dr. Jóhanna. Hlauparar voru komnir á Plan þegar ritari kom út og voru að makka þar saman um leiðir, prófessorinn leyndardómsfullur þegar hann upplýsti að farin yrði leið sem aðeins elztu menn myndu eftir. Leiðin var hins vegar kunnugleg þegar á reyndi: mánudagur, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og svo út í Skerjafjörð. Þaðan á Nes. Ritari fylgdi fremstu mönnum á tempóinu 5+, sem var ansi hratt. Óþarflega hratt. Hvar eru skynsamir menn þegar þeirra er þörf?
Jæja, þarna komum við í Skerjafjörðinn og snúum svo á Nes, engin vissa fyrir því hversu langt yrði farið. Ritari spurði prófessorinn á einum punkti um það hversu langt yrði farið. "Ja, það fer eftir því hversu langt verður farið." Ef svörin í akademíunni eru í þessum anda þá held ég að það verði langt í að HÍ verði meðal 100 beztu háskóla í heiminum. Tautólógía, útúrsnúningar og hundalógíkk eru sérstakar íþróttagreinar á Íslandi og ætti eiginlega að skrá þær sem keppnisgreinar á Landsmóti Ungmennahreyfingarinnar.
Jæja, Magnús dró ágræðslubrandarann á bakaleiðinni, þennan um þýzka fótinn og amerísku höndina, og íslenzka kálhausinn. Við vorum áfram á hröðu tempói og menn gáfu ekkert eftir, Magnús og Helmut bara flottir á rúmu 5 mín. tempói. Dr. Jóhanna eitthvað að snövla í kringum okkur, en átti ekkert erindi í hóp beztu manna. Það var hlaupið að Hofsvallagötu og haldið þaðan á Nes, ég hafði félagsskap af Magnúsi og við fórum hefðbundna leið en þegar komið var á Nes beið okkar Helmut og bað okkur um að fara ekki lengra, en fylgja sér tilbaka. Við ákváðum að aumkva okkur yfir hann og fylgdum honum tilbaka. Á Eiðistorgi sáum við kunnuglegt ökutæki og skeggjaðan ökumann, var þar kominn sjálfur Benzinn, hokinn yfir útreikningum og bókhaldsfærzlum. Magnús gekk að bílnum reif upp dyrnar og heimtaði svör við því hvaða svindilbrask væri í gangi þarna. Benzinn brást ókunnuglega við og taldi sig ekki vera að fara á svig við lög og reglu. Við áfram. Farin leiðin framhjá húsum þeirra vina, Jörundar og Bigga í Mýri,og fyrir mikla mildi tókst að koma í veg fyrir að Helmut henti grjóti í glugga á húsi við hliðina á húsi Bigga.
Við fórum góða 8,6 km á 45 mín., flottu tempói. Ánægðir með það. Í Pott mætti Jörundur og kvaðst hafa hlaupið að morgni. Honum var þungt í hug og vildi safna saman helztu embættismönnum Samtaka Vorra til þess að taka mikilvægar ákvarðanir og mun viðkomandi berast fundarboð fljótlega. Fundarefni: leynilegt. Að öðru leyti var rætt um fundi hjá ESB, fundahefðir og samskipti okkar við okkar norrænu bræður og systur, bólusótt og fleira því tengt. Fagurt hlaup að baki, á morgun er vormaraþon, en á sunnudag er aðeins opið í Laugardal. Hlaupið þaðan 10:10.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2011 | 20:53
Fuglasöngur á vori
Nú er vorið komið, páskahret að baki, fuglasöngur í Fossvogsdal. Af þessu tilefni safnaðist hópur hlaupara saman í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar einbeittir í þeim ásetningi að eiga góðan dag saman á hlaupum. Hér mátti bera kennsl á marga af ágætustu hlaupurum Samtaka Vorra, þeirra á meðal. próf. dr. Fróða, René, Ragnar, Hjálmar, Ósk, Þorbjörgu K., Möggu þjálfara, Flosa, Kalla, Bjössa, Helmut, dr. Jóhönnu, Þorvald, ritara, Dagnýju - og svo birtist Frikki kaupmaður skyndilega eftir að hlaup var hafið.
Magga sagðist vera án erindis í dag, en lagði engu að síður til að farið yrði í Öskjuhlíðina. Ég skal viðurkenna að ég áttaði mig ekki fyllilega á þessari leiðarlýsingu, enda ákveðinn í að fara lengra. Bjössi ætlaði styttra. Vart þarf að hafa á orði að prófessorinn fellir hlaup sín ekki undir fyrirætlanir annarra. Hann er eins og kötturinn, fer sínar eigin leiðir. Af upptalningunni hér að framan má vera ljóst að tilteknir aðilar lýstu með fjarveru sinni: blómasalinn, Maggi tannlæknir og Jörundur. Engar skýringar fengust á fjarveru þeirra. En það var slæmt að öðru leyti, því að hópurinn fór fáránlega hratt út, í stað þess að sigla þetta rólega eins og Jörundur gerir jafnan, og bæta í eftir því sem líður á hlaup og menn hitna. Það var hins vegar sú strategía sem ritari fylgdi.
Þeir sem ætluðu í Öskjuhlíðina héldu hópinn og skildu ritara eftir. Ég varð samferða Dagnýju inn að flugvelli, en þar sagði hún skilið við mig og gaf í. Eftir þetta var ég einn á hlaupi. Hér hefði maður þurft að hafa rólega hlaupara eins og blómasalann, Jörund eða Benzinn til þess að stytta sér stundir og gera hlaupið bærilegra. En, hlutskipti hlauparans er þetta, að vera alltaf einn.
Í brekkunni neðan við Kirkjugarð varð á vegi mínum einkennilegur fugl: prófessor Fróði var kyrrstæður með víraflækju um hálsinn og var að reyna að greiða úr henni. Aðspurður kvaðst hann vera að reyna að verða sér úti um einhverja "mússíkk". Undarlegar aðfarir þetta, að í stað þess að hlaupa eru menn að vesenast með einhver tónlistarappíröt sem trufla hlaup af því að snúrurnar flækjast fyrir mönnum. Ég lét sem ég sæi þetta ekki og hélt áfram hlaupi mínu. Ef prófessorinn hefði áhuga gæti hann reynt að ná mér síðar í hlaupinu.
Yfir brú og í Fossvoginn. Ég bjóst við að prófessorinn næði mér þá og þegar, og loks heyrði ég í einhverjum másandi og blásandi að baki mér, ætlaði að snúa mér við og hreyta ónotum í viðkomandi, en hætti við og eins gott, því þetta var ekki hann. Framhjá Víkingsheimili og niður að ánum án þess að verða var við félaga minn. Hér var ég orðinn léttur sem fiðrildi og sveif þetta áreynslulaust áfram. Hólminn, brú, undir Breiðholtsbraut og svo upp Stokkinn á góðu tempói.
Áfram Stokkinn tilbaka og lauk 16 km hlaupi á góðum tíma. Flestir farnir þegar komið var tilbaka. En um það bil sem ég var í Útiklefa mætti blómasalinn óhlaupinn og með afsökunum. Pottur hersetinn af Kínverjum sem örguðu hver á annan. Á leið upp úr varð á vegi okkar próf. dr. Fróði í Móttökusal. Þar stóð hann á tali við Hjálmar. Ég reyndi að fiska upp úr honum hvað hann hefði hlaupið langt, en hann var svo þvoglumæltur að ég skildi hann ekki, auk þess sem slefan rann niður hökuna á honum og var hann harla ókennilegur. Ég forðaði mér í burtu.
Næst: föstudagur, léttur undirbúningur fyrir laugardaginn, sem er langur.
25.4.2011 | 19:54
Vel heppnað hlaup á sunnudegi
Enn var lokað er komið var að dyrum Vesturbæjarlaugar um tíuleytið á helgidegi. Mættir til að hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, ritari og Biggi jógi. Flott mæting þegar veðurútlit var ekkert til að hrópa húrra fyrir, hvasst og gekk á með hagléli. Blómasali sagði mikla harmsögu af hlaupi gærdagsins þegar hann fór 20 km í mannskaðaveðri og lá tvisvar við að hann yrði úti. Menn tóku þessu í meðallagi trúanlega.
Skór eru mikilvægir í utanvegahlaupum og því eðlilegt að menn velti skófatnaði fyrir sér þessi misserin. Það þarf sérstaka skó fyrir utanvegahlaup, og má ekki vera gore tex því það hleypir ekki út vatni. Biggi ósammála Jörundi um að það sé kostur að skipta um skó í miðju hlaupi, Biggi segist láta sig vaða í árnar og halda svo áfram, skórnir þorni með tímanum ef vatnið kemst út.
Maggi og Einar eru að bræða með sér hlaup í sveitum austur milli bústaða þeirra, með sundlaugarferð og grilli á eftir. Gæti orðið af því í maí næstkomandi. Þegar svo margir hlaupa getur verið erfitt að skjóta inn orði og vilja þá fallegar sögur brenna inni. Við lentum í strekkingi á Ægisíðu og kusum að halda inn í Skerjafjörðinn til þess að fá skjól. Þaðan aftur út á braut og í Nauthólsvík. Þar var hefðbundinn stanz, en ekki lengi, engum var mál. Áfram í Kirkjugarð, þar er skjólsælt.
Þeir sem þekkja sunnudagshlaup vita að dælan gengur allan tímann og erfitt að skjóta inn orði. Er komið var yfir Veðurstofuhæðina var veður orðið skaplegra og eiginlega bara notalegt að dóla þetta. Nú var búið að verja tréð hans Magga með afklipptum greinum svo hann varð að velja sér nýtt tré. Áfram um Rauðarárstíg og niður á Sæbraut. Þetta var bara rólegt hjá okkur og engin met slegin í dag.
Að pottur er að eldast sézt á því að mönnum verður tíðrætt um heilsuleysi, lækna, sjúkdóma og annað eftir því. Auk hlaupara voru af hefðbundnu klíenteli mætt frú Helga Jónsdóttir, Stefán, dr. Baldur Símonarson, og svo var á fleti fyrir háóður prestur sr. Pétur Þorsteinsson, en hann fór fljótlega. Við það skapaðist næði til góðra samræðna.
23.4.2011 | 13:45
Þegar Biggi þagnaði skaut ég inn orði
Lítill en snaggaralegur hópur hlaupara mættur í Brottfararsal kl. 9:30 í morgun í aðdraganda laugardagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins - og hefur líklega oft verið ófrýnilegri. Mættir: ritari, Biggi, Flóki, Fríða, Nate (vona að ég hafi náð því réttu) og Tinna. Svo dúkkaði þekktur hlaupari upp í miðju hlaupi, en að því verður vikið síðar. Þar sem þau Fríða og Nate eru ný var gefin út hefðbundin viðvörun um þagmælsku í návist ritara ef þau vildu ekki að "mismæli" þeirra lentu á veraldarvefnum og varðveittust þar um alla framtíð.
Flóki búinn að fara 4 km fyrir hlaup og ætlaði bara stutt. Ritari ætlaði hins vegar langt og hafði vonast til þess að sjá blómasalann einnig, en varð að láta sér nægja Bigga sem hlaupafélaga í dag. Farið frekar hratt út enda voru aðrir hlauparar með eitthvað annað í huga en við Biggi. Þetta var of hratt tempó fyrir mig og ég hægði, vildi fara langt hlaup og hægt og njóta þess. Eftir Flanir fékk Biggi í hásinina og bað um hvíldarstopp, einhvern tíma um það leyti dúkkaði Friðrik kaupmaður upp og var ferð á honum. Hann tætti fram úr okkur, en kom stuttu síðar á móti okkur á leið að ná í hana Rúnu sína. Við sögðum að hann gæti náð okkur síðar.
Það bjargaði okkur í dag að nægar birgðir drykkjar voru með í för og var byrjað að kneyfa þær við Víkingsheimili. Undir Breiðholtsbraut og út í Hólma, og svo aftur tilbaka undir brautina og stefnan sett á Laugardalinn. Vart þarf að taka fram að Biggi malaði eins og köttur alla leiðina og var engin leið að komast að með sjónarmið. Þó gerði hann stutt hlé á máli sínu við Glæsibæ og þá notaði ég tækifærið og skaut inn sögu frá eigin brjósti sem entist að mig minnir niður á Sæbraut. Biggi spurði hvaðan heitið "69" væri komið og ég reyndi að útskýra það fyrir honum eftir beztu getu. Sögur og fróðleikur eru nauðsynlegt veganesti á hlaupum, þau taka athygli manns frá því hvað manni líður illa og hvað hlaupið er erfitt og allt í einu finnst manni það ekki erfitt lengur.
Löng hlaup eru tímafrek og eins gott að vera ekki tímabundinn. Biggi kvaðst ekki vera tímabundinn. Raunar væri búið að skipuleggja Sorpudag á hans heimili að honum fornspurðum og það kæmi bara ágætlega út að vera svolítið lengi í hlaupi dagsins. Hér spilar Pottur líka sterkur inn, því þar getur orðið allnokkur töf ef fróðleik er að hafa þar. Við höfðum lengt í Laugardalnum og fórum svo Hljómskálagarð á heimleiðinni og teljum okkur hafa farið rúma 18 km. á þokkalegu tempói.
Teygðum vel og lengi á eftir, bæði á Stétt og í Móttökusal. Svo var Pottur á eftir. Þangað kom Albert hjóla- og sundþjálfari Jakobsson og var ekki að því að spyrja að úr spannst hátt í klukkutíma samtal um hjól, hlaup og sund og var fróðlegt að hlusta á þá tvo, Bigga og Albert, ræða af þekkingu um þessi mál sem ritari hefur ekki vit á. Ég bara hleyp.
Lokað er í Laug á páskadag, en opið á annandaginn og er það tillaga mín að hlaupið verði hefðbundið sunnudagshlaup þá frá Laug kl. 10:10, en VBL opnar kl. 11.
20.4.2011 | 21:46
Fossvogsdalur revisited
Það var orðið tímabært að endurnýja kynnin af Fossvogsdalnum. Nokkrir hlauparar höfðu á orði að fara langt í dag. Þeirra á meðal voru blómasalinn, ritarinn og próf. Fróði. Flosi fjarverandi á framandi strönd. Mættir í hlaup dagsins: ritari, Þorvaldur, Bjarni Benz, prófessorinn, René, Hannes, Albert, Pétur, Karl Gústaf, og hjón sem búa í New York en eru hér yfir páskana. Nokkuð flottur hópur.
René kom móður og másandi, þá þegar búinn að hlaupa fyrir golfvöll, og ætlaði að lengja. Lagt upp rólega í þokkalegu veðri, 5 stiga hiti og suðvestanátt. Við Þorvaldur á undan öðrum, en smám saman náðu þeir hinir okkur og sigu svo fram úr. Þó var prófessorinn til þess að gera rólegur enda stefndi hann á langt og ætlaði að nýta hvert tækifæri til þess að lengja.
Fátt bar til tíðinda framan af hlaupi annað en að Benzinn náði ritara og hékk á honum það sem eftir lifði hlaups. Þá bættist Pétur í hópinn og fylgdi okkur áleiðis. Við mættum Laugaskokki er komið var yfir Kringlumýrarbraut og við settum kúrsinn á Fossvogsdal, en vorum hissa á að sjá ekki blómasalann eða prófessorinn. Pétur taldi sig sjá þá fara inn á Nauthól að lesa matseðilinn. Við stungum okkur í Dalinn.
Það er alltaf vortilfinning yfir því að koma í Fossvogsdalinn og veit á gott. Við vorum bara flottir og héldum góðum kúrsi. Ritari með nýtt drykkjarbelti og útþynntan appelsínusafa á tveimur brúsum. Beltið er sérstaklega ætlað fyrir háfjallahlaup með sérstökum bakstuðningi, keypt í Afreksvörum. Afgreiðslumaðurinn latti mig ekki þess að kaupa beltið.
Fórum hjá Víkingsheimili sem minnti okkur á það að á morgun er þreytt Víkingshlaup kl. 13:30 frá horni Túngötu og Garðastrætis. Við fórum niður hjá Elliðaám og svo aftur tilbaka undir Breiðholtsbraut. Enn sást ekkert til félaga okkar og höfðum við þó staldrað við á strategískum punktum til þess að bíða þeirra. En þeir virtust vera öllum týndir og tröllum sýndir. Framundan var Stokkur. Hér komum við sjálfum okkur á óvart: á Stokki var tekið á því og við sprettum úr spori upp brattann, með Pétur á undan okkur og þarna skildi hann okkur raunar eftir.
Við Benzinn þurftum aðeins að doka við og ná andanum eftir þessi átök en héldum svo áfram um Bústaðahverfið, sem er æskusvæði okkar beggja. Stokkurinn heldur áfram og endar ekki fyrr en við Grensásveg. Við áfram hjá Útvarpshúsi og niður á Bústaðaveg. Þar fundum við aftur Pétur sem hafði villst af leið. Hann fylgdi okkur eitthvað áleiðis en hvarf svo endanlega.
Við Benzinn vorum áfram í góðum gír og það var alltaf tekinn þéttingur inn á milli, sá seinasti við enda flugvallar, þar hertum við hlaup og tókum vel á því. Umferð áberandi lítil, menn greinilega farnir úr bænum. Farið rólega undir lokin og klárað við Laug. Of kalt til að teygja úti svo að við fórum inn. Lukum 16 km á 1,5 klst. Fámennt í Laug og hlauparar flestir farnir. Seint og um síðir komu blómasalinn og prófessorinn, hafandi farið 19,4 km og 21,96 km. Menn mega gizka á hvor fór hvaða vegalengd.
Við sátum góða stund í potti, Benzinn, blómasalinn, Pétur og ritari og ræddum margt fróðlegt. Um páska lítur út fyrir að hlaupið verði á laugardag kl. 9:30 frá Vesturbæjarlaug - og svo aftur á annan dag páska kl. 10:10, en þá þurfa hlauparar að mæta gallaðir því Laug opnar ekki fyrr en 11:00. Í gvuðs friði.
18.4.2011 | 21:39
Beðizt vægðar
Hlauparar eru misjafnir. Sumir eru kappsamir og leggja áherslu á að ljúka hlaupi á skömmum tíma, aðrir eru rólegri og skynsamari og leyfa hlaupum að taka þann tíma sem þau taka. Dæmi um hvort tveggja voru sýnd í hlaupi dagsins í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Naglar mættir í Útiklefa og var tekið hraustlega á málefnum samtímans. Svo gengum við til Brottfararsalar allir sem einn og vorum líkastir svona dirty dozen í e-m vestra. Mættir: Jörundur, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði, S.Ingvarsson, Bjarni Benz, Guðrún, Bjössi, Hannes, Þorbjörg M., Þorbjörg K., Vala og René. Svo dúkkaði Frikki kaupmaður upp í miðju hlaupi og niðurlægði alla í kringum sig með því að hlaupa fram og aftur blindgötuna.
Nú eru engir þjálfarar og menn því ráðleysislegir þegar staðið er á Plani og brottför undirbúin. Af þessari ástæðu var einfaldlega lagt í hann og stefnt á mislangt. Ritari fór meðalhratt út, hafði fallið í sömu gryfju og ónefndur blómasali fellur svo oft í: fékk sér vel að borða í hádeginu, þarafleiðandi þungur og hægur. Þeir voru hraðir þessir venjulegu fantar og létu sig hverfa. Ritari einn, en eygði Þorvald, og fljótlega náði Benzinn honum. Við héldum hópinn, nema hvað Þorvaldur hvarf af leið við Hlíðarfót ásamt Guðrúnu, en við Bjarni héldum áfram og settum stefnuna á Suðurhlíð.
Eftir á fréttum við að þeir hinir hefðu haldið áfram yfir Kringlumýrarbraut og farið Þriggjabrúa með einhverjum tilbrigðum. Þannig sáum við prófessor Fróða og próf. dr. Keldensis taka einhverja snúninga við brúna yfir Kringlumýrarbraut sem við áttuðum okkur ekki á, og það í miðjum hríðarbyl og prófessor Fróði á stuttbuxum, alltaf sama bjartsýnin hér! Nema hvað við Bjarni tökum brekkuna erfiðu upp Suðurhlíð, hún er löng og brött og erfið.
Upp hjá Perlu og svo niður Stokk. Þeir hinir héldu sínu striki og voru komnir á góðan skrið niður Kringlumýrarbraut, Flosi og Bjössi, svo kom á eftir þeim próf. Fróði, andstuttur og slefandi, og æpandi: "Stoppiði! Farið hægar! Á að drepa mann!" Þetta túlkuðu þeir sem svo að hér væri beðizt vægðar. Var þetta staðfest af próf. dr. S. Ingvarssyni er í pott var komið og þótti hneisa fyrir þann gamla.
En við Benzinn héldum okkar striki og fórum hjá Gvuðsmönnum, en vorum ekkert að æsa okkur, ákváðum þó að bæta aðeins við hlaup með því að fara yfir brýrnar á Hringbraut. Þegar við komum niður nær Jörundur okkur og er óðamála yfir því að ritari fari ekki skynsamlega í hlaup, æði af stað á fullum hraða þegar það eina skynsamlega sé að fara rólega af stað og halda jöfnu tempói, bæta í þegar menn eru orðnir heitir. Ritari bar á móti að hann hefði reynt að fara eins hægt og hann gat.
Það voru þreyttir en ánægðir hlauparar sem komu á Móttökuplan að hlaupi loknu og fundu innandyra Magnús Júlíus óhlaupinn og skömmustulegan. Að ekki sé minnst á ónefndan blómasala sem á að heita að sé í prógrammi fyrir Laugaveginn, nei, hann kýs að keyra í sveitina til þess að huga að sveitaóðali sínu. Í potti var prófessor Fróði tekinn fyrir og sætti hörðum ákúrum fyrir að hafa beðizt vægðar í miðju hlaupi. Þar var rætt um tölur í Boston-maraþoni, og Lundúna-maraþoni. Nýtt met sætir undrum. Næst er miðvikudagur, þá er langt.
17.4.2011 | 17:39
Á vegum úti í leit að nýjum bílnúmerum
Mættir að lokaðri Vesturbæjarlaug á sunnudagsmorgni á tilsettum tíma 10:10 þessir: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi og ritari. Auk þeirra fjöldi sundlaugargesta sem fóru fýluferð og vissu ekki að laugin opnar ekki fyrr en 11. Fólk var bæði reitt og hneykslað, heita vatnið er eitt það dýrmætasta sem við eigum og nú er búið að takmarka aðgengi að því með grófum hætti. En við vorum ekki að svekkja okkur á því heldur lulluðum af stað.
Upplýst að Háskólahlaup hefði tekizt vel, hátt á fjórða hundrað hlaupara tóku þátt, en fyrir hlaup véfengdi fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra lengd hlaupabrautar, hins vegar sýndi ritstjóri Vísindavefjar, Jón Gunnar Þorsteinsson Gunnarssonar fram á með hávísindalegri háloftamælingu að brautin væri 6,999999999 og eitthvað km löng. Lögregla og allir aðstandendur stóðu sig vel og var hlaupið fjöður í hatt frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar Víkings.
Eðlilega var Ingólfs Margeirssonar minnst, hann var einn af þeim sem stóðu að fyrstu hlaupum frá Vesturbæjarlaug og var vísirinn að Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem í dag státa af því að vera elzti, virðulegasti, en jafnframt hógværasti hlaupahópur landsins. Eftirlifandi félagsmenn hlupu í dag. Þetta var nú ósköp rólegt hjá okkur, farið afar hægt af stað, en það var allt í lagi. Ritari allur að koma til og fer sér rólega eftir meiðsli nánast alveg frá áramótum. Nú er bara að koma sér í form fyrir Laugaveg og gengur bara vel. Menn vissu að segja frá bæði blómasala og Gísla okkar Ragnarssyni sem munu hafa hlaupið langt í gær, og Gísli alltaf á leiðinni á æfingu hjá Hlaupasamtökunum.
Þá var sagt frá doktorsvörn í stærðfræði þar sem frændi Ólafs Þorsteinssonar var í miðdepli athygli, en þýðir lítið að ræða slíkt við ritara sem er aðeins máladeildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Þar var upplýst að eingöngu einn gesta var með hálstau við hæfi, heitir sá Vilhjálmur Bjarnason. Er hann sá að Ó. Þorsteinsson var ekki með hálstau vildi hann láta kasta honum á dyr. Fyrir sakir skyldleika reyndist það erfitt úrlausnar, en að vörninni lokinni var haldin veizla í Víkingsheimili og býsnaðist lektorinn þar yfir því að vera að halda veizlu í þeirri "fúamýri" - og annað eftir því.
Verið að taka upp kókauglýsingu á Ægisíðu og stór vatnsbíll að undirbúa framleiðslu á rigningu. Rætt um nýlegar minningargreinar og þau tvö tilvik þar sem alvarlegar ábendingar hafa komið upp í doktorsvörnum við Háskóla Íslands. Það blés þokkalega og því höfðum við farið um bakgarða í 107 og aftur í Skerjafirði. Komið í Nauthólsvík og genginn smáspölur, en svo var haldið áfram í Kirkjugarð.Ekki var stoppað við leiðið að þessu sinni né heldur flutt frásögn með nýjum staðreyndavillum. Næst var stoppað við Ottarsplatz og gengið um sinn, en hlaup tekið upp að nýju og farin Sæbraut, menn vildu sjá Hörpuna, þar átti að vera hægt að sjá mislita glugga.
Hylling við Café Paris og sýndur nýr skápur sem þar stendur innandyra og hýsir ýmislegan litteratúr. Upp Túngötu og til Laugar, nú voru þeir orðnir latir, Jörundur og Ólafur frændi minn og eiginlega farnir að ganga. Fátt markvert í potti, en á mánudag verður tekið á því. Þá verður blómasalinn steiktur!
16.4.2011 | 18:52
Skynsemi
Blómasalinn mætti í hlaup að morgni ásamt Bigga og saman lentu þeir í hríðarbyl á Nesi og sáu vart út úr. Þeir voru eins og lúpur er þeir komu tilbaka og fengu lítið út úr þessu hlaupi. Öðru máli gegndi um hlaupara sem mættu kl. 16:30 í hefðbundið föstudagshlaup Hlaupasamtakanna. Þar mátti sjá konu eina, Rúnu Hvannberg, og auk þess voru Jörundur, Ágúst, Flosi, Bjarni Benz, Þorvaldur, Denni skransali og ritari.
Veður var með mestu ágætum, stilla og hiti um 4 stig, en við það hitastig er heilinn sagður starfa bezt. Það sýndi sig í því að menn voru skynsamir í dag. Farið rólega af stað og byrjað á að hita upp. Við mættum dr. Jóhönnu sem ku hafa farið 32 km þennan dag. Ég hékk í prófessornum, Þorvaldi og Benzinum allt fram í Nauthólsvík, já, og raunar lengra. Minnismerkið um allsherjargoðann er eins og fallosartákn þar sem það rís beint upp í loftið, skyldi það vera vísvitandi?
Við Gústi fórum upp brekkuna og Þorvaldur með, hér sprakk Benzinn, og hinir voru einhvers staðar langt fyrir aftan. Ágúst ákvað að segja skilið við okkur vini sína hér og fara sína eigin leið. Samt sá maður til hans allt þar til komið var á Klambratún, þar var sprett úr spori og skildi þá endanlega með okkur. Við Þorvaldur héldum hópinn og fórum Rauðarárstíginn og er komið var á Hlemm vildi hann fara Laugaveginn. Ég krafðist þess að farið yrði á Sæbraut og varð það niðurstaðan.
Er þangað var komið setti ég í túrbóinn og skildi Þorvald eftir. Þá leið mér eins og Ágústi. Þá leið mér vel. Var á góðu tempói alla leið og sá aldrei til þeirra hinna. Fór um Hljómskálagarð og lauk 11,8 km á 65 mín. Svo skiluðu þeir hinir sér seint og um síðir og voru fullir öfundar og hrakyrða í garð ritara. En mér fannst hlaup mitt skynsamlegt, tiltölulega þétt og jafnt og reyndi hæfilega á hlauparann. Pottur hefðbundinn og voru þar einnig Kári óhlaupinn og Anna Birna.
13.4.2011 | 21:19
"Nú veit ég hvað varð um rauðu nærbuxurnar mínar!"
Það von að þú, lesandi góður, veltir fyrir þér til hvers fyrirsögn þessa pistils vísar, en það verður ekki upplýst fyrr en í lokin, þegar hlaupahópur er kominn í pott. En upphaf þessarar frásagnar er það að hópur hlaupara kom saman til hlaupa í Vesturbæjarlaug rétt fyrir 17:30. Sem fyrr hittust Naglarnir í Útiklefa, þeir Bjössi, blómasali, ritari, Flosi og Kári. Nokkrir lýstu yfir ásetningi um langt hlaup, en ritarinn var skynsamur og kvaðst mundu fylgja prógramminu. Er komið var í Brottfararsal leitaði hann að öðrum skynsömum hlaupara og fann hann í Jörundi, við urðum ásáttir um að fara Þriggjabrúa, hægt fyrst, hægt í Boggabrekkuna, en vaxandi eftir það. Aðrir voru með gorgeir, nema náttúrlega þeir sem ætluðu enn styttra, Hlíðarfót eða Suðurhlíð. Mættir auk fyrrnefndra: próf. Fróði, Maggi, dr. Jóhanna, Helmut, Hannes, Sigurjón Jónsson búsettur í Sádí Arabíu, Frikki Meló (vantaði buxur og hætti við), Rúnar og líklega einhverjir fleiri.
Lítið um tillögur við upphaf hlaups, en ákveðið að leggja upp rólega í átt að Skítastöð. Fólk hafði áhyggjur af henni Ósk okkar, sem kaus að setjast frekar á Alþingi en að hlaupa með félögum sínum. Hvers konar forgangsröðun er þetta eiginlega? Fórum afar hægt af stað og var það áætlun okkar Jörundar. Rætt um Háskólahlaup sem hann Ólafur okkar Þorsteinsson stendur fyrir á morgun kl. 15. Og í það mund staðnæmdist kampavínslit jeppabifreið á Ægisíðu og flautaði: Formaður til Lífstíðar heiðraði hlaupara með lúðurþeytingu. Menn veltu fyrir sér hvort hægt væri að hafa hlaupið svo snemma á deginum vegna þess að þá lykju ríkisstarfsmenn störfum sínum, byrjuðu kl. 10, og hættu kl. 15. "Ha?", sagði prófessorinn. "Byrja þeir svona snemma?" Magnús sagði brandara sem laut að styttingu vinnudagsins í Danmörku.
Hersingin hélt sem leið lá út að Skítastöð og hér var blómasalinn farinn að derra sig. Ég spáði því að hann myndi fljótlega sprengja sig. Við Jörundur vorum bara rólegir og góðir, tókum Magga með okkur og reyndum að fá hann í Þriggjabrúa, en hann kaus að fara Suðurhlíð með Helmut. Aðrir yfir brú, Flosi, blómasali og prófessor áfram í Fossvoginn, en við Jörundur skynsamir og fórum upp Brekku rólega. Hér vorum við orðnir heitir og gátum farið að bæta í eftir Veðurstofuhálendi. Héldum góðu tempói á Kringlumýrarbraut og allt niður á Sæbraut, og mér fannst við halda því tempói þar, ekki viss um að Jörundur bekenni það. Rákumst á stóra hópa útlendinga á brautinni sem við vissum ekki hvaðan komu. Farið hjá Svörtuloftum, Hörpu og um Miðbæ. Aftur voru hópar af útlendingum svo að við neyddumst út á götuna, þvældumst þar fyrir strætó sem flautaði á okkur, gamall og geðstirður bílstjóri sem komst ekki leiðar sinnar, leiðar 14 Listabraut.
Hljómskálagarður og sú leið tilbaka. Við vorum harla góðir og ánægjulegt að geta haldið góðu tempói alla leið, ja, við vorum að vísu dottnir niður í 6 mín. tempó undir lokin, en samt... Gott hlaup. Í potti sátu Helmut, Jóhanna, Anna Birna og Kári og voru kindarleg. Skýringin var þessi: ónefndur prófessor í akademíunni hafði verið í Laug, og farið upp úr. Kom þá í ljós að hann var íklæddur lítilli, níðþröngri, eldrauðri sundskýlu. Hér gellur í dr. Jóhönnu: "Nú veit ég hvað varð um rauðu nærbuxurnar mínar!" Þessi ummæli var ekki hægt að toppa og skipti engu máli þótt í pott bættust menn eins og Bjössi, blómasalinn og Flosi. Þeir kunnu að segja frá því að þeir fóru inn í Elliðaárdal, þaðan út á Langholtsveg og svo út á Kleppsveg. Hér tekur blómasalinn á rás og skilur þá hina eftir. Þeir fundu hann ekki fyrr en á Kleppi, þar sem dómbærir menn höfðu tekið hann í vörzlu sína og neituðu að afhenda hann. Tók við mikið stapp og stímabrak við að ná honum út, en það hafðist á endanum og varð hann frelsinu feginn. Þeir luku 20 km + í kvöld, og mun blómasalinn ekki hafa verið lakastur.
Sumsé: Háskólahlaup á morgun, vel mætt!
Pistill Ritara | Breytt 14.4.2011 kl. 05:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)