Vel heppnað hlaup á sunnudegi

Enn var lokað er komið var að dyrum Vesturbæjarlaugar um tíuleytið á helgidegi. Mættir til að hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, ritari og Biggi jógi. Flott mæting þegar veðurútlit var ekkert til að hrópa húrra fyrir, hvasst og gekk á með hagléli. Blómasali sagði mikla harmsögu af hlaupi gærdagsins þegar hann fór 20 km í mannskaðaveðri og lá tvisvar við að hann yrði úti. Menn tóku þessu í meðallagi trúanlega.

Skór eru mikilvægir í utanvegahlaupum og því eðlilegt að menn velti skófatnaði fyrir sér þessi misserin. Það þarf sérstaka skó fyrir utanvegahlaup, og má ekki vera gore tex því það hleypir ekki út vatni. Biggi ósammála Jörundi um að það sé kostur að skipta um skó í miðju hlaupi, Biggi segist láta sig vaða í árnar og halda svo áfram, skórnir þorni með tímanum ef vatnið kemst út.

Maggi og Einar eru að bræða með sér hlaup í sveitum austur milli bústaða þeirra, með sundlaugarferð og grilli á eftir. Gæti orðið af því í maí næstkomandi. Þegar svo margir hlaupa getur verið erfitt að skjóta inn orði og vilja þá fallegar sögur brenna inni. Við lentum í strekkingi á Ægisíðu og kusum að halda inn í Skerjafjörðinn til þess að fá skjól. Þaðan aftur út á braut og í Nauthólsvík. Þar var hefðbundinn stanz, en ekki lengi, engum var mál. Áfram í Kirkjugarð, þar er skjólsælt.

Þeir sem þekkja sunnudagshlaup vita að dælan gengur allan tímann og erfitt að skjóta inn orði. Er komið var yfir Veðurstofuhæðina var veður orðið skaplegra og eiginlega bara notalegt að dóla þetta. Nú var búið að verja tréð hans Magga með afklipptum greinum svo hann varð að velja sér nýtt tré. Áfram um Rauðarárstíg og niður á Sæbraut. Þetta var bara rólegt hjá okkur og engin met slegin í dag.

Að pottur er að eldast sézt á því að mönnum verður tíðrætt um heilsuleysi, lækna, sjúkdóma og annað eftir því. Auk hlaupara voru af hefðbundnu klíenteli mætt frú Helga Jónsdóttir, Stefán, dr. Baldur Símonarson, og svo var á fleti fyrir háóður prestur sr. Pétur Þorsteinsson, en hann fór fljótlega. Við það skapaðist næði til góðra samræðna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband